Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 30. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:40 0 0°C
Laxárdalsh. 00:40 0 0°C
Vatnsskarð 00:40 0 0°C
Þverárfjall 00:40 0 0°C
Kjalarnes 00:40 0 0°C
Hafnarfjall 00:40 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kolkumýrar, Svínadalsfjall, Sauðadalur og Vatnsdalsfjall. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Kolkumýrar, Svínadalsfjall, Sauðadalur og Vatnsdalsfjall. Mynd: HAH/Björn Bergmann.
Pistlar | 20. maí 2023 - kl. 22:08
Þættir úr sögu sveitar: “lafur og Kristín á Hæli
49. þáttur: Eftir Jón Torfason

Vorið 1815 kom nýtt fólk að Hæli og tók við jörð, bæjarhúsum og kúgildum, þetta voru Ólafur Ólafsson og Kristín Jónsdóttir. Nokkur grein var gerð fyrir bæjarhúsunum í síðasta þætti og fylgdi úttektargjörðin 1815 þar með. Veggir eru víðast hvar sagðir stæðilegir en veikleiki bygginganna er timburverkið og þökin. Ein ástæða þess var að borðviður var plássfrekur í flutningi svo það borgaði sig betur að flytja vefnað, kornvörur og brennivín en timbur yfir hafið. Kaupmennskan er alls staðar söm við sig. Enda munu máttarviðir í flestum byggingum jafnan hafa verið úr rekaviði en þiljur (þar sem þiljur voru á annað borð) og áreftið í þakinu úr hverju því sem hægt var að nota. Hér mátti t.d. sjá tunnustafi (stórkeraldastafi) í þaki baðstofunnar. Athyglisvert er líka fjósið, þar eru hellur upp á rönd til að afmarka bása (eins og er í sögualdarfjósinu á Stöng í Þjórsárdal) en líka básasteinar og flór sem hefur verið hellulagður.

Hafi bæjarhúsin verið hrörleg má vænta að nýju ábúendurnir hafi verið það líka því þeir voru komin vel yfir miðjan aldur. Ólafur Ólafsson (1760-13. júlí 1846) var sonur Ólafs Jónssonar í Kálfárdal og á Litla-Vatnsskarði. Hann barst vestur á Snæfellsnes og giftist þar Elínu Bjarnadóttur (f. um 1759) og eignuðust þau a.m.k. fjögur börn. Þau hafa komið aftur í Húnaþing um aldamótin og eru í vinnumennsku í Stóradal 1801. Um Soffíu (f. 1797- d. eftir 1868) var rætt í þætti nr. 28 (Hreppstjórinn á Reykjum). Bjarni (1799-1848), sem var hjá þeim í Stóradal 1801, er skráður fósturdrengur á Hurðarbaki 1816. Var síðan í vinnumennsku á ýmsum bæjum, barst seinast suður í Borgarfjörð. Lengst virðist Steindór (1794-23. desember 1839) sonur Ólafs og Elínar fylgja föður sínum en hann varð úti með öðrum manni við Ambáttará, var þá vinnumaður á Balaskarði.

Yngsta dóttirin, Margrét, er fædd 30. ágúst 1802 og þá eru þau á Mosfelli þar sem bjuggu Ólafur Jónsson (d. 1811) og Valgerður Guðmundsdóttir (1755-1819) sem bjó áfram eftir lát manns síns. Elín Bjarnadóttir hefur dáið skömmu eftir að Margrét fæddist og Ólafur líklega verið á Mosfelli eða einhverjum bæ í Svínavatnshreppi því 21. ágúst 1807 kvænist hann öðru sinni og fer vígslan fram í Auðkúlukirkju. Brúðurin var Kristín Jónsdóttur (1765-8. nóvember 1836) og var ekkja eftir Magnús Tómsson á Bjarnastöðum (d. 1795).[1]

Hagur Ólafs og Kristína er smám saman að versna. Þau tíunda 7 hundruð í lausafjártíund 1815 sem dettur niður í 5 hundruð árið eftir og þar næsta ár. Loks láta þau ábúðina í hendurnar á Þorsteini Jónssyni (1788-5. nóvember 1829) og Þórunni Gísladóttir (8. janúar 1792-18. júní 1869), eru þó áfram á Hæli í húsmennsku en tíunda aðeins 2 hundruð, sem gæti samsvarað eign 12 kinda og einskis meira. Nokkrum árum síðar eru þau komin að Beinakeldu í húsmennsku og þá virðist hagur þeirra heldur skárri. Þar bregða þau endanlega búi og munu hafa skilið samvistir. Kristín fór í Sveinsstaðahrepp og dó 8. nóvember 1836, var þá niðurseta í Steinnesi, en Ólafur var áfram í hreppnum og dó 13. júlí 1846 í Holti. Sennilega hefur skilnaðurinn stafað af fátækt.

Rétt er að geta þess að Ólafur og Kristín fá jafnan góð ummæli í húsvitjunarbókum, hann er: „Vel læs. Vel að sér. Allvel liðinn,“ skv. húsvitjun 1819 og Kristín er: „Nokkuð læs. Allsæmilega kunnandi. Siðferðisgóð.“

Svo vel sem Ólafur er sagður liðinn kemur hann nokkrum sinnum við sögu í sáttabók sveitanna svo eitthvað hefur stundum bjátað á. Fyrsta sumar hans á Hæli verður hann missáttur við nágranna sinn, Guðmund Guðmundsson bónda í Meðalheimi. Út af einhverju misklíðarefni hefur Guðmundur ausið illyrðum yfir Ólaf sem hann vill ekki sitja undir og kærir Guðmund. Svona hljóðar bókunin í sáttabókinni:

[2] Beinakeldu í Torfalækjarhrepp og Tinda sáttaumdæmi mættu fyrir forlíkunarrétt þann 5. desember 1815, eftir stefnu fyrirkalli af 28. nóvember s.á., bóndi Ólafur Ólafson frá Hæli sem ákærandi og bóndi Guðmundur Guðmundsson á Meðalheimi ákærður af þeim fyrra fyrir ótilheyrileg og ærumeiðandi orð sem fallið skyldu hafa af Guðmundar álfu upp á Ólaf við samfund þann 22. ágúst næstliðinn, samt annarra síðan meiðandi umræður er Ólafur tjáist hafa upp spurt. Við framfærð orð fyrir commissioninni þykist Guðmundur ei kannast eftir minni, en synjar þó ei fyrir að ógætileg orð hafi sér af munni fallið í reiðifasi, á hverju hann gjarnan biður nú fyrirgefningar og vill nokkru til sáttastiftunar milli þeirra bæta fyrir sig. Gjörist þá uppslag fyrsta af Ólafi 20 rd. ... sem commissionin minnkar strax til 10 rd. og loksins getur fært til 5 rd., sem Guðmundur undirgengst viljuglega að betala með fengnum gjaldfresti til miðs júlí mánaðar 1816. Skal þetta greiðuglega gjaldast, annað hvort í gjaldgengum peningum ... ellegar í vörum eður annarra aura ígildi, sem þeim kynni um að semja. Er síðan á skilið, að þeir gjörist hér frá góðir vinir og stofni ei til ósátta.

         Þessum gjörningi samþykkja báðir málspartar, skilja svo alsáttir og undirskrifa sín nöfn til staðfestu. Kostnaður til sjálfrar commissionarinnar fellur á Guðmund en Ólafur hefur betalað stefnu umkostnað.

         Sama stað, ár og dag sem upphaflega greinir.

         Jón Jónsson, Ólafur Björnsson; Ólafur Ólafsson, Guðmundur Guðmundsson

Skaðabótin, 5 ríkisdalir, samsvarar rúmum tveimur ærgildum, sem er umtalsverð lækkun frá upphaflegri kröfu sem hefur þá numið verði ca. 8-10 kinda, og verður að teljast nokkuð hátt fyrir svívirðingarorð. Ætla verður að Guðmundur hafi greitt þessa meinyrðabót því ekki er getið um frekari illindi á milli þeirra nágrannanna.

Eftir þriggja ára búskap er sýnilega orðið mjög þröngt í búi hjá Ólafi og Kristínu, hugsanlegt þau hafi lent í vanskilum með leigugjaldið en Hæli var þá ein af jörðum Þingeyraklaustursumboðs í hreppnum. Þorsteinn Jónsson og Þórunn Gísladóttir koma að Hæli 1818 og verða aðal húsráðendur en Ólafur og Kristín í húsmennsku. Ólafur virðist um þessar mundir hafa leitað sér verustaðar hjá fyrrum húsmóður sinni, Valgerði Guðmundsdóttur á Mosfelli, sem nú var orðin ekkja en bjó með Guðmundi syni sínum.

 

Þann 18. desember 1818, að Beinakeldu, mættu fyrir forlíkunarnefndinni í Tinda sáttaumdæmi bóndinn Ólafur Ólafsson, nú húsmaður á Hæli, sem áklagandi ekkjuna Valgerði Guðmundsdóttur á Mosfelli fyrir brigðun vistarráðningar Ólafs til sín á næstkomandi vori, og hreppstjóri sgr. Ólafur Björnsson, eftir fullmagt Valgerðar sem hennar svaramaður, hver þess vegna víkur úr sínu sæti sem forlíkunar kommissarius, þá það aftur beklæðir þar til kjörinn studiosus Benedikt Jónasson á Stóru-Giljá.

         Varð með mikið fljótu og sáttgjarnlegu móti svo afgjörð forlíkun milli framannefndra hlutaðeigenda, að sgr. Ólafur Björnsson lofar að gjöra hvað honum mögulegt er til að Ólafur Ólafsson megi kyrr vera, við sömu eður líka kosti og áður á sínum aðsetursbæ Hæli, eftir Ólafs Ólafssonar uppástandi. En neitun Valgerðar um neina fullkomna vistarráðningu Ólafs Ólafssonar til sín, í bréfi til sgr. Ólafs Björnssonar af 16. þ.m., er af þeim báðum sameiginlega gjörð ómerk og hvorki Ólafs né Valgerðar respekti í neinn máta krenkjandi. Þau áskildu laun til forlíkunarmannanna burt falla sem eftir gefin á báðar síður, og skilja svo partarnir, að þessu máli niður föllnu, sáttir hverju til merkis eru viðkomenda undirskrifuð nöfn, ár, stað og dag sem upphaflega greinir.

         Jón Jónsson, Benedikt Jónasson; Ólafur Björnsson, Ólafur Ólafsson

Þennan sáttagjörning ber svo að skilja að Valgerður hafi lofað að taka á móti Ólafi Ólafssyni og Kristínu konu hans vorið 1819, væntanlega í húsmennsku eða vinnumennsku, en séð sig um hönd og það úrræði þar með lokast fyrir þeim hjónum. Hér á Ólafur Björnsson á Beinakeldu (Mála-Ólafur) góðan hlut að, því hann gengst fyrir því að þau Ólafur og Kristín fái að vera áfram á Hæli og þar voru þau nokkur næstu ár, og um síðir tók Ólafur Björnsson þau til sín að Beinakeldu þar sem þau voru við (lítinn) búskap 1823-1826 að þau skildu samlag sitt sem fyrr er getið. Loks er bókað að gjald til sáttanefndarmannanna er fellt niður, og sömuleiðis að einhver svigurmæli, sem höfðu fallið milli Ólafs og Valgerðar, skuli gerð ómerk, þ.e. látið sem þau hefðu aldrei verið sögð.

Hugsanlegur flutningur fátækra hjóna í hrepp hlaut að vekja athygli forsvarsmanna viðkomandi hrepps og svo lítur út fyrir að Þorleifur Þorkelsson í Stóradal, sem var hreppstjóri í Svínavatnshreppi, hafi reynt að bægja þeim Ólafi og Kristínu frá að flytja í hreppinn. Hann virðist hafa gert athugasemd við Valgerði á Mosfelli um hugsanlega vistráðningu Ólafs og að auki telur Ólafur að Þorleifur hafi „í skrifi sínu til einnrar fornemme persónu gjört sér að hann kveðst meina makalausa háðung.“ Þótt Ólafur sé fátækur er hann vandur að virðingu sinni og kærir Þorleif fyrir sáttanefndinni, sem kom saman á Auðkúlu 4. maí 1819 til að ræða málið og kannast Þorleifur við umrætt bréf:

Í þessu skrifi komst sgr. Þorleifur svo að orði að hann afsagði að Ólafur færi fyrir nokkurs stands persónu að Mosfelli hér í hrepp. Með þessum orðum meinti Ólafur sig svo fornærmaðan sem áður greinir. En sgr. Þorleifur erklerar nú, að sú meining og ætlun hafi ekki verið að drótta með þeim að Ólafi neinu lastlegu og í orðunum hafi hann ekkert tillit haft til neinnar óráðvendni, illmennsku né óknytta á Ólafs síðu sem hann ei heldur til hans viti, heldur einungis til hans aldursdóms og heilsuhnignunar, sem að sinni meiningu mundu gjöra honum ómögulegt að standa í þeim sporum er hann þurft hefði, svo þetta orðatiltæki hafi ei ætlað verið til að það í nokkurn máta skyldi skerða Ólafs respekt, mannorð eða virðingu, hverja erkleringu Ólafur líka, svo sem þetta mál einungis hefjandi til að forsvara æru sína og respekt, lætur sér nægja án nokkurs millilags, hvar með líka öll ósátt og kali milli téðra manna út af þessu máli skal vera niður fallin og þeir skiljandi góðir vinir, eins og ekkert hafi milli borið.

         Til merkis undirskrifaðra nöfn, stað, ár og dag sem upphaflega greinir.

         Jón Jónsson (prestur á Auðkúlu), Ólafur Björnsson (á Beinakeldu); Ólafur Ólafson, Þorleifur Þorkelsson

Líklega hafa þeir nafnarnir Ólafur Björnsson á Beinakeldu og Ólafsson á Hæli orðið samferða frá Auðkúlu. Þá væri hæfilegur áfangi til að hvíla hestana og fá hressingu, að knýja dyra á Mosfelli hjá Valgerði Guðmundsdóttur. Vonandi hafa þeir gert að, þau þrjú átt saman notalegar samræður og fallist í faðma á kveðjustund. Það hefðu verið síðustu forvöð, því Valgerður drukknaði í Blöndu 27. maí þetta sama vor.

Kannski var Ólafur á Hæli þrætukollur, þrátt fyrir vinsamleg ummæli prestsins í húsvitjunarbókinni, því enn eina færslu er að finna í margtilvitnaðri sáttabók, og nú hefur kastast í kekki milli þeirra sambýlismannanna Ólafs og Þorsteins Jónssonar:

         Þá misklíð sem húsmaðurinn Ólafur Ólafsson á Hæli andró fyrir sáttanefndina með klögun af 25. fyrra mánaðar, að væri risin milli sín og bóndans Þorsteins Jónssonar þar, var ég undirskrifaður áheyrandi að þeir jöfnuðu milli sín og sættust heilum sáttum með 2 rd. millilagi, þann 27. fyrra mánaðar.

         Beinakeldu þann 6. desember 1819.

         Ólafur Björnsson

Enn á Ólafur á Beinakeldu góðan hlut að málum og án mikilla málalenginga er sæst á sekt sem samsvarar einu ærvirði. En betra er heilt en vel gróið og næst vor flytja Ólafur og Kristín á næsta bæ, Kringlu, en Þórunn og Þorsteinn búa eftir á Hæli.

Ólafur Ólafsson lenti á framfæri Torfalækjarhrepps 1837 og var síðast komið fyrir í Holti og þar dó hann. Börn hans megnuðu lítið að gefa með honum, Soffía fátæk og Bjarni alla tíð vinnumaður og kominn suður í Borgarfjörð. Bjarni hafði eignast dóttur, Margrét (24. júní 1832-28. mars 1918) sem var alin upp á sveit í Torfustaðahreppi í Miðfirði. Bjarni hafði gefið með henni að sínum hluta fyrstu árin en síðan ekki og þegar eigum hans var skipt að honum látnum árið 1848 mátti dánarbúið heita þrotabú og það litla sem til var rann til Torfustaðahrepps í ógoldið meðlag.[3] Bjarni hafði því enga burði til að leggja fé til framfæris föður síns.

Yngsta dóttirin, Margrét, mun að mestu alin upp í Helgafellssveit á Snæfellsnesi. Þegar hún er fermd 1816 er hún hjá fósturforeldrum sem voru Einar Einarsson (f. 1763) bóndi á Staðarbakka og síðar tómthúsmaður á Hrísum og Bergljót Bjarnadóttir (1762-3. september 1825). Til er bréf dagsett 8. júlí 1844, svarbréf sýslumannsins í Snæfellsnessýslu við beiðni sýslumannsins í Húnavatnssýslu þar sem farið hafði verið fram á að Margrét (eða maður hennar Sveinn Sveinsson) veitti Torfalækjarhreppi einhvern stuðning vegna Ólafs:

         Í[4] heiðruðu tilskrifi af 6. mars næstl. hefur herra sýslumaðurinn óskað minnar tilhlutunar um að bóndinn Sveinn Sveinsson á Hólum í Helgafellssveit annað hvort móttaki til forsorgunar gamalmennið Ólaf Ólafsson af Torfalækjarhrepp, föður konu sinnar Margrétar Ólafsdóttur, eður og svaraði meðlagi með honum samboðinn sínum efnahag.

         Í tilefni þessa leitaði ég persónulega við nefndan Svein, þá ég hélt manntalsþing á Saurum næstl. vor, hvað hann vildi gjöra og teldi hann á vankvæði sín til auk annarra útgjalda, að bæta Ólafi þessum á sig, jafnvel þótt hann viðurkenndi það skyldu sína að lögum vegna konu sinnar, hvör þó ei hefði annars góðs af þessum föður sínum notið en tilveru sína eina,[5] svo sem aðrir hafi hana að öllu styrktarlaust frá föðurnum upp alið. Heldur ekki sagðist hann í færum um að leggja honum neina töluverða fúlgu en bauðst að borga vættar virði á ári til þess að sýna vilja og viðleitni.

         Efni sín kvað hann öllum augljós og vera einasta þær skepnur sem hann fram talið hefði til tíundar á næstl. hausti ─ hvað og er satt ─ og eru það 10 #[6] hvör forsorgast ættu átta manns, flest ómagar á skuldadýrri jörðu. Þar til segist hann árlega verða að styrkja gamlan föður sem enn er að sönnu ekki kominn til sveitar en þó ekki sjálffær sér að veita forstöðu, eins og hann að hinu leytinu finni meiri skyldu til að hugnast manni þeim, sem meðgjafarlaust alið hafi upp konu sína og sem nú sé örvasa ómagi á gamals aldri og á framfæri Helgafellssveitar, þó ekki væri í öðru en gleðja hann með tóbakslaufi eður öðru sem hann sárlegast við þyrfti.

         Svoleiðis var nú mannsins undirtekt hér að lútandi og viðkomandi sveitar forstjórar, sem til staðar voru, sögðu hann ekki betur efnaðan en svo, að hann enn sem komið væri ekki gæti varist skuldum í kaupstað en þó heldur vera í viðréttingu, þar hann væri framkvæmdarmaður en gæti öngvan veginn álitist vel megandi, þó núskeð[7] nábúar hans teldu hann svo, eins og venja væri stundum til.

         Eftir þessum ástæðum, um hvað ég þykist til vita munu sannar, sýnist mér Sveinn illa fær um að greiða töluvert tengdaföður sínum til framfæris og set því til herra sýslumannsins þóknanlegu álita, hvört ekki mundi sanngjarnlegt að hann sleppi með að borga árlega vættar virði með honum, því eins og herra sýslumanninum [er] kunnugt hvíla mörg útgjöld á slíkum bónda, einkum hér vestanlands, hvar nærfellt kallast mega harðindi og sá sem ekki líður sult telst með mestu efnamönnum, hvar um ljósast vitni [bera] sterbú þau sem hér í sýslu til falla og nærfellt engin vinnast fyrir skuldum.

         Krossnesi 8. júlí 1844,

         Árni Thorsteinsson

Maður Margrétar hét Sveinn Sveinsson (8. júlí 1812-11. ágúst 1861) og bjuggu þau á Hólum í Helgafellssveit. Þarna koma fram athyglisverð sjónarmið, að Sveinn telur sig eiga meiri skuld að gjalda fósturforeldrum Margrétar en blóðföður hennar sem hafði lítið eða ekkert skipt sér af uppeldinu. Það er líka athyglisvert að Margrét gaf tveimur börnum sínum nöfn fósturforeldranna, en þau hétu Bergljót Guðmundsdóttir (1828-1887) og Einar Benediktsson (f. 1836).

[1] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 956.
[2] ÞÍ. Skjalasafn sáttanefnda XVI, E. Tinda sáttaumdæmi.
[3] Sjá bókina: Hvítur jökull snauðir menn, sem Már Jónsson gaf út 2014, bls. 61-76. Í þessari bók eru skrifuð upp dánarbú frá fyrri hluta 19. aldar sem komu til skipta í efstu byggðum Borgarfjarðar.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/19, örk 10.
[5] Þetta er mjög óljóst og ekki víst að rétt sé lesið, en merkingin mun nærri lagi.
[6] Óljóst. Mjög líklega er átt við lausafjártíund Sveins sem gæti hafa numið 10 hundruðum og væri í slöku meðallagi miðað við aðra hreppsbændur.
[7] Óljóst.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið