Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 27. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 08:23 0 0°C
Laxárdalsh. 08:23 0 0°C
Vatnsskarð 08:23 0 0°C
Þverárfjall 08:23 0 0°C
Kjalarnes 08:23 0 0°C
Hafnarfjall 08:23 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Ástarbréf Ketilríðar
Ástarbréf Ketilríðar
Pistlar | 27. mars 2024 - kl. 09:06
Sögukorn: Betra blek
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
  1. Mamma/Sigríður Ólafsdóttir, fæddist á Mörk eins og Ingimar Guðmundur, bróðir hennar og til Laxárdalsins óf hún sterka tryggð, fjölskyldan átti þar og eignaðist góða granna, þar á meðal eldri hjónin í Mjóadal, Ingibjörgu og Guðmund Erlendsson hreppstjóra. Það var tekið vel á móti gömlum sveitungum þegar amma og afi fluttu úr Hegranesinu 1917. Þar höfðu þau búið í tvö ár þegar þau fluttu aftur vestur, í dalinn víðáttumikla og fjallkrýnda, með elstu börnin sín, Helgu Björgu og Pálma, þ.e. Helgu í Hnjúkahlíð og Pálma í Holti. Jósefína var alin upp á Æsustöðum og Ólafur kom þangað til vinnumennsku og barnakennslu norðan úr Skagafirði.
    Á Mörk bjuggu þau, Jósefína og Ólafur, í rúm tuttugu ár, tvö börn bættust við hópinn, yngsta barnið þeirra, Sigríður hfr. í Ártúnum f. 1924 og Ingimar sem fæddur var tveimur árum fyrr, sama árið og Mjóadalshjónin öldnu létust með fjögurra daga millibili.
    Frændi minn hlaut nöfn þeirra við skírnina.
    Ingimar dó á unglingsaldri, en á nokkra nafna meðal okkar frænda sinna, afkomenda systra sinna og Pálma bróður síns og þá væntanlega einnig Ingibjörg Sigurðardóttir hfr. í Mjóadal f. 1848, sem var frá Reykjum eins og systir hennar, Aðalheiður Rósa í Finnstungu, kona Jónasar Jónssonar langafa og bónda þar.

     
  2. Að Kárahlíð, næsta bæ við Mörk, fluttu 1918 ung hjón, Klemensína og Guðni, bjuggu á Vesturá 1928-´39, en síðast í Hvammi, foreldrar fjögurra bræðra, þ. á. m. Rósbergs Snædal rithöfundar og Guðmundar Kristins, yngsta bróðurins, sem bjó lengst með foreldrum sínum en þau fluttu út á Skagaströnd 1948. Guðmundur Kr. Guðnason var stundum nefndur Mundi póstur, eftir að hann hóf það starf í þorpinu sínu, en hann var dyggur kirkjunnar maður, söng bassann, spilaði á harmoníku og orgel. Hann notaði lágu launin sín til að taka myndir af viðburðum og samferðamönnunum. Með myndum hans, sem erfingjar gáfu, varð til Ljósmyndasafn Skagastrandar. Jú, hann keypti líka sígarettur!
     
  3. Laxárdalurinn, fagri og gróni, eyddist að byggð á þessum árum, en minningar og sögubrot þaðan geymast víða, stökur og ljóð, því rík var sveitin af kvæðamönnum, þ. á. m. Árna Frímanni, auknefndum gersemi og bjó í Skyttudal með konu sinni og syni 1909-17, en þá lést Árni á jólaföstunni.
     
  4. Árni gersemi var sonur Árna Jónssonar, sem átti flest spor sín á Laxárdal og var stundum nefndur stutti, en sveitaskáldið Friðgeir í Hvammi var eitt barna Árna.
    Árni ættfaðir bjó á Mörk á efri árum sínum, oft með ráðskonum, en var giftur sjálfur Ketilríði frá Strjúgi, systur bræðranna nafntoguðu Guðmundar og Natans.

     
  5. Þau Ketilríður og Árni áttu dótturina Ragnheiði f. 1825, sem varð tengdamóðir sr. Björns O. Björnssonar á Höskuldsstöðum og amma Sigurðar Björnsson prentsmiðjustjóra á Akureyri, Sigurðar í POB sem gaf út nokkrar af húnvetnsku bókunum, Svipum og sögnum og bækurnar með þáttum Magnúsar á Syðrahóli. Hann varð Húnvetningum sannarlega öflug heillastoð.
     
  6. Ketilríður Ketilsdóttir bjó á Tungubakka, utarlega á Laxárdal, með Árna stutta og Ragnheiði dóttur þeirra en KK varð lítt fær til bústarfa eftir barnsburðinn, flutti niður að Geitaskarði þar sem vinafólk þeirra bjó, en hún átti eftir lengi að lifa, náði 60 ára aldri og er stundum kölluð barnfóstra í manntalinu eftir að hún kom þangað.
     
  7. Bræður Ketilríðar voru litlu eldri en hún, Guðmundur elstur, fæddur 1791, varð um 68 ára, bjó fáein ár á Laxárdal, giftist ekkju á Sneis, en lengst bjó hann – með seinni konu sinni – vestur á Vatnsnesi, á hlunnindajörðinni Illugastöðum og afkomendur hans síðan. Natan bróðir hans hafði áður eignast Illugastaði en var þar drepinn, 14. mars 1828, þá um 36 ára, svo sem greint er frá á mörgum bókum og í sögum.
     
  8. Góðviðrisdag á góu s. l. settist ég inn í Þjóðarbókhlöðu, í kjallarann þar sem vísnahandrit og önnur forn gögn eru geymd og fór að skoða bréf sem talið var að Ketilríður hefði skrifað Daða fróða Níelssyni, spennandi var að hugsa til þess hvort hún hefði fengið – eða tekist –  að læra skrift, sem óþarft þótti á þessum tíma, að stúlkur væru að fást við, færu bara að skrifast á við einhverja stráka!
     
  9. Í þessu ástríka og saknaðarfulla bréfi er Ketilríður að biðja Daða um betra blek en hún sjálf hafði sem bendir til að hún sé bréfritarinn.
     
  10. Jón sagnfræðingur Torfason las bréfið góða, skoðaði kirkjubækur og upplýsti að þar sem við Páll Eggert höfðum lesið Ket, var K.d og þessi Ketilríður sem bréfið sendi var Kristjánsdóttir. Íslendingabók sýndi svo – af örlæti sínu – að hún var frænka mín/IHJ, Benedikt afi hennar var einn Steinsstaðabræðra og þar með bróðir Þorsteins áa míns á Reykjavöllum og Sveins Pálssonar læknis í Vík. Þannig kom líka í minn hlut að segja öðrum frænkum og frændum þessar fornu fréttir – hér á Húnahorni.
     
  11. Í lið 12. og 13. segir Jón Torfason frá athugun sinni og uppskrift af bréfinu.
     
  12. Bréf Ketilríðar til Daða Níelssonar
    Í bréfasafni Daða Níelssonar (1809-1857), safnnúmer Lbs. 1236 4to, er bréf frá Ketilríði K-dóttur, ritað á Ytri-Löngumýri 24. janúar 1844. Um þær mundir var Daði fyrirvinna í Gautsdal upp á Laxárdal en skv. húsvitjunarbók Auðkúlu var þennan sama vetur kona að nafni Ketilríður Kristjánsdóttir (1822-1882) vinnukona á Ytri-Löngumýri og má ætla að hún hafi skrifað bréfið. Bréfritarinn er sýnilega ekki mjög þjálfaður. Höndin er óörugg, greinarmerkjasetning eiginlega engin og hver hugsunin rekur aðra, ekki alltaf í röklegu samhengi. Hér er bréfið skrifað upp með nútímastafsetningu og greinarmerki sett þar sem best virðist eiga við. Hver lína í uppskriftinni stenst á við línurnar í bréfinu. Ekki er öruggt að alls staðar sé rétt ráðið í rúnir bréfsins og eru á nokkrum stöðum settir stafir innan hornklofa [] þar sem giskað er á leshátt. Á einum stað nálægt miðju vantar 2-3 stafi sem trauðla verður ráðið í hverjir eiga að vera.

     
  13. 1844 Ytri-Löngumýri þann 24. janúar.
    Hjartkæri vin, ástar heilsan.
    Innilegasta hjartans þakklæti fyrir allt gott og dygðugt framferði við mig í öllum greinum. Fátt er um fréttir nema mikið vonaði ég eftir þér að Æsustöðum í vetur en það brást mér og kenndi ég það kringumstæðum þínum bágum en ekki leti eða viljaleysi. Nú hef ég vonað síðan á hvurjum degi og vona enn. Ég þrái þinn fund elsku hjartað m[itt]. Nú er mín innileg bón til þín, annað hvert þú finnir mig sjálfur ellegar þú skrifir mér til um bækurnar enn er kærari fundur þinn, það sé stutt gleði st...
    Mikið langaði mig til að biðja þig, ef þú værir ríkur af bleki, að gefa mér í einn penna, þú sér[ð] mitt slæma blek. Hvörgi er Blanda hér á ís en hún er uppá það besta að ríða hana og þeir eru að því á hvörjum degi. Þú skilur það nefnileg[a] að hún sé góð fyrir þig að ríða hana líka. Láttu mig nú ekki vona lengi en farðu samt eftir ástæðum þínum en ekki bráðræði mínu.
    Ég kveð þig ástarkossi hjartans og fel þig almáttugum guði í bráð og lengd.
    Þess óskar þín ástkær unnusta.
    Ketilríður K[ristjáns]d[óttir]

     
  14. Um Ketilríði Kristjánsdóttur segir Íslendingabók:
    KK 1822-1882, hfr. í Hvammi í Kjós, hfr. í Gróttu 1870.
    Móðir Ketilríðar, Sigríður Benediktsdóttir 1800-1857, var í Neðra-Lýtingsstaðakoti/Árnesi 1801, var í Hvammkoti 1816, hfr. á Húsabakka, hfr. Vöglum 1845.
    Faðir Sigríðar, Benedikt Pálsson, einn bróðirinn frá Steinsstöðum, bóndi í Neðra-Lýtingsstaðakoti, bóndi og skáld í Hvammkoti og síðast í Gilkoti á Neðribyggð.
    Sjá krækjuna, Óð hægt Kópur.

     
  15. Jörðina Mörk á Laxárdal höfðu átt bræðurnir Erlendur í Tungunesi og Jón Pálmasynir og Jón yngri Pálmason, síðar alþm. á Akri bjó á Mörk 1915- 17 og kemur við sögu í fundargerðabókum málfundafélagsins Vísis sem átti blómaskeið um þessar mundir. Jóhannes Jón Pálmason, bróðir Jósefínu á Mörk, bjó í Gautsdal 1914-18 með Maríu Emelíu Eyjólfsdóttur, seinni konu sinni en þau fluttu þá að Æsustöðum, síðar til Blönduóss og skildu.
     
  16. Bróðir Maríu, Haraldur Karl Georg Eyjólfsson, hóf búskap 1929 í Gautsdal með Sigurbjörgu Jónsdóttur konu sinni frá Haga og bjuggu þau til 1957. Synir þeirra Jón og Sverrir bjuggu á nágrannajörðunum Mörk og Mjóadal, Jón Haraldsson bjó lengi og lifði lengst þarna á framdalnum.
     
  17. Guðmundur Ketilsson kvað skömmu fyrir andlát sitt:
    Andann ljóða burt ég bý
    brjóstið óðum dofnar
    förlast móðurmálið, því
    minnið góða sofnar.

     
  18. Súluríu rak á vog
    rétt upp í hann Sigurð.
    Hún var tíu álnir og
    eftir því á digurð. GK

    Tildrög: Sigurður hét aldraður bóndi sem borinn var þeim sökum að hann hefði stolið tré af reka. Rekahlunnindin voru oft í eigu fjarlægra kirkna.  Þegar hann mætti fyrir rétti sagði hann sér til afsökunar, að þetta hefði verið „súluría og ekki nema 10 álnir." Um þetta kvað Guðmundur.

     
  19. Lífið titrar myrkri mót,
    mig þó viti ei saka hót,
    heldur strita á feginsfót
    fram að nytja stórubót. GK

     
  20. Einn af sonum dalsins, Rósberg G. Snædal kvað:
    Baða koll í blámans firrð
    bjartir jöklar heiða.
    Víðáttunnar vald og kyrrð
    vegfarandann seiða.

     
  21. Oft mig dreymir unað þinn
    eldinn geymi falinn.
    Ennþá sveimar andi minn
    yfir heimadalinn. RGSn.

Heimildir:
Ábúendatal: https://hlidhreppingar.is/abuendatal/
Sögukorn af Steinsstaðabræðrum og foreldrum þeirra, Óð hægt Kópur:    https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=20814
Vísur Rósbergs: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=16079
Guðmundur Ketilsson: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=15982

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið