Vatnsnes
Vatnsnes
Pistlar | 07. ágúst 2016 - kl. 18:26
Stökuspjall - Sál mín þyrst í ljóð og list
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Hræddist ekki græðgisgný
glott né yggling brúnar –
þar til lögðust unnir í
efstu sigluhúnar

orti Miðfirðingurinn Sigurður Gíslason eftir annan skáldmæltan Húnvetning, Jón S. Bergmann sem ól aldur sinn suður í Hafnarfirði, út á sjó, við kennslu o.fl.

Kristleifur Þorsteinsson frá Húsafelli, hinn snjalli borgfirski fræðaþulur segir frá Húnvetningum í söguritinu Troðningar og tóftarbrot. Þar nefnir hann niðja Húsafellsbræðra: séra Sigvalda á Húsafelli, séra Illuga á Borg og Bjarna sýslumanns á Þingeyrum. Kristleifi finnst merkilegt hvað Húnvetningar voru fengsælir á niðja þessara þriggja bræðra og tilgreinir fjölda nafnkenndra manna komnum út af þeim og ólust upp í Húnaþingi. Sjá neðar.

Og Illugi á Borg var afi Jóns Árnason sem minnst verður við messu á Hofi 28. ágúst. Hefur messudeginum verið seinkað um viku en afmælisdagur þjóðsagnasafnarans frá Hofi er 17. ágúst.

Húnaflói - Kvæða- og vísnasafn á líka afmæli þessa daga, en ævin sú telur aðeins tvö ár. En hefur heldur vaxið!

Ég hef kysst og ég hef misst
ég hef girnst og tapað
sál mín þyrst í ljóð og list
lyft mér fyrst – en hrapað.

Þessa vísu kvað Björn G. Björnsson smiður og organisti á Hvammstanga og magnað ljóð um kraft viljans – og fátæki viljaleysis:

En viljalaus ertu sem visið strá
er velkist í fjörugrjóti
sem kulið og nóttin hvíslast á
að kaffæra í ölduróti
þinn tilveruréttur tapast þá
í tímans breiða fljóti.

Ólöf frá Hlöðum var móðursystir Björns, þær systurnar ólust upp úti á Vatnsnesi, bernskuheimili þeirra á Sauðadalsá lýsir Ólöf í minningum sínum. Björn yrkir um frænku sína:

Þú fæddist í fátæktar hreysi;
þig fóstraði örbirgð slík
við andþrengsli og umkomuleysi;
þó ertu samt gjöful og rík.

Þú drakkst af dýrum veigum
þann draum í vöggugjöf
að æðri köllun vér eigum
en eilífa moldargröf.

Ljúkum Stökuspjalli með upphafsvísunni um Jón Sigfússon Bergmann:

Liðin Bergmanns ævi er
enduð hetjusaga
manns sem átti andbyr hér
alla sína daga.

Meðal niðja Húsafellsbræðra eru:

Læknarnir: Guðmundur Magnússon prófessor,
Guðmundur Björnsson landlæknir 
Sæmundur Bjarnhéðinsson læknir
Ólafur Sigvaldason héraðslæknir í Strandasýslu.
Sr. Bjarni Sigvaldason Lundi og Stað í Steingrímsfirði
Arnljótur Ólafsson prestur á Bægisá og Sauðanesi
Jón Árnason landsbókavörður
Jón Þorláksson ráðherra
Sigurður Nordal prófessor og
Jón Eyþórsson veðurfræðingur

Ritari getur ekki setið á sér að bæta við upptalningu Kristleifs nöfnum þeirra Sigrúnar Haraldsdóttur frá Litladal og Jóa í Stapa, skáldmæltra beggja.

Sig. Gíslason um Jón S. Bergmann; http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=5108  
Björn G. Björnsson: http://bragi.info/hunafloi/hofundur.php?ID=17475 
Bernskuheimili mitt: http://timarit.is/view_page_init.jsp?gegnirId=000561632 
Snæbirningar, komnir út af Sigvalda Halldórssyni: http://stikill.123.is/blog/2015/11/24/740226/

Eldra stökuspjall
Að læra af þeim sem lífsins tónum náðu: http://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12975 
Undir penna sestur: http://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=12944
Vatn í læk og á http://www.huni.is/index.php?cid=12820
Öxlin gnæfir yfir Þingið: http://www.huni.is/index.php?cid=12707  

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga