Hurðarbak er til hægri. Mynd: Magnús Ólafsson
Hurðarbak er til hægri. Mynd: Magnús Ólafsson
Pistlar | 18. nóvember 2023 - kl. 14:22
Þættir úr sögu sveitar: Hurðarbak á Miðásum
62. þáttur. Eftir Jón Torfason

Hurðarbak taldist 20 hundraða jörð að fornu og er lýst svo í jarðamati 1849:

Túnið mestpart þýft en grasgefið, fremur raklent, fóðrar vel 2 ½ kú, ekki fullar 3 kýr. Slægjur eigi mjög litlar en reytingslegar, nærtækar en votar og heyslæmar. Sumarhagar kjarngóðir í meðallagi og allir samanhangandi graslendi, fremur þröngir en hægir og notagóðir. Vetrarbeit hæg og kjarngóð og nær lengi til hennar, þó eigi sé hún óbrigðul.[1]

Eftir miðja 18. öld bjó hér Hákon Erlendsson (d. 1762) með konu sinni Sesselju Jónsdóttur. Hákon mun hafa verið bróðir Guðmundar Erlendssonar á Torfalæk en dætur Hákonar voru Guðrún og Sigríður sem bjuggu á Orrastöðum og áttu í erfðadeilu við Erlend á Torfalæk, sbr. þátt nr. 35 (Erfðamal Orrastaðasystra).

Næsta áratug á eftir þeim bjó hér Ketill Jónsson sem brá búi 1782 og var síðast í vinnumennsku á ýmsum bæjum í Þinginu. Á eftir honum kom Ásgrímur Jónsson (f. um 1735) og virðist miðað við skattgreiðslur hafa verið í góðu meðallagi bænda í hreppnum. Í móðuharðindunum gjörbreyttist hins vegar hagur hans svo árið 1785 voru á bænum 1 kýr og kvíga, 6 ær, 5 lömb og 1 hrútur og loks 2 hestar. Það ár er þrennt til heimilis, Ásgrímur, 58 ára, „ólesandi, skilsamur, lítt kunnandi,“ Þorbjörg Nikulásdóttir bústýra (1751-21. júlí 1821) „lesandi, vinnusöm, skýr og vel kunnandi“ og loks niðursetan Sesselía Ketilsdóttir, 15 ára, „ólesandi, illa vanin [en] kann nokkrar bænir.“ Hún lést hins vegar árið eftir, þann 10. desember 1786, var með „tak fyrir hjartanu.“

Tveim árum síðar, 1787, eru kýrnar 2, ærnar orðnar 9, gimbrar 5 og 1 hrútur, hestar 2 eins og áður. Kannski dugði þessi bústofn þeim Ásgrími og Þorbjörgu til framfæris því þau töldust bara tvö til heimilis þessi árin, en vistin líklega verið heldur daufleg.

Árið 1790 er Þorbjörg farin en komin ný bústýra, Halldóra að nafni með unga dóttur, en kvikfénaður var næstum sá sami og áður, kýrnar þó orðnar 3 og mjólkandi ær 13. Nú hverfur Ásmundur úr sögunni og endaði sem vinnuhjú út í Engihlíðarhreppi en síðan voru hér eitt ár Guðrún Bjarnadóttir (f. um 1757) og Jón Jónsson. Hann dó árið eftir úr brjóstveiki (20. mars 1792) og að líkindum um sama leyti lítill drengur sem hann átti samnefndan en Guðrún flutti upp í Svínavatnshrepp.

Næstu 2-3 árin virðist eins og Hurðarbak sé hálfvegis í eyði. Ekki er vitað um heimilisfólk því sóknarmannatal vantar og skv. hreppsbókinni galst stundum engin en stundum sárlítil lausfjártíund af jörðinni.

Þessi ár telst leiguliði hér Hallgrímur Gíslason (1754-25. mars 1834). Hann átti eða réttara hafði átt konu, Ólöfu Guðmundsdóttur (f. 1749), og þau búið á Litla-Vatnsskarði, en þau voru skilin með dómi 1791 eftir hórbrot hans. Hallgrímur var í framættir kominn úr Eyjafirði en mun í æsku hafa átt heima í Skagafirði og var nú sum sé kominn vestur í Húnaþing.

Barn það sem skilnaðinum olli hét Hallgrímur eins og faðirinn (18. júní 1790-17. júní 1846) og fæddist í Grímstungu í Vatnsdal þar sem faðir hans var þá húsmaður. Móðirin var Kristín Jónsdóttir, vinnukona á sama bæ, en ekki er vitað meira um hana.[2] Drengurinn var óefnilegur, kann að hafa fæðst fyrir tímann, því hann var skírður skemmri skírn sem svo var staðfest í kirkjunni tveimur dögum síðar. En hugsanlega hafa undanbrögð eða einkennilegheit prestsins valdið drættinum á skírninni því þá var hinn brotaklerkurinn séra Einar Eiríksson enn prestur í Grímstungu.

Hallgrímur yngri var alinn upp með föður sínum, var víða vinnumaður og húsmaður í Skagafirði en drukknaði í Hrafndalsá við Skagaströnd 1846. Hann „átti heima á Selá á Skaga, fór vestur í Höfða. Drakk hann mikið í kaupstaðnum og drukknaði hann nú í Hrafndalsá þar á ströndinni á heimferðinni. Fannst hann brátt því að áin var eigi meira en í kálfa.“[3]

Hallgrímur Gíslason var árin eftir skilnaðinn frá Ólöfu til heimilis á Þingeyrum hjá Oddi Stefánssyni umboðsmanni Þingeyraklaustursjarða. Sennilega hefur Oddur leigt honum Hurðarbak en raunar virðist sem hafi staðið til að selja þá jörð og nokkrar aðrar jarðir klausturumboðsins, sem ekkert varð þó af. En Hallgrímur hafði augastað á fleiru en jörðinni. Á Þingeyrum var ung vinnukona, Svanborg Aradóttir (f. 1772) sem hafði alist þar upp að mestu leyti. Áhuginn virðist hafa verið gagnkvæmur og þau hafi fellt hugi saman eins og það er stundum orðað. En Hallgrímur var nýlega skilinn og þurfti að fá leyfi frá kónginum til að ganga í nýtt hjónaband svo nú var drifið í að setja saman bréf og senda til Kaupmannahafnar og er þetta yfirskriftin:

Hurderbach udi Hunevands syssel og Island, den 6. october 1793.[4]

Hallgrim Gisleson bondekard som i efteraaret 1791 er ved dom formedelst begaaet hor skilt fra sin ægtefælde, söger aller underdanigst om kongel. allernaadigste tilladelse til at indgaae ny ægteskab.

Hallgrímur segir í framhaldi bréfsins sig auman (ælendig) syndara sem tárfellir fyrir guði í himninum og hinni konunglegu hátign sín grófu mistök, að hafa drýgt hór. En nú hafa Jónas prófastur Benediktsson og Ísleifur Einarsson sýslumaður lesið þau hjón sundur og Hallgrímur krýpur á kné fyrir hátigninni og biður hana, að gefa sér leyfi til að ganga í nýtt hjónaband, af föðurlegri mildi og náð:

        Til kongen

        Jeg, arm og ælendig synder bekjender med grædende taare for Gud i himmelen og eders Majst, at jeg for uden mine mange og grove fejltagelse har begaaet hor, med en ledig og mig ubeslægtet qvindes person og er altsaa i efteraaret 1791 efter lov og fortjeniste, med nu skilsmisse dom ─ opsagt af herrets provsten, hr. Jonas Bendixsen, tillige med sysselmand, hr. Islev Einersen ─ skilt fra min ægtefælle.

        Dets aarsage nedknæler jeg, arm synder, for eders Majst naadens chrone, i dybeste underdanighed bedende eders Majst af sær faderlig mildhed og naade allernaadigst vilde give mig tilladelse til at indgaae ægteskab igjen med en anden ledig qvindes person.

        Allerunderdanigst,

        Hallgrim Gislesen

Þetta hjartnæma bréf, eiginlega full hjartnæmt, virðist hafa brætt hjarta konungsins sem undirritaði leyfisbréfið 26. júní 1794 og þau Hallgrímur og Svanborg fengu að eigast. Þau fluttu vestur í Hindisvík og bjuggu þar og á fleiri jörðum á Vatnsnesi, eignuðust saman nokkrar dætur en sumar þeirra urðu ekki langlífar.

Með orðafarinu „ledig kvinde“ (laus kona), sem nefnt er í bréfinu, er átt við að engir meinbugir, t.d. vegna skyldleika, séu á því að karlmaður megi kvænast tiltekinni konu.

Eins og fyrr var nefnt voru um þessar mundir einhverjar hugmyndir upp um að selja nokkrar Þingeyraklaustursjarðir þótt lítið hafi orðið úr að þessu sinni. Í dóma- og þingbók Húnavatnssýslu[5] er skráður eftirfarandi samningur milli þriggja manna um leigu eða kaup á Hurðarbaki og hálfri Hindisvík. Þetta er skráð á manntalsþingi í Torfalækjarhreppi sem haldið var 5. júní 1795. Þarna virðist vera á ferðinni álíka viðskiptabrella og bankagangsterarnir tíðka nú á dögum með „kauprétti“ og „eignarrétti“ en raunar í millu smærri skala og ekki er verið að hafa fé af öðru fólki eins og nú tíðkast:

Var inngengin svofelldur contract milli þessara bænda, Jóhannesar Guðmundssonar og Hallgríms Gíslasonar á Hurðarbaki, samt Magnúsar Hálfdanarsonar á Holti, að sá fyrstnefndi yfirlætur Hallgrími sitt boð og væntanlegan eignarrétt til ½ Víkur, kóngsjarðar á Vatnsnesi, hver Hallgrímur lofar strax að flytja þangað, af betalaðs[6] Majst þá upp á hana boðnu 60 rd. ef kaupið fæst. Hér næst lofa báðir bændurnir á Hurðarbaki, Jóhannes og Hallgrímur, að rýma Hurðarbak í þessum fardögum og er hér svo vel sem uppboðið af Hallgrími gjört á Sveinsstöðum í fyrra yfirlátið til nefnds Magnúsar Hálfdanarsonar, hvar í mót hann innrýmir velnefndan Jóhannesi allan sinn kaups- og ábúðarrétt til Holts, nefnil. væntanlegan eignarrétt á betri hálflendunni og ábúðarrétt á 5 #[7] af henni, móti því að betala þá summu Magnús bauð fyrir 15 # í Holti. En sér í lagi áskilur Hallgrímur að fá sinn flutningskostnað til Víkur betalaðan og frían, hvað hreppstjórinn, mr. Erlendur Guðmundsson á Torfalæk, undirgengst og upp á sig tekur Jóhannesar og Magnúsar vegna. Álagi svarar enginn nema í því tilfelli auctions boðin fengjust ei af hans Majst antekin. Þá svarar hver fyrir sinn ábúðarjarðar hlut. Og 1 ½ kúgildi lofar Hallgrímur að taka með sér að Vík frá Hurðarbaki og hafa í Magnúsar stað fyrirsvar þeirra.

Engir þessara þriggja manna geta hafa átt neina peninga svo umtalsvert væri. Hallgrímur var nýlega skilinn og hafði verið í vinnumennsku eða húsmennsku og með börn á framfæri; Jóhannes hafði búið eitt ár í tvíbýli á Hurðarbaki á móti Hallgrími. Hann flutti síðar að Holti og hefur verið gerð nokkur grein fyrir honum í þætti nr. 54 (Enn ábúendaskipti í Holti), en Magnús Hálfdanarson og Gróa Jónsdóttir koma einmitt hingað frá Holti árið 1795 og væri þess kannski helst von að þau ættu einhverja peninga til jarðakaupa. En engir þessara manna voru lukkuriddarar eins og tröllríða þjóðfélaginu nú um stundir og búa til peninga úr engu, þannig að líkast til hafa hugsanleg kaup á Hindisvík og Hurðarbaki gengið til baka að því sinni og víst er að jarðir þessar tilheyrðu áfram Þingeyraklausturs umboðinu.

En hinu varð framgegnt að Jóhannes og Magnús Hálfdanarson höfðu jarðaskipti, Jóhannes fór að Holti en Magnús og Gróa að Hurðarbaki og er þá næst að athuga hvernig þeim farnaðist þar.

[1] ÞÍ. Jarðamat 1849. Aðgengilegt á vefslóðinni „heimildir.is.“
[2] Tölvupóstur frá Hjalta Pálssyni 16. júlí 2023.
[3] Gísli Konráðsson: Saga Skagstrendinga og Skagamanna (Reykjavík 1941), bls. 159. Hallgrímur er raunar talinn Jónsson í prestsþjónustubók Hofs á Skagaströnd en það mun misritun.
[4] ÞÍ. Kansellískjöl. KA/50, örk 54, 6. október 1793.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 4. Dóma- og þingbók 1788-1796, bls. 336-337.
[6] Orðið krabbað.
[7] Táknið „#“ er notað fyrir eininguna „hundrað,“ sem er vanaleg í tengslum við mat jarða fyrr á tíð.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga