Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Þriðjudagur, 21. mars 2023
   m/s
C
Ókeypt
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2023
SMÞMFL
2627281234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 10:30 NA 12 -6°C
Laxárdalsh. 10:30 ANA 12 -4°C
Vatnsskarð 10:30 A 11 -6°C
Þverárfjall 10:30 ANA 12 -6°C
Kjalarnes 10:30 ANA 13 3°C
Hafnarfjall 10:30 NNA 10 -1°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
30. október 2022
Stutt hugleiðing um íslenskuna
Sumum finnst ókurteisi að einhver tali íslensku og jafnvel móðgast fyrir hönd þeirra sem ekki tala hana.
::Lesa

SSNV

Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
16. mars 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
11. mars 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. mars 2023
43. þáttur. Eftir Jón Torfason
06. mars 2023
Eftir Eyjólf Ármannsson
04. mars 2023
Pistill Péturs Bergþórs Arasonar, sveitarstjóra Húnabyggðar
01. mars 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
26. febrúar 2023
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Frá minningarhátíði um Jónas. Ljósmynd: Jón Sig.
Frá minningarhátíði um Jónas. Ljósmynd: Jón Sig.
Pistlar | 20. apríl 2021 - kl. 21:20
Sögukorn: Að leggja frá landi

Jónas Tryggvason færði dagbók um árabil og skrifaði í dagbók sína á sumardaginn fyrsta:

1944 fi. 20. apríl  Söngæfing var á Eiríksstöðum í dag. Mættu allir nema tveir. Lasleiki hefur gengið hér að undanförnu og voru margir illa fyrirkallaðir en þrátt fyrir það varð furðu mikið gagn að þessari æfingu. Sumardagurinn fyrsti var að þessu sinni hálfkuldalegur, norðaustanstrekkingur um morguninn og fór að snjóa þegar úr hádegi. Var komið talsvert föl þegar við komum heim í kvöld.

1945 fi. 19. apríl: Skjótt hefur náttúran skipt um svip sem oft endranær. Einmánuður kvaddi í gær jafn hlýlega og hann heilsaði. Vorið var komið, um það var enginn í vafa. Svipur þess var tekinn að skýrast í yfirbragði landsins og íbúa þess, litir þess og línur höfðu þegar sett sinn blæ á umhverfið. Sendiboðar þess sunnan úr löndum voru ýmsir komnir norður um hafið og höfðu þegar sungið nýjar vonir inn í sál vetrarins barna. Einhver hafði fundið útsprungna sóley á tóftarvegg og frá þessu var sagt á undan ýmsum þeim tíðindum sem gjarnan hefðu þó þótt frásagnarverð.

Í kvöld var svo jörðin hulin þykku snjólagi. Það hefur snjóað svo að segja sleitulaust frá því um fótaferðatíma. Loftið er grátt og kuldalegt og þar ómar nú enginn fuglasöngur. Þess í stað þylur útnorðanstormurinn sitt ömurlega viðlag á hverjum glugga og við hverjar dyr. Það er eins og hann vilji hvísla að hverju eyra:„Þið þóttust hafa himin höndum tekið vorið og vonirnar og þið voruð víst í þann veginn að gleyma nálægð minni og tilveru. Það er þess vegna ekki úr vegi að minna ykkur á mig einu sinni enn þótt rödd mín kunni að láta allkuldalega í eyrum og sé næsta ósamhljóða röddum þeim, er þið hafið nú einkum hlýtt á um skeið, en muna skylduð þið það, að svo best njótið þið vorsins, að veturinn sé ei með öllu gleymdur.“

Fö. 20. apríl Sumarfagnaður ungmennafélagsins féll að sjálfsögðu niður í gær. Hefði vafalaust orðið lítil ánægja hjá þeim, sem komið hefðu, ef ekki hefði verið aflýst um morguninn en sumir þóttust mundu hafa farið þrátt fyrir veðrið. Ein manneskja sagði að það væri hart að svíkja krakkagreyin um þetta, sem þau væru búin að hlakka svo mikið til. En ég held nú samt, að þótt einhver óánægja hafi kannski orðið með frestun sumarfagnaðarins, að þá hefðu allir þeir er lagt hefðu af stað í gær, svikið sjálfa sig á því ferðalagi. En sumum verður aldrei gert til hæfis hvernig sem að er farið og verður ekki við því gert.

Í dag hefur nokkuð klökknað, en þó er jörðin enn meira hvít en auð og talsverðir skaflar sumsstaðar.

1946 fi. 25. apríl Það er kalt og bjart eins og á himnum forðum. Meiri vetrarsvipur á náttúrunni en lengst af á vetrinum. Og samt sem áður er þó léttara yfir manni því þrátt fyrir allt er sumarið komið

1947 fi. 24. apríl Fyrsta sumarkveðja er fremur köld og þó er í dag betra veður en dagana að undanförnu en það var sem veturinn væri að sýna hvað hann enn gæti þótt um sumarmál væri því veðrið um og úr síðustu helgi mun hafa verið með verstu norðanveðrum í útsveitum hér. Allmiklar skemmdir urðu á símalínum svo að t.d. hefur verið sambandslaust við Skagaströnd að þessu. Þak fauk af hlöðu á Móbergi og eitthvað af heyi á Gunnsteinsstöðum.

Lóan lét til sín heyra í dag og það er þó oftast órækt merki um að vorið sé í nánd. 

1948 fi. 22. apríl Sumarið er virkilega komið. Eftir óstöðuga og oftast heldur svala veðráttu einmánaðarins er nú aftur skipt um til hins betra. Sumar og vetur mun að vísu hafa frosið saman – og það veit á gott – en í morgun var marþýtt og hiti í sunnangolunni og í allan dag hefur verið blíðviðri þótt sólar hafi lítið notið. Í kvöld kom svo fyrsta vorskúrin. Það er eins og þegar sé gróðrarilmur í loftinu en lifnaði í jörð í sunnanblíðunni í mars og klaki er mjög lítill svo að nú grær fljótt ef gott verður áfram. Lóan söng hér í fyrsta sinn í morgun.

Sumarfagnaður ungmennafélagsins fór fram að Bólstaðarhlíð í dag og voru þar um 70 manns. Þessi samkoma sem einkum er ætluð fyrir börnin stendur og fellur með veðrinu en nú var það svo gott sem hugsast gat.

1949 fi. 21. apríl Aldrei man ég eftir að sumarið hafi heilsað svo kuldalega sem nú en jafnvel þótt þetta hafi einhvern tíma áður verið svona á sumardaginn fyrsta frá því að ég fór að muna eftir mér, þá hefur þó veðrið verið mildara. Í dag var hörkufrost, víst allt að ellefu stigum og bitur norðanátt. Seinni hluta dagsins gekk á með éljahrinum og var stundum versta hríð í éljunum. Þónokkrar driftir eru þegar orðnar af nýjum snjó og rennir stöðugt á þegar kular. Ekki rann hélan af gluggunum í dag þótt vel væri kynt.

Sigga fór út að Holti í morgun með Guðmundi í Austurhlíð og var ætlunin að koma heim í kvöld en svo hringdu þau utan að og sögðu að þar væri komin stórhríð og ófært einsog stæði og kæmu þau ekki heim í kvöld. Við búum því einir hér, fjórir karlmennirnir í nótt. Pabbi kom og var hjá drengjunum meðan við vorum í fjósinu og ætlar að koma aftur í fyrramálið.

Fö 22. apríl Sigga kom heim á sjöunda tímanum í morgun og höfðu þau þá verið á ferðalagi mestan hluta nætur. Veðrið skánaði í gærkveldi svo að Guðmundur lagði af stað utan að um eittleytið í nótt en skafið hafði  í slóðina og varð víða að moka. Loks skildu þau bílinn eftir við stóran skafl við Buðlungatjörnina og gengu svo þaðan fram að Móbergi, vöktu þar upp og fengu Steingrím til að aka sér heim. Má segja að þetta hafi verið svalksamt ferðalag á sumardaginn fyrsta.

1950 fi. 20 apríl: Sumarið heilsar kuldalega. Í dag var norðaustanstrekkingur og allkalt þótt ekki væri nema lítið frost í nótt. Sumarfagnaður ungmennafélagsins var haldinn þrátt fyrir óhagstætt veður en miklu færra var þar víst um manninn en venjulega. Héðan fór enginn upp eftir og frá Tungu aðeins Gunna með Garðar litla.

1951 fi. 19. apríl: Sumarið heilsar bjart og kalt. Í morgun fannst mér einna naprast sem verið hefur útkomu að morgni til og hefur þó stundum verið svalt. Glaðasólskin var allan daginn en nepjugola af norðaustri og klökknaði aðeins óverulega. Verður eflaust hörkufrost í nótt.

Við fórum öll upp að Tungu og fögnuðum þar sumarkomunni en annars lá straumurinn að Bólstaðarhlíð, á sumarsamkomu ungmennafélagsins. Þar var víst allmargt fólk þrátt fyrir kalt veður og lítil skilyrði til útileikja. Létu þeir vel af sem þar voru staddir.

Hver mannfundurinn rekur nú annan. Á morgun á að verða búnaðarfélagsfundur í Bólstaðarhlíð og á sunnudaginn vegafélagsfundur í Austurhlíð. Messu sem auglýst var á sunnudag, hefur verið frestað til annars sunnudags, 29. apríl.

1952 fi. 24. apríl: Þessi dagur, sem um mörg undanfarin ár hefur verið hér kaldari en maður vill að hann sé, var að þessu sinni með allt öðrum svip. Það var blítt veður, kyrrt og sólskin fram undir kvöldið, en þykknaði þá upp af suðaustri. Aðeins var hægt að segja, að saman frysi vetur og sumar en lítið var það frost. Nú er útlit fyrir suðlæga átt, jafnvel næstu daga og er vonandi að þannig komi nú sumar með sumri.

Það var víst fjölmennt á sumarfagnaði ungmennafélagsins í dag. Af þessum tveim bæjum fóru þau aðeins Gunna og Garðar, þeir Mundi og pabbi komu ofan eftir með litlu systkinin þrjú. Var mikil gleði hjá litla fólkinu þessa stund, sem það var saman.  

Fáein orð um ritarann:

Dagbók skrifaði Jónas Tryggvason sem geymir fróðleik og sýn hans á verkefni sveitafjölskyldunnar, kórsins og félagsstarfsins árin 1944 til 1960.

Jónas var elstur systkina sinna, f. 1916 en yngst Anna Margrét f. 1919, giftist ung til Blönduóss og bjó þar síðan. Næstyngstur var Guðmundur sem bjó við kýr og sauðfé á æskuheimili þeirra í Finnstungu, en Jón flutti að Ártúnum – á hinn helming jarðarinnar – þangað sem Jónas flutti líka 9. okt. ´48 með burstagerð sína. Hann lýsir deginum þannig:„Í kvöld ætla ég að flytja mig. Kiddi ætlar að taka dótið mitt þegar hann er búinn í vinnunni (hann hafði unnið undanfarnar vikur við vegagerð í dalnum). Næsta dag skrifar Jónas:„10.okt. næstsíðasti sunnudagur sumarsins. Ég er sestur að á nýju heimili og ég kann ágætlega við mig eins og ég mátti vita. Svo gengur allt sinn vanagang eins og áður. 11.okt. Ég er farinn að hirða fjósið og lömbin. Í fjósi eru hér 9 nautgripir, fimm kýr og fjórar kvígur og svo kemur bráðum þriggja ára naut sem þeir eiga í félagi: Nonni, Bjarni í Hólum og Pétur á Brandsstöðum en nautið hefur verið á Brandsstöðum að þessu. Þá verða höfuðin 10 í fjósinu eða jafn mörg og upp frá.“  

Í dagbók JT nefnir hann fólk gælunöfnum, Sigga og Nonni búa í Ártúnum, Gunna og Mundi í Finnstungu og Garðar er elsti sonur Gunnu, Guðrúnar Sigurðardóttur frá Leifsstöðum, mágkonu Jónasar. Kiddi er mágur Jónasar, Kristján Snorrason bílstjóri á Blönduósi, maður Önnu Tryggvadóttur

Ellefu árum síðar – í okt. 1959 – flytur Jónas öðru sinni, hann flytur frá Ártúnum til Blönduóss þar sem hann hefur reist sér hús að Húnabraut 26, flutningsdagur er fimmtud. 29. okt. 1959. Í dagbók segir: Kiddi kom fram eftir í dag og sótti mig og allt mitt hafurtask. Það var ótrúlegt hvað mikið gat orðið úr þessu dóti mínu en það komst naumlega á bílinn og því hefði ég ekki trúað að óreyndu. Nonni kom með okkur út eftir og bar af bílnum með Kidda. Við rusluðum þessu inn í fljótheitum og þá var dagurinn búinn. Ég gisti svo hjá þeim Önnu í nótt en hef síðan unnið að því að hagræða búslóðinni í dag. 

Tæp 24 ár átti Jónas eftir að lifa við ósinn Blöndu, en hann lést í ágúst 1983. Hann átti eftir að taka góðan þátt í mannlífinu á Blönduósi auk þess að vera í nánu sambandi við fjölskyldu sína fram í Blöndudalnum. Nýi skólastjórinn, Þorsteinn Matthíasson, fékk hann til að æfa söng með unglingunum í skólanum og þar kynntist Jónas konuefni sínu, Þorbjörgu kennara Bergþórsdóttur. Þau voru gift hálfu þriðja ári eftir flutning Jónasar til Blönduóss. Hún starfaði líka ötullega að félagsmálum eins og maður hennar. Hún lést 1981. Á heimili þeirra, sem nú er í eigu Tónlistarskóla Austur-Húnvetninga, hittust gjarnan Húnvetningar og Borgfirðingar, en tónlistar- og ljóðagyðjan sjálf sneyddi ekki hjá garði þeirra.

Þetta viðburðaríka haust 1959 kom út ljóðabók Jónasar Harpan mín í hylnum. Þangað sækjum við eitt ljóða hans:

Úr höfn undir haust

Sástu, vinur, er sunnan um hafið
sigldi mitt hvíta fley?
Vorið yfir auðnir og byggðir
andaði mjúkum þey.

Sástu skip mitt leggja frá landi?
Ljómuðu seglin þönd.
Vissirðu fegra fari stefnt
að framandi eyðiströnd?

Ég ætlaði að sigla út í lönd
og eftir mér skipið beið,
en síðbúnir verða sumir að heiman. 
Ég sá ei, að tíminn leið.

Því vorsins langdegi og ljósu nætur
liðu svo undur skjótt.
Sumarsins gestir svifu á braut
og svo fór að lengja nótt.

En nú er ég loks að leggja af stað.
- Enn liggur mitt skip í höfn -
Loftið er orðið öskugrátt
og úfin hin kalda dröfn.

Sölnaður liggur sumarsins gróður.
Ég sé það er komið haust
en samt ætla ég að leggja frá landi,
leysa minn bát úr naust.

Sérðu, vinur. Mín segl hafa fallið
í sumar og skipt um lit.
Þau eru nú haustsins húmi lík
og horfið ið bjarta glit.

Veistu, þegar ég held á hafið
haustnóttin fylgir mér ein?
Skilurðu, hverju hverflynda báran
hvíslar að votum stein? 

Jónas Tryggvason  

Meira efni:
Fáeinir dagar úr dagbók JT 1960: http://stikill.123.is/blog/2009/03/02/354784/

Stökuspjall frá minningarsamkomu um JT 2016: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=13350
Rökkrið sveipaði rauðum tjöldum . . : https://www.huni.is/index.php?cid=12568
Úr dagbók 1944: http://stikill.123.is/blog/2016/02/05/743826/
Kórferð 1947: http://stikill.123.is/blog/2009/04/28/370751/
Bergnumin hjörð: Bergnumin hjörð - ljóð JT http://stikill.123.is/blog/2009/01/22/342206/
Bréf JT 1955 http://stikill.123.is/blog/2009/01/13/339239/Hugleiðingar JT í ársbyrjun 1960  http://stikill.123.is/blog/2008/06/25/263198/

 


--

Ingi Heiðmar Jónsson
 

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2023 Húnahornið