Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 30. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:56 0 0°C
Laxárdalsh. 00:56 0 0°C
Vatnsskarð 00:56 0 0°C
Þverárfjall 00:56 0 0°C
Kjalarnes 00:56 0 0°C
Hafnarfjall 00:56 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Reykjanibba, Sauðadalur Vatnsdalsfjall séð frá Akri. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Reykjanibba, Sauðadalur Vatnsdalsfjall séð frá Akri. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Pistlar | 15. apríl 2022 - kl. 08:37
Þættir úr sögu sveitar: Fleiri föðurlaus börn frá Akri
22. þáttur. Eftir Jón Torfason

Næstir í röð barna Steinunnar Jónsdóttur og Guðmundar Guðmundssonar sem upp komust voru tvíburarnir Guðmundur og Jóhannes, f. 1. apríl 1794 á Þorfinnsstöðum. Guðmundur Guðmundsson (tvíburi móti Jóhannesi) er hjá foreldrum sínum á Sigríðarstöðum til 1798. Skv. manntali 1801 er hann að öllum líkindum kominn að Hofi á Skaga í vist hjá séra Árna Illugasyni presti þar, en Árni sá var faðir Jóns Árnasonar þjóðsagnasafnara. Kirkjubækur úr Hofssókn eru afar illa farnar en Guðmundur mun fermdur 1808, 14 ára, „kann vel“ og hefur verið uppfræddur af presti 4 ár svo ætla má að hann hafi verið á Hofi fram á fullorðinsár. Ekki er vitað um nein ættar- eða vináttutengsl milli séra Árna og þeirra Guðmundar og Steinunnar á Akri en ekki verður betur séð en Guðmundur hafi verið í fóstri á Hofi, a.m.k. er ekki greitt með honum, hvorki frá Þverárhreppi, fæðingarhreppnum, né Sveinsstaða- eða Torfalækjarhreppi. Nafnið „Guðmundur“ er næstum því jafn erfitt viðureignar í ættfærslum og nafnið „Jón“ þannig að ekki er öruggt að hér sé kominn Guðmundur frá Akri en líkurnar eru samt mjög miklar.

Guðmundur Guðmundsson er vinnumaður á prestssetrinu á Höskuldsstöðum í manntalinu 1816 en á næstu árum rífur hann sig upp í bóndastöðu. Hann kvænist Elínu Þorsteinsdóttur (f. 1787) þann 19. maí 1822 og eru þau þá bæði vinnuhjú í Neðri-Lækjardal. Árið 1826 eru þau búsett á Syðra-Hóli og búa þar til 1840 að þau flytja að Haga í Þingi. Skv. sveitarbókum Vindhælis- og Sveinsstaðahrepps eru þau Guðmundur og Elín vel bjargálna en lítið umfram það. Í Haga bjuggu þau uns Elín dó árið 1860 en Guðmundur lifði þar síðan í skjóli Þórönnu (f. 8. mars 1825) dóttur sinnar til dauðadags 12. júlí 1877, „örvasa gamalmenni í Haga,“ segir í prestþjónustubókinni. Nokkrum árum síðar flutti Þóranna til Vesturheims með börnum sínum og mun Guðmundur ekki eiga afkomendur á Íslandi.

Hinn tvíburinn, Jóhannes Guðmundsson, fæddist 1. apríl 1794 á Þorfinnsstöðum en foreldrar hann eru um það leyti að flytja að Sigríðarstöðum. Þá strax fer hann að Geirastöðum í Þingi, sem segja má að sé næsti bær við Sigríðarstaði, þótt bæjarleiðin sé býsna löng yfir Bjargaós og mestallan Þingeyrasand að fara. Á Geirastöðum bjuggu Benedikt Einarsson og Valgerður Pálsdóttir, þá orðin nokkuð öldruð. Ekki er vitað um skyldleika með Geirastaðahjónum og þeim Guðmundi og Sigríði skv. upplýsingum frá islendingabok.is. Eitthvað var gefið úr sveitarsjóði með Jóhannesi í fóstrinu, þó mun það ekki hafa verið nema sem svaraði fjórða eða fimmta hluta úr fullu meðlagi með barni.[1] Framan af er jafnan skrifað „tekinn“ á eftir nafni hans við húsvitjun sem vísar til niðursetninga. Frá Geirastöðum fermist hann í Þingeyrakirkju 1809 og er eftir það kallaður „léttapiltur“ og síðan „vinnupiltur,“ sagður „gagnlegur og þægur, mjög stirt kunnandi,“ við húsvitjun 1811. Valgerður á Geirastöðum dó þetta ár og Benedikt 1814 og stuttu eftir það er Jóhannes kominn að Stóru-Borg, er að minnsta kosti kominn þangað 1816, sagður niðursetningur og það er greitt með honum úr fátækrakassa Þverárhrepps.

Kirkjubækur Breiðabólstaðar eru mjög laskaðar framan af 19. öld, einkum húsvitjunarbókin, þannig að ekki er öruggt hvenær Jóhannes kemur í sóknina en hann er á Stóru-Borg árum saman, allt til 1826 að hann fer að Sigríðarstöðum til Hjálmars bróður síns og er þá enn gefið með honum úr fátækrasjóði hreppsins. Í hreppsbókinni segir þessi ár: „Fótlaus, vinnur þó mikið.“

Nú er eins og gerist einhvers konar kraftaverk á þessum unga manni, sem hefur alla ævi verið fatlaður, mikið bagaður á fæti eða e.t.v. einfættur og verið á sveitar framfæri að nokkru leyti. Hann gerist bóndi á Þorfinnsstöðum, hjáleigu frá Vesturhópshólum og næsta bæ við Sigríðarstaði. Það má vel hugsa sér að Hjálmar bróðir Jóhannesar hafi stutt hann við ýmis verk, því stundum er hann einn karlmanna á heimilinu skv. húsvitjunarbókinni. Framan af er hann með þeim fátækustu í hreppnum, en hann fer að greiða tíund til hreppsins, eins og aðrir bændur, og smám saman vænkast hagur hans þótt hann muni aldrei hafa orðið efnaður. Hann er áratugum saman meðhjálpari í Vesturhópshólakirkju, sem taldist virðingarstaða, og við húsvitjun fær hann jafnan bestu einkunnir hjá prestinum, er vel læs og vel kunnandi og oft kallaður „dánumaður.“

Nú brestur heimildir en líklegt er að „kraftaverkið“ hafi verið í líki vinnukonu á Sigríðarstöðum, Kristínar Árnadóttur (1790-2. nóvember 1834) sem var raunar frá Litlu-Borg og hefur trúlega kynnst Jóhannesi þegar hann var á Stóru-Borg. Þau Jóhannes og Kristín giftast 16. mars 1828, Jóhannes er þá húsmaður á Sigríðarstöðum, en árið eftir setjast þau að á Þorfinnsstöðum og þar býr Jóhannes til 1862 að hann flytur til Steinunnar (10. apríl 1833-28. mars 1922) dóttur sinnar sem þá var orðin húsfreyja í Vatnsdalshólum. Þar dó Jóhannes 30. janúar 1873, af „ellilasleika og brjóstþyngslum,“ skv. prestsþjónustubókinni. Steinunn flutti síðar til Vesturheims og bar þar beinin en Jóhannes Guðmundsson á enga afkomendur á Íslandi.

Ekki var samt ævi þessa fatlaða manns samfelldur draumur á rósrauðu skýi. Aðeins eitt barna þeirra Kristínar komst upp, Steinunn sem áður er nefnd, en Anna, f. 10. október 1827, dó 8. maí 1828. Frímann, f. 29. mars 1829, d. 8. júní 1834 og Gísli f. 25. mars 1831 náði ekki að fylla fyrsta tuginn, dó 31. maí 1840. Kristín kona Jóhannesar þjáðist af sullaveiki sem bagaði ótrúlega marga landsmenn um þær mundir, sumir fræðimenn telja að sjötti til sjöundi hver maður hefði haft sull og sullaveikin dró marga til dauða en mátt úr öðrum og var oft mjög þjáningafull. Kristín leggst fársjúk í rúmið sumarið 1834 og hefur dauði Frímanns litla vafalaust ekki bætt líðan hennar. Þann 1. september er sóttur til hennar Jón Bergsted, sem lýsir stórri kúlu á vinstri síðu sem hann stakk á og hleypti út illa lyktandi korgi en vilsa og sullahýði gekk niður af konunni.[2] Jón var sjálflærður í læknisfræðinni en fær gott orð fyrir nærfærni við sjúka. Kristínu gat hann þó ekki hjálpað og hún dó 2. nóvember um haustið.

Jóhannes lagði ekki árar í bát þrátt fyrir konumissirinn. Árið eftir kemur til hans bústýra, Ingibjörg Jósepsdóttir (1791-4. júlí 1859), og giftast þau árið eftir og búa saman á Þorfinnsstöðum þar til hún dó. Þá kvænist Jóhannes í þriðja sinn, nú Guðríði Jóhannsdóttur (f. 24. apríl 1834-26. maí 1894). En ekki átti Jóhannes börn með síðari eiginkonum sínum.

Mér hefur ekki tekist að finna neinar heimildir um Jóhannes þennan, umfram það sem lesa má í hreppsbókum og kirkjubókum. Þrátt fyrir fötlun, hefur e.t.v. verið einfættur, er hann á miðjum aldri orðinn „sjálfstæður“ bóndi, oft einn karlmanna á heimilinu og hljóta mörg umsvif við heyskap og skepnuhirðingu að hafa verið honum erfið. Ekki verður betur séð en Kristín Árnadóttir hafi orðið honum sú heilladís sem lyfti honum úr kröm æsku- og unglingsáranna í stöðu virðingarverðs dánumanns og má þá hafa í huga 2000 ára gömul ummæli Síraks: „Dugandi kona gleður mann sinn og hann nýtur friðar til æviloka.“[3]

Sigurfljóð Guðmundsdóttir var fædd á Sigríðarstöðum 28. júní 1895. Eftir lát Guðmundar 1803 lenti uppfóstur hennar á Þverárhreppi og þar í sveit var hún til fullorðinsára. Hún giftist Þorvarði Guðmundssyni (1800-31. maí 1862) og bjuggu þau lengi á Hvoli í Vesturhópi og eignuðust börn sem komust upp. Á efri árum bárust þau austur í Vatnsdal og staðnæmdust í Grímstungu þar sem Sigurflóð dó 17. nóvember 1874, ekkja karlæg, 83 ára, dánarmein „ellihrumleiki.“

Steinunn Guðmundsdóttir var fædd á Sigríðarstöðum 29. nóvember 1796 og var eins og Sigurfljóð alin upp á hreppnum. Það má sjá í hreppsbókinni hvernig meðlagið minnkar með hækkandi aldri þegar þær systur eru farnar að geta unnið nokkuð fyrir sér. Eftir venjulegan vinnukonuferil giftist Steinunn Guðmundi nokkrum Jónssyni (1793-17. febrúar 1842) og bjuggu þau á Hurðarbaki í Vesturhópi þar til Steinunn lést „af meinlætum“ 3. maí 1837. Eina barn þeirra sem upp komst var dóttirin Anna (10. maí 1832-28. nóvember 1892), húsfreyja í Katadal og á Grund. Hún varð úti 28. nóvember 1892 en hefur ekki fundist strax því hún var ekki jarðsett fyrr en 19. desember. Í handriti að Hrakfallabálki bætir Rósberg G. Snædal því við að hún hafi verið ekkja frá Króksstöðum í Miðfirði og segir svo: „Hún ætlaði að Vatnshóli en varð úti skammt frá Sporði undir stórum steini á svokölluðum Miðdegishól. Maður frá Þóreyjarnúpi fann hana.“ Hinn annálaði Sporðsbylur varð nokkrum dögum síðar, 2. desember 1892, en þá urðu þrír menn úti í Húnaþingi.


[1] Sbr. bréf sem Björn Ólsen á Þingeyrum, hreppstjóri í Sveinsstaða- og Þorkelshólshreppum, ritar til sýslumanns 23. apríl 1822, þar sem hann leggur til að meðlög og uppeldisstyrkir frá hreppunum séu innheimtir af þeim styrkþegum sem hafa burði til að borga til baka (ÞÍ.Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/4, örk 3).
[2] Lækningabók Jóns Bergsted, færslur 8. ágúst og 1. september 1834.
[3] Biblían. Síraksbók 26. kafli, 2. vers.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið