Pistlar | 01. júní 2022 - kl. 07:10
Hlustum á fólk og dæmum það ekki
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

"Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem gott er til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra." (Úr Efesusbréfi Páls postula úr Nýja testamentinu)

Drottinn Jesús!

Ég ákalla þig á þessum degi. Þig sem veist hvað mér og okkur öllum er fyrir bestu. Þig sem býðst til að bera byrðarnar með okkur.

Hjálpaðu okkur til að vera þakklát og jákvæð, uppörvandi og hvetjandi svo við getum orðið einhverjum til blessunar í dag. Hjálpaðu okkur að vera góðir hlustendur. Hneykslast ekki og dæma ekki.

Blessaðu þau sem eiga erfitt að komast leiðar sinnar vegna hverskonar fötlunar eða hamlanna, vegna sjúkdóma, styrjalda, fátæktar, hungurs eða annars óréttlætis. Hjálpaðu okkur að veita þeim athygli og koma þeim til hjálpar bæði sem samfélag jafnt sem einstaklingar.

Leyfðu okkur að finna að þó að við komum að hvers kyns torfærum á ævinnar vegi og okkur finnist á stundum sem öll sund séu okkur lokuð að þá mættum við samt finna að hjá þér og að þínum faðmi eigum við öll jafnan aðgang að blessun þinni og umhyggju, þrátt fyrir aðstæður hverju sinni og hvers kyns vonbrigði. Því þú elskar alla jafnt og ferð ekki í manngreinarálit.

Fyrir það vil ég fá að lofa þig og þakka. Í Jesú nafni. Amen.

Með friðar- og kærleikskveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

 

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga