Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 29. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 19:11 0 0°C
Laxárdalsh. 19:11 0 0°C
Vatnsskarð 19:11 0 0°C
Þverárfjall 19:11 0 0°C
Kjalarnes 19:11 0 0°C
Hafnarfjall 19:11 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
Kórinn á Blönduósi 1939
Kórinn á Blönduósi 1939
Pistlar | 14. apríl 2024 - kl. 17:16
Sögukorn: Ég skal vaka
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
  1. Úr dagbók Jónasar Tryggvasonar í Finnstungu fyrir 79 árum:
    Sun. 8. apríl 1945:
    Bar lítið til tíðinda. Skagfirska skáldkonan Ólína Jónasdóttir er sextug í dag. Vísur hennar eru löngu landfleygar og á hvers manns vörum, þess er yndi hefur af snilld fagurrar stöku. Ég hef ekki, svo ég muni til, heyrt vísu eftir Ólínu, sem ekki hafi verið vel gerð, en meiri eða minni snilldarbragur er á þeim flestum ...
    Kvæði Matthíasar Jochumssonar eru glöggt dæmi um ljóðasafn þar sem öllu ægir saman, hinum fágætustu perlum og næsta lítilfjörlegum kveðskap. Kvæði Þorsteins Erlingssonar og Arnar Arnarsonar hins vegar dæmi um hið gagnstæða þar sem ekkert er birt nema hnitmiðað úrval.
    Skáldmynd Matthíasar virðist þó sem slík vera heilsteyptari en hinna, því að það munu allir  hafa á tilfinningunni, að ýmislegt hafi þeir ort, sem aldrei kom fyrir annarra augu og að þar muni ef til vill mörg perlan hafa glatast vegna þess eins, að hún hlaut ekki náð fyrir augum skapara síns. Má að sjálfsögðu deila um það, hversu menn séu þannig dómbærir í eigin sök, ef svo mætti að orði kveða, en heldur ekki dómar annarra, jafnvel ekki þeirra sem vísastir eru, geta orðið svo að öllum líki.
    Það er mjög algengt, að menn geta ekki litið fullkomlega réttu auga þann höfund sem nokkuð er misjafn á kostunum, þannig að missporin draga hann niður, oftast langt umfram það sem eðlilegt er. Þetta mun vera sprottið af þeirri mjög svo almennu tilhneigingu að mikla jafnan fyrir sér það sem miður fer, en sjást hins vegar yfir hið gagnstæða. En mér finnst t.d. að gimsteinarnir í ljóðum Bólu-Hjálmars séu fyrir því jafndýrmætir þó að þeir glói þar stundum í sorpinu.

     
  2. Víða til þess vott eg fann,
    þótt venjist oftar hinu,
    að guð á margan gimstein þann
    sem glóir í mannsorpinu. Hjálmar Jónsson f. 1796

     
  3. Frh á dagbók JT. 9. apr. ´45
    Fimm ár eru nú liðin frá innrás Þjóðverja í Danmörku og Noreg. Vonandi minnast þjóðir þessara landa dagsins í dag í síðasta sinn, sem hernumdar þjóðir.
    Styrjaldaryfirlit: Bandamenn æða yfir Vestur-Þýskaland. Þeir hafa umkringt Ruhrhéraðið og mikinn þýskan liðsafla, eiga ófarna um 200 km til Berlínar og komnir nálægt landamærum Tékkóslóvakíu. Fangatalan á vesturvígstöðvunum er komin upp í hálfa aðra milljón. Rússar eru komnir inn í Vín og hafa hafið stórsókn í Tékkóslóvakíu. Bandaríkjamenn ganga á land á eyjum mjög nálægt Japan. Rússar hafa sagt upp vináttusamningi við Japani.

     
  4. 10. apríl Karlakórsæfing var á Eiríksstöðum í dag og vantaði að þessu sinni 2 félaga. Æfingin tókst ekki nema í meðallagi vel.
     
  5. 11. apríl Aðalfundur Hrossaræktarfélagsins var haldinn að Bólstaðarhlíð í dag og sóttu hann aðeins 9 menn. Áhuginn er ekki á marga fiska þar heldur en fyrri daginn.
     
  6. 12. apríl Áætlunarferð frá K. H. að Bólstaðarhlíð og var yfirfull sem oftar. Fé mun nú hafa verið sleppt á 5-6 bæjum, í Bólstaðarhlíð og að austanverðu í Svartárdal. Skattanefndin er nú um það bil að ljúka störfum og mun ganga frá skattskránni í kvöld eða fyrramálið.
    Í dag sýndi ég kindunum mínum út í fyrsta sinn frá því fyrir jól. Ekki voru það þó nema 18 kindur af 35 sem ég vogaði út í vorið að þessu sinni, hvað sem síðar verður.

     
  7. Roosvelt forseti er látinn.
    Hann varð bráðkvaddur á sumarheimili sínu í gær. ... Þess get ég ekki dulist að mér varð meira um þessa fregn en nokkra aðra utan úr heimi …

     
  8. 14. apríl Í dag er einmuna blíðviðri. Ég heyrði í fyrsta sinn til lóunnar í morgun, en vika er nú síðan fyrst heyrðist til hennar hér um slóðir.
     
  9. 15. apríl Sunnudagur, hinn síðasti á vetrinum. Karlakórsæfing var að Bólstaðarhlíð. Allir mættu og varð góð æfing. Á miðvikudaginn kemur höfum við svo síðustu æfinguna fyrir afmælisfagnaðinn n.k. sunnudag.
    Við áttum sannarlega von á að systkinin yrðu komin heim fyrir afmælið, en í síðasta bréfi bjóst Nonni (JónTr.) ekki við, að hann gæti verið kominn fyrir þann tíma og það er einnig vafasamt með Önnu. Þetta verður til þess að draga úr ánægju okkar, en við þessu verður víst ekki gert. Það fer svo margt öðru vísi en ætlað er.

     
  10. 16. apríl Steingrímur á Móbergi kom í dag með dráttarvélina og byrjaði að vinna í kvöld hér á melunum fyrir utan túnið. Vinnur hann þar að vegagerð með jarðýtunni.
    Í dag lét ég gemlingana mína út og ærnar nema 5, sem ég þori ekki að sýna út fyrr en gróður er kominn. Annars er ekki vandalaust að ákveða hverju maður skuli hlífa öðru fremur því enda þótt ég telji þessar 5 ær einna lakastar, þá eru að m.k. 10 meira og minna veikar af ánum sem ég læt út.

     
  11. 17. apríl Fé mun nú hafa verið sleppt á 1x bæjum en annars staðar eru menn í undirbúningi með að láta það róa, ef svo fer fram sem nú horfir með tíðina og gróðurinn, en talsverður sauðgróður ætti að verða kominn að viku liðinni með sama áframhaldi og nú.
     
  12. 18. apríl Síðasti vetrardagur. Í dag höfðum við okkar síðustu æfingu fyrir afmælið, að þessu sinni á Bergsstöðum. Við mættum allir nema einn en vorum ekki mjög lengi að. Hjá þeim Guðrún og Halldóri fæddist dóttir í nótt, en 18 ára er nú dóttir þeirra hin næsta í röðinni. Mun sjaldgæft að svo mörg ár séu á milli systkina.
    Mikil rigning hefur nú verið síðustu dægur og er orðið fádæma blautt um. Lítur út fyrir að veðrið og færið verði ekki sem skemmtilegast á morgun en þá hyggst Ungmennafélagið að halda sinn árlega sumarfagnað. Reyndar getur ræst úr veðrinu, en örðugt mun þó verða að leika sér úti vegna þess hve blautt er nú orðið um.

     
  13. Sumardagurinn fyrsti. Skjótt hefur náttúran skipt um svip, sem oft endranær. Einmánuður kvaddi í gær jafnhlýlega og hann heilsaði. Vorið var komið, um það var enginn í vafa. Svipur þess var tekinn að skýrast í yfirbragði landsins og íbúa þess, litir þess og línur höfðu þegar sett sinn blæ á umhverfið. Sendiboðar þess, sunnan út löndum voru ýmsir komnir norður um hafið og höfðu þegar sungið nýjar vonir inn í sál vetrarins barna. Einhver hafði fundið útsprungna sóley á tóftarvegg og frá þessu var sagt á undan ýmsum þeim tíðindum, sem gjarnan hefðu þó þótt frásagnarverð.
    Í kvöld er svo jörðin hulin þykku snjólagi. Það hefur snjóað svo að segja sleitulaust frá því um fótaferðatíma. Loftið er grátt og kuldalegt og þar ómar nú enginn fuglasöngur. Þess í stað þylur útnorðanstormurinn sitt ömurlega viðlag á hverjum glugga og við hverjar dyr. Það er eins og hann vilji hvísla að hverju eyra: Þið þóttust hafa himin höndum tekið, vorið og vonirnar og þið voruð víst í þann veginn að gleyma nálægð minni og tilveru. Það er þess vegna ekki úr vegi að minna ykkur á mig einu sinni enn, þótt rödd mín kunni að láta allkuldalega í eyrum og sé næsta ósamhljóða röddum þeim er þið hafði nú einkum hlýtt á um skeið, en muna skylduð þið það, að svo best njótið þið vorsins, að veturinn sé ei með öllu gleymdur.

     
  14. 20. apríl Sumarfagnaður Ungmennafélagsins féll að sjálfsögðu niður í gær. Hefði vafalaust orðið lítil ánægja hjá þeim, sem komið hefðu ef ekki hefði verið aflýst um morguninn, en sumir þóttust mundu hafa farið þrátt fyrir veðrið. Ein manneskja sagði að það væri hart að svíkja krakkagreyin um þetta, sem þau væru búin að hlakka svo mikið til. En ég held nú samt, að þótt einhver óánægja hafi kannski orðið með frestun sumarfagnaðarins, að þá hefðu allir þeir er lagt hefðu á stað í gær, svikið sjálfa sig á því ferðalagi. En sumum verður aldrei gert til hæfis, hvernig sem að er farið og verður ekki við því gert.
    Í dag hefur nokkuð klökknað, en þó er jörðin enn meira hvít en auð og talsverðir skaflar sums staðar.

     
  15. 21. apríl  Þetta er eins konar aðfangadagur hátíðarinnar, sem í hönd fer. Allir önnum kafnir og ekkert sérstakt til að setja á pappírinn.
     
  16. 22. apríl Fyrsti sunnudagur í sumri. Nú á 20 ára afmælisfagnaður Karlakórs Bólstaðarhlíðarhrepps að fara fram í kvöld. Upp hefur nú verið fótur og fit undanfarna daga, við undirbúning hátíðarinnar. Í morgun allsnemma tók aðstoðarfólkið að drífa að Bólstaðarhlíð, voru það ýmsir félagar kórsins, sem þar lögðu lið en þó mun, sem endranær, mest hafa mætt á kvenþjóðinni, einkum við það að leggja síðustu hönd á undirbúninginn. Öllu sem til þarf, verður að safna saman hjá félögunum og hefur mikill og margs konar flutningur stefnt á hátíðarstaðinn í morgun. Ekki er enn vitað hversu mikil þátttaka verður í hófinu en eftir öllum sólarmerkjum að dæma, verða þarna að líkindum allt að 80 manns. Er  viðbúið, að allknappt verði húsrúmið, en þröngt mega sáttir sitja.
    Anna systir kom heim í gærkveldi, öllum að óvörum, en til mikillar ánægju, ekki síst vegna þess, að við vorum hætt að búast við henni fyrir afmælið.

     
  17. 23. apríl  Afmælisfagnaður karlakórsins stóð fram á morgun eða til kl. um 7. Við komu þó ekki heim fyrr en um tíuleytið, enda gekk allseint að sundurgreina og búa til heimflutnings allan farangur og var það eðlilegt.
    Hófið sátu um 80 manns og fór það að öllu leyti hið besta fram og var hið ánægjulegasta.
    Ætla ég, að allir hafi haldið heim ánægðir með nóttina og betra gátum við ekki kosið okkur kórfélagarnir. Margar hlýjar kveðjur og árnaðaróskir bárust í tilefni afmælisins og auk þess nálega eitt þúsund kr. í gjöfum. Heimilisiðnaðarfélagið(kvenfélagið) gaf  300 krónur í Söngvinasjóðinn til minningar um 20 ára starf kórsins, sveitarstjórnin afhenti kórnum 500 krónur að gjöf, prestshjónin á Æsustöðum 100 krónur og Sigurjón í Hólum 50 krónur.
    Loks barst kórnum að gjöf frá Sigurði Pálmasyni á Hvammstanga bók er saga kórsins á að ritast í.
    35 eldri og yngri félagar kórsins sátu afmælisfagnaðinn en 11 mun hafa vantað og eru flestir þeirra nú staddir í Reykjavík eða grennd. Meginhluti þess fólks  er þarna var saman komið, var héðan úr sveitinni eða yfir 60 manns.

     
  18. 25. apríl Nú er vika af sumri. Hefur sem af er sumrinu verið sýnu kuldalegra en veturinn var hinar síðustu vikur ... Ég held ég muni ekki eftir kaldara vori.
     
  19. 26. apríl Í dag var áætlunarferð að Bólstaðarhlíð, en lengra er ekki bílfært enn sem komið er. Mun það eiga langt í land, að bílar gangi eftir Svartárdal nú, en hins vegar er nú í þann veginn að verða fært hér eftir dalnum, a.m.k. að Hólum.
     
  20. Lýkur hér uppskrift á dagbók Jónasar, sem var í þann veginn – án þess að vita af sjálfur – að taka við söngstjórninni af Þorsteini á Gili, sem er að flytja til Blönduóss. En tvo undanfarna vetur hafði Þorsteinn sinnt kennslu og húsvörslu á Reykjaskóla svo Jónas hafði að nokkru söngstjórn og kennslu á hendi yfir vetrartímann þótt Þorsteinn tæki við með vorinu og sé talinn söngstjóri þetta tímabil. Svo skráir sr. Gunnar Árnason í sögu karlakórsins, Tónar í tómstundum.
     
  21. Kórinn söng við útför Sigríðar Ólafsdóttir í Blönduóskirkju nú föstud. 12. apríl sl. undir stjórn Eyþórs Franzsonar Wechner og er okkur gömlum kórfélögum og velunnurum mikið ánægjuefni að enn starfi öflugur gamli kórinn okkar, verður 99 ára í vor, nánast jafnaldra aldraðri móður minni, sem þeir voru að syngja yfir en hún átti mörg handtök kórnum tengd.
    Jón í Ártúnum, eiginmaður hennar, var söngstjóri kórsins í 35 ár.  Jónas bróðir hans, dagbókarritari, stjórnaði kórnum 1945 - ´52 en þá tók Jón við stjórninni og sinnti henni til ´87. Síðan hafa stjórnað, Gestur Guðmundsson, Sveinn Árnason, Skarphéðinn Einarsson og nú er Eyþór nýlega tekinn við söngstjórninni.
    Einsöng með kórnum við útförina söng prýðilega Helgi Páll Gíslason á Höllustöðum og eins  kórinn sjálfur.

Ítarefni:
Sögukorn af JT&Þorbjörgu: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17296
Meira um JT&Tryggva: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18652
Bragði óðfræðivefur: https://bragi.arnastofnun.is/visur.php?VID=5346  

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið