14:49 |
14. des. 2019 |
Fulltrúar ríkisstjórnarinnar funduðu með heimamönnum
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra heimsóttu í gær fólk á Blönduósi og Hvammstanga sem staðið hefur í stafni í sinni heimabyggð síðustu daga. Ásmundur Einar fjallar um heimsóknirnar fundi á Facebook síðu sinni. Hann segir það ómetanlegt að eiga allt það öfluga fólk sem staðið hefur vaktina síðustu daga og fyrir það beri að þakka. |
11:57 |
14. des. 2019 |
Fjárhagsáætlun Húnavatnshrepps samþykkt
Fjárhagsáætlanir Húnavatnshrepps fyrir árið 2020 og árin 2021-2023 voru samþykktar á sveitarstjórnarfundi í gær. Í fundargerð kemur fram að við gerð fjárhagsáætlunar 2020 hafi verið lögð áhersla á aðhald í rekstri, líkt og undanfarin ár. Tekjur eru áætlaðar 502,3 milljónir og gjöld 481,8 milljónir. Tekjuafgangur fyrir fjármagnsliði er áætlaður 20,5 milljónir. Fjármagnsliðir eru neikvæðir um 15,9 milljónir og rekstrarniðurstaðan því áætluð með 4,5 milljóna króna tekjuafgangi. Skuldahlutfallið, þ.e. hlutfall af skatttekjum og skuldum er áætlað 69,5% en má samkvæmt ákvæðum fjármálareglna hæst vera 150%. |
09:39 |
14. des. 2019 |
Átakshópur skipaður um úrbætur á innviðum
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í gær, í framhaldi af fárviðrinu sem gekk yfir landið 10. og 11. desember, skipan starfshóps fimm ráðuneyta sem falið er að meta hvaða aðgerðir séu færar til að efla innviði í flutnings- og dreifikerfi raforku og fjarskiptum til að tryggja að slíkir grunninnviðir séu sem best í stakk búnir til að takast á við ofsaveður eða aðrar náttúruhamfarir. Til viðbótar við öryggi í raforku og fjarskiptum mun hópurinn skoða samgöngur, byggðamál og dreifikerfi RÚV. |
08:48 |
14. des. 2019 |
Almanna- og öryggishagsmunir verði ávallt hafðir í fyrirrúmi
Stjórnvöldum ber skylda til að haga málum þannig að almanna- og öryggishagsmunir verði ávallt hafðir í fyrirrúmi við uppbyggingu og rekstur innviða sem eiga að tryggja öryggi og jafna búsetuskilyrði allra landsmanna. Þetta fram kemur í ályktun sem samþykkt var í stjórn Samband íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var í gær. Einnig þakkaði stjórnin björgunaraðilum, starfsmönnum veitufyrirtækja og öðrum sem tekið hafa þátt í viðbrögðum og afleiðingum óveðursins sem dunið hafa undanfarna daga fyrir vel unnin störf. |
13:25 |
13. des. 2019 |
Stofutónleikar í Heimilisiðnaðarsafninu
Stofutónleikar verða haldnir í Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi á sunnudaginn, 15. desember, og hefjast þeir klukkan 15:00. Hugrún og Jonni sjá um tónlistarflutning með aðstoð Siggu og Halldórs. Heitt súkkulaði og smákökur verða í boði að afloknum tónleikunum. Aðgangseyrir er 1.500 krónur en ókeypis fyrir börn. Athygli er vakin á því að ekki er tekið við greiðslukortum. |
11:34 |
13. des. 2019 |
Ungmennaráð Blönduósbæjar stofnað
Blönduósbæjar hefur ákveðið að stofna ungmennaráð og auglýsir á vef sínum eftir tilnefningum í ráðið. Óskað er eftir tveimur fulltrúum og tveimur til vara á aldrinum 16-25 ára. Óskað er eftir að tilnefningar, með nöfnum, berist eigi síðar en 20. desember næstkomandi á netfangið blonduos@blonduos.is. Í auglýsingunni segir að æskilegt sé að tilnefningar séu af báðum kynjum. |
11:20 |
13. des. 2019 |
Fjárhagsáætlun Skagastrandar samþykkt
Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti á fundi sínum í gær fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2020-2030. Áætlað er að heildartekjur á næsta ári verði 650,7 milljónir króna og að rekstrargjöld verði 652,4 milljónir króna. Fjármagnsliðir eru áætlaðir jákvæðir um 3,3 milljónir og rekstrarniðurstaðan því áætluð jákvæð um 1,7 milljónir. Í áætlun áranna áranna 2021-2023 er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu öll árin. |
11:01 |
13. des. 2019 |
Aðeins tilviljun að allt hafi bjargast
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um ástandið sem skapaðist á sjúkrahúsinu og heilsugæslunni á Hvammstanga í vikunni en það var án rafmagns, nets og síma í tvo daga vegna óveðursins. Rætt er við Aldísi Olgu Jóhannesdóttur, svæðisfulltrúa heilbrigðismála á Hvammstanga og segir hún að í raun hafi það aðeins verið tilviljun að allt hafi bjargast, en að bregðast þurfi við svo álíka sambandsleysi við sjúkrastofnun geti ekki komið upp að nýju. |
09:33 |
13. des. 2019 |
Húnar fá milljón fyrir óeigingjarnt starf
Björgunarsveitin Húnar í Húnaþingi vestra fær eina milljón króna styrk frá sveitarfélaginu fyrir óeigingjarnt starf, oft við erfiðar aðstæður í þágu samfélagsins. Þetta kemur fram í fundargerð sveitarstjórnar Húnaþings vestra frá í gær. Björgunarsveitarmenn hafa staðið í ströngu undanfarna daga við að aðstoða fólk í óveðrinu og að koma innviðum samfélagsins í lag. Starf þeirra er gríðarlega mikilvægt. |
18:35 |
12. des. 2019 |
Þakkir til allra viðbragðsaðila og íbúa
Sveitarstjórn Skagastrandar lét færa til bókar, á sveitarstjórnarfundi sínum í dag, þakkir til allra viðbragðsaðila sem tryggðu öryggi íbúa og komu í veg fyrir stórfellt eignatjón í sveitarfélaginu í veðurhamnum sem gekk yfir landið síðustu daga. Íbúum er einnig hrósað fyrir góðan frágang á lausamunum þar sem ekki sé vitað til þess að nokkurt tjón hafi orðið af völdum foks. |
18:17 |
12. des. 2019 |
Allir helstu opinberu innviðir samfélagsins brugðust í veðuráhlaupinu
Sveitarstjórn Húnaþings vestra lítur atburði síðustu sólarhringa grafalvarlegum augum og telur ljóst að allir helstu opinberu innviðir samfélagsins hafi brugðust í því veðuráhlaupi sem nú gengur yfir. Húnaþing vestra hefur verið rafmagnslaust í rúmlega 40 klukkustundir, hluti sveitarfélagsins er ekki enn kominn með rafmagn og ekki vitað hversu lengi það ástand varir. Ljóst er að nú þegar hefur orðið talsvert tjón hjá íbúum og eykst það eftir því sem tíminn líður. |
14:31 |
12. des. 2019 |
Heimsfrumsýningu frestað um einn dag
Leikflokkur Húnaþings vestra ætlaði að frumsýna barnaleikritið Skógarlíf í Félagsheimilinu á Hvammstanga á morgun, föstudaginn 13. desember. Frumsýningunni hefur verið frestað um einn dag og verður laugardaginn 14. desember. Leikritið er sett upp í nýrri leikgerð leikstjórans Gretu Clough sem unnið hefur til alþjóðlegra verðlauna bæði sem leikskáld og sviðslistamaður. Um heimsfrumsýningu er því að ræða. Leikgerðin er byggð á The Jungle book eftir Rudyard Kipling. |
14:25 |
12. des. 2019 |
Framtíðarskipan úrgangsmála rædd
Starfshópur um framtíðarskipan úrgangsmála á Norðurlandi, sem verið hefur að störfum síðustu 12 mánuði eða svo, hefur að mestu lokið störfum og stefnir á að halda ráðstefnu um úrgangsmál á Akureyri í ársbyrjun 2020. Hópurinn er samstarfsverkefni Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi vestra og Eyþings – Sambands sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum. Á mánudaginn var haldin kynning á starfi hópsins fyrir sveitarstjórnarfólk á Norðurlandi vestra. |
14:11 |
12. des. 2019 |
Slæmt ástand í Húnaþingi vestra
Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri í Húnaþingi vestra sagði í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag að rafmagnsleysi og stopult símasamband vera farið að hafa alvarlegar afleiðingar. Hún sagði ástandið slæmt í öllu sveitarfélaginu en einna verst í Hrútafirði og á Vatnsnesi. Ástandið hérna er bara mjög alvarlegt. Rafmagnsleysið auðvitað bagalegt og þá er einnig stopult símasamband sem gerir hlutina enn erfiðari, sagði Ragnheiður Jóna. |
13:06 |
12. des. 2019 |
Frá Almannavarnarnefnd Húnavatnssýslu
Einar Kristján Jónsson formaður
Fyrir hönd Almannavarnarnefndar Húnavatnssýslna vil ég þakka þeim fjölmörgu viðbragðsaðilum, svo sem björgunarsveitum, lögreglunni, starfsmönnum Rarik, starfsmönnum Vegagerðarinnar og öllum öðrum sem hafa lagt sig fram, síðustu daga við að aðstoða íbúa Húnavatnssýslna í því veðri sem gengið hefur yfir. Það er í raun ótrúlegt að heyra af æðruleysi fólks gagnvart því sem hefur gengið á. |