Gr├şmstunga. Mynd: HAH
Gr├şmstunga. Mynd: HAH
Pistlar | 20. febrúar 2022 - kl. 09:32
├×├Žttir ├║r s├Âgu sveitar: Kvonb├Žnabr├ęf Gu├░mundar J├│nssonar II
18. ├ż├íttur: Eftir J├│n Torfason

Sem fyrr var rakið voru móðir Sigríðar Ásgrímsdóttir (1771-1837) og fóstri hennar og frændi, séra Jón Jónsson í Grímstungu (1725-1799), andvíg giftingaráformum hennar og Guðmundar Jónssonar (1753-1811) á Breiðabólstað, sbr. bréf þeirra sumarið og haustið 1793. Þegar leið að jólum þetta ár greip séra Jón í Grímstungu enn pennann og ritaði prófasti og sýslumanni langt bréf[1] þar sem er hert á ávirðingum Guðmundar og margt tínt til, stórt og smátt, sem gerði þennan ráðahag óæskilegan:

          Pro memoria[2]

Mín samviska drífur mig til að láta í ljósi mína einfalda og partískulausa þanka um ektaskaparmálaleitun (ef svo skal kalla) Guðmundar Jónssonar á Breiðabólstað til frændstúlku minnar, Sigríðar Ásgrímsdóttur, framar en skeð er í mínu riti til hans velæruverðugheita hr. prófastsins af 19. augusti næstliðna.

1) Meina ég hans velæruverðugheitum, samt öllum öðrum æðri og lægri hér um sveitir, sé gagnkunnugt um þann minnkunarlegan óhróður sem út barst af þeirra kunningskap (að minni hyggju) nær fyrir 2 árum. Um upptök og tilefni þar til vil ég ekki gjöra mér verri þanka en svo (nam operum fastigia spectantur fundamenta latent),[3] að í fyrstu hafi orsakast, af nauðsynjalausum sífelldum einmælum, bæði leynt og ljóst, sem og af sérlegum vinsemdar atlotum og viðmóti, líka vel smálegri greiðasemi framar almennri, hvað kannske vitnast kynni ef á herti. Þegar nú almenningur fór að taka mark á þessu og henda það í orðflugum umsteyptist sökin strax í hinn grófast[a] sannleika í allra manna þanka og það því heldur (eftir vonum) sem ryktið fjarlægðist meira, einkum þar allir vissu að hann var áður kenndur að stórri óráðvendni, með auðsýndri ótryggð við konu sína mót ektaskapar pligt og skyldu. Nú skilst mér hneykslið sé komið á hina allra hæstu tröppu, þeim báðum til stærstu vanvirðu en öðrum til ásteytingar, allt eins og sökin hefði verið virkileg. En að sú svívirðing afplánist með þeirra tilþenktum ektaskap skilst mér ekki heldur contrarium,[4] það eykur hneykslið. Því mér er vandséð hvor verri er, sá sem setur sjálfan sig viljandi í misþanka eða hinn sem rasar í hórdóm, máske yfirfallinn af breyskleika, móti sínum vilja. Þetta síðara hindrar þó ektaskap eftir lögunum, því þá ekki ogsvo hið fyrra sem hefur oftast verre fölger og alltíð.

Mér sýnist tilhlýðilegt að Guðmundur ansjáist til að satisfacera[5] stúlku-aumingjanum tilstrekkilega[6] fyrir þá óvirðingu sem hún hefur af honum haft og kenni svo bæði honum og öðrum, að brúka kristilega vareygð í umgengninni og halda sig frá öllu illu áliti, hvört hann hefur gjört sýnu verra en nú er sagt með því hann,

2) eftir það kona hans[7] hafði tekið sína banasótt seint í fyrra sumar, var hann ei að staðaldri við sitt heimili en enginn á bænum nema börnin, fæst sjálfum sér bjargandi, því síður einum sjúkling, og eigi hefi ég heyrt getið hann hafi beiðst nokkrar aðstoðar konunni til þénustu, heldur hafi hún mátt berjast við sig sjálf, þangað til hún slokknaði út af. Hann var hér hjá mér svo dögum skipti, reiðubúinn til allrar þénustu og þótt ég nefndi við hann hans bága heimilisháttu þá leiddi hann það hjá sér. Með þessu sýnist mér hann vera sjálfur orsök í þótt einhvör kynni að þenkja að honum hafi ei fundist svo mjög um konunnar afgang, hvort hann skeði fyrr eða síðar, og jafnvel því fyrri því betra, því meðhjálpin var alltíð vís. Það var undir talað allt fyrir fram. Hvað auðséð er,

3) af því að eftir það Guðmundur fór héðan þann 4. nóvember í fyrra haust andaðist konan þann 14 ejusd.[8] og svo grafin þann 20. Þá strax að vörmu spori kom hann aftur og heimtaði stúlkuna gagngjört, fyrst til láns og síðan til ekta með tækifæri. Mér varð bylt við þetta og þótti heldur að því hrapað og neitaði bóninni, svo sem mótstríðandi kongl. forordn.[9] um trúlofanir af 19. febr. 1783, 6. art. En þá ég talaði síðan við stúlkukindina formerkti ég af hennar einfaldleika, að henni kom ekkert óvart í þessu, heldur það allt saman undir talað og fastsett löngu áður og hún yfirtöluð að gefa sig strax viljuga.

Nær soddan er yfirvegað þá er öllum vitanlegt að heimugleg trúlofun skal ekkert gilda, en hvað þá? Sé hún gjörð að ektapersónunum báðum lifandi, sem hér hlýtur að vera skeð, það er einn gjörningur á hvörjum lögin taka næsta hart, N.L. [(Norsku lög)] lib. 3, cap. 18, art. 7. Hér kann ekkert að afsaka Guðmund nema vanviska og þyrfti hann þá að minnst[a] kosti að læra hvað hann hefur forþénað, ignorantia ni[hil] extenuat peccatum non excusat.[10] Því það er sárgrætilegt að röskur maður og ráðvandur, sem átti að vera, skyldi forfæra svo hræmuglega einn einfaldan ungling því honum tilreiknast með réttu öll sökin.

4) Hvað hana áhrærir þá held ég hún sé Guðmundi ekki hentug, einkum þar hún hefur ekki gáfur til að kenna börnum, eftir sem mér hefur reynst, því það hef ég aldrei af henni fengið. En þá ég aðgætti virtist mér það ei koma af óhlýðni heldur hinu; það er ekki hennar meðfædd art eða gáfa að undirvísa. Meina ég hana þó ekki framar öllum öðrum ókunnuga í því formi lærdómsenda sem hún var til seld. Mundi það þá haganlegt að setja hana yfir svo mörg vandalaus börn, sem öll þurfa uppfræðingar við, einkum þar ég held Guðmund engu betri í því falli, því það lítið sem börn[in] lærðu hér var konuskepnunni að þakka en honum ekki. Hún talaði við mig endur og sinnum og ráðfærði sig um þeirra ástand en hann aldrei, heldur en óviðkomandi og meina ég þetta sem annað fullkomna hindrun hans áforms.

5) Þykist ég hafa orsök til að hugsa, að Guðmundur sé enginn sérlegur rækslumaður. Ég sleppi öllu sem ég kann þar um heyrt hafa, hitt bevísar sig sjálft, að síðan hann veik héðan frá Saurbæ og þangað kom aftur fátækur einvirki, þá skiptir það miklu, hvað þar er nú betur og hreinlegar um gengið en áður var, bæði úti og inni. En að fóstra mín muni lítið bæta þenna brest er auðráðið af uppeldinu hjá mér sem ekki mun hafa stórt hrós fyrir hirðusemi og framsýni í búskaparsökum, og ef þar finnst þvílíkur brestur á báðar síður in utroque foro soli et poli, tori et chori,[11] til hvörs er þá félagsskapurinn? Ekki guði til dýrðar, ekki til náungans gagns, ekki innbyrðis aðstoðar og ekki góðrar afspurnar.

6) Fæ ég ei skilið það kunni álítast fyrir nauðsynja- eður kærleiksverk að Guðmundur gjörði sér ferð frá sinni sóknarkirkju hingað að Haukagili þann 11. sunnudag eftir Trinitatis[12] næstliðið sumar og svo (endilega fyrir hans tilstilli) var Sigríður túlkuð[13] héðan frá kirkjunni um hámessutímann. Hvað gott sem erindið hefur verið, þá hefur það ekki gott álit og engan smekk af nokkri guðhræðslu, ráðvendni eða kristilegri siðsemi í neinn máta. Ég meina mig að gjöra aldeilis rétt, að uppástanda (hvað ég og hér með gjöri honum og öðrum til viðvörunar) hann verði tilfundinn að betala tvöfalt helgidagsbrot, fyrir svo gróf óskikkanlegheit og hneyksli. Ég hefi og allareiðu mátt líða skemmd og kinnroða fyrir þetta dæmi að ég, sem vandaði um við aðra, léti[14] mitt eigið heimilisfólk ganga burt af bænum um embættistímann nauðsynjalaust.

7) Rífkar það ei ráð Guðmundar að hans gamla kæra, Ólöf Aradóttir,[15] sem hann elskaði forðum, fram hjá konu sinni, er svo þétt í nágrenni við hann. Þótt soddan persónur hafi nú frelsi að vera innan héraðs (því miður), þá meina ég þær mættu ráðstafast svo langt hvör frá annarri, að þar með hindruðust bæði sífelldir samfundir og ill grunsemd.

Ég vil ei mæða mína góðu herra með fleiri orðum í þetta sinn, en vona og bið auðmjúklega að þetta takist allt í consideration,[16] sem ég meina fullnóg til að hindra þeirra ektaskap, hvörju mín samviska bannar mér aldeilis að samþykkja, en befalar þ[v]ert á mót. Og þó hún sýnist einhvörjum að vera erronea[17] þá obligerar[18] hún mig ei að síður. Þó er það lítill léttir þegar þeir góðu hr. arbitri[19] taka allt ansvarið og ábyrgðina upp á sig, bæði fyrir guði og mönnum, svo ég þarf ei að vera þar viðriðinn í hinu allra minnsta.

Grímstungu d. 13. desember 1793.
Jón Jónsson

Lærdómsmenn fyrr og síðar hafa löngum stundað að viðra þekkingu sína og gætir þess mjög í bréfum séra Jóns með tökuorðum og latínuklausum. Að einhverju leyti var þetta til að hefja sig upp yfir almúgann en líka í samræmi við tíðarandann. Þetta tíðkast vissulega enn og manni finnst oft á tíðum að efni og tilkynningar frá embættismönnum séu misvel skiljanlegar á vorum dögum.


[1] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 3.
[2] Þ.e. „til minnis,“ en merkir líka „tillaga“ eða (uppkast að) tilskipun. Nú á dögum er oft talað um „minnisblöð,“ eins og t.d. tillögur sóttvarnarlæknis til heilbrigðisráðherra um sóttvarnir sem þráfaldlega eru nefnd í fréttum um þessar mundir.
[3] Þ.e. „Því að grundvöllur þeirra verka sem hæst ber er hulinn.“ Þetta er tilvitnun í formálsorð kennslubókar Quintilians (1. öld eftir Krist) í mælskufræðum, „Institutio oratoria.“
[4] Þ.e. „öndvert, andstætt.“
[5] Þ.e. „bæta upp, greiða skaðabætur.“
[6] Þ.e. „nægilega.“
[7] Sesselja Sveinsdóttir (1753-1792). Þau Guðmundur og Sesselja bjuggu þá í Saurbæ, næstnæsta bæ við Grímstungu.
[8] Þ.e. „sama mánaðar.“
[9] Þ.e. „konungleg forordning“ = tilskipun. Forordning ang. trolovelser, prentað í Lovsamling for Islands IV, bls. 680-682, aðgengilegt í rafrænu formi; slóðin er: https://baekur.is/bok/000195669/4/686/Lovsamling_for#page/n685/mode/2up.
[10] Þ.e. „Vanþekking dregur ekkert úr glæpnum, afsakar hann ekki.“
[11] Þetta er vandasamt ekki öruggt hvernig á að lesa einstök orð, hugsanleg þýðing er: „Í hvorum tveggja dómstól (forum) jarðar (soli) og himins (poli) [eru] hjónasængur og kórar.“ Sem fyrr hafa Gunnar F. Guðmundsson, Gunnar Skarphéðinsson og Gottskálk Jensson velt fyrir sér latínuklausunum í bréfum séra Jóns.

Dómstólar jarðar og himins eru tilvísun til landslaga og kirkjulaga. Hjónasæng, þ.e. samlíf kynjanna, er vissulega umræðuefni í bréfi séra Jóns og einnig er fjallað um þetta efni bæði í kirkju- og landslögum, en þá er vandi með orðið „clori“? Einn möguleiki er að átt sé við heilaga söngmennt, sem í yfirfærðri merkingu þýðir gott og kristilega siðsamt uppeldi, sem er einnig rætt í bréfinu. [Gottskálk Jensson]. Gunnar F. Guðmundsson nefnir annan möguleika, þ.e. að í lok bréfsins eigi að lesa   „et c lori“ (þ.e. etc. lori) og er þá „etc“ = og svo framvegis, en „lori“ (lorum) gæti merkt „þvengur, ól eða beisli,“ sem er þá lagt á stúlkuna.
[12] Hefur verið seinni partinn í ágúst.
[13] Stendur svo. Átt er við að Sigríður hafi verið ginnt úr messunni og frá kirkjunni.
[14] Leiðrétt úr „leiti.“
[15] Ólöf Aradóttir var vinnukona á Vatnshóli í Víðidal 1801 og húsmóðir í Öskuhlíð í Ingjaldshólssókn á Snæfellsnesi 1835 en ekki er vitað hvenær hún var návistum við Guðmund. Hún virðist ekki hafa átt afkomendur sem lifðu.
[16] Þ.e. „athugun.“
[17] Þ.e. „villa, röng hyggja.“
[18] Þ.e. „skyldar til.“
[19] Þ.e. „dómarar“ eða „yfirvöld.“

Þættir úr sögu sveitar

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga