Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 26. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:31 0 0°C
Laxárdalsh. 01:31 0 0°C
Vatnsskarð 01:31 0 0°C
Þverárfjall 01:31 0 0°C
Kjalarnes 01:31 0 0°C
Hafnarfjall 01:31 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Gömul bæjarhús á Torfalæk í byrjun aldarinnar. Mynd: Tíminn, sunnudagsblað 4. mars 1962, bls. 31.
Gömul bæjarhús á Torfalæk í byrjun aldarinnar. Mynd: Tíminn, sunnudagsblað 4. mars 1962, bls. 31.
Pistlar | 01. apríl 2023 - kl. 10:17
Þættir úr sögu sveitar: Reytur Guðrúnar Skúladóttur
45. þáttur. Eftir Jón Torfason

Nokkrum árum eftir lát Erlendar (sumarið 1805) tók Guðrún á Torfalæk til sín ráðsmann, sem hún giftist síðar, Ólaf Ingimundarson (1770-13. október 1831) sem var ættaður úr Ólafsfirði og stúdent frá Hólaskóla 1795. Þau Guðrún áttu ekki börn saman en ólu upp Guðrúnu Arnbjörnsdóttur (f. 1808), dótturdóttur Guðrúnar.

Búskapurinn hjá þeim má teljast blómlegur skv. búnaðarskýrslu 1814. Þá eru þau með 4 kýr og eina kálffulla kvígu og (bola)kálf. Ærnar eru 60 að tölu og lömbin 58 en sauðir ekki nema 3 og á það raunar við flesta bændur í hreppnum að sauðaeignin er lítil á þeim árum. Tamdir hestar eru 8 og ótamdir 2. Lausafjártíundin er í kringum 15 hundruð sem er í hærri kantinum eins og hélst svo lengst af búskapartíð þeirra Ólafs og Guðrúnar. Eftir lát hennar virðist bú Ólafs hafa dregist saman og lausafjártíund hans fer niður fyrir 10 hundruðin því hann þurfti að greiða Sigurlaugu dóttur Guðrúnar sinn hlut sem var helmingur eignanna. Árið 1828 kom annar ábúandi að Torfalæk, Ögmundur Ögmundsson, og var þá tvíbýli á jörðinni og síðar þríbýli.

Ólafur var hreppstjóri eitt eða tvö ár en virðist hafa verið frábitinn slíkum störfum og komið sér hjá þeim, hefur líklega fremur viljað sinna búinu. Gísli Konráðssona lýstir honum stuttlega: „Grannlegur maður og allra manna fimleiknastur og hinn liðugasti til glímu en eigi styrkur mjög, en haldinn lítt bókvís þó lærður héti og hin mesta hermikráka.“[1]

Ólafur þessi er nú helst þekktur fyrir dauða sinn sem var voveiflegur, orsakaðist af meiðslum eftir slagsmál við annan mann, Björn Ólafsson (1793-1864) frá Valdaldal, en undirrótin voru deildur þeirra um prófastsdóttur frá Melstað og síðar ljósmóður, Ástríði Halldórsdóttur (1801-1860). Jón Helgason ritstjóri ritaði langan þátt um þetta mál í sunnudagsblað Tímans árið 1962.[2]

Guðrún Skúladóttir lést 29. apríl 1824 eftir „langvarandi heilsuleysi, deyði loks af taki“ segir í prestsþjónustubók Hjaltabakka. Hún var þá 73 ára að aldri.

Guðrún og eiginmenn hennar máttu teljast allvel stæð á þeirrar tíðar mælikvarða. Við lát hennar voru allar eigur búsins virtar og nam virðingarupphæðin rúmum 1100 ríkisdölum. Að frádregnum ca. 70 dala skuldum var hrein eign um 1050 ríkisdalir, þar af var jörðin Torfalækur metin á 580 rd. Sama sumarið og Guðrún dó lést nágranni hennar, Guðmundur Guðmundsson í Meðalheimi og hafði búið þar nærri 35 ár sem var svipaður tími og Guðrún bjó á Torfalæk. Dánarbú hans nam um 300 rd. að frádregnum skuldum. Ef jarðarverðið er dregið frá eignum Guðrúnar og Ólafs Ingimundarsonar eiginmanns hennar nam þeirra eign um 470 rd. sem er drjúgum meira en Guðmundur átti.

Bæði heimilin munu hafa verið þokkalega bjargálna ef miðað er við lausafjártíundina, er oft kringum 15 hundruð. Skv. búnaðarskýrslu 1814 voru 4 kýr á Torfalæk en raunar ekki nema 2 í Meðalheimi og sauðfénaður á Torfalæk taldi 151 haus en 141 í Meðalheimi og loks voru 10 hestar á Torfalæk en 9 í Meðalheimi. Það má því segja að bú Guðrúnar Skúladóttur hafi verið ívið stærra en bú Guðmundar, þó ekki svo að muni helmingi.

En það er munur að búa á eignarjörð eða vera leiguliði. Afgjald Guðmundar af jörðinni var greitt bæði í ull og sauðum og nam verðgildi ca. þriggja sauða, á hverju ári. Til viðbótar kemur gjald fyrir leigukúgildi sem fylgdu Meðalheimi og gat það gjald numið arði af 6-8 mjólkandi ám. Þar sem Guðrún Skúladóttir átti sína ábýlisjörð en Guðmundur var leiguliði bætti þetta afkomu hennar umtalsvert fram yfir hans, því svona gekk þetta ár eftir ár. Það er þó athyglisvert að í búi Guðrúnar komu ekki fram neinir peningar og engar fasteignir fyrir utan ábýlisjörðina en helsti og eiginlega eini útvegurinn til að ávaxta umfram fé var að kaupa jörð eða jarðarpart. Eignir Guðrúnar voru því jörðin, búféð og amboð í víðasta skilningi.

Raunar er það nú svo að mestu verðmætin (fyrir utan jörðina sjálfa) fólust í bústofninum, sem var virtur í búi Guðrúnar upp á 303 rd. en fénaður Guðmundar var metinn á 176 rd. þannig að heldur hefur hallað á hann í samanburðinum frá í búnaðarskýrslunni árið 1814.

Fatnaður í búi Guðrúnar nam ca. 45 rd. en hjá Guðmundi um 35 rd. Eldunaráhöld og amboð sem var nauðsynlegt fyrir búreksturinn var metið á 40 til 50 rd. á hvoru búi en þó ber á því að gripir Guðmundar hafi verið lélegri. Þar er t.d. fata loggbrotin og kista gömul og léleg, og eitt trogið (sem var nauðsynlegur gripur við útvinnslu mjólkur) var „máð inn að nöglum“ en strokkurinn gamall og lekur. Svipuðum ágöllum bregður þó fyrir hjá Guðrúnu, t.d. er hjá henni strokkur sem er „garmur“ og tveir þriggja tunnu sáir gamlir og lekir en heilt yfir virðast hlutirnir í betra standi í búi hennar.

Svipað er að segja með amboð, orf, hrífur, rekur og pála ásamt reiðtygjum og þess háttar, virðist allt í heldur betra ásigkomulagi hjá Guðrúnu en Guðmundi. En í búi Guðmundar heitins eru taldir fram tveir „afkvists hnífar“ að vísu ekki verðmiklir en hafa væntanlega verið notaðir til að kurla hrís og hríslur í eldivið, sem var annað tveggja notaður til uppkveikingar innan húss eða til ljádengingar í smiðju Guðmundar bónda.

Það hefur verið nokkuð björgulegt um að litast í búrinu á báðum bæjunum. Hjá Guðrúnu eru tíundaðir nokkrir sáir misstórir en það voru mjög stór ílát. Á haustin hafa þessir sáir verið barmafullir af skyri og sýru með sláturmat. Í Meðalheimi eru tíunduð svipuð matarílát, m.a. tunna með járngjörðum, önnur slík og tíu fjórðunga kolla sem hefur tekið um 40 lítra af skyri. Tekið er fram að kollan sé grafin í jörð og hún er líka lágt metin. Það ber svo að skilja að ekki sé skynsamlegt að hreyfa mikið við henni svo hún fari að leka, en meðan hún var óhreyfð hefur hún væntanlega verið matheld.

Mestu munar á innanhúss búnaði eins og rúmfötum í baðstofu sem virðast hafa verið fremur lítilfjörleg hjá Guðmundi, nema hjónarúm með fornri fiðursæng og nýrri rekkjuvoð og er metið á 4 rd. Guðrún á ekkert hjónarúm en talsvert af rekkjuvoðum, brekánum, sængurverum og koddum svo eitthvað sé nefnt. Enn meiru munar á borðbúnaði. Guðmundur átti átta aska en sumir lítt nýtir, eina skál og öskjur sem hvert um sig var virt á fáeina skildinga. Guðrún átti sjö aska, fjóra matdiska og bolla en að auki ─ sem hefur væntanlega verið til spari ─ hvítan borðdúk, teketil og kaffikvörn fjóra „steintelerka“ (líklega átt við diska úr leir) og tvo tindiska, kálskál af tini og tvö hálfföt, voru metin á 2 rd., 32 sk. sem er talsverð upphæð. Loks eru taldar upp hnappsilfurskeiðar sem eru metnar á 11 rd. og silfurstaup metið á 2 rd., 64 sk. Ekkert þessu líkt fínerí er að hafa í reytum Guðmundar.

Þegar kemur að fatnaði í búi Guðmundar er það mest hversdagsbúningur og sumt slitið, nokkrum sinnum talað um garma, og er svipað um kvenfatnaðinn, að hann er mest hversdagsföt. Þar er þó blátt samfellupils metið á 3 rd. og nokkrir damasksklútar, sumir með bekkjum í lit sem hafa verið keyptir í kaupstaðnum.

Guðrún átti tvenn pils mjög skrautleg, til samans virt á nærri 10 rd. Það dýrara var af rauðu sarsi (sem var fínt klæðisefni) með svartri snúru og á silfurmyllur og nál og skreytt ektavírborða. Pilsið var skreytt grænu bandi svo vafalaust hefur hún sómt sér vel þegar hún var komin í þessa múnderingu. Einnig átti hún vönduð klæðisföt græn að lit, kventreyju og kvenhempu og líka nokkra klúta úr damaski og silki. Hún hefur verið vel búin þegar hún reið til kirkjunnar á Hjaltabakka á messudögum. Tiltekinn er spegill í sængurhúsi Guðrúnar sem var fátíður gripur á þeim árum. Hún átti líka allmarga silfurhnappa og silfurbelti, metið á 5 ½ ríkisdal. Maður getur ímyndað sér að Helgi Þórðarson gullsmiður á Brandsstöðum, annálaður hagleiksmaður, hafi smíðað þessa grípi fyrir Guðrúnu, því hann var sonur Þórðar Helgasonar sem um 10 ára bil var sambýlismaður Guðrúnar á Torfalæk á yngri árum hennar.

Guðmundur á góða vættarkistu sem er metin á 3 rd., aðra lakari, þá þriðju gamla og sú fjórða er lélegust og minnst. Vættin var svolítið breytileg þyngdareining en má hafa samsvarað um 35 kg á þessum árum. Í þessum kistum hafa kornbirgðir heimilisins væntanlega verið geymdar og stóðu þær vanalega í skemmunni. Þessar kistur eru heldur fleiri hjá Guðrúnu og hærra metnar en að auki á hún kistu innan bæjar en innanbæjarkistur voru notaðar til að geyma í fatnað. Þess utan á hún skáp í sængurhúsi sem er frekar sjaldgæft að sjá í dánarbús uppskriftum. Spurning hvort hún hefur geymt þar sparifötin sín eða rúmfatnað.

Loks skal vikið að bókakosti á þessum tveimur heimilum. Í Meðalheimi eru taldar upp níu bækur, sumar skræður eða rotnar (þ.e. fúnar). Þar er þó sálmabók nýleg og Vídalínspostilla þannig að heimilisfólkið hefur fengið að kynnast orðkynngi Jóns Vídalíns biskups enda er það dýrasta bókin, metin á 1 rd., 32 sk. Loks er talin Biblía „af því britiska félagi,“ en það er ein þeirra Biblía sem Ebenezer Henderson dreifði hér um land og punktaði um leið hjá sér efni í eina merkustu ferðabók um Ísland sem rituð hefur verið. Hann var hér á árunum 1814-1815.

Miðað við hugsunarhátt hinnar hálfkristnu nútímaþjóðar hefur bókaeignin á Torfalæk verið meira spennandi. Þar er vissulega talsvert af guðsorði, sama Biblía og líka postilla Vídalíns, nokkrar sálmabækur og hugvekjur en líka Hústafla séra Jóns Magnússonar (1601-1675) prests í Laufási sem var prentuð 1734. Þetta er leiðbeiningarrit um góðar dyggðir og siði bundið í rím. Þarna eru Pontoppidans spurningar (fermingarkver) og loks líkprédikun Sigríðar Sigurðardóttur (d. 1770), móður Ólafs Stefánssonar stiftamtmanns og þannig ættmóður Stephensenættarinnar. Þetta hefur verið lítið kver, virt á 4 skildinga. Nokkur guðfræðirit eru þarna á dönsku og latínu og líklega að Ólafur Ingimundarson hafi lagt þær í búið en hann var skólagenginn, stúdent frá Hólum 1795.

Af veraldlegum ritum trónir Njáls efst, en hún er laus og rotin og úr bandi, aðeins metin á 18 skildinga, og einnig bók með Íslendingasögum prentuð sem hefur væntanlega verið útgáfan frá Hólum í Hjaltadal árið 1772. Þar voru m.a. prentaðar Grettis saga og Bandamanna saga sem gerast í Húnaþingi. Þarna sést líka Atli séra Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal (búfræðslurit) og Grasnytjakver sama manns, einnig önnur grasnytjabók eftir Eggert Ólafsson. Fleira er þarna af fræðsluritum en einnig skemmtisagan um Gusav og Berthold sem var þýdd úr dönsku og prentuð 1756. Skyld henni er sagan af Parmes loðinbirni sem er riddara- og ævintýrasaga undir áhrifum af sögunum um Róbinson Krúsó og hefur verið í handriti. Þá má nefna nokkrar rímur sem einnig hafa verið í handriti en ekki prentaðar. Síðast bóka er talið „átta piecar (bundt) í latínumáli, rotin og laus í bandi.“ Engu er líkara en úttektarmennirnir hafi sleppt því að fletta þessu sundur en skellt á virðinguna 8 sk.

Þessu rabbi um eignamun þann sem sjá má af dánarbúum annars vegar Guðrúnar Skúladóttur á Torfalæk og hins vegar Guðmundar Guðmundssonar í Meðalheimi lýkur með uppskrift af margnefndum dánarbúum sem fylgja hér í viðhengi. Í lokin á dánarbúi Guðmundar hafa bæjarhús í Meðalheimi einnig verið skrifuð upp.

Eiginlega má heita ómögulegt að bera verðlag á fyrri árum saman við verðlag á vorum dögum því svo margt hefur breyst síðan þá. Þó má nefna að ein kind er metin á 2 rd. og má hafa það til hliðsjónar um verðgildi annarra gripa.

Dánarbú Guðmundar

Dánarbú Guðrúnar


[1] Gísli Konráðsson: Húnvetningar saga, bls. 459.
[2] Sjá: Torfalækjarmál. Tíminn Sunnudagsblað 4. mars 1962 og áfram, endurprentað í ritsafni hans, „Vér Íslands börn“ II, árið 1970.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið