Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 1. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 05:30 0 0°C
Laxárdalsh. 05:30 0 0°C
Vatnsskarð 05:30 0 0°C
Þverárfjall 05:30 0 0°C
Kjalarnes 05:30 0 0°C
Hafnarfjall 05:30 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
69. þáttur. Eftir Jón Torfason
25. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. febrúar 2024
Frá Leikfélagi Dalvíkurbyggðar
16. febrúar 2024
68. þáttur. Eftir Jón Torfason
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
08. febrúar 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Reykjanibba, Sauðadalur Vatnsdalsfjall séð frá Akri. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Reykjanibba, Sauðadalur Vatnsdalsfjall séð frá Akri. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Pistlar | 19. mars 2022 - kl. 10:41
Þættir úr sögu sveitar: Guðmundur á Akri verður úti
20. þáttur. Eftir Jón Torfason

Þegar Jón Árnason og Katrín Bjarnadóttir fluttu frá Akri, sem fyrr var nefnt (þáttur nr. 16), komu þangað Guðmundur Guðmundsson (f. 1764, d. 7. mars 1803) og Steinunn Jónsdóttir (f. 1764, d. 29. júlí 1846) og bjuggu hér fjögur ár, 1799-1803 en búskap þeirra lauk þegar Guðmundur varð úti veturinn 1803, „hafði hann látist skjótlega á milli bæja. Var hann frá Akri og mælt að hann væri þá ölvaður,“ segir Gísli Konráðsson í Húnvetninga sögu.[1] Í prestsþjónustubók Þingeyra segir að hann hafi orðið „úti í hríð, skammt frá túngarði“ og bætt við „átti eftir mörg börn.“

Guðmundur og Steinunn höfðu lifað hálfgerðu flökkulífi, eins og raunar margir aðrir, bjuggu 2-4 ár á hverju heimili. Steinunn átti heima á Umsvölum Þingi í móðuharðindunum og líklega hefur Jón Jónsson faðir hennar dáið í þeim en móðir hennar, Þórdís Loftsdóttir, hokraði eitthvað áfram með tveimur dætrum sínum, Steinunni og Þórdísi (1769-25. september 1846).

Fjölskyldan fékk ekki tiltakanlega háar einkunnir hjá séra Sæmundi Oddssyni í Steinnesi við húsvitjun hörmungarárið 1784, Jón sagður hirðulítill og lítt kunnandi en Þórdís Loftsdóttir þó hreinvirk og skýr. Steinunn er lítt læs, „daufingi, sein“ en „sæmilega uppfrædd“ og Þórdís yngri „trassafengin“ en „næm og skiljandi,“ kannski hefur presturinn verið í þungu skapi enda fáu yfir að gleðjast í miðjum móðuharðindunum.

Uppsalir virðast hafa farið í eyði eftir að Jón dó og árið 1788 eru Þórdís og Steinunn skrásettar í Haga en yngri systirin Þórdís er þá vinnukona á Þingeyrum. Þar var þá til heimilis Jón Oddsson (1759-1821) djákni og hafði verið um árabil, var þar frá 1781-1794, en séra Sæmundur í Steinnesi var einmitt bróðir hans. Eftir nokkurra ára viðkynningu vígði séra Sæmundur þau Jón og Þórdísi í heilagt hjónaband í Þingeyrakirkjunni gömlu, þann 19. apríl 1795, en Jón hafði fengið veitingu fyrir Kvíabekk í Ólafsfirði árið áður og þar fæddist elsta barn þeirra hjóna, Guðrún, 16. janúar 1796.[2]

Þau Guðmundur og Steinunn höfðu hins vegar verið gefin saman nokkrum árum fyrr, 13. september 1789. Þau hófu þá búskap á Hólabaki og voru þar til 1792, að þau fluttu að Katadal, síðan að Þorfinnsstöðum 1794 og voru þar líklega eitt eða tvö ár, þá að Sigríðarstöðum í Vesturhópi til 1799 að þau komu að Akri.

Guðmundur hafði átt barn fyrir hjónaband, Friðrik (1788-15. desember 1821), sem var hjá þeim Steinunni til þriggja ára aldurs en hefur síðan líklega verið á vegum móðurfólks síns. Hann staðfestist vestur á Snæfellsnesi, skv. islendingabok.is og bar þar beinin.[3]

Þau Guðmundur og Steinunn eru fyrst skráð á Akri í húsvitjunarbók Þingeyra haustið 1799, en þó aðeins þrjár persónur, þ.e. hjónin og Þórdís Loftsdóttir (f. um 1725) móðir Steinunnar. Þar fyrir neðan er blaðsíðan auð eins og eftir hafi verið að skrá börnin. Það er gert í næstu húsvitjunum. Þórdís Loftsdóttir er hins vegar ekki talin við húsvitjun 1802 þannig að líklega hefur hún verið dáin þá, en dánarfærsla fyrir hana hefur ekki fundist í kirkjubókum.

Ekki er til búnaðarskýrsla frá þeim árum þegar þau Guðmundur og Steinunn bjuggu á Akri en skv. tíundaskrám hreppsins telja þau fram til 5-6 hundraða fyrstu árin, sem er raunar heldur í lægri kantinum. Síðasta árið sem Guðmundur lifir virðist eitthvað hafa komið fyrir því tíund hans hrynur niður í 1 hundrað sem merkir að fjölskyldan er nánast eignalaus. Fyrstu ár 19. aldarinnar voru hörð, fjárfellir tíðir og margir flosnuðu upp eða máttu herða sultarólina. Jón Oddsson Hjaltalín kveður svo um veturinn 1802 í Tíðavísum sínum:

Fellivetur furðu hast
fjúks nam hret að tvinna,
varla getur útmálast
eins og lét sig finna.

Blota fanna sendir sá
svells um hvanna reita,
lýsing sanna liðinn á
Lurkur annar heita.

Og vísar í síðustu hendingunni til vetrarins 1602 sem í annálum var nefndur „Lurkur“ og var með eindæmum harður.

Hvernig sem þessu var varið þá leystist heimilið upp vorið 1803 eftir dauða Guðmundar og börnin fóru hvert í sína áttina, en slík urðu örlög margra fjölskyldna þegar fyrirvinnan féll frá. Hér á eftir verður reynt að rekja afdrif barnanna og átta sig á hvernig þeim farnaðist.

Börn Guðmundar og Steinunnar voru:
Hjálmar, f. 6. ágúst 1790 á Hólabaki, d. 4. október 1836.
Jóhann, f. 27. ágúst 1791 á Hólabaki, d. 11. október sama ár úr taksótt.
Þórdís, f. 1793 í Katadal, d. 9. nóvember 1859.
Guðmundur, f. 1. apríl 1794 á Þorfinnsstöðum, d. 12. júlí 1877.
Jóhannes, f. 1. apríl 1794 á Þorfinnsstöðum, d. 30. janúar 1873.
Sigurfljóð, f. 28. júní 1795 á Sigríðarstöðum, d. 17. nóvember 1874.
Steinunn, f. 29. nóvember 1796 á Sigríðarstöðum, d. 3. maí 1837.
Jóhann, f. 20. janúar 1798 á Sigríðarstöðum, d. 13. maí 1813.
Anna, f. 16. apríl 1799, á Sigríðarstöðum, d. 3. september 1799 nýkomin að Akri, dó úr landfarsótt, sem mun hafa verið skæður inflúensufaraldur.
Guðmundur, f. 5. júlí 1800 á Akri, d. 27. apríl 1839.
Margrét f. 8. september 1801 á Akri, d. 13. nóvember 1882.
Guðrún f. 2. apríl 1803 á Akri, d. 3. apríl 1866.

Eftir lát Guðmundar fer Steinunn að Hnausum með Margréti (3 ára) dóttur sína og er alla tíð með hana á sínu framfæri. Fyrsta árið er Þórdís (11 ára) hjá henni og Hjálmar, elsta barnið, er einnig viðloða í Hnausum næstu ár, titlaður léttadrengur í húsvitjun 1805.

Steinunn er fyrstu árin sögð vinnukona en síðar húskona en 1807 breytir hún til og gerist bústýra hjá Guðmundi Jónssyni (1753-11. september 1832) á Ægisíðu í Vesturhópi og giftust þau 22. apríl 1808. Þau áttu saman tvö börn, Helga (f. 1808) og Guðrúnu (1810-1895), en Steinunn hafði Margréti með sér sem fyrr og tók einnig Guðmund yngra (f. 1800) til sín, þó ekki fyrr en 1811. Fyrir átti Guðmundur Jónsson 7 börn hálfstálpuð þannig að barnahópurinn var stór sem þau höfðu að framfæra en búið á Ægisíðu var í minna lagi.

Sóknarprestur Ægisíðufjölskyldunnar, séra Jón Mikaelsson (1774-14. desember 1814)[4] gaf þeim Guðmundi og Steinunni jafnan góðar einkunnir fyrir kunnáttu og hegðun í húsvitjunarbókinni, segir Guðmund vera „dánumann“ en Steinunn er „iðjusöm,“ og með sínum hætti reyndi hann að styðja þau í fátækt þeirra. Í janúar 1812 sendi séra Jón sýslumanninum, Sigurði Snorrasyni (1769-1813) á Stóru-Giljá, skýrslu um hórdómsbrot í Vesturhópshólasókn fyrir árið 1812 og höfðu engin slík brot verið framin í sókninni það ár. En síðan lengir hann bréfið og segir:

Þessu[5] næst fylgir mín einlæg bón til yðar veleðlaheita, að yður mætti þóknast að útvega frá Torfalækjarhrepp nokkurt forlag handa Guðmundi litla, syni Steinunnar á Ægisíðu, þar ég skil ekki hvörnig bóndinn, Guðmundur á Ægisíðu, getur við haldist með sinn barnahóp, sem er 9 að tölu, hann sjálfur útslitinn og aldraður, fylgir stundum vart fötum og örsnauður. Hans börnum hefur nú verið lagt töluvert af hreppnum og nú sést ei annað fyrir en öll sú fjölskylda muni uppflosna í vor. Ég vil gjarnsamlega játa, að foreldrum er skyldugast að uppfræða sín börn, en mér virðist að Guðmundur á Ægisíðu hefur nóg með að uppfræða sín eigin börn. Mikið undarlega kemur fyrir orðatiltæki hreppstjórans í Torfalækjarhrepp, þar hann telur þann hrepp undan framfærslu Guðmundar litla, að hreppurinn geti eður vilji ei lengur forsorga hann fyrir móður hans, en Þverárhreppur hefur og líka í 8 ár upp alið fyrir hana 3 börn og ei talast undan.

Þá ég kom í húsvitjan að Ægisíðu í vetur fyrirfannst drengurinn varla þekkjandi einn bókstaf, en enginn skal geta fundið nokkra 11 vetra gamla manneskju í þessari sókn uppfrædda, hvort heldur einkabarn eður niðursetning, sem ei sé bænabókarfær. Skyldu þá ekki þeir húsbændur, hjá hvörjum drengurinn hefur notið uppeldis í Torfalækjar[hrepp] eiga að svara til þessa eftir forordningu af 2. júlí 1790, & 6,[6] en svo sannarlega sem ég kann sjálfur að stauta og hafi mér allt svo heppnast að lesa rétt þenna laganna stað, er þetta mín alvarleg meining, sem ég gjöri mér bestu von um að ei verði hrakin. Svo stjórnlítill maður og lítilsigldur sem ég er, er ég þó fyrir löngu búinn að koma sóknarfólki mínu af þeim skammarlega þanka, að ei megi svo vel aga og uppmennta niðursetninga sem eigin börn. Hér að auki er ég ásamt með öðrum hreppsbændum óánægður með að líða neitt undir dreng þessum. Þess vegna er það mín auðmjúk bón til hr. sýslumannsins, að gjöra vildi sér einhvör góð afskipti af þessu Guðmundi á Ægisíðu til hagnaðar, hvörs eigin ómagaþyngd mér og öllum kunnugum virðist með öllu óbærileg.

Hólum í Vesturhópi, þann 5. janúar 1812.
Allra auðmjúkast,
J. Mikaelsson

Ekki er að sjá að hreppstjórar Torfalækjarhrepps hafi sinnt þessari beiðni séra Jóns og Sigurður Snorrason sýslumaður heldur ekki gert neitt. Hér verður að hafa í huga að Sigurður sýslumaður gekk ekki heill til skógar og átti aðeins rúmt ár ólifað, sem getur skýrt aðgerðaleysi hans, eða kannski fannst honum ekki miklu máli skipta um lestrarkunnáttu eins niðursetnings af mörgum.

Guðmundur og Steinunn bösluðu áfram með barnahópinn sinn. Sveinn elsti sonur Guðmundar tók smám saman við búskapnum á Ægisíðu og eftir að Guðmundur lést árið 1832 fór Steinunn til Þórdísar dóttur sinnar og var hjá henni til dauðadags 29. júlí 1846.

Þess skal að lokum getið hér að Guðmundur og Steinunn á Akri komu við svokallað Beinamál, sem snérist um það að Þorvaldur Jónsson á Gauksmýri (Beina-Þorvaldur) og Eggert Rafnsson frá Hjaltabakka voru ásakaðir um að hafa banað dönskum skipbrotsmanni þegar verslunarskipið Hákarlinn rak í land á Hjaltabakkafjöru 1802. Réttarhöldin hófust haustið 1817, þegar mannabein fundust út við Blönduós, og lauk með hæstaréttardómi vorið 1820 þar sem þeir félagar voru sýknaðir af manndrápi en dæmdir fyrir að hnupla af strandgóssi. Í vitnaleiðslum var því haldið fram að Guðmundur á Akri hefði gefið í skyn að hann hefði orðið vitni að morði skipbrotsmannsins og þar sem hann var löngu látinn var Steinunn krafinn sagna. Hún kannaðist ekki við neitt slíkt en sagt var að við réttarhöldin hefði liðið yfir hana og þótti það grunsamlegt.

Af mörgum málaferlum í Húnaþingi á fyrri hluta 18. aldar er Beinamálið eitt hið ömurlegasta og afhjúpar agg, illindi og söguburð milli manna, öfund og einelti, harðýðgi, fátækt, heimsku og hrottaskap; í stuttu máli marga hina ömurlegustu eiginleika sem hægt er að hugsa sér í mannlegu samfélagi. Skal það ekki rakið hér frekar en bent á snilldarfrásögn Jóns Helgasonar ritstjóra í ritgerðaflokki hans „Vér Íslands börn“ II, bls. 33-123, nefnist þar „Þetta bölvað beinamál.“


[1] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 533.
[2] Íslenskar æviskrár III, bls. 232.
[3] Sjá Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 812.
[4] Ísl. æviskrár III, bls. 228.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 11.
[6] Í þessum fyrirmælum, sem eru undirrituð af Kristjáni VII, brjálaða kónginum í Danmörku, er ákvæði um að öll börn skuli byrja að læra að lesa 5 ára gömul. Í sjöttu greininni er sektarákvæði, sem séra Jón vísar til: „De, som have forsömt Börnene, skal betale Omkostningerne for deres Oplærelse, foruden den forbemeldte Mulkt.“ Lovsamling for Island V, bls. 694-695. Bókin er aðgengileg á netinu, slóðin er: https://baekur.is/bok/000195669/5/700/Lovsamling_for#page/n699/mode/2up.
Mynd: https://atom.blonduos.is/index.php/hah-2021-023-landslag-0004c-2021-023-landslag 

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið