Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 15. júní 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júní 2024
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 12:52 0 0°C
Laxárdalsh. 12:52 0 0°C
Vatnsskarð 12:52 0 0°C
Þverárfjall 12:52 0 0°C
Kjalarnes 12:52 0 0°C
Hafnarfjall 12:52 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
Eftir Guðmund Inga Guðbrandsson
15. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
13. júní 2024
Eftir Ásgerði Pálsdóttur
09. júní 2024
Eftir Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur
05. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júní 2024
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Bréf Jóns Þórðarsonar
Bréf Jóns Þórðarsonar
Pistlar | 30. apríl 2022 - kl. 09:45
Yngstu börnin frá Akri
23. þáttur. Eftir Jón Torfason

Jóhann Guðmundsson fæddist 20. janúar 1798 á Sigríðarstöðum og fer með foreldrum sínum að Akri en eftir dauða Guðmundar lendir uppfóstur hans á Þverárhreppi. Hann er niðursetningur á Stóru-Borg og síðar á Grund í Vesturhópi og þar deyr hann 13. maí 1813.

Næsta barn þeirra hjóna, Guðmundar Guðmundssonar og Steinunnar Jónsdóttur, varð ekki langlíft. Það var Anna f. 16. apríl 1799 á Sigríðarstöðum en dó 3. september 1799 þegar fjölskyldan var nýkomin að Akri.

Þá er komið að Guðmundi sem fæddist á Akri 5. júlí 1800. Hann lendir á framfæri Torfalækjarhrepps eftir dauða föður síns og er á Kringlu veturinn 1803-1804, kallaður „sveitarkind“ í húsvitjunarbókinni, er þá þriggja ára.

Þegar Erlendur Guðmundsson (1757-1805) hreppstjóri á Torfalæk hvarf niður við Húnavatn árið 1805 voru hreppsreikningarnir ekki frágegnir hjá honum og því ekki fullkomin regla á færslu reikninganna 1804 og 1805. En Guðmundur litli hefur þó þá verið kominn á framfæri sveitarinnar. Frá 1806 til 1810 eru að jafnaði greiddir með honum 240 fiskar úr sveitarsjóðnum, sem var nálægt venjulegri meðgjöf með barni. En þessu barni er ekki komið fyrir á einum tilteknum bæ til dvalar heldur gripið til þess snilldarráðs að láta hann flakka milli nokkurra bæja ár hvert, stundum var talað um bitabarn þegar þessi háttur var hafður á. Þannig er Guðmundur árið 1805 í Sauðanesi og Kaldakinn, á Kagaðarhóli og Hurðarbaki og á sömu bæjum næstu ár, mest virðist hann þó hafa verið í Sauðanesi.

Fátækir bændur áttu auðveldara með að gefa niðursetningunum að borða heima hjá sér einhverjar vikur en greiða sambærilegar upphæðir til fátækrakassa hreppsins, þannig að frá því sjónarmiði var heppileg aðferð að láta niðursetningana flakka milli bæja, en örugglega ekki jafn heppilegt fyrir þroska lítils drengs. „Það barn sem býr við öryggi lærir kjark,“ segir á veggspjaldi sem Fósturskóli Íslands gaf út árið 1976 með orðalagi Helga Hálfdanarsonar, eitt spakmæla af mörgum úr þeim ranni um heppilegar uppeldisaðferðir.

Á þessu hefur Guðmundur fengið að kenna, hann er stundum í húsvitjunarbókinni sagður „hjárænulegur“ og þegar hann er átta ára kann hann lítið meira í kristindómi en boðorðin 10. Og 1810 segir um hann: „Stafar lítið. Ekki óþægur. Fábjáni í andlegu,“ og mætti þá spyrja hver hefði átt að sjá um að kenna honum að lesa og eitthvað í kristinfræði? En nú var högum Steinunnar svo komið að hún gat betur sinnt um börn sín en áður og eftir að hún giftist Guðmundi Jónssyni á Ægisíðu (sjá þátt nr. 20) tók hún Guðmund litla til sín og hjá henni elst hann síðan upp. Hann á heima á Ægisíðu þegar séra Gísli Gíslason fermir hann í Vesturhópshólakirkju 1817 eða 1818 (ártölin eru máð í prestsþjónustubókinni), sagður „skikkanlegur, mjög gáfulítill, þó sæmilega kunnandi.“

Guðmundur virðist vera vinnupiltur hjá Hjálmari bróður sínum á Sigríðarstöðum 1820 og e.t.v. fleiri ár. Ekki hefur tekist að rekja feril hans að öllu leyti en öruggt má telja að hann hafi alla tíð verið annarra hjú. Árið 1835 og 1836 er hann vinnumaður á Geirastöðum en fer þá að Hrísakoti í Vesturhópi, er innkominn þar 1836, 36 ára. Þar er hann síðan skráður vinnumaður næstu þrjú árin, sagður „lítt læs“ og „fákunnandi“ en „óátalinn“ í sóknarmannatali. Hann dó í Hrísakoti 27. apríl 1839, 39 ára gamall, „dó af taki, lá eitt dægur,“ skrifar séra Gísli í Vesturhópshólum um þennan pilt sem hann fermdi 20 árum fyrr.

Börnin frá Akri, börn Steinunnar og Guðmundar, fá næstum undantekningarlaust góðar einkunnir fyrir lestur og kunnáttu í kristnum fræðum, þannig að ekki hefur þau skort andlegt atgervi. Sum þeirra komust í traust fóstur og það má sjá að þau þrjú, sem ólust upp á Þverárhreppi, voru lengstum á sama bæ, sem tryggir a.m.k. lágmarks öryggi fyrir lítið barn. Guðmundur hins vegar hrekst þriggja ára frá móður sinni og er í æsku fluttur bæ af bæ og hefur því aldrei náð að tengjast fullorðinni manneskju tilfinningaböndum, þ.e. ekki búið við „öryggi.“ Fákunnátta Guðmundar og takmarkaður þroski hlýtur því a.m.k. að hluta til að skrifast á ábyrgð hreppstjóranna í Torfalækjarhreppi á þessum árum.

Margrét Guðmundsdóttir fæddist á Akri 8. september 1801 og fylgdi móður sinni í vinnumennskuna að Hnausum eftir að faðirinn var dáinn og síðar að Ægisíðu eftir að Steinunn giftist Guðmundi bónda þar. Steinunn hafði því þessa dóttur alla tíð á sínu framfæri. Hún er á Ægisíðu til 1825 og byrjar þá vinnumennskuferilinn, er í Hindisvík 1826 en fer þá að Súluvöllum og eignast tvö börn í lausaleik með húsbónda sínum, Ólafi Ólafssyni bónda þar. Annað var Guðríður Ólafsdóttir, f. 4. apríl 1830, d. á Súluvöllum 16. ágúst 1834, af uppdráttarsýki, en hitt Guðmundur Ólafsson 19. apríl 1832, fór til Ameríku 1874.

Nú tók Margrét saman við Jóhannes Þórarinsson (1807-24. febrúar 1846) og giftist honum. Þau bjuggu á Gottorp í Vesturhópi frá 1838 til dauðadags Jóhannesar. Sonur þeirra var Bjarni Jóhannesson (f. 1835, d. 15. maí 1869) bóndi á Böðvarshólum og Þorgrímsstöðum. Drukknaði í Hólaá hjá Vesturhópshólum.

Eftir það var Margrét vinnukona á ýmsum bæjum í vestursýslunni en var síðustu árin á Ósum og Súluvöllum þar sem hún lést 13. nóvember 1882.

Yngsta barn Steinunnar og Guðmundar hét Guðrún og fæddist 2. apríl 1803 tæpum mánuði eftir að faðir hennar varð úti. Eins dags gömul hefur hún verið flutt yfir Húnavatn til skírnar á Þingeyrum og það er athyglisvert að eini skírnarvotturinn er Benedikt Einarsson á Geirastöðum, sá sem fóstraði Jóhannes Guðmundsson bróður hennar og áður er rakið. Þegar barnið hefur hlotið skírn ákveður Oddur Stefánsson nótarius og umboðsmaður Þingeyraklausturjarðanna að taka barnið að sér um nokkurra vikna tíma enda aðstæður bágar hjá ekkjunni með barnahóp í ómegð. Oddur var hins vegar að flytja að Stóru-Giljá um þessar mundir svo hann bað nágranna sína, Guðrúnu Þórðardóttur og Jón Þórðarson (1764-28. maí 1821) á Leysingjastöðum, að uppfóstra barnið og urðu þau við þeirri beiðni.

Torfalækjarhreppur, þ.e. fæðingarhreppurinn, var framfærslusveit Guðrúnar og skv. hreppsbókinni er greitt meðlag með henni til Jóns á Leysingjastöðum flest uppvaxtarárin, þó ekki alltaf fullt meðlag, svo líklega hefur Jón að einhverju leyti „gefið“ henni fóstrið. Síðast er hennar getið í hreppsreikningnum 1814-1815 og þá borgað sem samsvarar hálfu meðlagi. Í sóknarmannatali er stúlkan framan af sögð „tekin,“ en síðan er hún kölluð „fósturbarn“ og virðist eðlilegast að skilja það svo að þá hafi ekki verið greitt með henni. Jón á Leysingjastöðum ritaði hins vegar bréf  til sýslumannsins vorið 1813 út af því að eftirstöðvar meðlagsins greiddust seint. Þar segir m.a. svo:

Leysingjastöðum[1] þann 13. maí 1813
Það er hans veleðlaheitum, hr. constitueruðum[2] í sýslumannsembættinu yfir Húnavatnssýslu vitanlegt, að hjá mér undirskrifuðum er og hefur verið um nokkur undanfarin ár einn ómagi Torfalækjarhrepp viðkomandi, með hvörjum mun bera að betala tilbærilega meðgjöf eftir samningi. En þar nokkur tregða á þeim betalingi er á orðin orsakast ég hér með til að kvarta yfir þessari sömu, beiðast lagfæringar þar á, og vil því jafnframt gefa nauðsynlega upplýsingu í sakarinnar samanhengi þannin sem fylgir.

Þessi ómagi, Guðrún Guðmundsdóttir, er fædd á Akri, Torfalækjarhreppi þann 2. apríl 1803 og flutt þaðan til skírnar að Þingeyrum, að föður sínum önduðum skammt frá túngarðinum á Akri, nokkru fyrr sama veturinn á ferðareisu sinni til síns heimilis utan frá Skagastrandar kaupstað. Nótarius sálugi, Oddur Stefánsson, sem ennþá var á Þingeyrum, tók svo barn þetta af meðaumkvun og hjartagæsku sinni, fyrst í 6 vikur. Þá kom að þeim tíma að hann skyldi flytja sig búferlum frá Þingeyrum að Stóru-Giljá, þá skrifaði hann mér eitt bréf af 13. maí, hvörs mesta innihald var að taka af sé fyrst um tíma þennan munaðarleysing og krossberara er hann svo áleit, þar til um hægðist fyrir sér, hvað ég og svo gjörði, svo barnið var til mín flutt þann 14. maí 1803. Nokkru síðar þá hann var að Giljá alkominn og ég fann hann lét ég mig yfirtala af honum, að taka barn þetta árlangt, eður til þess 14. maí 1804 upp á hans kost. Hann deyði veturinn eftir og af hans sterbúi fékk ég eftir töluverða fyrirhöfn nokkra meðgjöf með þessu barni það árið. Nú var faðirinn dáinn, móðurin fyrra vorið upp flosnuð og herra nótarius frá fallinn ogsvo, og engir náungar til sem gætu tekið það, því mörgum af hinum börnunum var í sína fæðingarhreppa uppskipt, hvörs skyldi nú þetta barn annarra vera til uppfósturs en Torfalækjarhrepps?

Ég lofaði barni þessu samt að vera til næsta hausts 1804 og gjörði mér svo ferð út á Torfalækjar hreppskilasamkomu og talaði um barn þetta. Allir viðkomendur, en sérdeilis og einkum hreppstjórinn mr. Þorsteinn [Steinþórsson] í Holti og mr. Ólafur [Björnsson] þá verandi að Reykjum, nú að Brekku, óskuðu og innilega báðu að barnið mætti kjurt hjá mér vera, og létu sér svo annt um það, að þeir tillögðu hreppnum eina gáfu í peningum er mér þá samstundis afhentist, svo sem í meðgjafar skyni með þessu barni að nokkru leyti þetta sama ár. Ég taldi því og áleit að meðgjöfin af hreppnum mundi hafa tilfallið frá þeim 14. maí 1804, þá að hr. nótarii með endti, og samdi svo nokkru seinna við Torfalækjar hreppstjóra, að ég skyldi í árs meðgjöf láta mér lynda helming í peningum, n.l. 1 rd. cour, fyrir hvörja 20 fiska sem þá annars upp á höndlunar eður peninga reikning voru þá orðnir mikið dýrari en áður, þá ég fengi annan helminginn í óframfærðum landaurum eftir sínu gamla verðlagi, hvað ég og tregðulítið fékk, þó misjafnlega úti látið af nokkrum, allt til vorsins 1809, frá því og til vors 1810 er mér að sönnu útlagt af Torfalækjar hreppstjórum frá Stóru-Giljá 150 fiskar og frá mr. Ólafi á Reykjum 110 fiskar, en þar af fékk ég einungis meðtekið frá hr. sýslumanninum sáluga 120 fiska og frá mr. Ólafi 40 fiska, sem gjörir 160 fiska, restera allt svo fyrir það ár 100 fiskar svo sem ég hefi þráfellt tilkynnt Torfalækjar hreppstjórum einum eftir annan.

Bréfið er allmiklu lengra en snýst um kröfu Jóns, að Torfalækjarhreppur greiði þann hluta meðlagsins sem eftir stóð og jafnfram hafði bæst við skuldina efir því sem árin liðu. Í hreppsbók Torfalækjarhrepps má sjá að tekið er tillit til kröfu Jóns Þórðarsonar og a.m.k. meginhluti meðlagskröfu hans greiddur honum.

Hvað sem þessu líður þá heldur Guðrún tryggð við fjölskylduna á Leysingjastöðum eftir að flutt er þaðan, fyrst að Refsteinsstöðum og síðar að Auðunarstaðakoti. Hún er fyrst „léttastúlka“ en síðan „vinnukona“ og þann titil bar hún alla ævi síðan. Hún fær yfirleitt viðunanlegar umsagnir við húsvitjun sóknarpresta, t.d. segir árið 1819, þegar hún er 16 ára: „Les viðværilega, þæg og komin til verka.“

Þegar Guðrún var komin hátt á fertugs aldur eignaðist hún dóttur, Lilju (f. 21. október 1837, d. 3. júní 1918), en faðirinn hét Jón Halldórsson Reykjalín (f. 1807-24. október 1859)[3] og var vinnumaður á sama bæ. Upp úr þessu hleypir Guðrún heimdraganum ef svo má kalla, fer alla leið austur í Vatnsdal, er orðin vinnukona á Haukagili 1838 og á þar heima uppfrá því. Við húsvitjun 1862 er hún sögð „lasin,“ árið 1863 er hún „veik á hold“ og 1864 „holdsveik,“ þannig að ekkert fer milli mála. Guðrún lést úr holdsveikinni 3. apríl 1866, og var þá sextíu og tveggja ára að aldri, vinnukona, ógift.

Lilja Jónsdóttir og Guðrúnar elst upp með móður sinni og er vinnukona í Forsæludal 1870 og síðar á Haukagili. Hún eignaðist dóttur með Hannesi Þorvarðarsyni á Haukagili, Hólmfríði (11. júlí 1872-28. maí 1933) sem síðast var saumakona í Reykjavík. Lilja var húskona í Marðarnúpsseli 1880 (42 ára), og þá giftist hún Jósef Þorsteinssyni og voru þau síðan lengst á bæjum í framanverðum Vatnsdal en afkomendur munu flestir í Vesturheimi.

Þessi greinargerð um börn Steinunnar og Guðmundar er orðin lengri en ætlað var í upphafi, en hugmyndin var og er að reyna að átta sig á hvernig samfélagið brást við þegar áföll dundu yfir eins og í þessu tilfelli, að heimilisfaðirinn og fyrirvinnan dó. Eftir stóð ekkja með 10 börn og spurningin er hvernig þessum barnahóp var ráðstafað.

Svo virðist að tvíburarnir (Jóhannes og Guðmundur) hafi þá þegar verið komnir í fóstur. Með Guðmundi, sem var á Hofi á Skaga, mun ekki hafa verið gefið meðlag en Sveinsstaðahreppur hefur greitt eitthvað með Jóhannesi sem var á Geirastöðum. Dóttirin Þórdís fer í fóstur hjá Jóni Árnasyni frænda sínum í Kirkjuhvammi. Steinunn fer í vinnumennsku með Margréti og elur önn fyrir henni og Hjálmar er sömuleiðis á sama bæ og hún og telst brátt fullorðinn. Hin börnin lenda á sveitinni. Guðrún er alla tíð á sama bæ, Leysingjastöðum, og þau þrjú sem eru send í Þverárhrepp, Sigurfljóð, Steinunn og Jóhann, virðast hvert um sig lengst af hafa verið á sama heimili. Guðmundi yngra er hins vegar þvælt bæ af bæ á hinum viðkvæmu æskuárum þar til móðir hans giftist aftur og hefur aðstæður til að taka hann til sín.

Jóhann deyr fyrir fermingu en hin komast til fullorðinsára, 7 þeirra giftast, en það var langt í frá að vinnufólk ætti alltaf kost á slíku, og tekst þeim öllum að reisa bú. Flest eru þau þó leiguliðar á frekar rýrum jörðum, það er helst að Guðmundur eldri (annar tvíburinn) kunni að hafa komist í einhver efni eftir að hann flutti að Haga. Tvö barnanna eru alla ævi í vinnumennsku, Guðrún lengst af á sama heimili í Vatnsdal en Guðmundur yngri nær ekki fertugs aldri og er mjög líklegt að misjafnt atlæti sem hreppslims í æsku hafi dregið úr þroska hans.

Þessi systkin fá jafnan góðan vitnisburð í húsvitjunarbókum fyrir framkomu og hegðun, fyrir iðjusemi og góða kunnáttu þannig að ekki hefur þau skort andlegt atgervi. Ekki hefur verið grennslast fyrir um afkomendur þessara systkina nema fáeinna og um þá alla má segja eins og séra Sigvaldi komst að orði í Manni og konu: „Sómafólk allt það fólk.“


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 12. Bréfið er nokkuð máð og sumt harla torlæsilegt.
[2] Þ.e. „settum.“ Þessi setti sýslumaður var Björn Olsen á Þingeyrum.
[3] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 1124.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið