Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 20. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 21:10 0 0°C
Laxárdalsh. 21:10 0 0°C
Vatnsskarð 21:10 0 0°C
Þverárfjall 21:10 0 0°C
Kjalarnes 21:10 0 0°C
Hafnarfjall 21:10 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Tungunes Svínavatnshreppi um 1950. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur Húnavatnssýslu / Björn Bergmann
Tungunes Svínavatnshreppi um 1950. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur Húnavatnssýslu / Björn Bergmann
Pistlar | 09. maí 2024 - kl. 17:30
Þættir úr sögu sveitar: Jón Gíslason niðursetningur á Tindum
74. þáttur. Eftir Jón Torfason

Umræða um þennan mann gæti svo sem átt heima hvar sem er í þessum pistlum en tilheyrir að nokkru Köldukinnarþáttunum því Filippía Jónsdóttir kemur nokkuð við sögu.

Eins langt og heimildir ná var umönnun þeirra sem stöðu höllum fæti eitt helsta verkefni samfélagsins og í Grágás eru ákvæði um framfærslu þurfamanna, vegna heilsuleysis og elli, slysa eða dauðsfalla, þ.e. munaðarlausra barna, öryrkja og gamalmenna. Á öllum hvíldi ákveðin framfærsluskylda gagnvart skyldmennum sínum eða náungum en hrepparnir sinntu einnig að verulegu leyti lengi fram eftir öldum. Smám saman færðist framfærsluskyldan frá fjarskyldari ættingjum til sveitarfélags og/eða ríkis á síðari árum. Ábyrgð ættingja, annarra en þeirra nánustu, var nokkuð víðtæk og gat tekið til þremenninga og jafnvel fjórmenninga og var eðlilega misjafnt hvað einstakir menn töldu sig skylduga til að styðja lítið skyld ættmenni sín, sem þeir jafnvel þekktu ekkert. Sömuleiðis var misjafnt hvort sýslumenn fylgdu þessu eftir. Þessari „ábyrgð“ minna skyldra ættingja var endanlega sópað burt með lögum frá 1834 en þá var framfærsluskyldan bundin við foreldra og börn. Um aldamótin 1800 var settur yfir Húnavatnssýslu norskur sýslumaður, Krog að nafni, sem virðist hafa reynt að blása lífi í þessar fornu ábyrgðir og eru til slitrur af skjölum um þá viðleitni hans (og e.t.v. annarra) í þessu efni. Hér skal rakið eitt dæmi.

Jón Gíslason hét maður, alinn upp í Tungunesi sem niðursetningur, varð síðar vinnumaður á ýmsum bæjum en drukknaði í Húnaósi sumarið 1840 ásamt þremur mönnum öðrum. Ólafur Bjarnason í Tungunesi ritaði sýslumanni bréf í árslok 1803 og mæltist til þess að ættingjar Jóns litla tækju þátt í framfærslu hans:

       Tungunesi d. 14. desember 1803.

       Pro memoria[1]

       Í undirgefni framfæri ég undirskrifaður ástand mitt sem ég bið hr. sýslumanninn að álíta eftir ásigkomulagi. Ég hef haldið og framfært, síðan á næstliðnu vori, fjörga vetra gamalt barn að nafni Jón Gíslason, fyrir eins þess náunga bón og foreldra tilmæli, hver að eru bæði í bágu standi og álítast ófær til að bjarga þessu sínu barni. Faðirinn er ...[2] vanfær og getur ei unnið sér til matar nema lítið við sjó, þar til örfátækur. En móðirin er hjá fátækum húsbændum í víst sem ei geta framfært hana, fer hún svo manna á milli sér til bjargar, þar til fátæk og félaus. Áður taldra orðsaka vegna, á foreldranna síðu, hef ég ekkert upp borið í meðgjöf af þeirra hendi þetta ár, en þó hef ég ekki aftekið að halda þetta barn til næstkomandi vordaga ef lifi.

       Hér með fylgir að nefna þá náunga sem skyldir eru áðurskrifuðu barni í móðurætt þess, nefnilega:

       1. Bóndinn Þorvarður Þorvarðsson á Guðrúnarstöðum í Vatnsdal sem er ömmubróðir barnsins. Hann hefir gefið á næstliðnu hausti fjögra vetra gamlan sauð með barninu.

       2. Hólmfríður Gísladóttir, gömul kona en þó efnug að peningum. Hún er afasystir barnsins og er til heimilis á Ljótshólum í Svínadal. Þar er og svo búandi sonur hennar, Árni Pétursson, og hjá honum systir hans, Helga Pétursdóttir, bæði nokkuð efnug. En ekki er neitt af þeirra hendi í meðgjafar skyni til mín komið, en hefur þó lofað verið litlum styrk.

       3. Ekkjan Sigríður Jónsdóttir búandi á Sauðanesi í Torfalækjarhrepp. Hún er að skyldugleika við barnið öðrum og þriðja í þess móðurætt. Frá henni er mér í hönd komið í meðgjöf með barninu 34 skildingar og eitt lamb.

       4. Gísli Jónsson búandi á Skúfi í Norðurárdal. Hann er vel megandi maður og að frændsemi við barnið að öðrum og þriðja. Hann hefur ekkert til lagt í meðgjafarnafni.

       5. Filippía Jónsdóttir búandi á Köldukinn í Torfalækjarhrepp. Hún er að tengdum við barnið öðrum og fjórða í þess móðurætt og nokkurn veginn efnug, og svo hennar börn til heimilis á sama bæ. Ekkjan og þessi hennar börn hafa tillagt barninu á næstliðnu hausti eitt lamb, rúgfjórðung og eitt pund garn á 16 skildinga. Þetta hér að framan talið hafa náungar barnsins tillagt því til framfæris yfirstandandi ár.

       Ennnú eru ...[3] náungar til í móðurætt barnsins sem eru:

       1. Guðrún Jónsdóttir, eigingift kona búandi á Torfustöðum í Svartárdal, vel efnuð. Hún er að tengdum við barnið öðrum og fjórða, hefur ekkert tillagt.

       2. Gróa[4] Jónsdóttir, eigingift kona búandi á Hurðarbaki í Torfalækjarhrepp. Hún er miður efnug en eins skyld að frændsemi við barnið og áðurnefnd Guðrún. Gróa hefur og svo ekkert tillagt því til framfæris.

       En föðurfrændur barnsins veit ég ei að telja því faðir barnsins er ættaður vestan af landi.

       Áðurnefnt barn og þess foreldrar  eiga hér engva sveitar tiltölu í Svínavatnshrepp.

       Nú bið ég yður auðmjúklega svo vel gjöra og leggja úrskurð og yðar góð ráð til að þetta oftnefnda barn komist á þess náunga sem ég hér að framan hef upp talið, á næstkomandi vori, því ég held það ei lengur vegna þeirrar orðsakar að hér er á sveitarstyrk komið bróðurbarn konu minnar sem hreppstjórar hér tilhalda mér að taka vegna þessara tengda, hverju ég er ei mótfallinn.

       Þessu til staðfestingar er mitt undirskrifað nafn,

       Ólafur Bjarnason

       Vitna sannferðugt undirskrifaðir,

       Magnús Gamalíelsson, Bjarni Bjarnason, Jón Benediktsson

Þann 20. desember skrifa vottarnir eins konar staðfestingarbréf til sýslumannsins sem er torvelt aflestrar og þarf varla að skrifa upp hér, er eins konar viðurkenning um að tilmæli Ólafs séu sönn.

Af bréfi sem Ólafur skrifar fjórum árum síðar sést að sumir ættingja Jóns afhentu Ólafi í Tungunesi fémuni, einkum kindur eða lömb, til að styrkja framfæri barnsins, en alls ekki allir:

       Tungunesi d. 16. janúar 1808.

       Auðmjúkast[5] P.M.

       Ég undirskrifaður finn mig orðsakaðan að leita yðar veleðlaheita úrskurðar upp á eftirfylgjandi umkvörtun mína, svo látandi.  Eftir mér sendri P.M. frá hr. sýslumanni Krog upp á náunga tillag með þarnefnd[um] dreng Jóni Gíslasyni, sem hjá mér hefur til forsorgunar búið 7 ára tíma, þá hafa eftirfylgjandi náungar nefndum dreng ekkert tillagt, nefnilega Gísli á Skúfi, Valgerður kona Einars á Þverárda[l], þriðja og fjórða við barnið.

       Ekkjan Filippía á Köldukinn hefur eftir tiltölu lagt nefndu barni, en síðan hún fékk sína fjármuni börnum sínum í hendur, Halldóri og Guðrúnu nú búandi á Köldukinn, þá vilja þau ekkert til leggja. Hinir aðrir náungar hafa tillagt nokkurn veginn eftir tiltölu, en sérlegast Þorvarður á Forsæludal sem lagt hefur barninu ótilkvaddur síðan það fæddist. Við hér nafngreinda náunga hefi ég nefnt ákvarðað tillag þeirra og hafa þeir öngu góðu viljað til svara, hvar fyrir ég bið yður svo vel gjöra og innkalla þeirra ákvarðað tillag, svo framt þér álítið þá skylduga þetta útsvar að tilleggja.

       Upp á framan- og ofanskrifað vona ég náðugrar áheyrslu.

       Auðmjúkast,

       Ólafur Bjarnason

Gísli Jónsson á Skúfi, að öðrum og þriðja við barnið, taldi fram ástæður til þess að borga ekki sumarið 1808:

       Með[6] því líklegt er að mér nýskeð auglýstur úrskurður herra sýslumanns Sigurðar Snorrasonar af 21. apríl þ.á. upp á framfæristillag af minni hendi í skyldugleika skyni til barnsins Jóns Gíslasonar að Tungunesi, komi til af ókunnugleika sem von er, þá hlýt ég í háttnefnds yfirvalds trausti undirgefnast frammi færa mína sannferðuga afsökun sem eftir fylgir:

       Skikkunar fyrrum sýslumanns, hr. W.F. Krog af 19. júlí 1804, sem mér var nú fyrst í gærdag birt, upp á áðurnefnds barns framfæris tillag, hefur enginn getið við mig frá því hún var útgefin og til þess í fyrravor, að Ólafur Bjarnason í Tungunesi sagði mér frá, að ég með greindri skikkan væri skyldaður að leggja til framfæris barninu Jóni Gíslasyni, hafði þó ekki skikkunina sama sinn við hönd að framvísa. En vegna þess að ég líka svo hefi þess sama sýslumanns, nú fógeta,[7] Krogs skriflega tilhlutan og góð tilmæli af 18. ágúst 1804, að taka til framfæris eitt minna þá lifandi bróðurbarna, að viðlagðri skikkunarhótan, ef ég það ei annars undir gengist, svo vona ég að verða álitinn frí og kvittur við framfæris skyldutillag mér fjarskyldari ómagans, Jón Gíslasonar, frá þar upp á hljóðandi yfirvaldsins skikkunar dato og inn til þessa dags, þar strax um haustið 1804 tók að mér eitt mitt bróðurbarn þá óuppfrætt og hartnær nakið, eftir háttnefnds sýslumanns tilmælum, og hefi það síðan inn til þessa undirhaldið og kunna aðrir bera vitni um, hvört það hafi síðan brostið uppfræðing eður annað nauðsynlegt. Samt er þetta barn enn í ómegð og ekki sjálfu sér bjargandi að sinni.

       Þess vegna, nær kona mín skal árlega leggja nokkurn framfærisstyrk hennar systurbarni, eftir auglýstri skikkan, og ég framvegis annast þetta mitt bróðurs barn eftir áður sögu, get ég ekki efast um að núverandi sýslumaður, hr. S. Snorrason, hafi mig afsakaðan frá framfæris tillagi til annarra fleiri ómaga og því tekin fyrir þar til miðandi aðför eftir hans eigin góðri nærgætni og réttvísi, upp á hvöjra ég mig auðmjúkast forlæt.

       Skúfi d. 14. júní 1808,

       Gísli Jónsson

Ekki verður séð að sýslumaður hafi aðhafst neitt í þessu máli, enda upphafsmaðurinn Krog farinn af landi brott, og óvíst hvort ættingjarnir hafi greitt með Jóni litla næstu árin, því skv. hreppsbók Svínavatnshrepp 1790-1820[8] var hann, að minnsta kosti að hálfu leyti, kominn á framfæri Svínavatnshrepps 1811, en áfram dvaldi hann í Tungunesi. Listinn um greiðslur með honum er svona og má hafa í huga að meðalmeðlag með barni voru 240 fiskar á ári:

1811 er greitt með honum 200 fiskar, „kominn til létta.“
1812 er greitt 180 fiskar. Móðir hans gefur þá með honum 2 rd.
1813 er greitt 140 fiskar.
1814 er greitt 102 fiskar (Jón orðinn 14 ára), „smalamennska.“
1815 er greitt  53 fiskar. Hér eru ummæli um hann 1815: „Mikið lítill vexti, getur smalað fátt fé á sumardag og nokkuð ......[9] við það um vetur, orkulaus og klæðlaus og yfir höfuð aumingi, kann ekkert að slá. Er til veru í Tungunesi þetta ár.“
1816 er greitt 39 fiskar (16 ára).
1817 er greitt 34 fiskar (17 ára). Þetta ár er síðast greitt með honum.

Jón Gíslason mun fermdur árið 1815, þá talinn 15 ára, og kann bænir nokkurn veginn og er nokkurn veginn læs. En líkamsburðir hans til vinnu hafa líklega aldrei verið miklir. Hann var lengst af vinnumaður á ýmsum bæjum í Svínavatnshreppi en ævilokin urðu þau að hann drukknaði í Húnaósi 14. júlí 1840 ásamt þremur mönnum öðrum. Raunar er ýmislegt óljóst um það slys en það er önnur saga.


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 6.
[2] Óljóst krot sem svarar einu orði.
[3] Óljóst krot sem samsvarar einu orði.
[4] Frá Gróu segir m.a. nokkuð í þáttum nr. 63 og 64.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 9. Skammstöfunin „PM“ merkir „pro memoria“, þ.e. til minnis og mundi nú á dögum líklega vera kallað minnisblað.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 9.
[7] Krog varð fógeti í Noregi eftir að Íslandsdvöl hans lauk.
[8] Varðveitt á Héraðsskjalasafni Austur-Húnvetninga á Blönduósi.
[9] Hér eru tvö orð sem torvelt er að ráða í en hljóta að merkja að hann geti eitthvað sinn fjárgæslu á vetrum.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið