Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 30. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:48 0 0°C
Laxárdalsh. 00:48 0 0°C
Vatnsskarð 00:48 0 0°C
Þverárfjall 00:48 0 0°C
Kjalarnes 00:48 0 0°C
Hafnarfjall 00:48 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kvæði eftir Guðmund Jónsson
Kvæði eftir Guðmund Jónsson
Pistlar | 07. apríl 2024 - kl. 17:36
Þættir úr sögu sveitar: Þórunn Kráksdóttir og Guðmundur skáld
72. þáttur. Eftir Jón Torfason

Í síðasta þætti var búskaparsaga Gísla Jónssonar í Köldukinn rakin að nokkru en nú skal horfið ögn til baka og hugað að móður hans Þórunni Kráksdóttur (1863-10. september 1849). Hún bjó áfram eftir lát Jóns Halldórssonar, fyrst með börnum sínum sem voru þá enn á unglingsaldri, svo hún fékk sem ráðsmann Jón Oddsson (1786-19. júlí 1843) sem fær þennan vitnisburð við húsvitjun 1815: „Allvel læs, ljúflyndur, gáfur í meðallagi.“ Jón hefur ekki haft hug á nánari kynnum við ekkjuna heldur sótti sér konu austur yfir Blöndu, hugsanlega æskuunnustu, og kvæntist henni 1816. Hún hét Vilborg Jónsdóttir (1793-29. júní 1845) frá Þorbrandsstöðum, af harðabónda ættinni. Þau fluttu út á Skaga 1817 en rúmum 20 árum síðar aftur í sveitina, að Orrastöðum og bjuggu þar fáein ár. Dóttir þeirra var Vilborg (f. 15. maí 1824) sem giftist Birni Ólafssyni (1825-1871) bónda á Kringlu og segir síðar nokkuð frá þeim.[1]

Árin 1817 og 1818 er stúlka um fermingaraldur í fóstri hér, titluð „fósturdóttir,“ Ólöf Halldórsdóttir, það er óegta dóttir Halldórs Jónssonar, sem Þórunn Kráksdóttir og Jón Halldórsson höfðu haft jarðaskipti við og er hennar fyrr getið. Þetta fóstur kynni að benda til nánari tengsla milli þessa fólks en ættartengsla eða viðskiptatengsla, spurning hvort fóstrið er ekki einmitt í vinuáttuskyni. En um það er ekki gott að segja.

Nú kemur, vorið 1817, sem fyrirvinna Þórunnar Guðmundur skáld Jónsson (1771-2. desember 1842) og tvinnaðist æviþráður þeirra saman upp frá því. Erfiðlega hefur gengið að hafa upp á skáldskap Guðmundar en viðurnefnið mun hann hafa borið með réttu ef tekið er mið af því sem Páll  Ólafsson prestur á Undirfelli kvað um hann:

Guðmund Köldukinnar höld
kallar öld ljóðtaman,
hans útvöldu Galars gjöld
glansa fjöldum saman.[2]

Guðmundur var bróðir Ólafs bónda á Kagaðarhóli.[3] Hann hafði átt fyrir konu Katrínu Sigurðardóttur (1771-6. apríl 1813) og bjuggu þau m.a. í Tungukoti ytra (Ártúnum) og Þröm, líklega við fátækt því eftir dauða Katrínar ólust sum börn þeirra upp á sveit en Guðmundur gerðist ráðsmaður hjá Sólveigu Jónsdóttur, ekkju á Ytri-Löngumýri. Eftir dauða Sólveigar 1817 flutti hann svo að Köldukinn til Þórunnar og ári síðar ákváðu þau að rugla saman reitum sínum, eins og það er stundum orðað, og er færslan í prestsþjónustubók Hjaltabakka á þessa leið: „[Saman gefin] 18. júní 1819 í kirkju. Guðmundur Jónsson, ráðsmaður þeirrar hann egtaði, 46 ára, og Þórunn Kráksdóttir ekkja búandi í Köldukinn, 54 ára. Svaramaður hans bróðirinn Ólafur Jónsson á Kagaðarhóli; svaramaður hennar lögver[jar]i sgr. Ólafur Björnsson á Beinakeldu.  Beggja önnur gifting, morgungjöf 20 rd. í silfri, helminga fjárlag.“

Í för með Guðmundi var sonur hans og Katrínar Sigurður (26. júní 1810-17. febrúar 1859). Sigurður var vinnumaður víða en nefna má að dóttir hans var Björg fyrri kona Fritz Hendriks Berndsen kaupmanns á Skagaströnd.[4]

Sólveig  (6. apríl 1810-28. maí 1864) dóttir Guðmundar ólst upp í Svínavatnshreppi en var þó eitt eða tvö ár vistföst í Köldukinn. Hún varð síðar húsfreyja á Skinnastöðum, kona Skúla Árnasonar og Semings bænda á Skinnastöðum og kemur að því fólki síðar ef Guð lofar.

Fæðingardagar Sigurðar og Sólveigar eru skráðir eins og hér að ofan stendur í islendingabok.is og bæði talin börn Katrínar. Það eru göt í prestsþjónustubækur á þessum árum og því notaðar síðari tíma heimildir en fæðingarár annars hvors systkinanna hlýtur að vera rangt.

En árið 1818 kom hingað annar sonur Guðmundar og Katrínar heitinnar Bjarnhéðinn (1797-1825), sagður lítill vexti en knálegur og hefur vafalaust verið föður sínum stoð við búskapinn því Guðmundur var nú farinn að eldast. En á kyndilmessu 2. febrúar 1825 skall á skaðræðishríð og fórust þá bæði menn og skepnur. Gísli Konráðsson segir að sjö menn hafi orðið úti þetta ár en ekki er ljóst hvort það var um veturinn eða þennan tiltekna dag. Hann lýsir síðustu stundum Bjarnhéðins svona:

        Rak hann fé þenna kyndilmessumorgun fáklæddur en veður var ískyggilegt. Og er hann kom aftur og var hálfnaður heim að bæ sínum skall á hríðin. Sást það í því úr Langadal, er þar er gegnt, að hann sneri aftur til sauðanna. Fannst hann dauður þegar upp stytti.[5]

Hann fannst að vísu ekki fyrr en þremur vikum síðar og var jarðsettur 3. mars. Í þessari sömu hríð varð líka úti annað sóknarbarn í sveitinni, Guðrún Jónsdóttir, 75 ára gömul einsetukona og ekkja í Hjaltabakkakoti, en síðar segir nánar af henni.

Árið 1824 tíundar Guðmunur (og þar með Þórunn Kráksdóttir) 9 hundruð sem er að vísu í slöku meðallagi í hreppnum en aðrir heimilismenn tíunda samanlagt 6 hundruð, og verður þá heildartíundin þetta ár 15 hundruð. Árið eftir eru tölurnar svipaðar en 1826 er heildartíundin af Köldukinn ekki nema 10 hundruð og Guðmundur tíundar ekkert. Svo virðist sem Ólafur bróðir hans á Kagaðarhóli sé með hluta af sínum skepnum í Köldukinn. Árið 1827 er tíundin komin niður í 7 ½ hundrað. Næstu ár hækkar tíundin hægt og hægt, er 8 hundruð 1828 og 10 ½ hundrað 1829. En nú bregður svo við að Gísli Jónsson er orðinn aðalbóndinn, tíundar 6 hundruð 1828 og 7 1829 en Guðmundur aðeins 2 hundruð 1828, 3 ½ hundrað 1829 og ekkert 1830.

Það er hægt að ímynda sér að skýringin á þessu hruni sé fjárskaðinn í kyndilmessubylnum 1825, þá hlýtur að hafa farist margt fé og ekki allt saman sauðir. Verstur var þó skaðinn að Bjarnhéðni, sem hefur átt að verða ellistoð föður síns en fellur frá í blóma lífsins. Í framhaldinu hrynur búskapur Guðmundar og út frá tíundarframtalinu má ætla að hann hafi haft á sínum snærum 15-20 kindur og ekkert meira. Nokkrum árum síðar fer Guðmundur af heimilinu, raunar ekki langt, hann verður vinnumaður á Geitaskarði hinu megin við Blöndu, en Þórunn var áfram í Köldukinn.

Aftur teljast þau hjón og eru við smávægilegan búskap hér, kannski 15-20 ær, árin 1833-1835 en eftir það virðast þau skilja endanlega, Guðmundur berst um sinn vestur í sýslu en lýkur sínum ævidögum á Ytri-Löngumýri. En Þórunn Kráksdóttir átti heima í Köldukinn til dauðadags 10. september 1849.

Guðmundar er getið í lækningabók Jóns Bergsted[6] 16. desember 1833. Þar er meiðslum sem hann hlaut af byltu lýst svo:

        Þessi maður datt á svelli hvar við marðist lærhnútan um liðamótin. Var borinn heim og hefur ei getað síðan hrært fótinn fyrir aflleysi nú í 3 vikur. Svo líka hefur hann verk meira innanvert í lærinu er meinast af liða skekkju.

Við þessum þrautum var honum gefið „spirit paraliticus,“ sem er gigtaráburður, og virðist hafa batnað af en ekki hafa þessi fótarmeiðsli auðveldað honum búsýsluna.

Það er einkennilegt hvað lítið hefur varðveist af kveðskap eftir Guðmund skáld í Köldukinn, hef aðeins fundið eitt kvæði eftir hann og líklega tvær vísur ferskeyttar, þrátt fyrir talsverða leit.[7] Það á raunar við um mörg skáld að ekki hefði veröldin skaðast mikið þótt þau hefðu ekkert ort, en á svo sem ekkert endilega við um þennan mann. Hér í lokin er sálmur sem Guðmundur orti í orðastað Friðriks Sigurðssonar við aftöku hans á Þrístöpum 1830:

Líta[8] hér lýður mátt
lífs hvar eg enti skeið,
þú dauðans einnin átt
innan skamms ganga leið.
Bón minnar andar er
ei fetir sporin mín,
viðvörun verði þér,
vandist svo hegðun þín.

Vakandi veri hvör
vel meðan endist sér,
glæpanna eitruð ör
ei nái stað hjá þér.
Dauðans sárbeitta sigð
sannlega alla slær,
enginn um alheims byggð
undan því sloppið fær.

Þar um æ þenkja ber,
þessa heims tæp er vist,
lífernisháttur hér
helst þar við lagfærist.
Menn drýgja margan brest,
má því vel hvör iðrast,
eilíf náð unn þú best,
öllum að leiðréttast.


[1] Sbr. Ættir Austur-Húnvetninga bls. 1039.
[2] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 789. Galars gjöld (dvergs sem bruggaði skáldamjöðinn) = skáldskapur.
[3] Ólafur er stuttlega nefndur í þætti nr. 7 (Jón og Guðrún á Kagaðarhóli), sbr. Bjarni Jónasson í Blöndudalshólum: Litazt um í Svínavatnshreppi. Húnavaka 1978, bls. 53.
[4] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 330-331.
[5] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 620.
[6] Meinlætahnútar og mýkjandi plástrar. Lækningaiðkanir Jóns Bergsteds í Húnavatnssýslu 1828-1838 (Reykjavík 2023), bls. 144.
[7] Skv. Íslenskum æviskrám II, bls. 164 orti Guðmundur ýmsa kviðlinga, sjá Lbs. Ebj. Frmt. (þ.e. Einar Bjarnason: Fræðimannatal). Átt er við handritið JS 98 4to en þar stendur á blaðsíðu 118: „Guðmundur Jónsson fyrrum bóndi í Köldukinn á Ásum, enn nú lifandi. Hefir kveðið ýmislega meinlausa kveðlinga.“ Því miður eru engir þeir kveðlingar teknir upp í þetta fræðimannatal.
[8] Lbs. 2626 4to, bls. 144-148. Er líka í „Lbs. 1630 8vo.“

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið