Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 29. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 20:48 0 0°C
Laxárdalsh. 20:48 0 0°C
Vatnsskarð 20:48 0 0°C
Þverárfjall 20:48 0 0°C
Kjalarnes 20:48 0 0°C
Hafnarfjall 20:48 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
Langidalur ofan úr Tungunesmúla. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Langidalur ofan úr Tungunesmúla. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Pistlar | 10. apríl 2024 - kl. 13:57
Stökuspjall: Kominn af hafi
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Láttu smátt, en hyggðu hátt
heilsa kátt, ef áttu bágt.
Leik ei grátt við minni mátt
mæltu fátt og hlæðu lágt. Einar Benediktsson

Tvö við undum túni á.
Tárin dundu af hvarmi.
Mig lét hrundin haukleg þá
hvítum bundin armi. Kristján Jónsson Fjallaskáld

Bíddu rótt, sé boðið ótt,
blekktist fljótt, sá gladdist skjótt.
Gráttu hljótt, því þor og þrótt
í þunga nótt hefur margur sótt. EB

Einn ég gleðst og einn ég hlæ
er amastundir linna.
Aðeins notið einn ég fæ
unaðsdrauma minna. KJ

Allra þjóða efst á blað
oss þá menning setti
þegar stóð vort alþing að
Íslands kvenna rétti. EB

Allt er kalt og allt er dautt
eilífur ríkir vetur.
Berst mér negg í brjósti snautt
en brostið ekki getur. KJ

Hefjast yfir stund og stað
stef sem þjóðin unni.
Máist skrif og blikni blað,
bindast ljóð á munni. EB

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland,
nú á ég hvergi heima. KJ                     

Mamma og amma höfðu dálæti á þessum skáldum, Jósefína amma á Kristjáni, vildi þó síður að ég væri mikið að grúska í ljóðum hans, hann var svo bölsýnn, sagði hún, en ljóðin Einars áttu hljómgrunn hjá mömmu og mörg voru skáldin fleiri sem þær lásu á stopulum frístundum frá búskap og barnaþys. Veiðimaðurinn, ljóð Kristjáns, var í uppáhaldi hjá okkur ömmu og það kemur á stundum upp í huganum á rölti um annan skóg – og kyrrlátan árnið við Taglaskóg á Skeiðum. 

Ólík voru kjör skáldanna tveggja sem ortu versin þessi – ofar skráð. Sýslumannssonurinn Einar fæddist 1864 á Elliðavatni en Kristján norður í sýslu 22 árum fyrr, kenndur við Hólsfjöll, náði ekki 27 ára aldri, lést tíu árum fyrr en móðir hans, in hagmælta Guðný.

Einar eldri, ríkur bóndi á Reynisstað, stúdent og umboðsmaður byggði Reynisstaðarkirkju 1868, móðurfaðir Einars skálds og tengdafaðir Benedikts sýslumanns á Héðinshöfða og Elliðavatni.

Til Katrínar Einarsdóttur, móður sinnar, orti Einar af orðgnótt og hlýju stórbrotið ljóð, 10 erindi alls:

1. Móðir. Ég sigli minn sjó fram á haust.
Til suðurs hver fold er í kafi. —
En Sóley rís úti, sveipuð laust
í svellgljá og kvoldroða-trafi.
Hér á að draga nökkvann í naust.
Nú er ég kominn af hafi.

2. Í borga og stranda streymandi sveim
mín stjarna leit til þín í vestur; —
því hvar er svo fátt sem í hópsins geim
eða hljótt sem þar glaumur er mestur?
Og venur það ekki viljann heim
að vera hjá sjálfum sér gestur?

3. Í förum, við öldu og áttar kast
margt orð þitt mér leið í minni.
— Draumarnir komu. Ég lék og þú last
í lítilli stofu inni.
Hvort logn var á sæ eða bára brast
þú bjóst mér í hug og sinni.

4. Við spor hvert um Bifröst, að Heljar hyl
til himins vor tunga hjó vörðu.
Þú last — þetta mál með unað og yl
yngdan af stofnunum hörðu.
— Ég skildi að orð er á Íslandi til
um allt sem er hugsað á jörðu.

5. Þú elskaðir stökunnar máttuga mál
myndsmíð vors þjóðaranda
þar ættirnar fága eldgamalt stál
í einvistum fjalla og stranda
— við öræfamorgunsins brúnabál
við brimþunga mannauðra sanda.

6. Frá árbjarma fyrstu æsku ég man
óm þinna glötuðu stefja.
Enn finnst mér ég heyra fjallasvan
í fjarska sín vegaljóð hefja.
— — Svo finn ég, hjá ísunum, móðurman
í mjúku fangi mig vefja.

 7. En þar brástu vængjum á fagnandi flug
sem frostnætur blómin heygja.
Þar stráðirðu orku og ævidug
sem örlög hvern vilja beygja.
— Mér brann ekkert sárar í sjón og hug
en sjá þínar vonir deyja.

8. En bæri ég heim mín brot og minn harm
þú brostir af djúpum sefa. —
Þú vógst upp björg á þinn veika arm;
þú vissir ei hik eða efa.
Í alheim ég þekkti einn einasta barm
sem allt kunni að fyrirgefa.

9. Og þegar ég leiddi í langför mitt skip
og leitaði fjarlægra voga
ég mundi alltaf þinn anda og svip.
— Þú áttir hjarta míns loga.
Og þitt var mitt ljóð og hvert gígjugrip.
Þú gafst mér þinn streng og þinn boga.

10. Dagar þíns lífs, þínar sögur, þín svör
voru sjóir með hrynjandi trafi.
Móðir. Nú ber ég þitt mál á vör
og merki þér ljóðastafi.
Til þess tók ég fari, til þess flaut minn knör.
Til þess er ég kominn af hafi. EB

Merkilegt og ótrúlegt er, að Kristján skuli finna skjól fyrir veiðimanninn, hugsmíð sína, vestur hjá fljótinu Missisippi, en heillandi er lýsingin, myrkviðurinn, fjarski, framanleiki – og verður enn lengra en ljóðið Einars, nýbirt:

Veiðimaðurinn

1.
Þar Missisippi megindjúp fram brunar
í myrkum skógi og vekur straumanið
þar aftangeisli´ í aldingulli funar
og undarlegan hefja fuglar klið
þar sem að úlfar þjóta um skógargeima
og þreyttur hjörtur veiðimanninn flýr
þar voðaleg með varúð áfram sveima
í vígahug hin skæðu panþerdýr.

2.
Þar sat um kvöld er sólin undurblíða
í sigurdýrð að ægi hníga vann
og hvössum augum horfði á strauminn stríða
er stöðugt gegnum bjarkasali rann
með höndum tengdum halur veiðilúinn
og hafði byssu lagt á græna storð
rammlega vaxinn, röggvarfeldi búinn
við raust hann kvað og mælti þessi orð:

3.
Hver er svo einn og hjálparlaus í heimi?
- hugur minn þannig ósjálfrátt að spyr. -
Hver er svo langt í lífsins öfugstreymi
liðinn frá öllu sem hann unni fyr? -
Horfin er æska og æskuvina fjöldi
og unglingssálar munardraumalíf.
Líf mitt ég yfir lít á þessu kvöld
og langt í geimi minninganna svíf.

4.
Fæddur er ég á Frakka mæru vengi
foreldrar mínir göfgir bjuggu þar
í bernsku las ég blóm á Signárengi
í blíðum hug og glaður jafnan var.
Leiksystur mínar leiddi ég við síðu
og ljúfum bræðrum ungur dvaldi hjá
Sýndu mér allir sanna ást og blíðu
sýndist mér heimur fagur vera þá.

5.
Man ég þig, París, minnar æsku vagga
þinn margtöfrandi yndislega glaum
er sífellt reynir sorgir manns að þagga
og svæfa allt í munarværum draum.
Man ég er gullinn gígjustrengur dundi
og gómsætt vín á mærri freyddi skál
vonglaður ég hjá vinum mínum undi
og vissi´ ei neitt um heimsins svik og tál.

6.
Ó, man ég líka meyjaraugað svarta
og munarvakið bros á heitri vör;
litfagra hönd og lokkasafnið bjarta
í læðing ástar sem að bindur fjör.
Þá dreymdi mig um dýrð og himinsælu
en dulin eigi þekkti nornaráð.
Ég lifði sæll sem lilja´ í morgunkælu
er laugar hana silfurdaggar gráð.

7.
Nú eru fölvar fagrar æskurósir
og fallið laufið grænt af visnum kvist´
hrímgaðir ellihélu lokkar ljósir
horfinna daga frægð er týnd og misst.
Er yfir svífur ævi hörmum skyggða
einungis lítur hugasjónin snör
eiðbrigði, vinslit, ástarrof og tryggða
einfeldni tælda og margs kyns heimskupör.

8.
Nei, ég vil ekki raunir mínar rekja
né ræða margt um liðna ævitíð
í sollnu brjósti svipi liðna vekja
svikulum heimi til að rista níð.
Frá minna bernskubragða sjónarsviði
ég burtu hélt um lönd og kaldan sjó.
Um langa stund ég leitað hef að friði
og loksins fundið hann í þessum skóg.

11.
Hér vil ég una hinstu lífs um stundir
og hvílast eftir runnið æviskeið.
Í bjarkaskjóli blöðum visnum undir
ég blunda sætt og laus við alla neyð.
Náttgalinn ansar andlátsstunum mínum
og aftangolan feykir þeim með sér
en heimurinn með heimskupörum sínum
hann hlær þá dátt og veit ei grand af mér.

12.
Og þá er sól að sævardjúpi líður
og síðsta geisla slær á þennan lund
þá fram minn svífur svipur angurblíður
og situr hér um þögla næturstund
og brosir móti blíðum stjörnuljóma
sem brosti´ eg fyrr um mærrar æsku tíð
og hverfur svo á beði lágra blóma
er bjarmi morguns roðar fjallahlíð. KJ

Að reika um sali Safnasafnsins undir Vaðlaheiði var nokkuð sem móðir mín, Sigríður/SÓl, hafði dálæti á, skiptast á orðum við þau góðu hjón Magnhildi og Níels, skoða blóm og listaverk, tala um blóm og þiggja blóm úr þessu magnaða húsi þar sem unnið er allt árið, þar er alltaf framboð af nýjum sýningum úr ýmsum landshlutum. Svo kliðar lækur hjá klettinum, þ.e. fyrir norðan húsið, sprettur út úr vegbrautinni, gegnum gamla trjálundinn sem eitt sinn var komið til af gefandi höndum og huga – þarna við skólahúsið gamla, og þinghúsið. Og mamma gladdist af einlægni þegar hún fékk í hendur sýningarskrána vestur á Blönduósi eftir að hún hætti að treysta sér í norðurferðir og heilsa upp á sali og söfn – í safnasafninu, alþýðusafninu undir heiði.
Of sjaldan gengur maður þarna um sali, einn á kreiki oftast, rölti stofu úr stofu, hugleiði eigið dugleysið, að drífa ekki upp rútu, safna í hann fólki, kannski allt vestan úr Hrútafirði og allar sveitir austur þaðan, gera hingað ferð hvert sumar, helst hvern sumarmánuð og sjá hverju þessu ötulu listamenn fá áorkað, en úr því ég lagði ekki í þennan gjörning fyrir tíu árum þá verður ekki úr því. En fullviss er ég, og var ekki síður þá, að þessi að leitandi listaheimur, yrði besta tæki til að losa samfélög við nagg og nöldur, yfirgang og langrækni. Óþolandi verður álasið þegar aldur færist yfir, þá leyfist manni að setjast að ljóðum. Og myndum. Og minningum.
En vel skal þakka, að við eigum þessa frambjóðendur listar undir Vaðlaheiði.
Og nýr hefur bæst við, Stefán í Leifshúsum, einnig undir Vaðlaheiði, ég hitti ´ann í vetur.
Og smíðar með hlýjum huga.
Óhræddur og hiklaus.
Tekur hleðslu á vegg fram yfir grjótkastið.
Reynum fleiri svo að gera.

Ítarefni:
Merkurstofa: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=20932
Öræfatign: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13867
Merkurfréttir 1917: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17850
Af Æsustaðahlaði: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18974  
Boð í Leifshús: https://new.leikhopar.is/2020/09/27/vinnustofudvol-a-thorisstodum-i-eyjafirdi/   

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið