Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 22. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 23:03 0 0°C
Laxárdalsh. 23:03 0 0°C
Vatnsskarð 23:03 0 0°C
Þverárfjall 23:03 0 0°C
Kjalarnes 23:03 0 0°C
Hafnarfjall 23:03 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Reykir. Mynd: HAH/Björn Bergmann
Reykir. Mynd: HAH/Björn Bergmann
Pistlar | 27. ágúst 2022 - kl. 21:53
Þættir úr sögu sveitar: Annað heimilisfólk á Reykjum
31. þáttur. Eftir Jón Torfason

Meðan Ólafur Björnsson og Gróa Ólafsdóttir bjuggu á Reykjum höfðu þau jafnan einn vinnumann og vinnukonu og stundum fleiri vinnuhjú. Sumir voru eitt ár eða tvö en aðrir árum saman, eins og gengur. Skal það ekki rakið hér nema nefna skal Árna Sigurðsson er hér ungur vinnumaður árin 1807 (15 ára) og 1808 (16 ára). Sennilega er þetta Árni (1791-1871) oftast kenndur við Stokkhólma í Skagafirði. Hann var á fullorðinsárum heppinn yfirsetumaður, aðstoðaði við meira en 200 barnsfæðingar. [1] Gróa Ólafsdóttir á Reykjum var yfirsetukona sveitarinnar og ekki ólíklegt að Árni hafi lært nokkuð af henni í ljósmóðurfræðum.

Allmargt heimilisfólk á Reykjum á þessum árum er „tekið,“ þ.e. er í fóstri, sumt raunar sveitarlimir en annað fósturbörn. Fyrstur skal talinn Sigurður Þorleifsson (1790-8. desember 1856). Hann er á Reykjum frá 1798 til 1802, sagður „nokkuð læs,“ og er kallaður „fósturbarn“ í manntalinu 1801. Það mun ekki hafa verið gefið með honum þannig að Reykjahjónin hafa tekið hann að sér þessi ár í vináttuskyni við foreldra hans.[2] Sigurður varð síðar bóndi á Mosfelli í Svínadal, Hvammi í Laxárdal og víðar.[3]

Jónas Illugason segir kostulega frá veðurspádómum Sigurðar, hann þá kominn á efri ár og bjó í Gautsdal. Sigurður kom þá oft að Mörk á Laxárdal og rætti veðurhorfur við heimamenn. Eftir mikið mas og bollaleggingar um skýjafar og vindáttir varð niðurstaðan jafnan þessi: „Annað hvort versnar hann, eða batnar hann, eða hann verður þá við þetta sama.“[4]

Foreldrar Sigurðar voru Ingibjörg Jónsdóttir og Þorleifur Þorleifsson sem bjuggu í Skyttudal 1789-1794 og á Stóru-Mörk frá 1794-1819 en þá dó Þorleifur.

Þá er að geta um þrjár systur frá Hnjúkum sem síðar áttu heima á Móbergi. Árið 1801 er skráð á Reykjum Rósa (f. 1794) Guðmundsdóttir, sögð tveggja ára sem er örugglega misritun. Hún er hér sennilega bara eitt ár því hún er líka skráð 1802 en þá er strikað yfir nafnið.

Árið 1802 og 1803 er Guðrún Guðmundsdóttir, sögð „tekin.“ Þetta er Guðrún (1790-21. mars 1855), dóttir Guðmundar á Móbergi og Elínar Helgadóttur eins og Rósa,[5] fyrri kona Björns Ólafssonar (þau skildu) sem átti í Torfalækjarmálunum síðari (um og eftir 1830) en sá Björn giftist aftur Ástríði Halldórsdóttur prestsdóttur frá Hjaltabakka og flutti suður í Borgarfjörð og kemur síðar að því.

Loks er svo þriðja Móbergssystirin skrásett hér 1809, síðasta ár Ólafs og Gróu á Reykjum, María Guðmundsdóttir (16. janúar 1803-3. ágúst 1864). Hún er líka sögð „tekin“ en ekki greitt með henni af hreppnum. Árið 1845 er hún húsfreyja á Miðgili, gift Pálma Jónssyni. Meðal barna þeirra var María sem var kona Benedikts á Skinnastöðum og móðir Jóns á Húnsstöðum og Gísla úrsmiðs og hagleiksmanns á Skinnastöðum og Blönduósi.

Dvöl þessara þriggja systra þessi ár eða hluta úr ári er örugglega vinargreiði við hjónin á Hnjúkum (síðar Móbergi) sem stríddu af mikilli þrautseigju og dugnaði við mikla ómegð og fyrr hefur verið stuttlega rakið (27. þáttur). Elín (f. 1765) Helgadóttir, móðir systranna, og Gróa (f. 1769) Ólafsdóttir eiginkona Mála-Ólafs voru systradætur. Móðir Elínar var Guðrún „yngri“ Guðmundsdóttir (f. 1735) Magnússonar (1692-1757) á Árbakka í Vindhælishreppi en móðir Gróu var Ósk Guðmundsdóttir (1740-1771) Magnússonar. Þetta er því eitt dæmi af mörgum um barnfóstur í vináttuskyni eða vegna tengda.

Árið 1805 er hér Jón Jónsson 6 ára og „tekinn.“ Skv. hreppsbókinni er ekki gefið með dreng með þessu nafni þetta ár en nafnið er þess eðlis að ómögulegt er að festa fingur á hver pilturinn var. Allt sem um hann er vitað er þá þessi eina lína í sóknarmannatali Þingeyra.

Í nóvember 1808 er skráður annar Jón í húsvitjun og er meira vitað um hann en þó ekki endirinn á sögu hans: „Jón, kominn úr tugthúsi. NB.“ Þetta er sum sé enn einn „erfði“ Jóninn sem maður er alltaf að rekast á. Nær örugglega er átt við Jón Jónsson (f. 1782) frá Stafni í Deildardal í Skagafirði. Eftir lát föður síns ólst hann upp hjá móðurbróður sínum, séra Agli Jónssyni (29. september 1756-18. júlí 1843) presti á Staðarbakka. Hann komst vel til manns og var m.a. um hríð í þjónustu Krogs sýslumanns en síðar hjá Schram kaupmanni á Skagaströnd. Þar í hýbýlum kaupmannsins féll hann í freistni, lét þreifast heldur rösklega um búðarvarninginn og tók ófrjálsri hendi vörur fyrir hátt á þriðja hundrað ríkisdali. Upp komst um Jón og var hann dæmdur í tveggja ára fangelsi sumarið 1806. Fangelsisvistin var í raun vist í vinnubúðum því fangarnir voru leigðir út til vinnu hjá málsmetandi mönnum í Reykjavíkurkaupstað réru m.a. til fiskjar.[6] Nú tveimur árum síðar hefur Jón verið látinn laus og mun einhverra hluta vegna hafa verið um hríð á Reykjum, og er helst að sjá að hann eigi að vera þar vetrarlangt sem er þó óvíst. Ekki er vitað hvað varð um Jón þennan en Svava Sigurðardóttir hjá islendingabok.is telur hugsanlegt að hann sé orðinn assistent kaupmanns í Reykjavík, skv. manntalinu 1816, en sá maður dó 1821 og sá hefur hvort sem er orðið endirinn með þennan Jón, ef ekki fyrr þá síðar.

Próventa var athyglisvert félagslegt fyrirbæri, tíðkaðist talsvert á fyrri öldum áður en til varð félagslega „öryggisnetið“ sem grípur okkur nú á dögum. Eignamenn, og jafnvel líka þeir sem áttu ekki miklar eignir, fólu jarðneskar eigur sínar öðrum til varðveislu gegn framfærslu og umsinnu til dauðadags. Þetta var að mörgu leyti heppilegt fyrirkomulag, tryggði öldruðum „áhyggjulaust ævikvöld“ en sá sem tók á móti próventunni, sem mjög oft var einhver tiltekin fasteign,  eignaðist smám saman þá jörð að hluta eða öllu leyti og stækkaði þannig eignasafn sitt.

Árið 1804 kom að Reykjum Margrét Guðmundsdóttir (1742-18. október 1816), en hún var dóttir Guðmundar Magnússonar (1692-1757) á Árbakka sem áður er nefndur. Hún var því systir Óskar móður Gróu Ólafsdóttur konu Mála-Ólafs á Reykjum, þ.e. móðursystir Gróu.

Í húsvitjunarbókinni er hún sögð „tekin“ en er í raun próventukona og alls ekki „tekinn“ í venjulegri merkingu orðsins. Margrét var gift Guðmundi Arasyni (1731-1803)  og bjuggu þau hátt í 30 ár í Vatnahverfi. Eftir lát Guðmundar 1803 ræðst hún til Gróu og Ólafs og leggur með sér hluta úr Vatnahverfi.

Þetta er orðað svo í gerningi, sem er færður inn í veðmálabók Húnavatnssýslu 10. mars 1808, að Magnús Arason (1729-1809) á Syðri-Ey gefur Margréti Guðmundsdóttur 5 hundruð úr eignarjörð sinni, Vatnahverfi. Magnús þessi var bróðir Guðmundar eiginmanns Margrétar  en Margrét hafði auðsýnt móður Magnúsar, Ingveldi Guðmundsdóttur (1701-1795) umhyggju og aðhjúkrun þann tíma sem hún dvaldi hjá „mínum“ sáluga bróður, Guðmundi Arasyni (f. 1731-1803) og henni.[7] Það fylgir gjöfinni að Margrét hafi forsvaranlegt uppheldi og aðhjúkrun hjá Ólafi Björnssyni á Reykjum. Þessi partur úr Vatnahverfi komst þannig í eigu Ólafs á Reykjum.

Ólafur og Gróa stóðu við sinn hluta samningsins því Margrét dvaldi á heimili þeirra til dánardægurs 1816 og fylgdi þeim við búferlaflutninga að Litlu-Giljá og síðar Beinakeldu en þar dó hún 18. október 1816 (74 ára) og fékk góð eftirmæli: „Ekkja örvasa, átti ei barn. Gæskukona mesta og guðhrædd.“[8]

[1] Skagfirskar æviskrár 1850-1890 I, bls. 8-11; sbr. Erla Dóris Halldórsdóttir: Fæðingarhjálp á Íslandi 1760-1880, bls. 279.
[2] Svava Sigurðardóttir á islendingabok.is finnur ekki tengingar milli Sigurðar og hjónanna á Reykjum, þ.e. ekki skyldleika (tölvupóstur 22. maí 2022).
[3] Skagfirskar æviskrár 1850-1890 III, bls. 101-102.
[4] Jónas Illugason: Hjalta þáttur Sigurðssonar. Svipar og Sagnir, bls. 144.
[5] Sjá Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 402. (nr. 135.3).
[6] Sbr. ÞÍ. Skjalasafn stiftamtmanns III, nr. 234. Dómar í málum tugthúsfanga.
[7] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu DB/1, örk 1. Veðmálabók 1799-1826.
[8] Sjá um Ættmenni hennar Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 523 (nr. 169.3).

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið