Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Fimmtudagur, 29. júlí 2021
   m/s
C
Olís
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júlí 2021
SMÞMFL
27282930123
45678910
11121314151617
18192021222324
25262728293031
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 13:10 NNV 8 7°C
Laxárdalsh. 13:10 NNA 9 8°C
Vatnsskarð 13:10 ANA 6 7°C
Þverárfjall 13:10 NA 5 8°C
Kjalarnes 13:10 SV 2 16°C
Hafnarfjall 12:40 S 1 19°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. júní 2021
Allt hefur sinn tíma
Niðurstaða í kosningu um sameiningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu kom ekki á óvart. Þetta er í annað skipti sem íbúar á Skagaströnd og í Skagabyggð hafna sameiningu sveitarfélaga á svæðinu en það gerðu þeir einnig árið 2005.
::Lesa

SSNV

Leita í netfangaskrá
 
7. þáttur. Eftir Jón Torfason
26. júlí 2021
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
26. júlí 2021
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. júlí 2021
Eftir Lilju Rafneyju Magnúsdóttur
23. júlí 2021
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
23. júlí 2021
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
18. júlí 2021
Eftir Högna Elfar Gylfason
12. júlí 2021
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
12. júlí 2021
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Rósberg Guðnason Snædal. Mynd: Ljósmyndasafn Skagastrandar. Ljósmyndari: Guðmundur Guðnason.
Rósberg Guðnason Snædal. Mynd: Ljósmyndasafn Skagastrandar. Ljósmyndari: Guðmundur Guðnason.
Pistlar | 16. október 2020 - kl. 11:22
Stökuspjall: Af skáldum á Laxárdal
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

Haustið bíður boða enn
bliknar hlíðarvangi.
Valdastríðið vinnur senn
vetrarkvíðinn langi. Rósberg G. Snædal

Bóndi á Sneis, Holtastaðasókn, A-Hún. 1930. Bóndi og skáld á Refsstöðum í sömu sókn og Elivogum á Langholti, Skag. 3. apríl 1889 - 2. júlí 1945. Svona kynnir Íslendingabók Elivoga-Svein.

Skáldskapur liggur í landi á Laxárdal - eða hefur legið - því þar búa fáir núorðið og engir í framdalnum eftir að Jón í Gautsdal fór á elliheimili og hætti að halda þar uppi merki Laxdælinga. En kannski blakta höfuðstafir enn uppi í fjallaskörðunum, bíðandi eftir sæti sínu í nýjum versum. Og skáldin safnast til feðra sinna en í þessu stökuspjalli birtast vísur eftir tvö höfuðskáld dalsins, þá Rósberg G. Snædal og Svein Hannesson sem kenndi sig við Elivoga á Langholti en undi á Laxárdalnum eftir að hann flutti þangað með Elínu konu sína. Mest er þó sagt af búskap Sveins, en Rósberg ólst upp á næsta bæ og miðlar okkur nákvæmri búháttalýsingu í þætti sínum af Skáldinu frá Elivogum

Rósberg segir:„Úr hörðum jarðvegi var skáldið sprottið, fæddur á fjallakotinu Móbergsseli, og bar einkenni þess uppeldis alla tíð. Sveinn var yngstur fimm systkina, sem lifðu og eini sonurinn. Hann ólst upp með foreldrum sínum og lengst af þó móðurinni því Hannes bóndi andaðist þegar Sveinn var á fermingaraldri. Eftir það bjó Þóra með börnum sínum í Elivogum og við þann bæ kenndi Sveinn sig jafnan síðan."

Hafðu ungur hóf við Svein
hreyfðu ei þungum nótum.
Eitri þrunginn á ég flein
undir tungurótum. SH

„Sýnist svo sem hann hafi viljað læða þeirri skoðun inn hjá fólki, að hann byggi yfir ákvæðamætti sem forn kraftaskáld og væri því betra að hafa hann með sér en móti" segir í þætti Rósbergs.

Ennfremur segir Rósberg:„Sveini mun fljótlega hafa þótt þröngt um sig í Elivogum, enda kotið lítið bæði að landi og byggingum. Þau Elín fluttu því þaðan vorið 1923 og fengu til ábúðar annað kot, Selhaga á Fremri Skörðum. Selhagi er ekki langt norður frá þjóðveginum um Stóra-Vatnsskarð. Kot þetta var byggt upp úr gamalli selstöð og mjög túnlítið. Í Selhaga bjuggu þau aðeins eitt ár. Þar fæddist þeim sonur, Auðunn Bragi, sem nú er kennari og þjóðkunnur maður. "(ABS lést 2013).

Sveinn og Elín bjuggu á Refsstöðum og Sneis, fluttu út á Skagaströnd, bjuggu þrjú ár á Vindhæli og sneru síðan aftur fram á Laxárdalinn, en þá fór mjög að fækka dögum Sveins sem náði ekki nema 56 ára aldri.

RGS segir um bóndann Svein:„Eins og fyrr segir bjó Sveinn frá 1925 til 1934 á Sneis á Laxárdal. Öll þau ár átti ég heima í næsta nágrenni, lengst af á Vesturá. Ég fylgdist því vel með háttalagi Sneisarfólksins svo að segja frá degi til dags, því bæði er það, að vel sést milli bæjanna og samgangur var tíður.

Margt hafði Sveinn skáldbóndi á annan veg en almennast var og lítt samdi hann sig að siðum annarra og háttum svo sem um fótaferð, vinnutíma og hættur. Hann var einyrki og eigin húsbóndi. Hann naut sama frelsis og sama sjálfstæðis og Bjartur bóndi í Sumarhúsum. Þegar Bjartur fæddist inn í bókmenntaheiminn, tók Sveinn líka strax ástfóstri við hann. Hann lærði marga kafla úr Sjálfstæðu fólki utan að og fór oft með þá af bæ.

Um hábjargræðistímann, sláttinn, vann Sveinn þegar honum bauð svo við að horfa, án þess að skeyta eyktamörkum eða venjum nágrannanna. Oft virtist hann koma furðu seint að slætti að morgni, hvarf svo gjarnan af velli um hádegisbilið - og lúrði lengi. Aftur spratt hann upp undir kvöldið og stóð á teignum fram á rauðanótt. Líka kom það fyrir, að hann sló seinni part nætur, en hætti um það bil sem eldur var kveiktur á nágrannabæjunum. Um helgi hvíldardags og lögboðnar hátíðir hirti hann hvergi og afkastaði þá oft meira verki en hina rúmhelgu daga. Hann tafði sig heldur aldrei á kirkjugöngum um dagana.

Ekki var Sveinn laginn sláttumaður eða flummur. Honum var heldur ósýnt um að búa sér amboð í hendur, enda fremur ólaginn til fínni verka og smiður lítill. Honum beit ekki til langframa, en brýndi mikið og dengdi títt. Þó mundi hann hafa svarað meðalmanni á skákinni.

Á engi var Sveinn frábærlega grasvandur, sem kallað var og gekk því jafnan fyrst í bestu blettina. Elín sagði frá því, að einu sinni hefði hann slegið 18 ræpur á einum degi og verið kominn aftur í hina fyrstu þegar hann hætti um kvöldið. Það var af þessum sökum ærið tafsamt verk að raka á eftir honum. Engjar á Sneis voru nærri túni og grasgefnar í flestum árum en nokkuð blautar. Túnið gaf af sér um 150 hestburði af töðu og nægði það meira en handa kúnum sem oftast voru aðeins tvær. Til viðbótar heyjaði hann jafnan túnkraga á Tungubakka, en það er eyðibýli gegnt Sneis, vestan Laxár, og liggur undir Geitaskarð í Langadal. Tungubakkatún er allt einn kragi en spratt löngum vel. Stórþýfi kallaði Sveinn kamra. Hann sagðist vera að kroppa í kömrunum þegar hann var að slá Tungubakkatún.

Saga bóndans, Sveins Hannessonar, er hvorki mikil né merkileg. Hún er í megindráttum áþekk sögu hinna, sem sátu önnur kot samtímis honum og í grennd við hann. Ævistarf hans á því sviði er horfið í skaut gleymskunnar og spor með öllu út máð. Það er eins og ekkert hafi gerst.

Og þó gerðist mikið þann tíma, sem hann var bóndi og skáld. En það vissi mest að honum, fjölskyldu hans og næsta nágrenni. Alls sat hann sex jarðir í búskapartíð sinni. Allar þær jarðir sem hann sat eða eignaðist eru nú komnar í auðn nema Vindhæli. Aðeins eitt ár var hann leiguliði. Hann vildi einn ráða yfir því landi, sem hann lifði af og skipa bekk með jarðeigendum fremur en ánauðugum. Hann var alltaf breytingagjarn eins og títt er um sveimhuga og leitandi sálir. Hann elti ókyrra gæfuhnoðra milli fjalls og fjöru, en höndlaði hana aldrei til langframa. Ólgandi skap og breytilegt viðhorf meinuðu honum löngum að vera sinnar gæfu smiður og búskap fylgir alltaf eitthvert basl. Basl er búskapur."

Vestur í Borgarfirði býr Dagbjartur Dagbjartsson, hagyrðingur og vísnasafnari. Dagbjartur hefur safnað vísum Sveins, skammavísum sem og þeim sem ljómaði af og segir um þennan kollega sinn: „Sveinn Hannesson kenndur við Elivoga var á sinni tíð afburðahagyrðingur en átti til ýmsa og nokkuð fjölbreytilega tóna. Gat ort gullfalleg kvæði en ekki síður háðs- eða skammavísur og lifðu þær yfirleitt betur."

Eftir Svein látinn orti Haraldur Zóphóníasson á Dalvík og þar eru þessar vísur:

Þröng voru hlið á þinni för
þekktir sviða og lúa
Aldrei frið né auðnukjör
áttir við að búa.

Vetur stranga, harðbýl haust
heift og angri sleginn
oft í fangið andbyr hlaust
ævilanga veginn.

Lengur belja ei bárusog
burt úr éljum kífsins
ýttir á Heljar Elivog
undan svelju lífsins.

Alls eru vísurnar þrettán.

Síðastur íbúa í fremri hluta dalsins var Jón Ragnar Haraldsson í Gautsdal. Hann bjó árum saman einn í dalnum eftir að hann varð ekkjumaður. Jón átti líka sínar vísur:

Áttatíu árin löng
eru nú að baki
elli kerling eiturströng
ógnar heldur taki. JRH

Þegar slokknar lítið ljós
lífsins kvalir dvína:
Viltu leggja litla rós
á líkkistuna mína. JRG

Jón lést fyrir tæpu ári, hinn 20. okt. 2019.

Ljúkum svo þessu spjalli með annarri haustvísu skáldsins úr Tjarnaskarði, sem er skáldaheiti komið frá Rósberg sjálfum, eins og Fjóla í Steinamó:

Lýkst í skyndi blómabrá
blöð á strindi falla.
Hvassir vindar hvína á
hvítum tindum fjalla. RGS

Heimildir og ítarefni:
Rósberg G. Snædal: Skáldið frá Elivogum og fleira fólk Rv. 1973
Tölvupóstur frá Dagbjarti Dagbjartssyni
Sveinn frá Elivogum/Auðunn Bragi Sveinsson Andstæður Hf. 1988
Vísur og ljóð Sveins frá Elivogum á Húnaflóa – kvæða og vísnasafni: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=15242
Rósberg á vísnavefnum: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=5621
Fjóla í Steinamó: http://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=4067
Blikar á dökkan sandinn - stökuspjall: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=12461
Geislinn mánabjartur - stökuspjall: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13475

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2021 Húnahornið