Pistlar | 04. janúar 2023 - kl. 13:46
Nýtt upphaf
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Markmið eru gjarnan sett við áramót. Svo náum við sum einhverjum áföngum á lífsins leið og fáum að upplifa margvísleg og jafnvel ófyrirséð tímamót, jafnt í gleði og sorg.

Við klífum fjallið og toppnum er náð. Þá koma í ljós nýir toppar, ný markmið, nýir áfangar. En þrátt fyrir öll tímamót og fjarlæg markmið sem oft virðast eins og lokatakmark, þá heldur lífið alltaf einhvern veginn áfram.

Jafnvel þrátt fyrir allt mótlætið sem við verðum fyrir, torfærur sem við þurfum að ganga í gegnum, þrátt fyrir hverja brekkuna af annarri, alla baráttuna og ósigrana og bara jafnvel þótt ævinni ljúki, jafnvel þrátt fyrir sjálfan dauðann sem eru sannkölluð tímamót, þá heldur lífið áfram, ef við viljum þiggja það og ekkert fær það stöðvað.

Við stöndum á tímamótum

Við stöndum á tímamótum sem við skulum taka alvarlega. Nema staðar og hugsa okkar gang. Við þurfum að viðurkenna að við vitum ekki allt. Við þurfum að spyrja okkur sjálf krefjandi spurninga er varða nútíð okkar og framtíð og leyfa okkur einnig að efast og glíma. Taka þátt í vangaveltum, hlusta á aðra sem eru okkur samferða á lífsins leið og spjalla án þess að loka á pælingar og viðfangsefni og taka þau alvarlega. Því trúin á lífið og kærleikurinn vaxa með samtali og nærveru og sameiginlegri bæn. Því er í raun ekkert fallegra en barnsleg eftirvænting, barnatrúin sem er sannarlega ekki barnalegur kjánaskapur.

Guðs eilífa lífgjöf til þín

Hversu dásamlegt og óendanlega þakkarvert er það að hafa fengið að taka litla jólabarnið, frelsarann okkar allra, Jesú Krist inn að hjartanu og biðja þess daglega og öllum stundum að hann fái að vaxa þar og dýpka þannig tilveru okkar og gera hana vonar- og innihaldsríkri. Guð hjálpi okkur að leyfa honum að setjast að í hjörtum okkar svo hann fái dafnað þar okkur til heilla, fólki til blessunar og Guði til dýrðar.

Hann sem er ljós heimsins. Hann sem er hinn sami og frá upphafi og mun alltaf verða og ekki ganga á bak orða sinna og fyrirheita. Hann sem kom til að fylgja okkur hinn grýtta veg alla leiðina heim í dýrðina hjá sér sem hann hefur fyrir búið öllum þeim sem þiggja vilja. Af náð erum við hólpin fyrir trú. Það er ekki okkur að þakka. Það er Guðs gjöf.

Hann lagar sig að ólíkum þörfum okkar hvers og eins. Sýnir okkur skilning og samstöðu og veitir okkur af kærleika sínum sína fyrirgefningu og frið í öllum þeim verkefnum sem við kunnum að þurfa að takast á við og okkur mun mæta.

Jesús sagði: "Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim ekki, því að slíkra er Guðs ríki. Þeir sem taka ekki við Guðsríki eins og börn munu aldrei inn í það koma."

Hann mun leiða okkur og bera ef með þarf þangað inn sem fyrirheitin er að finna og lausnina er að fá. Þangað sem við munum hugguð verða. Þangað sem styrkinn og skjólið er að sækja. Skjólið fyrir hvers konar vonbrigðum og óáran. Hann vill fylla okkur þeirri framtíðarsýn sem segir okkur að okkur sé óhætt, þrátt fyrir allt heimsins böl. Hann hét því að fylgja okkur og vaka okkur yfir, alla leið og sleppa aldrei af okkur takinu.

Jólunum pakkað saman

Nú þegar jólunum pakkað er saman og jólasveinarnir eru að fara að halda til fjalla með viðkomu í fatahreinsun eftir allan atganginn. Skrautið á leið í geymsluna. Sumt er einnota og verður því væntanlega hent. Annað verður ekki í tísku um næstu jól, dæmt úrelt og annað gleymist. Jólatréð fær mögulega að fjúka fram af svölunum, seríunum fækkar smám saman og ljósin slokkna hvert af öðru.

En hvað verður um barnið í jötunni, hvað ætlum við að gera við það? Barnið sem við opnuðum hjarta okkar fyrr og hleyptum inn. Mun hann einnig gleymast í geymslunni? Stenst hann kannski ekki heldur tímans tönn? Er hann mögulega líka bara einnota eða verður dæmdur úreltur? Fær hann kannski bara líka að fjúka fram af svölunum?

Hugleiddu, stundarkorn, að hann er kominn til að vera og býðst til að hafa áhrif á okkur öll og alla okkar veru, já, allt okkar líf til góðs. Þroskandi, heilladrjúg áhrif, svo við hreinlega komumst af.

Með einlægu þakklæti, kærleiks- og friðarkveðju.

- Lifi lífið!

Höfundur er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga