Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 22. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 23:43 0 0°C
Laxárdalsh. 23:43 0 0°C
Vatnsskarð 23:43 0 0°C
Þverárfjall 23:43 0 0°C
Kjalarnes 23:43 0 0°C
Hafnarfjall 23:43 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Hluti af bréfi Sigurðar Gíslasonar
Hluti af bréfi Sigurðar Gíslasonar
Pistlar | 17. júlí 2022 - kl. 09:05
Þættir úr sögu sveitar: Hreppstjórinn á Reykjum
28. þáttur. Eftir Jón Torfason

Árið 1762 bjó á Reykjum á Reykjabraut Illugi Jónsson en hafði árið 1737 keypt hálfa jörðina fyrir 45 dali.[1] Sennilega hefur Illuga síðar tekist að eignast alla jörðina því eftir hans dag býr þar fyrst Helgi sonur hans (f. um 1740, d. um 1775) og kona hans Ragnhildur Sigurðardóttir og er hennar áður getið.[2]

Ein dóttir Illuga var Guðrún (1733-1801) kona Ólafs Arasonar í Ytri-Mjóadal (f. 1737)  sem drukknaði í Blöndu 1. janúar 1782. Önnur dóttir Illuga var Ingibjörg (1729-1816) kona Björns Arasonar í Syðri-Mjóadal (1735-1805), þær systur hafa sum sé gifst bræðrum. Ein dóttir enn var Guðrún (1749-1814) sem var þrígift, átti síðast Erlend Guðmundsson (Hraknings-Erlend) á Holtastöðum (1750-1824).

Ekki er mér ljóst hvernig hefur farið með eignarhald á Reykjum eftir lát Illuga en væntanlega hefur jörðinni verið skipt milli barnanna. Hvað sem slíku líður þá er Mála-Ólafur Björnsson (1770-1849), sonur Ingibjargar Illugadóttur og Björns Arasonar, talinn eigandi Reykja í fasteignamati 1804, hefur þá líklega leyst arfahluta hinna systranna til sín. Ólafur bjó á Reykjum 1798 til 1810 en flutti þá að Beinakeldu og síðar Litlu-Giljá og kemur brátt að því.

Áður en Ólafur kom að Reykjum voru þar tveir ábúendur á undan honum, Sigurður Gíslason frá 1786-1794 og Jón Ketilsson frá 1794-1798. Þegar betur er skoðað kemur á daginn að kona Sigurðar hét Oddný (f. 1763) og var Björnsdóttir og Ingibjargar Illugadóttir, var sum sé systir Mála-Ólafs.  Þau Oddný og Sigurður hafa þannig væntanlega átt „rétt“ á einhverjum hluta jarðarinnar en vísast greitt öðrum eigendum, þ.e. Mála-Ólafi, leigu fyrir notkun á þeirra hluta. Sigurður var sonur Þóru Einarsdóttur og Gísla Helgasonar (d. 1781 eða 1782) sem bjuggu á Stóru-Mörk á Laxárdal og þar byrjaði Sigurður sinn búskap með móður sinni að föður sínum önduðum.

Sigurður Gíslason (1756-1825) virðist þokast upp á við í mannvirðingum þegar hann kemur í Torfalækjarhrepp, er fyrst skráður „læs, skikkanlegur, vel kunnandi,“ í húsvitjunarbókinni, ári síðar er bætt við „dánumaður“ og loks „hreppstjóri.“ Oddný kona hans er ávallt sögð læs en að auki „fróm, ráðvönd, vel uppfrædd.“

Þessum ungu hjónum búnaðist brátt vel á Reykjum, tíunduðu ýmist 9 eða 10 hundruð ár hvert og urðu smám saman með hæstu gjaldendum í hreppnum. Árið 1787 töldu þau fram 2 kýr, 16 ær og 8 gimbrar, 3 hesta og svipaðan bústofn árið eftir samkvæmt búnaðarskýrslum, þannig að tekist hefur tiltölulega fljótt að rétta búskapinn bærilega við eftir hörmungar móðuharðindanna. Árið 1790 eru kýrnar orðnar 3, mjólkandi ær 24 og gimbrarnar 6, tamdir hestar 3 og ótamdir 2. Sigurður hefur verið þrekmikill á þessum árum, hann hefur að jafnaði vinnumann og vinnukonu en þegar hlé er á heyskap og skepnuhirðingu eru hlaðnir túngarðar af miklum móð, t.d. eru taldir fram 64 hlaðnir faðmar árið 1790.

Á heimilinu er móðir Sigurðar, Þóra Einarsdóttir, en Gísli faðir hans mun þá andaður.  Þau Oddný og Sigurður eignuðust ekki börn en tóku að sér þrjú fósturbörn, Sólveigu Illugadóttur (f. 1788), Pétur Jónsson (f. 1791)  og Soffíu Ólafsdóttur (f. 1797).

Ekki er mikið að segja um embættisstörf Sigurðar sem hreppstjóra en þau hafa í sjálfu sér ekki verið mjög erfið því ómagaframfærslan var ekki þungbær í hreppnum á árunum eftir móðuharðindin. Það kom raunar ekki til af góðu því fólk, sem var veikburða og sjúkt, féll unnvörpum í harðindunum og léttist þannig ómagabyrði hreppsins. Í réttarhaldinu vegna sauðaþjófnaðar Gísla Gíslasonar á Hnjúkum og Siggu skáldu árið 1792, sem áður var getið (sjá þátt nr. 25. Harmleikur á Hnjúkum), var Sigurður verjandi og virðist hafa lagt sig fram um að benda á ýmis konar málsbætur fyrir gjörðum þeirra; þau hafi verið matarlaus, hvergi getað fengið neitt lánað og loks að stuldurinn hefði í sjálfu sér ekki verið stórvægilegur og ætti að refsa fyrir af sem mestri vægð. Þrátt fyrir harðan dóm í héraði varð niðurstaða landsyfirréttar mjög nálægt því sem Sigurður hafði lagt til.

Hér verður ekki tíundað allt það vinnufólk sem var hjá Oddnýju og Sigurði þessi ár á Reykjum, en þó skal nefna eitt vinnuhjúapar sem giftist frá Reykjum 21. júní 1788, og er líklegt að hjónavígslan hafi farið fram í gömlu og einu sinni glæsilegu timburkirkjunni á Þingeyrum. Þetta voru Hildur Marteinsdóttir (1752-1825) og Árni Pétursson (1761-1819) sem bjuggu síðar lengst á Ljótshólum í Svínadal frá 1790-1819 að Árni dó, og mun þeim hafa búnast vel þar.

Sigurður og Oddný virðast hafa notið virðingar í sveitinni, hann hreppstjóri og bærilega efnaður eftir því sem þá tíðkaðist. Það má vissulega vara sig á að lesa of mikið út úr mögrum heimildum en það vekur athygli að á næsta bæ við Reyki, á Orrastöðum, bjuggu á þessum árum bláfátæk hjón, Gísli Einarsson og Sigríður Hákonardóttir, og eiga barn nánast árlega. Í öll skiptin eru Sigurður og Oddný skírnarvottar og það er freistandi að álykta að þau hafi viljað veita hinum fátæku nágrönnum sínum stuðning með þessum hætti og e.t.v. hjálpað þeim stöku sinnum um mjólkurlögg að auki.

En árið 1794 flytja þau hjónin upp í Bólstaðarhlíðarhrepp og virðist líka hafa búnast allvel þar, a.m.k. lengi vel. Þau búa í Hvammi á Laxárdal 1794-1805, en Sigurður átti þá jörð, og 1804 voru þar 3 kýr og 36 ær sem er að minnsta kosti meðalbú. Einhverra hluta vegna flytur Sigurður sig nokkrum sinnum milli jarða í dalnum næstu árin, er í Skyttudal 1805-1811 og aftur 1820-1821; í Syðri-Mjóadal 1811-1816 og aftur 1819-1820. Oddný dó á árunum 1801-1814 og kunna búferlaflutningar Sigurðar að hafa staðið í sambandi við andlát hennar.

Sigurður kvæntist á nýjan leik Guðrúnu Björnsdóttur (1779-2. júlí 1861), væntanlega fljótlega eftir lát Oddnýjar, því það var ógerningur fyrir karlmann að reka bú einn og óstuddur. Úrvinnsla mjólkur og önnur innanbæjarstörf voru mjög sérhæfð og aðeins á færi kvenna og óneitanlega nokkuð snúið að búa saman í nábýli í þröngum húsakynnum, einfaldast að láta bara pússa sig saman við ráðskonuna.

Guðrún  Björnsdóttir átti heima á Auðólfsstöðum í manntalinu 1801 og eignaðist þar með vinnumanni föður síns soninn Gísla Árnason (1802-21. janúar 1882) sem hún hafði með sér í sambúðina við Sigurð. Sigurður Gíslason dó 8. ágúst 1825 og var Guðrún nokkur næstu ár vinnukona á ýmsum bæjum en eftir að Gísli sonur hennar hóf búskap tók hann móður sína til sín og hjá honum dó hún árið 1861, voru þau þá komin að Gaul í Staðarsveit á Snæfellsnesi.

Eins og áður gat eignaðist Sigurður ekki börn sem upp komust með konum sínum en hann fóstraði nokkur börn.

Sólveig Illugadóttir (1788-28. október 1835) var dóttir Illuga Illugasonar (1743-1819) á Tindum og konu hans Svanborgar Halldórsdóttur (1753-1834). Hún er hjá Sigurði og Oddnýju á Reykjum 1792 og 1793 en fer þá líklega heim til sín aftur að Tindum og hefur því verið í tímabundnu fóstri hjá þeim.

Önnur fósturdóttir Sigurðar og Oddnýjar var Soffía Ólafsdóttir, f. 1797. Soffía giftist árið 1826 Guðmundi Magnússyni í Króksseli og eignuðustu þau a.m.k. þrjú börn. Síðar á ævinni eru þau um árabil í vinnumennsku, hann m.a. á Reykjum 1845 en hún á Ásum mjög lengi, hjá Gísla Ólafssyni og Elísabetu Pálmadóttur. Sennilega hafa þau hjónin skilið vegna fátæktar.

Soffía átti a.m.k. tvo bræður, Steindór, f. 1794, varð úti 23. desember 1839, og Bjarna (1799-1848) og systurina Margréti (1802-1866).  Móðir þeirra hét Elín Bjarnadóttir (f. 1759) en faðirinn var Ólafur Ólafsson upprunninn úr Laxárdal. Mjög líklega hafa þeir Ólafur og Sigurður Gíslason kynnst í uppvextinum, Sigurður á Refsstöðum og Ólafur á Litla-Vatnsskarði.[3] En þau Ólafur og Elín koma vestan af Snæfellsnesi um aldamótin og börnin eru tekin í fóstur, Bjarni er t.d. í fóstri á Hurðarbaki 1816 og Soffía elst upp hjá Sigurði Gíslasyni eins og áður sagði. Ekki er kunnugt um ættartengsl með þessum börnum og fósturforeldrunum, þannig að annað tveggja hafa þau verið fóstruð í vináttuskyni við foreldrana eða Ólafur faðir þeirra borgað með þeim, sem er þó óvíst því hann virðist lengst af ævi hafa verið fátækur maður.

Ólafur Ólafsson, faðir Soffíu, bjó síðar á Hæli og Kringlu, en virðist annars jafnan hafa verið vinnumaður. Síðari kona hans hét Kristín Jónsdóttir en þau áttu ekki börn saman.

Þriðja fósturbarn Sigurðar og Oddnýjar var Pétur Jónsson, f. 1791. Foreldrar hans voru Jón Jónsson og Ingibjörg Pétursdóttir sem m.a. bjuggu á Harastöðum á Skagaströnd en síðar á Botnastöðum og í Skyttudal til 1800, þau voru foreldrar Bjargar konu Hannesar Hannessonar á Orrastöðum og Tindum, sem síðar getur.

Eftir að Pétur varð fullorðinn átti hann fyrst heima í sýslunni en flutti síðar vestur í Dali, var bóndi á Fellsenda 3 ár og síðar á Skallhól í Miðdölum, frá 1829 til 1841 en þá drukknaði hann.[4] Kona Péturs Jónssonar var Valgerður Sumarliðadóttir (1798-1846)  frá Mjóafelli í Stíflu.

Þegar kom fram yfir 1820 er Sigurður Gíslason, þá búandi í Skyttudal,  sýnilega farinn að þreytast á búskapnum enda kominn hátt á sjötugs aldur. Hann fer að huga að elliárunum og semur við bróðurson sinn, Gísla Jónsson í Ytra-Vallholti í Skagafirði, að taka við sér og konu sinni til framfærslu, að sjálfsögðu fyrir tiltekna meðgjöf eða próventu. En einhver snurða hleypur á þráðinn svo hann skrifar Birni Blöndal sýslumanni bréf og biður hann um leiðbeiningar. Nokkur orð eru torlæs í bréfinu:

Skyttudal þann 26. janúar 1821[5]

        Veleðla háyfirvald, og í auðmjúkustu undirgefni óska yður alls hins besta.

        Í undirgefni leita ég yðar atkvæða með þessum kortu línum yfir mínar lífs kringumstæður og þar af orðsakað fyrir hafandi áform, nefnilega að eftir því aldurdómur, heilsubilun og fleiri heimuglegar ástæður neyða mig búskap að hætta og ég má til trúa einhvörjum fyrir mig og mitt eftir verandi líf, óskyldum mér, þar bróðursonur minn, mr. Gísli Jónsson á Ytra-Vallholti innan Skagafjarðarsýslu, hefur aftur[6] rift sér frá mig með konu minni að sér taka, sem gerr meðfylgjandi miði[7] sýnir; svo hefi ég valið fósturson minn, Pétur Jónsson, nú verandi vinnumann á Stóru-Mörk, til þess að veita mér uppartning meðan tóri og mitt verði hans, smátt sem stærra, upp frá þessu, hvort svo lifi langa stund eður skamma, hvað að hann vill á hendur takast eftir bestu kröftum og mér til ánæ[gj]u fyrir mjög gjöra, sé svo að helmingur okkar eigna kvikra sem dauðra, smárra sem stórra, verði hans, hvört ég lifi lengi eður stuttan tíma. Nú þar okkur hjónum er geðfelldast saman að vera þá undirgengst þessi minn fóstursonur, Pétur, að taka konu mína til forsorgunar með árlegri meðgjöf sem gjöri sig ánægðan þar fyrir, og hún og hann geta bæði orðið einug[8] saman að vera, og undirgengst hann með próventu hana að taka.

        Hér af flýtur að hún þarf að fá útnefndan svaramann eður lögverjara við skiptin sem sæi um hennar fémuni ævilangt, svo þarf ég hennar vegna að njóta yðar ráða og fá útnefndan einhvern  hennar náunga. Mér hefði verið allkært hefði mr. Ólafur bróðir hennar [1786-21. nóvember 1836, bóndi á Auðólfsstöðum] getað til þess orðið, en hann getur að minni hyggju vel vendað sig þar frá. Líka mr. Gísli [Guðmundsson 1791-1863] á Bollastöðum vildi hann góðlátlega það gjöra án nokkurrar þvingunar þá væri hann og svo góður. Jafnvel þó henni væri ei ókærast hjá Ingibjörgu [Björnsdóttir 1781-1836] á Þverá í Miðfirði vera af sínum systkinum skyldi hún verða við mig að skilja annað hvört lífs eður liðin.

        Og nú í þessum margbreyttu bágu kringumstæðum okkar leita ég með mjúkustu undirgefni yðar góðra ráða og styrks okkur til besta. Eins líka segja mér hvort þér munduð þessu vesæla sjálfir sundur deila eður settuð aðra þar til, og mér mjög ríður á að mér gæfuð samstundis svar eður sem allra bráðast því fóstursonur minn þessi þarf sér fullkomlega[9] ráðstafa áður en suður fer, skyldi þetta mitt áform breytast við yðar aðgjörða leitun.

        Í undirgefni enda ég þessar  kortu línur,  heldur forblíf yðar veleðlaheita auðmjúkur þénari.

        Sigurður Gíslason

Ég hef ekki getað fundið hvort sýslumaður svaraði þessu bréfi en það er mjög líklegt því Björn Blöndal var samviskusamur embættismaður. Þá er bagi að því hvað færslur um fólk og heimili þess eru götóttar á þessum árum en þó ljóst að Pétur fóstursonurinn og Valgerður kona hans búa í Skyttudal 1821-1823 og sennilega Sigurður og Guðrún hjá þeim. En Sigurður hefur líklega síðar flutt sig til Gísla frænda síns í Ytra-Vallholti, eins og ætlað var í fyrstu, því þar deyr hann 8. ágúst 1825, „giftur próventumaður“ 80 ára, úr „ellikröm og landfarsótt,“ eins segir í prestsþjónustubók Glaumbæjar um dánarmein Sigurðar.


[1] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga I, bls. 154. Raunar er talað um „Reykjakot,“ kannski af því átt var við hálfa jörðina. Sbr. Alþingisbækur Íslands XII bindi, bls. 441. Kaupsamningur dagsettur 3. október 1737.
[2] Sjá þátt nr. 4 (Sullaveikur bókbindari).
[3] Ábending Jóns Arasonar.
[4] Dalamenn I, bls. 173.
[5] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/2, örk 5.
[6] Óljóst.
[7] Þessi miði er nú glataður.
[8] Óljóst en verður helst lesið svo. Eitt orð hér á eftir er yfirstrikað.
[9] Hér á eftir eru orð yfirstrikuð. Líklega er átt við að Pétur hyggist fara suður til sjóróðraá vetrarvertíð og þess vegna liggi á svari sýslumannsins.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið