Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 29. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 18:41 0 0°C
Laxárdalsh. 18:41 0 0°C
Vatnsskarð 18:41 0 0°C
Þverárfjall 18:41 0 0°C
Kjalarnes 18:41 0 0°C
Hafnarfjall 18:41 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Stofan á Mörk, útsaumur SỎl.
Stofan á Mörk, útsaumur SỎl.
Ỏlafur Björnsson og Jósefína Þóranna Pálmadóttir. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu / Sigursteinn Guðmundsson
Ỏlafur Björnsson og Jósefína Þóranna Pálmadóttir. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu / Sigursteinn Guðmundsson
Pistlar | 02. apríl 2024 - kl. 16:14
Sögukorn: Merkurstofa
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
  1. Enn allt of fáir minnast sveitar sinnar
    hvar sólin skein á barnsvögguna inn
    hvert æskubros þar báru rjóðar kinnar
    og blómin vonar spruttu fyrsta sinn. Gísli Ólafsson frá Eiríksstöðum

     
  2. Mamma/SÓl. lifði langa ævi, nær öld, en hvarf frá okkur á skírdag, á afmælisdegi pabba, hinn 28. mars. Hún naut trausts, hún var til í að prófa, hún var mikil heimilisvera, hún sá öðrum betur nauðsyn listar í dreifðri byggð, stóð í ellinni fyrir námskeiðum að mála á striga með aðstoð listamannsins, Guðráðar á Beinakeldu.
    Elsta dóttir hennar, Guðrún Þóranna, undirbjó það nýmæli að opna Ártúnabæinn árið sem mamma varð níræð, sumarið 2014, setja upp sýningu á málverkum frá síðustu árum mömmu, sýna vinnu hennar frá kvennaskólanum og fleiri flíkur sem hún hafði saumað á heimilisfólk sitt. Undursamlegt sumar, fengum gestafjöld, suma yfir Kjöl, sunnan af Skeiðum, utan af Skaga, að vestan og austan og auðvitað úr borginni.
    Segi aftur undursamlegt og sýnir okkur líka þörfina á meiri list – og í leiðinni minna álasi.

     
  3. Börn Jósefínu og Ólafs á Mörk – síðar í Holti á Ásum

    Helga María Ólafsdóttir  10. júlí 1915 - 10. ágúst 1982
    Pálmi Ólafsson 12. okt. 1916 – 6. des. 2005
    Drengur Ólafsson 10. ágúst 1918 – 10. ágúst 1918
    Ingimar Guðmundur Ólafsson 29. jan. 1922 – 7. apríl 1938
    Sigríður Ólafsdóttir 4. nóv. 1924 –  28. mars 2024

     
  4. Rammur keimur er af skrám og skjölum segir masarinn/rissarinn í Stikli 2, þar eru varðveitt bréf Ólafs á Mörk til systur sinnar, Stefönu, saumakonunnar í borginni sem geymdi þau handa niðjum hans. Birtast úr þeim glefsur hér neðar en þó fyrr slitur úr ábúendatali Merkurbænda á Laxárdal, allt frá dögum Árna stutta og Guðrúnar s. k. hans, foreldra Árna Frímanns Árnasonar, seinast bónda í Skyttudal og gersemis, f. 1861, en fyrri kona Árna eldri var Ketilríður Ketilsdóttir frá Strjúgi, sjá meira í síðustu sögukornum, Betra blek:
     
  5. Ábúendur á Mörk:
    1858 -´62        Árni Jónsson og Guðrún Magnúsdóttir
    1862 -´63        Guðrún Magnúsdóttir ekkja
              –                 Ýmsir
    1867 - ´96       Guðmundur Jónsson og Steinunn Guðmundsdóttir foreldrar Erlend
    1896 - ´98       Steinunn Guðmundsdóttir ekkja
    1897 - ´00       Ýmsir
    1899 - ´11       Skarphéðinn Einarsson og Halldóra Jónsdóttir, bjuggu síðar í Ytra-Tungukoti
    1911 - ´15       Þorvaldur Guðmundsson og Salóme Pálmadóttir til Sauðárkróks
    1915 - ´17       Jón Pálmason og Jónína Ólafsdóttir síðar á Akri
    1917 - ´38       Ólafur Björnsson og Jósefína Pálmadóttir
    en þau fluttu að Brandsstöðum 1938, Eyvindarstöðum 1940, síðast að Holti 1947.
    1938 - ´39       Sigurður Pálmason og Steinvör Benónýsdóttir nytjuðu jörðina, bús. á Hvt.
    1939 - ´43       Guðlaugur Guðmundsson og Soffía Ólafsdóttir
    1943 -             Haraldur og síðar Jón sonur hans, bús. í Gautsdal.

     
  6. Amma og afi, foreldrar Sigríðar í Ártúnum/SÓl., fluttu úr Nesinu að Mörk 1917, skoðum bút úr bréfum  frá því sumri, frá Jósefínu með ungu börnin sín tvö, Helgu og Pálma:
    „Svo erum við að ala upp 2 kvígur. Guðrún systir mín gaf mér aðra þeirra og er hún snemmborin, hin undan Skrautu. Lítið höfum við veitt í sumar enda höfum við ekki haft nema slæman útbúnað. Einu sinni fengum við um 50 í fyrirdrætti. Það er líka það mesta, en silungurinn er afar góður. Hann veiðist í tjörninni í Vatnsskarðinu."

    Fimm árum síðar skrifar Ólafur um eldri börnin tvö:„Svo núna fyrir hálfum mánuði fengu þau að fara til kirkju, þar var nú mikið um dýrðir, bæði riðu ein og voru í fallegum fötum og bæði í kápum." Ingimar var heima, 7 mánaða stubbur og Sigga/SÓl., sú yngsta kom ekki í heiminn fyrr en 2 árum síðar.

     
  7. Mörk, Hvammur, Gautsdalur og Mjóidalur voru vel setnar jarðir á framdalnum og  samfelld ábúð var á þessum jörðum fram yfir þriðjung síðustu aldar, Æsustöðum og Auðólfsstöðum má gjarnan bæta í klasann, þegar við berum niður í manntali 1890, þá hafa foreldrar Erlends, vesturfarans ófúsa og bókarhöfundar, búið á Mörk á fjórða áratug, Anna, langamma mín og ekkja, býr með ungum börnum og eldri í Hvammi, Ragnhildur yngst 6 ára, Guðrún Jóhanna, amma í Tungu, litlu eldri, en Guðmundur faðir Hannesar á Auðólfsstöðum orðinn ráðamaður með móður sinni, 22 ára að aldri. Anna Pétursdóttir er orðin hálffimmtug, Laxdælingur utan frá Refsstöðum og verður tengdamóðir frændanna Tryggva í Tungu og Sigurjóns í Hólum.
    Sigríður og Pálmi, foreldrar Jósefínu, búa í Gautsdal, en síðar á Æsustöðum þegar Guðmundur Erlendsson flytur upp eftir 1895, kaupir Mjóadal með nýju timburhúsi af Jóhanni hreppsstjóra, sem var kominn í skuldir v/húsbyggingar.
    Vinfengi ómælt!

     
  8. Erl. á Mörk skrifar:„Um 1867 voru afar fáir menn í Bólstaðarhlíðarhreppi sem  skildu dönsku að undanteknum prestunum á Bergsstöðum og Blöndudalshólum. Þessa má þó nefna; Jóhannes Guðmundsson, kenndur við Gunnsteinsstaði, en þá bjó í Mjóadal, Jóhann hrstj. í Mjóadal, Guðmund bónda á Hóli og jómfrú Sigríði Arnesen á Gunnsteinsstöðum og þóttu þeir meiri alþýðunni er svo voru framaðir sem von var til.
     
  9. Með því Jón bróðir Erlendar á Mörk þótti vera gáfaður og hafði sterka löngun til náms var honum eftir fermingu komið fyrir um tíma hjá séra Markúsi Gíslasyni í Hólum til að læra reikning og nokkuð í dönsku og er hann kom heim fór hann að reyna að þýða kafla úr léttum dönskum skáldsögum og þótti það nýstárlegur fengur að heyra í fyrsta skipti skáldlega lýsingu af tilfinningum manna og náttúrunni með tungutaki útlendra þjóða."
     
  10. Erlendur rifjar upp og skrifar:„Veturinn 1880-81 var sá frostharðasti vetur og illviðrasamasti er menn þá þóttust muna og lentu bændur í heyþröng, en Guðmundur, faðir Merkurbræðra, fyrnti hey er nema mundi fóðri fyrir 50 kindur. Þá voru fáir fyrningamenn. Þennan vetur var Jón bróðir hans á Möðruvöllum og um vorið var hann annar efstur í skólanum.
     
  11. Árið 1884 var búrið á Mörk rifið og byggt og komið svo fyrir að rúm fékkst fyrir stofuhús þar sem búrið hafði áður verið. Enn var ein framkvæmd Jóns um þessar mundir – því nú réði hann nálega hverju því er búið gat staðið undir – en það var, í samráði við foreldra okkar, að leggja út í að kaupa hálfa jörðina Mörk fyrir 1000 krónur.
     
  12. Árið 1885 var stofan byggð, 12x12 álnir. Var hliðveggur á millum bæjardyra og hennar, þilveggur. Þar var fyrsta stofuhús á Laxárdal sem eingöngu var ætlað gestum, að undanteknu í Þverárdal, þar var gamalt stofuhús." Sjá mynd:
     
  13. Hér greinir Erlendur frá systrum sínum og kjörum þeirra, en bræðurnir Jón og Erl. voru yngstir:

    „Aldrei kom Gróa norður eftir að hún flutti suður (í Borgarfjörð), en Árni maður hennar kom einu sinni eður tvisvar og einu sinni fann faðir hennar hana er hann var í fiskaferð, þá var hún á Lundi. Vorið 1884 sá Erlendur bróðir/bókarhöf. hennar hana er hann kom að Narfastöðum heim á leið úr veri.
    2. Guðrún. Fædd um 1850. Var í stærra meðallagi að vexti, þykkleit í andliti og rjóð, stillt í lund og hæg í framgöngu, með mikið hár dökkjarpt.
    3. Steinunn. Fædd 1852. Í tæpu meðallagi vexti, rjóð í andliti og skipti vel litum með mikið og fallegt ljósjarpt hár.
    4. Margrét. Fædd um 1857. Heldur hærri en Steinunn með rauðjarpt hár, dálítið hrokkið.
    5. Jón. Fæddur 1859. Fremur lítill maður vexti með þykkt dökkjarpt hár, fölleitur í andliti, svipmikill, með mikið enni. Sérstaklega fríður á baksvip.
    6. Erlendur. Fæddur 1863. Í minna lagi á velli, grannleitur og frálegur.

    Um systur sínar, Steinunni og Margréti, segir Erlendur:
    „að þær hafi haft fjöruga náttúrugrein og allar höfðu þær skemmtun af bókum. Þó því yrði ekki komið við og þá var heldur ekki viðurkennt að af bókvitinu stafaði mikil farsæld í búi manna og því var séð um að þær tefðu ekki frá vinnunni og þó ofurlítið rofaði til fyrir tækifærum fyrir áhugasömum og gáfuðum piltum, sátu stúlkurnar í sömu vanþekkingartískunni og formæður þeirra. Þarfir búanna heimtuðu allan tímann. Það var líkast og kvenfólkið sem heild væru ekki frelsingjar, heldur ambáttir, aldrei frístund frá heimilisönnum úr svefninum og í alla virka daga og lítið betra á sunnudaga. Fólkið yfirhöfuð, einkum vinnufólkið, átti ekki kost á að æfa sig á lestri upphátt og það hefði ekki verið neitt undarlegt þó fólk hefði týnt honum niður.

     
  14. Erlendur var yngstur, var afar latur að læra að lesa og læra kristindóminn, en þó var hann ekki álitinn minna en í meðallagi til vits og alls ekki ólíklegur til bókar mætti hann ráða hvað hann las. Öll voru systkinin verklagin og góðir og dyggir verkmenn og gædd bestu búmannskostum. Erlendur er þó ekki í þeirri tolu því á þessum árum er hann of nálægt barnsaldrinum að hægt sé að mæla hann með sama mælikvarða og fullorðið fólk.
     
  15. Steinunn bar af systrum sínum til handanna. Hún saumaði sér peysufaldbúninginn. Var það fátítt tilsagnarlaust."
     
  16. Steinunn giftist Brynjólfi í Þverárdal, en varð ekki langlíf, varð 43 ára, þessi vinnusama og vandvirka kona sem bjó og átti með Brynjólfi bú og eignir á Refsstöðum, síðar í Þverárdal og hann elskaði glaum, söng og gestakomur meðan hugur hennar var allur við framgang búsins eins og tíðkast hafði á Mörk.
     
  17. Fyrrum nágranni í Blöndudalnum, hún Guðríður í Austurhlíð ólst upp á Laxárdal og segir um föður sinn, Jóhann Helga Magnússon á Núpsöxl, síðar Tungu í Gönguskörðum, f. 1895:
    Faðir minn var fjárglöggur, snyrtimenni í allri umgengni, góður skepnuhirðir sem lét þeirra velferð og þarfir alltaf ganga fyrir. Þrifnaður í meðferð heyja að sumri og umgengni í tóftum og fjárhúsi að vetri var honum eðlislægt.

    Hann bar heyin listilega upp í tóftirnar og vandaði allan frágang og leysti svo snyrtilega geilar í gegn að vetri, að stálið var eins og slétt þil í stofu.

    Heyhneppið bar hann á garða, svo þétt vöðlað í fangið að hvergi slæddist úr. Mörg hneppi ef innistaða var, en þegar tíðarfar og hagabeit leyfði var lítið gefið að morgni, féð látið út og rekið til beita þar sem til náðist og líklegt var að það fengi kviðfylli. Á kvöldin var svo seinni gjöfin sniðin eftir því hverju ærnar náðu úti.

    Sem krakki fór ég oft í húsin með pabba, sópaði garðann og rakaði krærnar. Aldrei mátti sjá strá eða ull í kró eða moð í garða hjá pabba. Með svona umgengni kom ekki mor í ullina að heitið gæti, nema ef til vill lítið eitt við hnakka og háls.

     
  18. Óþjáll er orð sem nota má um okkur eyjarskeggja, baráttumenn, sauðamenn, sjókonur, bríetar og auðvitaða Jóana meðan þeir sem þjálli eru, eiga á hættu að lenda undir hæl kúgara og kringilmenna, auðsafnara frá fyrri áratugum, jafnvel öldum.
    En við flykkjumst þó saman, ung sóttum við tónlist og böll, aldin komum við saman á kveðjustundum vina og venslamanna, hlýðum á tónlist, syngjum kannski Ég skal vaka og rifjum upp löngu horfnar vökunætur, ímyndað frelsi, skáldskap, ljóð og stökur.
    Þar býr  frelsið?
    Þar sitja systur sagði Theódóra. Honum gefa þær gullinn streng. Sumir fóru vestur um haf, frá sveitungum og harðindaárum.
    Ekkert frelsi var það.
    Sumir fóru í Hafnarháskóla, Læknaskólann, Kennaraskólann, Bjarni fræðimaður og kennari í Hólum kom heim,  m.a.s. í dalinn konu sinnar, sem hann fann þar í Austurhlíð.
    Tryggvi í Tungu átti fórnfúsa móður, sem sendi hann ungling norður til föðurtúna sinna. Þau bjuggu í Kolviðarnesi við víðáttu hafs og fjalla.
    Hún hafði val.
    Læknirinn okkar, Páll Kolka hafði líka val, og kom norður. Ósinn og borgin togast á.
    En Tryggvi fór úr dalnum, vestur að Rauðamel 1948 til að jarðsyngja fórnfúsa og stjórnsama móður sína, með kór, fjölskyldu og frásögn á því liðna og geymist í dagbók hjá Jónasi Tryggvasyni. Sólarhringur dugði – og vel það.
    Ég skal vaka, lagið hans lifir enn vel.
    Og Guðmundur í Dalsmynni, bróðir Tryggva afa, komst til hagyrðingamótsins að kveða með okkur Jóa í Stapa í Sælingsdal 1991.
    Enginn sóttur - eða knúinn - en synir Tryggva létu ekki sitt eftir liggja ef kórinn var annars vegar.
    Og Jón stjórnað honum 35 ár.
    Hefurðu talað við Svein? Sveinn kom til liðs í kirkju og síðar karlakór 1985. Nóg efni í fleiri sögukorn og 2013 birtist dagskrá um Jónas, elsta Tryggvasoninn í Húnaveri, hátíð í sveitinni hans.
    Þannig lifir list – ljóð og söngur.
    En hvar kemur þá Sigríður í Ártúnum til sögunnar?
    Hún giftist Jón Tryggvasyni í Finnstung á síðasta degi ársins 1946.
    Þá var veisla í gamla Þinghúsinu í Hlíð.
    Hún átti frumleika, úthaldi bjó hún yfir, sást vel á riddarateppinu sem hún saumaði heima í Ártúnum þar sem þau pabbi bjuggu síðustu árin hans í stóra húsinu sínu, hún dvaldi eftir það tvo vetur í Reykjavík áður en hún ákvað að flytja á fjórðu hæðina á Héraðshælinu, þar sem Halldóra in aldna og kvenfélagastýra eitt sinn bjó, Íja í Hólum og svo fjöldamargir. Hún á báðar nafnahugmyndirnar, á bæinn okkar og jörðina í Ártúnum þegar Ytrakotið margfaldaðist og náði með skráningu á einu skjali yfir hálft Tunguland. Nafnið á Húnaveri, félagsheimilinu 1957 kom líka frá mömmu, ekki var oft talað um þessa hluti heima, en upplýstist þó.
    Og öll handtökin, hugsunin og einurðin í að koma okkur til manns, afkomendunum, sinna gestastússinu, ætti að heita hótel í Ártúnum sagði Stella frænka stundum. Einhvern veginn fannst alltaf rúm: Marka-Leifi, Óli Bjarna, sumarbörn í áratugi, gamlir sveitungar eða gleymdir sveitungar eins og þegar dúkkaði skyndilega upp sonur sr. Ludvigs Knudsens sem prestur var á Bergsstöðum til 1914, en færði sig þá að Vesturhópshólum og varð þar prestur. Sonur hans Árni varð heimilisvinur í Ártúnum um ´65 – ´70, lést 1975 en var ættaður frá Höfnum í móðurætt sína, hét Árnanafni afa síns.
    Ætti þá ekki að vera rúm fyrir aðra hér í heimi?
    Úkraínufólk
    Palestínumenn
    Húnvetninga
    og okkur öll.
    Frá Rauðamel að Blöndueyrum.
    En aldir koma og tímar breytast.

     
  19. Og sögukornin þessi nýju verða mér tilefni að þakka ritstjóranum mínum góða, Ragnari Zophoníasi frá Blönduósi, sem heldur úti Húnahorni með ærinni og daglegri vinnu hvað sem svo innkomunni líður. 
     
  20. Guðrún Sólveig húsfreyja á Bjarnastöðum og langamma RZG, gaf Jósefínu systur sinni kvígu þegar amma flutti að Mörk 1917 og hóf þar tveggja áratuga búskap, áður en þau fluttu niður af Laxárdalnum – í Blöndudalinn. Sú dýrmæta gjöf væri gleymd ef ekki væri vegna áráttu Stefönu afasystur að geyma hvaðeina, Stefana gæti líka verið sú sem tók myndina einu af Merkurbaðstofunni og litlu börnunum, Ingimar og Siggu milli foreldra sinna. Fyrirmynd að útsaumi mömmu, sjá mynd með sögukornum. Gestsaugun duga stundum vel. Sjá lið 6 í sögukornunum.

Heimildir og ítarefni:
Erlendur Guðmundsson: Heima og heiman Reykjavík 2002
Guðríður B. Helgadóttir/Þessi kona á tíunda tugnum bls. 54
IHJ Stikill 2 útg. í nóv. 2006
Öll visa GÓ, sjá lið 1: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=6214
Síðasta Merkurgrein IHJ/Betra blek: https://www.huni.is/index.php?pid=32&cid=20923
Ábúendatal á Stóru-Mörk: https://hlidhreppingar.is/abuendatal/
Sögukorn: Merkurfréttir 1917: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17850
Af Æsustaðahlaði um ´20: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18974
Leiðrétt: Klemens elsti byggði torfkirkju en Guðm. sonur hans timburkirkjuna sem enn stendur: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=19632
Útför langömmu vestur í Rauðamelskirkju ´48: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18498

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið