Pistlar | 20. september 2021 - kl. 14:17
Horfðu til himins
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Þegar þungar byrðar og vonleysi, máttleysi og þreyta á hugann leita veit ég fátt ef nokkuð betra en að fá að horfa upp í himininn og þiggja þannig guðlegan hreinsandi og uppörvandi mátt kærleikans sem gleður og endurnærir svo að tónar tilverunnar taka að verða töfrandi á nýjan leik.

Guð er nefnilega ekki eitthvert órætt ósýnilegt óréttlátt afl. Hann er andi sem klæddist mannlegu holdi sem glæðir orðið lífi. Jesús var nefnilega sendur með erindi kærleikans, fyrirgefningar, sannleika, réttlætis og friðar, ljóssins, fegurðar og fagnaðar til okkar svo við kæmumst af. Þrátt fyrir stundlega dimmu og depurð, vonbrigði og skugga.

Besta gjöf Guðs er einmitt hann sjálfur. Því enginn á meiri kærleika en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína. Hvað þá svo þeir fái lifað um eilífð.

Enginn síðasti neysludagur

Sú gjöf Guðs sem kærleikur hans er og umhyggja fyrir okkur rennur ekki út og hefur engan síðasta neysludag. Okkar er bara að þiggja daglega og fara vel með. Hann gefur okkur nýja von með hverjum deginum og hefur heitið því að yfirgefa okkur aldrei.

Tilboð hans um eilífa samfylgd fer að vísu ekki um með hávaða eða látum en hefur lifað með sínum hljóðláta hætti kynslóð eftir kynslóð. Ekki af því að við séum svona flink í að höndla sannleikann og bera trúna áfram. Heldur af því að trúfesti hans við okkur hefur varað frá kyni til kyns og mun gera allt til enda veraldar.

Fingrafar Guðs

Fegurðin býr þar sem fyrirgefning, réttlæti og friður faðmast. Fegurðin er fingrafar Guðs í þessum heimi, og þú þar með talið.

Fögnum því, gleðjumst og þökkum í auðmýkt því við eigum lífið fram undan. Njótum stundarinnar í ljósi eilífðarinnar og ævinnar í ljósi lífsins sem er í eðli sínu gott. Þrátt fyrir oft á tíðum stundlegar, algjörlega óásættanlegar og óþolandi aðstæður og hremmingar hjá allt of mörgum á ævinnar göngu.

Biðjum fyrir okkur sjálfum og ekki síður hvert fyrir öðru og ástandinu í heiminum. Lítum í eigin barm og leitumst við að horfa í augu náungans með friðarins augum kærleika Guðs.

Veljum lífið og kjósum hina himnesku sítengingu náðar og miskunnar Guðs, kærleika og friðar.

Með samstöðu kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga