Mynd af bréfi Margrétar Jónsdóttur
Mynd af bréfi Margrétar Jónsdóttur
Bréfið í heild
Bréfið í heild
Pistlar | 26. ágúst 2023 - kl. 11:14
Þættir úr sögu sveitar: Hugmynd um vinstri handar brúðkaup
56. þáttur. Eftir Jón Torfason

Á stóru búi þarf margar hendur til að sinna störfunum, bæði innan bæjar og utan. Að jafnaði eru í Holti í tíð Þorsteins Steindórssonar og Margrétar Jónsdóttur 2-3 vinnukonur og álíka margir vinnumenn, þó virðast þeir oft heldur færri en vinnukonurnar. Skal það fólk ekki allt upp talið en nefna má að talsverð tengsl virðast vera við fólkið frá Ægisíðu í Vesturhópi. Sveinn Guðmundsson (f. 1791) kom sem vinnumaður að Holti en krækti í Ingibjörgu heimasætu. Þau giftust 1820 og fóru að búa á Ægisíðu en síðar á Efra-Núpi. En í staðinn komu þrjár systur Sveins sem vinnukonur að Holti. Þetta voru Kristín Guðmundsdóttir (1799-1866), Gunnfríður Guðmundsdóttir (1797-1866), var alla tíð vinnukona á ýmsum bæjum og Þuríður Guðmundsdóttir (f. 1801) sem voru allar í Holti á þriðja áratugnum. Af vinnumönnum er freistandi að nefna Jón Sveinsson (1804-1857) sem var langa-langaafi minn, vinnumaður hér frá 1823 og að minnsta kosti til 1827.

Í Holti var ómagi oft settur niður. Fyrr hefur verið sagt frá Guðrúnu Jakobsdóttur og Steinunni dóttur hennar (sjá þátt nr. 38. Dóttir Guðrúnar Jakobsdóttur) en einnig er hér sveitarlimur um árabil Sigríður Pálsdóttir (12. júlí 1822-21. ágúst 1867) Illugasonar frá Hamrakoti.

Forvitnilegri eru hins vegar fósturbörnin sem eru a.m.k. þrjú. Það eru börn sem Þorsteinn og Margrét ala upp meðgjafarlaust eða í vináttuskyni við foreldra. Klemens Sigurðsson (31. maí 1822-17. maí 1893) kom hingað 1826 og var til 1831. Hann var sonur Sigurðar og Þórunnar Þorláksdóttur frænku Þorsteins sem bjuggu þá á Akri við talsverða ómegð en litlar tekjur. Klemens varð síðar bóndi í Skrapatungu.

Næst skal nefndur Kristinn Sveinsson (17. febrúar 1814-23. janúar 1863), síðar bóndi á Hólabaki. Kristinn kom nýfæddur að Holti og var þar sem fósturbarn og síðar vinnumaður til 1833. Heimilisástæður hjá foreldrum hans á Hnjúkum, Sveini Halldórssyni og Margréti Illugadóttur, hafa verið erfiðar. Margrét átti barn nánast á hverju ári og hefur sennilega ekki verið heilsuhraust. Þuríður Illugadóttir, systir Margrétar, tók soninn Kristófer (1815-1873) í fóstur um sama leyti og ól hann upp meðan hún lifði. Kristófer var síðar bóndi í Enni.

Sérkennilegasta fósturbarnið, ef svo má taka til orða, var Ragnheiður Ólafsdóttir (1831-1911)  frá Torfalæk, sem er talin til heimilis hér 1831 og 1832. Stúlka þessi var dóttir Ástríðar Halldórsdóttur prests Ámundasonar, sem var ráðskona hjá Ólafi Ingimundarsyni á Torfalæk. Hugsanlega er barnið dóttir hans, eins og skráð er í húsvitjunarbókina, eða Björns Ólafssonar sem varð um síðir eiginmaður Ástríðar eftir miklar sviptingar sem ekki verða raktar að þessu sinni.[1] Hér hafa Þorsteinn og Margrét hlaupið vel undir bagga með að aðstoða nágranna sína, Björn og Ástríði, sem áttu í margra ára stríði við veraldlega yfirvöld út af sambandi sínu.

Þrátt fyrir lítil afskipti af sveitarmálum kemur nafn Þorsteins Steindórssonar nokkrum sinnum fyrir í opinberum gögnum. Honum varð það sum sé á að koma fullnálægt einni vinnukonunni sinni, Kristínu Guðmundsdóttur (21. apríl 1799-25. maí 1866), og var afraksturinn stúlkubarnið Þórunn (14. september 1824-17. júlí 1826) sem lést í Holti úr kíghósta tæplega tveggja ára gömul. Kristín er nefnd hér framar. Hún var systir Sveins, sem nefndur er hér í upphafi, þau börn Guðmundar Jónssonar (1753-1832) bónda á Ægisíðu. Þetta er sá Guðmundur Jónsson sem Steinunn Jónsdóttir frá Akri giftist og frá segir í þáttum nr. 20-23.

Þrátt fyrir þessa brotalöm var Kristín áfram á Holti en samkvæmt guðs og manna lögum átti að stía fólki sundur sem hafði orðið uppvíst að barneignum utan hjónabands. Þegar húsbóndi átti barn með vinnukonu sinni var „reglan“ sú, að vinnukonan vék burtu, stundum með barnið í eftirdragi en stundum varð barnið eftir á heimilinu, en þarna þrjóskaðist Þorsteinn bóndi sum sé við. Nágranni Þorsteins og vinur, séra Einar Guðbrandsson á Hjaltabakka, sá sig tilneyddan að gera athugasemd við þessi kvennamál meðhjálpara síns en með litlum árangri. Þremur árum eftir fæðingu Þórunnar litlu skrifaði hann loksins sýslumanni:

         Eftir[2] því bóndinn Þorsteinn Steindórsson á Holti innan þessarar sóknar hefur haldið (og líklega enn nú hyggur framvegis halda) vinnukonu sína, Kristínu Guðmundsdóttur, sem vistarhjú, með hvörri hann árið 1824 í legorðssök brotlegur varð, og henni ekki í burt ráðstafað réð,[3] og eftir margítrekaðar aðvaranir og áminningar honum af mér þar um, til datum forgefins gefnar, finn ég mig knúinn að tilkynna réttvísinni sök þessa til þóknanlegra aðgerða.

         Hjaltabakka þann 7. maí 1827, auðmjúkast,

         E. Guðbrandsson

Ekki verður séð að sýslumaður hafi látið sér brátt um að svara þessu erindi séra Einars, a.m.k. er ekkert svarbréf fært í bréfabók sýslumanns næstu vikur eða mánuði, enda leystist málið nú og hugsanlega hefur þessi hótun prestsins dugað því Kristín flutti sig að Orrastöðum þetta vor og var rúman næsta áratug vinnukona á ýmsum bæjum í sveitinni. Hún giftist loks Runólfi Jónssyni (1791-1865) og bjó með honum í Meðalheimi til dauðadags 28. júlí 1862.

Við þá iðju að blaða í gömlum pappírum og skjölum sem fyrst og fremst snerta Torfalækjarhrepp á fyrri tíð kemur stundum fyrir að maður verður talsvert hissa. Svo varð þegar ég skoðaði í öskju úr kansellíinu, sem var ein aðal stjórnarskriftstofan í Danaveldi meðan einveldið var þar enn við lýði, samsvaraði menntamála-, félagsmála- og dómsmálaráðuneyti með meiru. Í öskju nr. 120 í kansellískjölum[4] dúkkar upp skjal með nafni Þorsteins Steindórssonar sem sækir „um að mega giftast á nýjan leik án þess að skilja við konu sína“ og er saman sett í janúar 1830, tæpri viku eftir að Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir voru tekin af lífi við Þrístapa.

Á miðöldum voru til hugmyndir um „vinstri handar giftingu“ æðstu fyrirmanna og stórhöfðingja og mun jafnvel hafa komið til álita á síðari öldum í konungshöllum. Kannski hefur Þorsteinn bóndi haft eitthvað slíkt í huga eða hafi líklega öllu heldur bara viljað spara ráðskonukaupið, því í meginástæðan, sem er tilgreind í umsókninni, er að eiginkona hans sé orðin mjög heilsuveil og geti ekki sinnt skyldum sínum. Umsókn Þorsteins hefur verið snúið á dönsku og verður ekki birt hér en rökstuðningur fyrir beiðninni kemur fram í bréfi sem forsvarsmenn sveitarinnar, séra Einar Guðbrandsson á Hjaltabakka og Hannes Þorvarðarson hreppstjóri í Sauðanesi, hafa sett saman og Margrét kona Þorsteins skrifar undir, en þeir eru vottar:

         Ég undirskrifuð gef mínum elskulega egtamanni, Þorsteini Steindórssyni, fullkomið leyfi til að sækja um vors allranáðugasta konungs leyfi, að mega giftast í annað sinn að mér lifandi, að óröskuðum okkar egtaskap. Líka sem ég og svo allra undirgefnast óska að það leyfi mætti honum veitast, fyrir þá orðsök að ég sjálf sökum aldurdóms lasleika og meira heilsuleysi er orðin öldungis ómegnug til að gegna skyldu minni í bússtjórn innan húss. En bú okkar er gott og þarf því mikla stundun, en hann er frískur að heilsu og getur að hans hálfu eflst en hlýtur annars að vanast, ef ei duglega trúa og holla bústýru öðlast.

         Þessi er mín innileg og einlæg ósk.

         Holti innan Húnavatnssýslu, þann 18. janúar 1830,

         Margrét Jónsdóttir

         Sem vottar undirskrifa,

         Einar Guðbrandsson prestur, Hannes Þorvaldsson hreppstjóri.

Rithöndin á þessu bréfi er nær örugglega hönd séra Einars Guðbrandssonar á Hjaltabakka, meira að segja undirskrift Margrétar. Síðan semja þeir félagar meðmælabréf sem er sent fram í Hvamm í Vatnsdal til Björns Blöndal sýslumanns því allar umsóknir til æðri stjórnvalda áttu að fara rétta boðleið um embættismannakeðjuna.

         Ofanskrifað leyfi bóndakonunnar, Margrétar Jónsdóttir, til síns egtamanns, bónda Þorsteins Steindórssonar, að sækja um að mega giftast í annað sinn og hennar allraundirgefnasta bæn, að sama mætti honum allranáðugast veitt verða, er með fúsum vilja hennar og undir ─ af okkur viðkomandi presti og hreppstjóra ─ vitnuðum sannferðugum orðsökum.

         Konan er öldruð og auk ellilasleika svo veik að heilsu, einum fyrir ríkjandi iktsýki, að ekkert fær komist utan með staf eða fyrir manna stuðning.

         Hvað áhrærir þeirra oeconomiska tilstand er búið stórt, með vaxandi aukning, meir en annarra sóknarinnar og hreppsins bænda og krefur mikillra umsvifa. Finnur þessi mikli dugnaðarmaður bú sitt til hnignunar fara utan fengið geti duglega, trúa, stöðuga meðhjálp hvar til tryggilegast meðal er egtin.

         Merki hans dugnaðar og uppbyggingar í sókn og sveit er fyrst og fremst uppfóstur eigin barna, hvört með meiri heill og drift en fleirstra af hans standi, meðal hvörra Íslands landphysisus, hr. J. Thorsteinsen, 2 lukkulega giftar dætur. Þar næst uppfóstur nokkurra sveitarbúa barna fátækra er annars hefðu hlotið að uppalast á fátækra sjóð.[5]

         Hér að auki finnur hreppstjórinn þennan mann sveitarfélagsins mestu styttu, er meira en aðrir leggur til fátækra kassans, auk öreiga hjálpar með matar- og peningsfóðurs útláta. Líka sem ábýlisjarðar sinnar byggingar og ræktar, samt brúkunar selstöðu að sumrum, að fornum búmanna sið, tilkeypta.[6]

         Auðsær verður og er skaði félagsins skyldi þessi duglegi maður hljóta búi að bregða fyrir skort duganlegrar meðhjálpar.

         Þessu hér að ofan skrifuðu til staðfestu eru viðkomandi prests og hreppstjóra undirskrifuð nöfn og hjáþrykkt signet.

         Hjaltabakka prestagarði, þann 18. janúar 1830.

         Einar Guðbrandsson prestur, Hannes Þorvaldsson hreppstjóri[7]

Björn Blöndal sat ekki lengi yfir þessum plöggum en sendi umsóknina áfram til amtmannsins á Möðruvöllum, sem síðan sendi hana út til kansellíisins í Kaupmannahöfn. Blöndal hælir Þorsteini bónda fyrir dugnað og nefnir að hann hafi jafnan farið vel með konu sína vel, en bendir hins vegar á að hann ætti að geta útvegað sér röggsama ráðskonu. Blöndal veit að engar líkur eru á að umsóknin verði samþykkt og gætir þess því að mæla ekki með henni, lýsir nánast yfir hlutleysi. Hann skrifar á dönsku sem var opinbert tungumál stjórnsýslunnar á þessum árum (eins og enskan er að verða núna). Bréf hans er að mestu leyti endurtekning þess sem áður er komið og ætti að vera auðskilið:

         Hvamme den 26. januarii 1830.

         Allerunderdanigste erklæring.

         Saa vidt mig er bekjendt er alt hvad denne allerunderdanigste ansögning indeholder fuldkommen sandfærdigt, naar undtages at jeg ikke er fuldkommen overbevist om at supplicanten intet fruentimmer kan erholde som er istand til at forestaae hans huusholdning med mindre han indlader sig i nyt egteskab.

         Rimeligt er det derimod, at hans boe vil efterhaanden formindskes efter som supplicantens kræfter aftage, og at en ung kone ville noget erstatte denne mangel bedre end en huusholderske er ikke usandsynligt. I övrigt er supplicanten en udmærket duelig bonde og har stedse særdeles vel behandlet sin gamle og syeglige kone, og jeg har derfor ingen grund til at tvivle om at han fremdeles vilde anderledes behandle hende, om det blev ham tilladt at indgaae nyt egteskab.

         Imidlertid syntes det dog fornödent, at mandens nuværende egteskab blev isaa fald ophövet hvor til konen dog ikke har givet sit minde.[8] Dog var det ikke for exemplets skyld, at man burde önske at deslige bevillinger ikkun sjelden bleve meddelte ville der fra min side intet være at erindre imod at denne allerunderdanigste ansögning blev allernaadigst bonhört.[9]

Grímur Jónsson amtmaður á Möðruvöllum sendi umsókn Þorsteins og meðmælabréfin  áfram til yfirvalda í Danmörku en mælti sterklega gegn því að hún yrði samþykkt. Hann klykkir út með þessum ummælum:

         Jeg finder derfor ikke den ringeste anledning til allerunderdanigst at afbefale nærværende ansögning, som med et bileg indkom hertil den 29. f.m. og i dag expederes til Deres majestæt danske kanselli.

         Frederinsgave, den 2. februarii 1830,

         allerunderdanigst,

         Johnsen

Það var stundum kvartað yfir því að stjórnsýsla danska einveldisins hafi farið sér hægt við að afgreiða íslensk málefni en að þessu sinni voru ráðamenn þar snöggir. Svarið er sagsett 17. apríl 1830 og hefur borist til Íslands með vorskipunum. Það er ritað með daufu letri á gráan pappír og snúið aflestrar. Beiðninni er algjörlega hafnað því tvíkvæni (bigami) er bannað í Danmerkur ríki (naturligvis aldeles ikke kan bevilges). Auk þess fá séra Einar á Hjaltabakka, Þorgrímur á Auðkúlu og Hannes Þorvaldsson í Sauðanesi ákúrur (misbilligelse) kansellísins fyrir að taka þátt í þessum málabúnaði:

         17. apríl  1830

         Til amtmanden over Nord- og Österamtet paa Island.[10]

         Thorstein Steindorsen kun 1 kone ad gangen.

         Hr. amtmand har under 2. februar sidstleden tilstillet  kanselliet en ansögning, fra bonden Thorstein Steindorsen af Holt inden Hunevans syssel  om tilladelse til, i sin hustrues levende live,  at indgaae nyt egteskab.

         Ved i denne anledning at tilmelde dem til behagelig bekendtgjörelse for supplikanten, at det ansögte, der i grunden gaaer udpå tilladelse til bigami, naturligvis aldeles ikke kan bevilges.

         Skulde man derfor tjenstligst  anmode hr. amtmand om at tilkjendegive

sognepræsten til Audkula og Svinevatns menigheder, T. Thorgrimsen,[11] samt stedets præst, Einar Gudbrandsen, og repstyrer Hannes Thorvaldsen, af hvilke den förste har konseperet og de 2de sidste har anbefalet den omhandlede ansögning, kanselliets misbilligelse af at de have understöttet et andragende af en sådan beskaffenhed.

Næstu ár er Margrét í húsvitjunarbókinni áfram skrifuð við hlið Þorsteins sem húsfreyja í Holti. Að jafnaði eru tvær vinnukonur á heimilinu þessi ár enda mun ekki hafa veit af handatektum þeirra við heyskap, úrvinnslu mjólkur og ullarvinnu. Engin þeirra er þó titluð ráðskona eða skrýdd viðlíka titli.

Nokkrum árum síðar lést Margrét Jónsdóttir, vorið 1835, og var gengið frá skiptum eftir hana 3. október um haustið. Talsverð[12] auðlegð var í búinu, eins og rakið var í síðasta þætti, og komu til skipta 2159 ríkisdalir. Þorsteinn þurfti eðlilega að greiða sínum börnum  móðurarfinn og því ekki að undra að bú hans gengi talsvert saman upp úr þessu, enda var hann sjálfur kominn á efri ár. En Þorsteinn undi ekki lengi konulaus og rúmlega hálfum mánuði eftir að skiptunum eftir Margréti lauk, þann 19. október 1835, kvæntist hann stúlku sem var ættuð frá Meðalheimi en hafði verið vinnukona hér frá 1831. Hún hét Margrét Guðmundsdóttir (1796-14. júní 1869) og bjuggu þau saman nokkur ár í Holti. Þau fluttu að Skeggjastöðum í Vindhælishreppi 1842 og voru þar til 1847 að þau fluttu að Hjaltabakka og þar lést Þorsteinn árið eftir. Margrét var fædd 1796, dóttir Guðmundar Guðmundssonar og Guðrúnar Oddsdóttur í Meðalheimi, og átti þar heima til 1818 þegar hún fór í vinnumennsku að Sauðanesi. Þaðan fer hún vinnukona að Undirfelli 1824, síðan 1828 að Brekku og er þar vinnukona til 1831 að hún fer að Holti þar sem hún varð að síðustu húsfreyja.


[1] Sjá Jón Helgason: Torfalækjarmál. Tíminn Sunnudagsblað 4. mars 1962 og áfram. Endurprentað í Vér Íslands börn III. Reykjavík 1970.
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/7, örk 1.
[3] Verður helst lesið svo.
[4] ÞÍ. Hið danska kansellí. KA/120, örk 5.
[5] Þorsteinn og Margrét uppfóstruðu að minnsta kosti 3 börn sem voru óskyld þeim.
[6] Með „tilkeypta“ mun átt við að Þorsteinn leigi land fyrir búpeninginn í selinu.
[7] ÞÍ. Hið danska kansellí. KA/120, örk 5. Innsigli þeirra Einars og Hannesar eru á bréfinu.
[8] Þ.e. samþykki.
[9] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu C/4. Bréfabók 1829-1831, bréf nr. 2748 25. janúar 1830 (sbr. bréf nr. 2749 sama dag).
[10] Þetta svar kansellísins er í fyrr tilvísaðri öskju (ÞÍ. Hið danska kansellí. KA/120, örk 5) en afrit af því er einnig i bréfasafni sýslumannsins í Húnavatnssýslu (B/10, örk 4) þar sem amtmaðurinn sendir þessa neitun áfram til sýslumannsins. Bréf amtmannsins er dagsett 26. maí 1830.
[11] Þorlákur Þorgrímsen prestur á Auðkúlu hafði þýtt og hreinritað umsóknina fyrir Þorstein Steindórsson og því er hann nefndur hér.
[12] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/3. Skiptabók 1834-1839, bls. 129-137.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga