Pistlar | 20. maí 2022 - kl. 11:26
Þakkarvert að vera vígður lífinu
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Í mínum huga er það svo óendanlega þakkarvert að fá að vera vígður lífinu á ævinnar göngu upp á hvern einasta dag.

Á milli fyrsta og síðasta andvarps manneskjunnar er heil ævi, löng eða stutt eftir atvikum eða eitthvað þar á milli.

Vígður lífinu með sigurtákninu bæði á enni og brjósti, ristur í lófa frelsarans, skráður í lífsins bók, heldur líf mitt í ferðalag. Ferð sem aldrei tekur enda. Eilífðar ferð í gegnum ævina, að hinu síðasta andvarpi. Í gegnum dauðans dyr. Inn til lífsins ljóma með Jesú um eilífð hjá Guði.

Einhliða samningur

Höfundur lífsins hefur gert samning við þig. Samningurinn er einhliða og óuppsegjanlegur af hans hálfu. Hann er gjöf Guðs til þín.

Mótframlag þitt er ekkert. Þú þarft bara að taka við samningnum í einlægni, af auðmýkt og með þakklæti.

Hinn almáttugi eilífi Guð hefur fyrirgefið þér allar þínar syndir og misgjörðir í eitt skipti fyrir öll. Hann vill gefa þér frið í hjarta og hefur heitið því að vera með þér alla þína ævidaga og gefa þér eilíft líf að þeim loknum. Það er á þínu valdi að rifta samningnum ef þú vilt ekki þiggja hann og halda honum í gildi.

Að vera sítengdur við lífið

Ekkert fær þig hrifið úr frelsarans fangi sem foreldrar þínir forðum af einskærri ást færðu þig í. Þú varst nefndur með nafni og nafnið þitt var letrað í lífsins bók með frelsarans hendi. Himnesku letri sem ekki fæst afmáð og ekkert strokleður fær þurrkað út. Þér var heitin eilíf samfylgd í skjóli skaparans.

Því þegar þú ómálga og ósjálfbjarga klæddur hvítum skrúða varst borinn af umhyggju og kærleika af þeim sem elska þig mest upp að brunni réttlætisins til að laugast í vatni og anda, þá varstu tengdur við lífið.

Sambandið er þráðlaust, uppsprettan eilíf, þú ert sítengd/ur. Gjaldið hefur verið greitt í eitt skipti fyrir öll, af honum sem er uppsprettan og viðheldur straumnum. Af honum, sem er lífið sjálft. Hann hefur krýnt þig náð og miskunn og gert þig að erfingja eilífðarinnar.

Þú eilífi faðir sem fatar mig, fæðir og endurnærir. Hvers vegna ætti ég að velja eða vilja flýja frá þér og afneita þér?

Komdu vitinu fyrr mig. Hjálpaðu mér að taka skrefin út í daginn. Í áttina til þín, til móts við lífið.

Með kærleiks- friðar- og sumarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga