Fyrri mynd
Nćsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Húnahornið
Open Menu Close Menu
Húnahornið
Mánudagur, 2. október 2023
   m/s
C
Ókeypt
huni.is - RSS-efnisveita
 
Október 2023
SMÞMFL
1234567
891011121314
15161718192021
22232425262728
2930311234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 02:10 N 6 3°C
Laxárdalsh. 02:10 N 10 5°C
Vatnsskarð 02:10 NNA 8 4°C
Þverárfjall 02:10 NA 9 4°C
Kjalarnes 02:10 115.0 4 8°C
Hafnarfjall 02:10 ANA15 8°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. september 2023
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
27. september 2023
Eftir Sigurjón Þórðarson
25. september 2023
58. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. september 2023
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
23. september 2023
Eftir Bjarna Jónsson
19. september 2023
Eftir Svölu Runólfsdóttur, Elínu S. Sigurðardóttur og Dagnýju Sigmarsdóttur
13. september 2023
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
12. september 2023
N 65° 39' 32.04" V 20° 16' 55.2"
Skinnastaðir Torfalækjarhreppi. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu (1966).
Skinnastaðir Torfalækjarhreppi. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu (1966).
Pistlar | 31. desember 2022 - kl. 10:45
Þættir úr sögu sveitar: Kvenhetja á Skinnastöðum
40. þáttur. Eftir Jón Torfason

Skinnastaðir voru metnir á 20 hundruð í Jarðabók Árna og Páls í upphafi 18. aldar og taldist því meðaljörð. Þá voru sett á jörðina fimm leigukúgildi, sem samsvara 5 x 6 = 30 kindum, og landsetinn varð að standa skil á. Í kjölfar Heklugossins 1766 og í fjárkláðafaraldrinum sem geisaði um sömu mundir drápust öll kúgildin, skv. skýrslu frá 1776, og var þá ekki annað fé á jörðinni en það sem leiguliðarnir áttu og var sennilega ekki margt. E.t.v. hefur þetta hallærisástand átt þátt í að fólk stóð hér stutt við en eftir miðja 18. öld eru óvanalega tíð ábúendaskipti á jörðinni, sumir bjuggu þar ekki nema fáein ár.

Í móðuharðindunum keyrði svo um þverbak, jörðin lagðist í eyði og þar var hvorki fólk né fénaður árin 1784-1785. Síðasti ábúandinn, Þorsteinn Símonsson, hraktist fram að Þingeyrum, leitaði sum sé skjóls hjá Oddi Stefánssyni umboðsmanni Þingeyraklaustursjarða, en það varð honum skömm raunabót því hann drukknaði vorið 1785, sagður í prestsþjónustubók „tekinn um tíma.“

Umboðsmaður Þingeyraklaustursjarða átti að fá ákveðinn hluta af leigutekjum jarðanna í sín laun (þriðjung til helming) en greiða hinn hluta afgjaldanna til landsjóðsins. Hann fékk eftirgefinn eða afskrifaðan stóran hluta þeirra gjalda í móðuharðindunum en eðlilega var honum áhugamál að fá leiguliða á eyðijarðirnar til að ná inn einhverjum tekjum. Sumarið 1784, þann 29. júlí, var spurt um það á manntalsþingi hreppsins í miðri hungursneyðinni hvort nokkur „innan þessarar þingsóknar“ vildi taka eyðijarðirnar Kringlu og Skinnastaði til ábýlis þetta fardagaár. En enginn gaf sig fram.

En vorið 1786 kom til sögunnar fátæk en kjarkmikil kona sem vildi freista gæfunnar á Skinnastöðum. Hún hét Rannveig Helgadóttir, 37 ára gömul ekkja með 10 ára dóttur, Þórdísi Magnúsdóttur, í farteskinu og ungan ráðsmann að nafni Gísli Gíslason. Gísli stóð stutt við á Skinnastöðum því hann gifti sig árið eftir Sigríði Gunnlaugsdóttur skáldu og flutti að Hnjúkum og segir nokkuð frá þeim í þætti nr. 25. Harmleikur á Hnjúkum. Næstu ár býr Rannveig ein á Skinnastöðum með dóttur sinni en gerist a.m.k. eitt ár (1790-1791) bústýra á Þröm hjá Jóni Árnasyni og líklega hafa Skinnastaðir talist í eyði það ár. Jón lést 1791 og þá flytur Rannveig aftur að Skinnastöðum og á þar heima til dauðadags 30. apríl 1834.

Ekki var stórbúskap fyrir að fara hjá Rannveigu ekkju. Árið 1787 hafði hún 1 kú og 1 kálf og samtals 6 kindur, þar í líklega einhver lömb. Manni flýgur í hug að silungur úr Húnavatni hafi verið eitt helsta bjargræðið en um veiðina eru engar skýrslur til. Árið 1788 eru ærnar orðnar 8, gamla kýrin tórir ennþá og kálfurinn er orðinn að kálffullri kvígu. Hross eru samtals 3.

Það er mikill skaði hvernig búnaðarskýrslur úr Húnavatnssýslu hafa fúnað og týnst en raunar mun mesti skaðinn á þeim hafa orðið við stórbruna á amtmannssetrinu á Möðruvöllum í Hörgárdal 1826 og smærri brunum síðar, en þar munu afrit af þessum skýrslum og mörgum öðrum skjölum af Norðurlandi hafa fuðrað upp. Eins og áður verður því að grípa til tíundaskýrslna sem færðar eru í hreppsbók Torfalækjarhrepps. Allan tíunda ártug átjándu aldar er Rannveig með þeim búendum í hreppnum sem lægsta tíund greiða, er sum sé nálægt botninum hvað efnahag varðar, en aldrei þiggur hún af sveit og alltaf stendur hún í skilum með gjöld til hreppsins og afgjaldið fyrir jörðina þannig að þó í litlu sé er hún frekar veitandi en þiggjandi. Á þessum árum fær hún mann sér til hjálpar, Björn Ísaksson, giftist honum 15. júní 1794 og átti með honum einn dreng, Helga að nafni, sem komst upp og eignaðist afkomendur. Ekki virðist Björn þó hafa „skaffað vel,“ því tíundin sem þau greiða til hreppsins hækkar ekkert þó hann komi til.

Áður en segir meira af búskap á Skinnastöðum hjá þeim hjúunum er rétt að gera grein fyrir fyrri ævi Rannveigar.

Rannveig mun fædd 1749 og hétu foreldrar hennar Helgi Guðmundsson (d. 1749) og Þórdís Ólafsdóttir (á lífi 1769) og bjuggu m.a. á Þröm og Eldjárnsstöðum. Mjög ung er Rannveig orðin bústýra hjá Magnúsi Björnssyni á Litla-Búrfelli en þaðan fluttu þau að Sólheimum eitt ár en bjuggu síðan á Hæli frá 1773. Sennilega hefur Magnús verið bærilega stæður eftir því sem gerðist á þessum árum og einhverra hluta vegna gefur hann Rannveigu Helgadóttur fjórðungsgjöf af „öllum sínum fémunum, kvikum og dauðum“ og var það auglýst á manntalsþingi á Torfalæk 9. maí 1772.[1] Ekki kemur fram í þessari yfirlýsingu hve mikil verðmæti voru í húfi. Magnús dó 30. nóvember 1784 en Rannveig bjó þar áfram tvö ár þar til hún flutti að Skinnastöðum 1786. Þau Magnús höfðu átt a.m.k. einn dreng, sem hét Torfi, en hann dó í móðuharðindunum 12 ára gamall. Eina barn þeirra sem lifði var dóttirin Þórdís, f. 1776.

Tveimur mánuðum eftir lát Magnúsar, 24. janúar 1785, komu forsvarsmenn sveitarinnar, þeir Þorsteinn Benediktsson bókbindari á Reykjum, Þórður Helgason á Torfalæk og Guðmundur Árnason bóndi á Húnsstöðum, saman á Hæli til að skrifa upp og virða dánarbúið. Sennilega hafa þessir heiðursmenn verið illa fyrir kallaðir í hörmungartíð móðuharðindanna því virðingin er illa skrifuð og ansi margt óljóst í uppskriftinni, pappírinn heldur ekki sem bestur. Ýmist er miðað við landaurareikning, þ.e. hundruð og álnir, eða reiknað í ríkisdölum og því er niðurstaðan um eignir og skuldir búsins hreint ekki á hreinu. Ljóst er þó að dánarbúið á fyrir skuldum og Rannveig gengur ekki alveg slypp og snauð frá skiptunum. En verðmætin fólust ekki í peningum heldur einkum í fatnaði og búsmunum, hlutum sem voru mönnum nauðsynlegir til að draga fram lífið, eina lifandi skepnan sem er talin fram er „kvíguvetrungur,“ þ.e. veturgömul kvíga sem í fyrsta lagi hefur borið árið eftir.

Það er freistandi að virða um stund fyrir sér munina í dánarbúinu en uppskriftin af því fylgir hér með í sérstöku skjali.[2]

Fyrst eru taldar til bækur, m.a. Biblía og sú fræga postilla meistara Jóns Vídalín en einnig nokkrar aðrar hollar guðsorðabækur.

Þá er talinn fatnaður og eru bæði skrifuð upp föt sem tilheyrðu Magnúsi og þeim mæðgum Rannveigu og Þórdísi, svo sem buxur og pils, nærbuxur, sokkar og vettlingar. Þar er verðmætast kvenhempa lögð með skrautborðum og rautt pils svo eitthvað sé nefnt, einnig klútar af ýmsum litum sem Rannveig hefur væntanlega borið sér til skrauts. Einnig eru talin sængurver og brekán og sex manna tjald sem hefur komið sér vel þegar farið var á grasafjall.

Rannveig hefur átt góðan söðul sem er metinn fimm sinnum hærra en hnakkurinn sem Magnús hefur lagt á sinn hest.

Síðan eru talin margs konar búsgögn, kistur og ýmis matarílát, þrír pottar og tveir litlir, smíðatól, meisar, orf og hrífur og þess háttar, ullarkambar og prjónar og athygli vekur vefstaður sem var að verða gamaldags verkfæri því afkastameiri vefstólar, sem setið var við, voru um þessar mundir að ryðja sér til rúms í landinu.

Á dánarbúinu hvíla nokkrar skuldir, m.a. tíund til hrepps og kirkju, landskuld og kúgildaleiga til umboðsmannsins á Þingeyrum og nokkur skuld er við kaupmanninn. Einnig eru smærri skuldir til einstakra manna og eftir er að borga tvær líkkistur, væntanlega fyrir Magnús bónda og Torfa son þeirra hjóna, en upphæðin fyrir þær er raunar ekki tiltekin.


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 2. Dóma- og þingbók Húnavatnssýslu 1770-1781, bls. 64-65.
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/47. Dánarbú Magnúsar Björnssonar.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2023 Húnahornið