Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 27. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 11:02 0 0°C
Laxárdalsh. 11:02 0 0°C
Vatnsskarð 11:02 0 0°C
Þverárfjall 11:02 0 0°C
Kjalarnes 11:02 0 0°C
Hafnarfjall 11:02 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Brún í Svartárdal 1928. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Brún í Svartárdal 1928. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Pistlar | 18. mars 2024 - kl. 16:05
Stökuspjall: Hér er ekkert vað!
  1. Eiðsstaðir – Eldjárnsstaðir – Brún
     
  2. Anna Hannesdóttir á Brún var flutt til Akureyrar síðla vetrar 1904. Hún var veik af berklum. Þar var Guðmundur bróðir hennar, síðar prófessor, þá héraðslæknir. En sú för reyndist erindisleysa. Jóni á Brún, manni hennar barst bréf snemma á slætti þar sem Guðmundur læknir tjáði honum að Anna biði dauðans. Þar væri um hann einan að ræða um úrlausnir á vandamálum hennar. En þessari fregn fylgdi það og, að Anna óskaði þess að sjá Jón áður en yfir lyki sem ekki gæti oltið á löngum tíma.
     
  3. Í janúar 1904 varð Sigurður, elsti sonur Brúnarhjóna 6 ára, en móðurlaus varð hann þetta sumar, móðir hans, Anna, lést 13. september:

                            Fornir atburðir

    Það stendur allt svo óljóst fyrir mér
    sem yst við hafsbrún, fjarst á kvöldsins vegi
    þá lýsuvott í bleikrautt mistur ber
    sem bjarma upp af liðnum sólskinsdegi.

    Hvert atvik breiðir gleymskan grisju á
    og grefur það í slæðum margra tíma.
    Og sum eru rauð, en önnur ísablá
    og ein á lit sem krapahríðar-gríma.

    Ég leitast við að lyfta slæðum frá.
    Hver liðin stund er sleip og þung í hendi.
    Og atvik hvert, er eg vil ljósar sjá
    fær ennþá nýjan blæ, ef slæðu ég vendi.

    En hvað er satt og hvað er litum lagt
    með lognum blæ og slikju seinni ára?
    Það get ég ekki lengur sjálfur sagt.
    En sum er ávallt litað móðu tára.

     

  4. Hún var eins og vaggandi móðir
    Hún var eins og lognalda á hafi.
    Hún var eins og brekóttur bróðir
    jafn brosmildur vandræðagjafi. 

    Og enn er hún ásthlý sem móðir
    og enn er hún voldug og breytin.
    Og enn er hún erfiður bróðir
    ertin og blekkingaleitin.

     
  5. Hér yrkir Sigurður um stökuna, orðlistin og óðurinn fylgir þessum syni húnvetnsku dalanna, systursyni Páls á Guðlaugsstöðum og Guðmundar læknis og prófessors Hannessona, en Jón Sigurðsson, faðir hans, alinn upp við nið jökulelfunnar innar í dalnum, á Eldjárnsstöðum í Blöndudal:

    Ég kveð ei þann hátt sem ég kunni.
    Ég kann ekki allt sem ég lærði.
    En stökunni ungur ég unni
    og yndi mér löngum hún færði.

     
  6. Ljóðhús í Mjódd verða í apríl, þ.e. fi. 11.4:
    Þegar tvær vikur verða til sumars, ætlum við að efna þar til samkomu og lesa ljóð Sigurðar frá Brún.
    Það verður í Mjóddinni, safnaðarheimili Breiðholtskirkju fimmtud. 11. apríl kl. 14. Og kleinur eru með kaffinu.
    Sigurður var kennari, hestamaður og gott skáld, er þekktur af ferðabókum sínum, átti nokkurt stóð, sem hann unni eins og landinu sínu.

     
  7. En þau voru bæði uppalin við Blönduniðinn, Brúnarhjón og Sigurður naut ekki lengi umsjónar þeirra og hlýju, sex ára missti hann móður sína en föður á útmánuðum 1912 og þá var hann fjórtán ára.
     
  8. Anna Hannesdóttir Brún 1879 – 1904
    Jón Sigurðsson Brún 1861 – 1912

     
  9. Nokkur uppboðsnúmer á Brúnarhlaði 10. maí 1912
    37. Tóbaksfjöl og járn          0.25 Jónas í Brattahlíð
    38. Steðji og klappa            4.20 Sigfús Eyjólfsson í Hólum
    39. Panna og fl.                  0.35 Pálmi á Löngumýri
    40. 10 hnappheldur            2.15 Pétur á Bollastöðum
    41. 6 hnappheldur              1.35 Benedikt Ytra-Tungukoti
    42. 5 sömul.                      1.10 Þorsteinn í Austurhlíð
    43. 5 sömul.                      1.10 Páll í Sauðanesi
    44. 4 sömul.                      1.00 sami
    45. 5 hnappheldur              1.10 Jósafat á Brandsstöðum
    46. Kassi og fl.                   0.20 Sigvaldi á Hrafnabjörgum
    47. Tína og fl.                    0.10 Jóhann á Torfustöðum
    48. Kassi með kolum          0.10 Jónas í Brattahlíð
    260. Brúnn hestur 6.v.      156.30 Páll í Sauðanesi
    261. Grá hryssa 16 v.         76.00 Jón á Steiná
    262 Grá hryssa 13. v.       100.00 Jón Jónsson á Völlum
    276. 1 kýr                       136.00 Páll á Guðlaugsstöðum
    277. Kálfur                        13.00 Sigvaldi á Skeggsstöðum

     
  10. Virðing á db. Jóns á Brún hafði farið fram þ. 19. apríl ´12, en þar voru m.a. taldar skuldir 16 sveitunga og nágranna við búið og þeir sem mest skulduðu voru t. d. presturinn á Bergsstöðum:
    sr. Ludvig Knudsen                             340.00
    Sveinbjörn bóndi á Mælifellsá              340.00
    Gunnar á Fjósum                                300.00
    Sigurður á Leifsstöðum                       300.00
    Sigfús í Blöndudalshólum                    125.00

     
  11. En Sigurður var snemma barn sinnar ættar, einhuga og ráðgjarn segir Guðm. Jósafatsson í grein sinni í Súlum um sveitunga sinn: Þessi ráðabreytni – sala á jörð og búpeningi – var honum þvert um geð.
    „Hann unni umhverfinu og munu hross föður hans hafa átt þátt í þeirri þrá sem þó mun hafa verið færð undir þrákelkni og höfð að engu. Brún var seld og honum þó þvert um geð. Hann hlaut aðeins fáein hross úr búi föður síns að fráteknum nokkrum bókum og einni fangakistu frá Geitaskarði, sem nú myndi talin til gersema ef vís væri og heil. En hún varð að leiksoppi  eyðingarafla allmörgum árum síðar og þá enn í eigu Sigurðar. En höfuðsök þessarar lokasögu hennar var stærðin. Fæstar bæjardyr tóku hana án spellvirkja. Kistan var úr eik og svo járngirt að fágætt var og hef ég enga séð slíka."

     
  12. Læt ég vaða léttfætt hross
    langar traðir frera
    vötn og hvað sem ætlar oss
    allra faðir mera.

     
  13. Reiðhross með rykugar nasir
    rymja og hósta og frýsa.
    Þjáir þau hungur og þorsti.
    Þau ættu ferðum að lýsa.

    Þessi ofanskráða staka er lokavísa stutts ferðaljóðs, en fyrsta vísan er:

    Aftur skal haldið til auðna.
    Upp eftir nauðblásnum hlíðum,
    svarta og þreytandi sanda
    saman við félagar ríðum.

     
  14. Guðmundur skáldbóndi á Kirkjubóli orti eftir Sigurð:
    Þegar lagt er upp að morgni
    er bjart frá brún að sjá
    til bláfjalla í austri
    og sól á sléttafelli
    og trippin rekast vel
    yfir heiðina-há
    um huldumannabyggðir
    hjá gangnamannahelli.
    Þó hnyklist úði grár
    um þröm og fremrafall
    þú finnur þér í hjarta bjarnaryl.
    Það kynni að reynast vandratað
    um kolugafjall
    en kannski verður áð við skáldagil. GB

     
  15. Vinir voru þeir Sigurður og Höskuldur á Vatnshorni og sendu stundum keskni sín á milli, en fegurð máls og foldar átti þó ríkulegra skjól í skáldaheimi þeirra eins og sést af sögunni þegar Sigurður gisti hjá vini sínum og tapaði reiðbeisli.
    Leið svo á annað ár en þá gekk sonur Höskuldar fram á beislið.  Höskuldur settist óðar niður og ritaði Sigurði bréf:

    Beislið er fundið, brunnið leður
    brúnar stengur af ryði
    minnir þó enn á maíveður
    mettað af fuglakliði
    fallegar merar, folöld skjótt
    fáka með strengda kviði
    fannst mér í gær og fram á nótt
    sem framhjá mér þetta liði. HE

     
  16. Sigurður var bóndi í Fnjóskadal um skeið. Hann var oft fylgdarmaður náttúrufræðinga og leiðsögumaður um landið og var hinn mesti ferðagarpur. Þá starfaði hann lengi við barnakennslu. Sigurður átti heima í Reykjavík frá 1956 til æviloka. Hann ritaði fjölmargar blaðagreinar og eru eftir hann bækurnar Sandfok 1940 og Rætur og mura 1955.
     
  17. Guðmundur Böðvarsson lauk þannig Sigurðarkvæði:
    Þá glottir snöggvast til þín
    hin gamalkunna sögn
    um goðaland
    sem enginn fundið getur,
    og öræfanna kyrrð
    og öræfanna þögn
    er allt í einu grimm
    sem frostavetur.
    Loks ber þig enn að á,
    þar er hljótt og húmað að
    og hinumegin engan bakka að sjá,
    og hér er engin brú
    og hér er ekkert vað.
    Svo hleypir þú til sunds í jökulsá. GB

Heimildir og ítarefni:

Guðmundur Jósafatsson frá Brandsstöðum skrifaði um skáldið  og vin sinn Sigurð frá Brún í Súlur, ársrit Sögufélags Eyfirðinga.
Dagbjartur í Hrísum hefur safnað miklu efni um Sigurð frá Brún og auðveldaði svo stökuspjall.
IHJ – Stikill 2: Uppboð á Brúnarhlaði 1912
GB: Sigurðarkvæði: https://timarit.is/page/6285784?iabr=on&fbclid=IwAR3fZAqlmJC-CKN0yX0RVSsvzvxafTrGynCWms4aI0I97VbYtZQCv8Mq3CQ#page/n13/mode/2up/search/Sigur%C3%B0arkv%C3%A6%C3%B0i
Ljóðhús í Mjódd: Safnaðarheimili Breiðholtskirkju – að sunnan: https://www.breidholtskirkja.is/

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið