Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Miðvikudagur, 26. janúar 2022
   m/s
C
Olís
huni.is - RSS-efnisveita
 
Janúar 2022
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
303112345
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 11:30 SSV 1 -4°C
Laxárdalsh. 11:30 VSV 0 -3°C
Vatnsskarð 11:30 VNV 1 -6°C
Þverárfjall 11:30 SSV 0 -6°C
Kjalarnes 11:30 ASA 2 -2°C
Hafnarfjall 11:30 SA 0 -2°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
29. október 2021
Spennandi tímar
Alþingiskosningarnar eru yfirstaðnar og eins og gengur eru sumir sáttir og aðrir ósáttir og enn aðrir mjög ósáttir.
::Lesa

SSNV

Leita í netfangaskrá
 
Eftir Eyjólf Ármannsson
24. janúar 2022
16. þáttur. Eftir Jón Torfason
22. janúar 2022
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. janúar 2022
Eftir Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Ara Trausta Guðmundsson
21. janúar 2022
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
19. janúar 2022
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
16. janúar 2022
Eftir Birgi Þór Haraldsson
13. janúar 2022
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
10. janúar 2022
Frá minningarhátíðinni um Jónas árið 2016. Ljósmynd: Jón Sig.
Frá minningarhátíðinni um Jónas árið 2016. Ljósmynd: Jón Sig.
Pistlar | 08. desember 2021 - kl. 08:47
Sögukorn: Jónas!
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Mannsaldur er tíminn milli kynslóða eða þriðjungur aldar segir okkur orðabókin. Jónasi föðurbróður ólst ég upp með í Ártúnum þar til hann flutti til Blönduóss haustið 1959, en þá var ég orðinn tólf ára, nær hálfnaður með fyrsta mannsaldur minn. En fyrir honum lá að lifa og starfa aldarfjórðung með nýjum sveitungum á blómaskeiði í félagslífi héraðsins sem okkur þykir eftirsóknarvert að fái lifað sem lengst og samfelldast. Þó átti Jónas ekki lengri leið að flytja frá Ártúnum til Blönduóss en tæpa 30 km.

Samskipti Jónasar við gömlu sveitungana voru áfram ríkuleg eins og við íbúa annarra sveita í héraðinu, er leituðu til hans með húsgagnakaup eða bæta gömlu sófana. Og svo voru sumir kannski bara rétt að líta inn, þiggja í nefið og rifja upp litla vísu eða sögu úr blámóðu daganna.  

Stóri vinningur Jónasar við búferlin var að eignast Þorbjörgu fyrir konu, barnakennara og Bergþórsdóttur frá Fljótstungu. Hún átti fjölmennan og þéttan hóp systkina og systkinabarna sem sóttu til Doddu frænku og Jónasar á sumrin. Hús hjónanna, Björk við Húnabrautina iðaði af lífi og varð síðar heimili Tónlistarskóla A-Hún.

Jónas Tryggvason var elstur systkina sinna og skírður nafni afa síns, Jónasar í Finnstungu. Jónas bóndi í Tungu var aftur yngstur í sínum systkinahópi, átti tvær eldri systur, en var allmjög yngstur og bar nafn langafa síns, sr. Jónasar Benediktssonar prófasts á Höskuldsstöðum, sem verður meira frá sagt hér á eftir.

Yngsti Jónas var gott skáld eins sjá má ef lesin eru lok sögukornsins og skoðum nú eina vísu frá honum áður en hugað er að elsta Jónasi:

Tímans letur tvírætt enn
takmörk setur öllum.
Kaldur vetur kemur senn
kólguhret á fjöllum. JT

Undir hlíðum Skagastrandar, á þurri grund og fagurri stendur Höskuldsstaðakirkja og bær. Þar var eftirsóknarvert prestsetur sem dró að sér fyrirmenn ýmsa, presta og prófasta.

Prestsonurinn Jónas Benediktsson er þar á meðal, fæddur suður í Fljótshlíð árið 1738, sonur sr. Benedikts í Butru, alinn upp hjá prestinum á Grenjaðarstað frá átta ára aldri, útskrifaður 21 árs frá Hólaskóla og varð þá djákn til Þingeyra. En fjórum árum síðar var hann vígður til kapelláns/aðstoðarprests hjá prófastinum á Staðarbakka, Þorsteini Péturssyni, og þjónaði Staðarbakka- og Núpssóknum.

Þennan góða og sama dag var líka vígð steinkirkjan á Hólum, sú sem er þar staðarprýði enn í dag 258 árum síðar.

Vígsludagur dómkirkjunnar og sr. Jónasar langalangalangalangafa var 20. nóv. 1763, 25. sun. e. trin. Hann er presturinn í ættinni okkar, skipaðri bændum í löngum röðum, en þar er líka Margrét í Kolviðarnesi, langamma og barnsmóðir Jónasar í Tungu, glæsilegur fulltrúi kvennanna, kjarkmikilla og úrræðagóðra, mæður og ömmur nýrra bænda og svanna. Þær áttu stundum fátt til að framfæra sig og sína annað en verkkunnáttu og útsjónarsemi.

Jónas varð prestur í Vesturhópshólum og var kosinn prófastur í lok þeirra 17 ára sem hann þjónaði sóknarbörnunum í Vesturhópinu. Nýi prófasturinn, fékk svo Höskuldsstaði 1784 og flutti þangað vorið eftir með annarri konu sinni, Sigríði Sigurðardóttur frá Hafsteinsstöðum, en hana missti Jónas 1802.

Þriðja kona Jónasar var dóttir sr. Björns í Bólstaðarhlíð, hét Guðrún og lést á undan manni sínum árið 1816, en hann lét af prestskap 1817 og flutti til dóttur sinnar, Sigurlaugar Jónasdóttur á Ytra-Hóli. Jónas dó haustið 1819, nýorðinn 81 árs.  

Fyrsta og þriðja hjónaband sr. Jónasar var barnlaust en með miðkonu sinni átti hann tvö börn er upp komust, séra Benedikt í Hítarnesi og Sigurlaugu á Ytra-Hóli, formóður margra Húnvetninga.

Dóttir Ytra-Hólshjónanna, Sigríður Jónsdóttir, eignaðist fyrir mann Jón Sveinsson, lausaleiksbarn Halldóru vinnukonu og Sveins Halldórssonar bónda á Hnjúkum. Þau Sigríður bjuggu í Tungunesi, síðar í Sauðanesi þar sem Jón lést 1857, tæpra 53 ára. Þá voru börn þeirra hjónanna orðin nokkuð uppkomin: Jónas 9 ára, Guðrún tvítug en elst Sigurlaug 21 árs.

Hverfum nú vestur í Víðidal þar sem hófst annað hjónaband, nefnilega þeirra Steinunnar Erlendsdóttur og Guðmundar Jónssonar sem voru vinnufólk á Kolugili, hún frá Sveinsstöðum í Þingi en hann frá Gafli í Víðidal.

Samtíða þeim á Kolugili var hagyrðingurinn Þorbergur Björnsson sem kvað þegar þeir Guðmundur voru að slætti en áttu von á Steinunni í slægjuna og samdráttur þeirra Guðmundar hefur verið kominn á einhverra vitorð:

Þraut á dynur, það er bágt
þjakar linu sinni.
Sverða hlynur sagði lágt:
Seinkar vinu minni. ÞB

Hjónin Steinunn og Guðmundur fengu hálfan Torfalæk til ábúðar 1850 og fluttu þangað með Gróu dóttur sína fjögurra ára. Erlendur sonur þeirra segir um búskap þeirra í minningabók sinni Heima og heiman:

„Þar nutu þau vel dugnaðar síns því mótbýlismenn þeirra voru búmenn litlir en beitiland óskipt. Þá sögu heyrði ég hafði eftir Jóni hreppstjóra Sveinssyni í Sauðanesi, er mestur var þá bóndi í hreppnum, er hann eitt sinn kom að Torfalæk og sá heyfúlgu er Guðmundur átti, hvort hún ætti að ná út í mýri. Þetta hefur verið, býst ég við, að nokkru sagt í gamni en bendir þó jafnframt á að Guðmundur hefur verið góður heyaflamaður og auk þess ágætur fjármaður. . .

Um þessar mundir hafði Jón Sveinsson dáið, sem búið hafði stórbúi í Sauðanesi og flutti ekkjan með uppkomnum börnum sínum, Jónasi er síðar bjó í Finnstungu og Sigurlaugu, frá Sauðanesi á hálfan Torfalæk og hefur þá keypt hann um leið. Sá þá Guðmundur fram á að ekki mundi þar friðvænt til lengdar, með öllum þeim gangandi pening á jörðinni og af því að þá losnaði jörðin Ásar í Svínavatnshreppi, en þar hafði búið Gísli Ólafsson er nú flutti að Eyvindarstöðum, þá réðst það að Guðmundur og Steinunn flytja þangað vorið 1863. Ekki féll þeim vel á Ásum eftir að hafa verið á Torfalæk, heyskapur erfiður, hættur fyrir fénaðinn á vorin og fénaður allur horfinn um leið og honum var sleppt úr húsunum. Steinunn sagði að sér hefði stöðugt leiðst þar og saknað Torfalækjar, sér hefði fundist það dálítil fró ef hún kom þar vestur á fellin og séð í áttina norðvestur um Ásana."

Guðrún Jónsdóttir frá Sauðanesi, stofnaði fyrr heimili en systir hennar, eignaðist mann vestan úr Víðidal, Jóhann Frímann Sigvaldason sem var vinnumaður í Sauðanesi samkv. manntalinu 1860 og hóf með honum búskap í Mjóadal 1862 hálfþrítug að aldri. Þau voru foreldrar Önnu húsfreyju á Mánaskál og í Austurhlíð, en dætur þeirra Þorsteins Péturssonar voru Svava húsfreyja á Eiríksstöðum og Blönduósi, Jóhanna prjónakona Blönduósi og Torfhildur á Orrastöðum.

Annað barn þeirra var Björg á Auðólfsstöðum, amma Köldukinnarsystkina, þeirra Bergþóru, Jóns Espólíns og Kristófers, barna Kristjáns og Guðrúnar Espólín Jónsdóttur, hjóna í Köldukinn, Guðrún f. 1890.

Þriðja barn Mjóadalshjónanna var Sigurjón Jóhannsson í Blöndudalshólum en börn hans og Ingibjargar konu hans er upp komust voru Jón S. Baldurs kaupfélagsstjóri á Blönduósi og Anna húsfreyja og garðyrkjukona í Blöndudalshólum.

Litlu síðar en Guðrún hóf búskap í Mjóadal, flutti móðir hennar, ekkjan Sigríður í Sauðnesi fram að Torfalæk með börnum sínum tveimur og keypti þá hálfa jörðina segir Erlendur okkur í H&H.

Þau mæðgin, Sigríður og Jónas, fluttu síðar fram að Mjóadal en Sigurlaug tók við búsforráðum á Torfalæk, bjó með Guðmundi Guðmundssyni og eignaðist með honum soninn Jón sem síðar varð bóndi á Torfalæk. Hann er afi bræðranna, Jóhannesar bónda á Torfalæk og sagnfræðingsins Jóns Torfasonar.

Páll Kolka héraðslæknir og skáld á Blönduósi, fræðimaður og lausaleiksbarn Guðmundar á Torfalæk, segir Sigurlaugu fóstru sína hafi verið mjög gáfaða og mikilsmetna konu. (Föðurtún bls. 179)

Jónas Jónsson var fæddur 24. mars 1848, missti föður sinn aðeins níu ára að aldri, en Jón í Sauðanesi varð bráðkvaddur yfir máltíð 15. júní 1857. Jónas eignaðist konu frá Reykjum við Reykjabraut, Aðalheiði Rósu Sigurðardóttur og þau hófu búskap í Mjóadal með Jóhanni hreppsstjóra og Guðrúnu systur Jónasar en fluttu að Finnstungu 1879 og bjuggu þar síðan.

Með nýju Tunguhjónunum flutti frá Mjóadal 19 ára unglingsstúlka, hún Margrét langamma, en 13 árum síðar varð hún móðir Tryggva í Tungu og flutti suður til Reykjavíkur þegar kom að því að hann liti dagsins ljós. Hún varð síðar húsfreyja vestur í Kolviðarnesi, eftirminnileg og stjórnsöm amma, heyri ég á frænkum mínum og frændum frá Dalsmynni vestur í Hnappadal/Eyjahreppi. 

En Tryggvi Jónasson, afi minn, flutti frá móður sinni til föður þegar leið að fermingu hans og átti síðan heimili í Tungu. Mörg voru bréfin sem fóru milli mæðginanna – og glötuðust – en góðu heilli skráði Jónas í dagbók sína ferðasögu fjölskyldunnar til útfarar ömmu hans og þar voru í för fleiri kórfélagar svo karlakórinn söng við útför Margrétar langömmu við Rauðamelskirkju.  

Hjónin í Tungu, þau Aðalheiður Rósa og Jónas eignuðust ekki barn er á legg kæmist. Vel reyndist Rósa Tryggva stjúpsyni sínum en hún lést 1912, áður en birtust barnabörn í Tungu. Jónas fékk mikið afahlutverk með fjórum sonarbörnum. Hann varð 88 ára gamall, lést 1936.

Og Jónas Tryggvason var elsti bróðir, þeir voru þrír bræðurnir en Anna Margrét eina systirin, yngst að árum, var fædd 3. des. 1919, sama dag og Jón Sveinsson langafi hennar í Sauðanesi en á aldri þeirra munaði 115 árum.

Viðauki 1

Systkinin frá Sauðanesi, börn Sigríðar Jónsdóttur frá Ytra-Hóli/Höskuldsstöðum og Jóns Sveinssonar hreppstjóra:

1.      Sigurlaug Jónsdóttir Torfalæk 1835 – 1922
2.      Guðrún Jónsdóttir Mjóadal 1836 – 1910
3.      Jónas Jónsson Finnstungu 1848 – 1936

Finnstungusystkini:

1.      Jónas Tryggvason Blönduósi f. 1916 – 1983
2.      Jón Tryggvason Ártúnum f. 1917 – 2007
3.      Guðmundur Tryggvason Finnstungu f. 1918 – 2009
4.      Anna Margrét Tryggvadóttir Blönduósi f. 1919 – 2007

Viðauki 2

Úr Brandsstaðaannál:

Hreppstjóri Jón Sveinsson á Sauðanesi varð bráðkvaddur yfir máltíð 15. júní 1857. Voru þar verkamenn og gestir viðstaddir. Hann var einn af þremur fjárríkustu mönnum hér í sýslu. Hann var óektaborinn og ólst upp hjá fátækri móður og þá hann var yfir 20 ára, átti hann ekkert, utan besta orðróm fyrir dyggð og dugnað.

Sem vinnumaður í Sauðanesi átti hann afla sinn sunnanlands um 7 eða fleiri ár og við þann gróða reisti hann bú 1835, giftist fátækri konu, Sigríði Jónsdóttur og Sigurlaugar Jónasdóttur prófasts. Hún var þá þjónustustúlka hjá sýslumanni Blöndal og nam þar það heldri konum hæfir. Lítið bú auðgaðist fljótt hjá honum á Tungunesi um 7 ár og síðan stórlega um 15 ár í Sauðanesi, einasta fyrir sérlegt lag og dugnað við heyskapinn, fjármeðferðina, iðjusemi og stjórnsemi. Hann byggði þar allan bæinn og vönduð fjárhús yfir nær 500 fjár, færði út mikið tún og sléttaði það.

Honum var sendur heiðurspeningur af stjórninni fyrir ábúð og dugnað. Hann var lengi forlíkunarmaður og 11 ár hreppstjóri og eins framúrskarandi dugnaðarmaður í því embætti og bústjórninni, jafnvel þó hann væri lítið skrifandi. Hann átti 10 börn og eru nú 3 af þeim lifandi.

Viðauki 3

Jónas Tryggvason:  Gleymt ljóð

1. Ég skrifað hafði lítið ljóð
á lúið pappírsblað,
en þótti í engu um það vert
og ekkert skeytti um það.

2. Svo týndist þetta litla ljóð
og lagðist gleymsku í,
en hending síðar örfá orð
mér aftur færði úr því.

3. Þá fann ég, þessi fáu orð
úr fyrnsku endurheimt
mér voru ei lengur lítils verð
þótt ljóðið væri gleymt.

4. Nú vildi ég gefa gull mitt allt
að gjaldi í kvæðis stað.
Mér finnst, ég hafi aldrei ort
neitt annað ljóð en það.

Meira efni:
Jónas Tryggvason:https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=16936
Þorbjörg og Jónas: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17296
Minningarhátíð um JT: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13350
Úr dagbók JT: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17991
För fjölskyldunnar til útfarar Margrétar langömmu í Dalsmynni: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18498
Dagbókarsíða frá Tryggva í Finnstungu: https://www.facebook.com/search/top?q=tryggvi%20%C3%AD%20tungu
Sr. Gunnar Árnason mannlýsing/Tryggvi Jónasson: http://stikill.123.is/blog/2017/03/31/763053/?fbclid=IwAR00WFYL0wb78tBrnG0CIninCOq69rUvsgjE8xIvWlhOD9pfkwy91rBvKwM
Minningarljóð Guðm. Frímann um Tryggva í Tungu o. m. fróðleikur, manntöl: http://stikill.123.is/blog/record/515360/?fbclid=IwAR3jxn8nN1kl-SXVefawpV7pTjh95Rc_uyRy5l8wrUf4siPMnD0Qaiog0JE
Erlendur Guðmundsson frá Mörk: Heima og Heiman Rvík. 2002
Páll V.G. Kolka: Föðurtún
Eftirmæli Jóns hreppstjóra Sveinssonar bls. 125 í Þjóðólfi 1858: https://timarit.is/page/2023744#page/n3/mode/2up
Hóladómkirkja: https://is.wikipedia.org/wiki/H%C3%B3lad%C3%B3mkirkja

Ingi Heiðmar Jónsson
Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2022 Húnahornið