Pistlar | 08. júlí 2022 - kl. 08:47
Stökuspjall: Organistapistlar 2013-15
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Haustið 2013 kom smáklausa í Fréttablaðinu, auglýst var eftir organista við Blönduóskirkju. Jú, það borgar sig stundum að lesa vel. Ég var nýlega horfinn frá aðalstarfi mínu, því að kenna tónmennt og sinna bókavörslu í Vallaskóla en var áfram organisti við þrjár sveitakirkjur í Flóanum, þ.e. í Hraungerði, Villingaholti og Laugardælum. Við æfðum kirkjukórinn í Þingborg á þriðjudögum en kirkjukórinn norður á Blönduósi æfði á miðvikudagskvöldum, og varð þetta að ráði hjá okkur. 

Ég tók Selfossstrætó á miðvikud. morgni kl. 7.20, norðurvagninn kl. 9 í Mjóddinni og var kominn á Blönduós upp úr kl. 13. Mamma lét mig hafa lykil að íbúðinni sinni í Hnitbjörgum og þar fór ég fyrst að skrifa á Húnahornið, vefsíðu sem er prýðilegur ritvöllur og lesinn af ýmsum.

Tríóið sem ók strætó 57 þessa vetur var oftast Þórdís, Gísli og Ólafur, traustir og öruggir bílstjórar, eru enn að keyra 9 árum síðar og vísur komu og flugu - frá Glúmi og fleiri kunningjum. Góður farkostur strætó.

Víkjum nú sögunni norður að Víðimýri þar sem bjó höfðinginn og skáldið Kolbeinn Tumason f.1171. Við sungum sálminn hans í kirkjunni, nr. 308:

Gæt mildingur mín
mest þurfum þín
helst hverja stund
á hölda grund. KT

Ber organistum ekki skylda til að láta söfnuðinn vita ef syngja skal annan eins sálm - og eldfornan - í næstu messu. Það þarf ekki einu sinni að kaupa frímerki, heldur senda tölvupóst á Ragnar Zóphónías ritstjóra sem hefur lengi staðið vaktina fyrir og með Húnvetningum - og ekki síst Blönduósingum.

Heyr, himna smiður
hvers skáldið biður
komi mjúk til mín
miskunnin þín. KT

Skáld og hagyrðinga má víða finna í héruðunum utan frá Kaldrana og fram í Forsæludal, austan frá Selhaga og Svartárdal, vestur um söguríkt Vatnsnesið, Hrútafjörð en Strandabyggðir út þaðan. Þarna er vettvangur Húnaflóa - kvæða og vísnasafns.

Sigldi ég hátt í sólarátt
söng minn dátt ég þreytti.
Hug minn átti hafið blátt
hitt ég fátt um skeytti. Jónas Tryggvason

Þá kýs ég að vinda upp voð
í vorblæ á mjallhvítri gnoð
og sigla glaður minn sjó
með síþaninn streng og kló. Páll Kolka

Að safna saman krækjum til þessara gömlu organistapistla rifjaði upp minningar, góðar og gefandi, brunandi strætó yfir Holtavörðuheiði, Sigurjón að hringja í Staðarskálastoppi, hvort ekki þyrfti að aka mér þegar norður á Blönduós kæmi, björt og þögul kirkjan með ljósritara og nótnaskáp niðri í safnaðarheimili, breiðu gangarnir og bókaskápurinn í Hnitbjörgum og kliðandi lækurinn við Blöndubrúna.

Ekki veit ég þó til að neinn hafi komið til kirkjunnar, sérstaklega vegna þessara skrifa minna. Kirkjan átti sína fastagesti sem báðu og sungu með presti, kór og organista.

Sólveig S. Einarsdóttir organisti og Þórhallur Barðason söngkennari höfðu unnið mikið og gott starf við kirkjuna um árabil. Þess nutum við. Og að kynnast prestinum og öðlingnum sr. Sveinbirni Einarssyni.

Mjög ánægjulegt var einnig að starfa með Sigrúnu í Saurbæ, organista og söngstjóra við Þingeyra- og Undirfellskirkjur og víðar. Kórarnir æfðu og sungu þá saman á árlegri aðventusamkomu í Blönduóskirkju.

Meira efni:
Fyrsti organistapistillinn/Páll Kolka: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10635 
Annar organistapistill/Jónas Tryggvason: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10670
Þriðji organistapistill/Góan nálgast: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10712
Fjórði organistapistill/Á fyrsta góudegi: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10740
Fimmti organistapistill/Kolbeinn Tumason: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10760
Hvernig varð lagið Þorkels til?: https://www.feykir.is/is/adsendar-greinar/heyr-himna-smidur-50-ar-fra-lagasmidi
Sjötti organistapistill/Frá áttræðisafmæli Runólfs: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10798  
Sjöundi organistapistill/Um landafræði og prestsdætur við Svínavatn: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=10859
Áttundi organistapistill/týndur
Níundi organistapistill/Húnaflóinn blái: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11225
Tíundi organistapistill/Um Bergsstaðaskáldið Guðmund og gömlu prestsetrin: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11279
Ellefti organistapistill/Sjal í mildum ...: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11339
Tólfti organistapistill/Vísa Katadalsbóndans: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11363
Þrettándi organistapistill/Aðventurabb: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11488
Fjórtándi organistapistill/Við hálfnað lag: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11508 
Fimmtándi organistapistill/Vöktu þeir JónasVerm. um nótt: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11521
Sextándi organistapistill/Á það hiklaust treysti: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11638
Sautjándi organistapistill: Lindin tær, Guðrún á Syðri-Grund og fjólublái hökullinn https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11698
Átjándi organistapistill: Um þjösnaskap, mýkt og Sigurjón frá Fossum https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11724
Nítjándi organistapistill: Sumarkveðja 2015  https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11780
Tuttugasti organistapistill: Karlakórinn 90 ára, GuðmFrímann&Böðvarsson https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11831
Tuttugasti og fyrsti organistapistill: Um kennara við unglingadeild 1960-61 og að finna ekki ilm af blómi  https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=11908
Vísnavefurinn: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/

Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga