Víðidalstunga. Ljósm: wikipedia.org/Navaro
Víðidalstunga. Ljósm: wikipedia.org/Navaro
Pistlar | 20. júlí 2017 - kl. 07:50
Stökuspjall: Hvar er hann Sumarliði?
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Sigurður djákni, segðu á skil
sem minn hugann friði.
Heillavinur, hvað kemur til?
Hvar er hann Sumarliði?

Vísuna orti Páll Vídal á leið sinni yfir Kaldadal og tók þar með þátt í leik hagyrðinga sem ortu vísu, stungu henni í bein og því næst í vörðu við veginn. Vísan var lögð í munn beinakerlingunni þ.e.a.s. vörðunni, var oftast nokkuð groddaleg eða klúr, og beið þar eftir næsta ferðamanni sem gat verið nafngreindur í vísunni. Páll kemur tveim nöfnum fyrir í vísunni.

Hér er önnur, höfundarlaus:

Sækir að mér sveina val
sem þeir væri óðir
kúri eg ein á Kaldadal;
komi þið piltar góðir.

En hverfum nú til ársins 2017, til fundar við Jón Torfason og Pál Vídal, upp á Hakið á Þingvöllum, í blíðviðrinu fimmtudagskvöldið 13. júlí. Jón hafði tekið saman skemmtilegan þátt af þessum sýslunga sínum, dró fram gögn um glöggskyggni og skipulagsgáfu Páls, tók áheyrendurna með sér í huganum norður í Víðidal, til höfuðbóls Vídalínanna í Tungu og greindi frá búháttum Páls, samskiptum hans við vinnumenn og upprennandi sveina úr kotunum við Víðidalstungu. Fundargestir fetuðu síðan í fótspor Jóns niður Almannagjá og hann flutti þeim næsta áfanga fyrirlestrarins í tréþrepunum á Lögbergi. Þar fjallaði Jón um störf Páls lögmanns á Alþingi, að Jarðabókinni og samstarf þeirra Árna Magnússonar. Þeir Jarðabókarmenn bundu með sér hlýja vináttu og eftirminnilegt var að fylgja fyrirlesaranum milli tjalda þeirra vinanna þar á Þingvöllum snemma á átjándu öldinni – og Öxará í flóði. Í þessum bjarta sumarmánuði hittust einmitt yfirvöld, nýjustu óbótamenn landsins og jafnvel lögmannsdætur. Öld eftir öld riðu menn fjallvegi, sanda og fljótin stríð til að hittast á þessum forna og helga fundarstað. Og þar vakti Jón sterki úr Kjósinni.

Í Þingvallakirkju lauk fyrirlestri Jóns og þar greindi hann frá mótlæti Páls og sonamissi á efstu árum hans. Um fornyrði lögbókar, merka bók Páls, fjallaði sagnfræðingurinn frá Torfalæk að lokum en gestir þáðu súkkulaðibolla í fundarlok á kirkjuhlaðinu.

Jón biskup Vídalín, jafnaldri Páls og frændi á fræga Kaldadalsvísu:

Herra guð í himnasal
haltu mér við trúna.
Kvíði ég fyrir Kaldadal
kvelda tekur núna.

Yngri ljóðasmiðir hafa ýmsir lagt leið sína um Kaldadal, kannski sumir í andanum, en Hrútfirðingurinn og kennarinn, Böðvar Guðlaugsson gerir sér lítið fyrir og tekur Jónas Hallgrímsson/Ferðalok með sér í ferðina og jafnvel stúlkuna hans. Líklega hefur það þó verið yngra fljóð sem Böðvari fylgdi, eða hann því:

Kroppuðum við af rifi
á Kaldadal,
hugðum hangikjöt vera,
drukkum við úr brúsa
daunillt og rammt
Kaabers-kaffi með.

Austur fyrir Langjökul fór skáldið líka með stúlkunni:

Hímdum við í tjaldi
á Hveravöllum,
sífraðir þú um svengd,
fleygði ég í fússi
flatkökuparti
í þig, ástin mín.

Tilvísanir:
Kersknisvísur Páls Vídalín um Halldóru sýslumannsfrú í Bólstaðarhlíð: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=26876
Beinakerlingarvísur: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?ID=8 Lýsing Óskar Halldórssonar lektors á beinakerlingavísum: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?VID=24649
Ferðavísur: http://bragi.info/hunafloi/visur.php?ID=47
Jón biskup Vídalín í wikipediu: https://is.wikipedia.org/wiki/J%C3%B3n_V%C3%ADdal%C3%ADn
Böðvar Guðlaugsson: http://bragi.info/hunafloi/ljod.php?ID=4962
Síðasta stökuspjall: https://www.huni.is/index.php?cid=13905
Nokkur eldri: https://www.huni.is/index.php?pid=13
Messupistill frá sumri 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13102
Nokkrar línur/IHJ á hörpu 2017, minnt á messu 20. ágúst n.k.: http://stikill.123.is/blog/2017/05/10/764889/  
Ferðalok eftir Jónas Hallgrímsson: http://jonashallgrimsson.is/index.php?page=ferdalok

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg

Húnahornið - Fréttavefur allra Húnvetninga