Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 16. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 10:38 0 0°C
Laxárdalsh. 10:38 0 0°C
Vatnsskarð 10:38 0 0°C
Þverárfjall 10:38 0 0°C
Kjalarnes 10:38 0 0°C
Hafnarfjall 10:38 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Æsustaðir í Langadal 1930. Mynd: HAH/Halldór Jóhannesson
Æsustaðir í Langadal 1930. Mynd: HAH/Halldór Jóhannesson
Pistlar | 26. mars 2022 - kl. 09:30
Sögukorn af Æsustaðahlaði
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

1. Í manntalinu 1901 eru systkinin ennþá heima á Æsustöðum, húsbændurnir Sigríður og Pálmi komin nær fimmtugu, þau eru m. a. amma og afi Sigríðar Ólafsdóttur í Ártúnum f. 1924 og systkina hennar Helgu Maríu, Pálma og Ingimars, bræðranna Zóphóníasar og Pálma á Bjarnastöðum auk afkomenda Jóns Jóhannesar í Gautsdal, Sigurðar kaupmanns á Hvammstanga og Gísla á Bergsstöðum sem einnig eru komnir af Æsustaðahjónunum Sigríði og Pálma. Þau eiga nú hartnær 500 afkomendur.

Bræðurnir þrír, voru heimilismenn á Æsustöðum 1901: Jón Jóhannes 25, Sigurður 17 og Gísli yngstur 7 ára. Systurnar eru Guðrún Sólveig 23 og Jósefína Þóranna 14 ára.

Zóphónías Einarsson 24 ára mannsefni Guðrúnar Sólveigar skipar stétt leigjanda í manntalinu frá Æsustöðum. Öll eru þau ógift. Ingiríður Ósk systir Pálma bónda fyllir líka þann hópinn en þrír eru gestkomandi á Æsustöðum í þessu manntalinu: ekkjan Guðrún Gísladóttir 57 ára, móðursystir húsfreyju, Sigurjón Jóhannsson 27 ára, síðar bóndi í Blöndudalshólum og Páll Jónsson 25 ára síðar bóndi í Sauðanesi.

2. Nítján árum síðar er enn tekið manntal, þá eru mikil umskipti orðin á Æsustöðum, tvö systkinanna búa þar, ekkjan Guðrún með með seinni manni, Benedikt og tveimur sonum sínum Pálma f. 1904 og Zóphóníasi Zóphóníassonum f. 1906. Yngsti bróðirinn Gísli hafði eignast Sigurbjörgu Vilhjálmsdóttur ljósmóður fyrir konu og einkadóttir þeirra, Margrét f. 1916. Móðir Æsustaðasystkinanna, Sigríður Gísladóttir var orðin ekkja, þar var líka heimilismaður drengurinn Jón Þórarinn Jónsson f. 1904, tvíburi og sonarsonur Sigríðar, misstu móður sína ársgamlir, Jón varð síðar bóndi í Geitagerði, síðast á Skagaströnd. Enn eru ótaldir 8 heimilismenn, tengdaforeldrar Gísla, Andrés í Steinárgerði móðurbróðir hans, vinnukona og vandalaus börn.

3. Margt gerist á tveim áratugum, stikum skemmra og skoðum manntalið 1910 þar sem Pálmi langafi er enn á lífi og þau Sigríður eru talin fyrir fjölskyldunni. Systkin eru öll heima nema Jón Jóhannes, ekkjumaður sem eignaðist síðar Maríu Eyjólfsdóttur fyrir konu, systur Haralds í Gautsdal. Þau Jón og María bjuggu í Gautsdal.

Jóhannesar-, Þórönnu- og Sólveigarnöfnin á Æsustaðasystkinum eru ættuð frá Gunnssteinsstöðum, en Sigríður móðir systkinanna var alin upp af þeim Sólveigu og Jóhannesi á Gunnsteinsstöðum og móðir Jóhannesar hét Þóranna Þorsteinsdóttir.

4. Þóranna var góð kona og merk og þótti syni hennar innilega vænt um hana. Kemur þetta vel fram í eftirmælum Bólu-Hjálmars, sem hann kvað að beiðni Jóhannesar. En Þóranna dó 1. jan. 1861:

5.       

3. Þitt ráðvant líf á láð
leiddist fram blessun með
þín stöðug dyggð og dáð
dró að sér þjóðargeð
góðkvendis hjartað hýra
skreytti lífsrósum banabeð.

4. Fyrirsjón fríðri með
farsældust kjörin hlý
blessaðist brauð og féð
bjargsælum höndum í.
Bænar á himni heiðum
rann þér hvern morgunn náð guðs ný. Hjálmar Jónsson

6. Jón Jóhannes Pálmason tók þátt í Málfundafélaginu Vísi sem stofnað var 1911 og í nokkur ár voru tveir Jónar Pálmasynir í þessu fyrra ungmennafélagi Hlíðhreppinga því Jón síðar bóndi og alþm. á Akri bjó í 2 ár á Mörk, 2 bæjarleiðir frá Gautsdal.

Aftur að Æsustaðasystkinum, Guðrún Sólveig, eldri systirin var líka orðin ekkja, missti Zóphónías mann sinn áður en Zóphónías sonur þeirra fæddist en fjölskylda hennar flutti síðar vestur að Bjarnastöðum í Vatnsdal og þar búa niðjar þeirra enn í dag (2022).

7. „Þú skrifar mig bara í Ketu ef þú veist ekki hvar ég er“ segir Ólafur í Mörk/Holti við Stefönu systur sína í bréfi skrifuðu á Æsustöðum haustið 1912. Hann er 22 ára vinnumaður hjá Pálma á Æsustöðum, mági KG kaupmanns á Krók, en Stefana 27 ára  sauma- og lausakona, hafði verið kaupakona hjá sr. Lúðvík Knúdsen á Bergsstöðum, var eldhress og kát fram í andlátið, eignaðist hvorki börn né mann, en hún var okkur þriðja amman, frændsystkinunum nyrðra. Hún hvílir í kirkjugarðinum upp á Nöfunum og þaðan sem sjá má yfir margblessað Hegranesið, æskustöðvar þeirra systkinanna þar sem margar sögur hennar áttu rætur.

8. Fimm árum áður fékk Stefana annars konar bréf frá bróður sínum, var þá aðeins 17 ára unglingur nýráðinn til KG á Krók: „ ... mér líður vel og er orðinn Króksbúi, hélt ég þó ég mundi ekki verða það að svo stöddu en lífið er alltaf breytingum undirorpið og svo var nú þegar ég réðist til Kristjáns Gíslasonar kaupm. fyrir vetrarmann. Ég er búinn að vera hér í mánuð en það voru tveir menn búnir að ganga í burtu frá Kristjáni þegar ég kom svo það getur nú verið ég fari líka.

Mér líður vel að mörgu leyti, en ég hef nokkuð mikið að gera með köflum: Ég hirði tvær kýr og svo hross þegar þau koma á gjöf svo hef ég mikinn og erfiðan vatnsburð fyrir utan alla snúningana. Ég hef 40 krónur í kaup.

9. Í öðru bréfi frá 1912 – haustbréfi frá Æsustöðum segir Ólafur: Hér líkar mér ágætlega, frjálslynt og kátt fólk hér. Í nótt fór ég ofan á Blönduós, ætlaði að sækja lækni handa Steinvöru konu Sigurðar hér, hún fékk þá voða krampa og er nú orðin máttlaus en Jón var ekki heima, var suður í Reykjavík svo nú fór Erlendur á Auðólfsstöðum norður að sækja Jónas ...

Fram í dölunum gengur allt með prýði, heyskapurinn gengið heldur vel og það skiptir mestu máli fyrir „maurapúkana“. Ég heyjaði fyrir mig á Eyvindarstöðum og fékk 33 hesta af ágætu bandi; sló þó ekki nema 4 daga en lenti í óþurrkum svo ég varð að binda allt votaband og gekk talsverður tími í það, kofa fékk ég þar líka sem er yfir 4 hross, þurfti ég að koma ofan yfir hann og margt að gera, er þetta allt nokkuð útdráttarsamt.
Skeð getur ef ekki verður því harðara ég geti eitthvað hjúkrað Jarp þinum, annars ætti folaskömmin að ganga vel, á besta aldri. Ég býst við að Þokki minn verði æði þungur í húsi en Hrani er nú mjög feitur vegna þess hann gekk í vetur.

10. En umskipti voru í vændum á Æsustöðum, þessari uppáhaldsjörð ömmu minnar, Jósefinu á Mörk/Holti. Gerð voru makaskipti á Bergsstöðum, gamla prestsetrinu og Æsustöðum með samþykki Jóns Magnússonar forsætis- og kirkjumálaráðherra og milligjöf. Gísli ömmubróðir Pálmason bjó eftirleiðis frammi í Svartárdal en nýi presturinn sem birtist í dölunum haustið 1925, settist að á Æsustöðum. Það var sr. Gunnar Árnason, sem skrifar:

„Ég kom heim í september. Pyngjan var tóm. Slíku var ég vanur og lét hverjum degi nægja sína þjáningu. Þetta voru líkir tímar og Káinn kvað um:                      

Það var á yngri árum
þá engin sorg var til;
og flestir áttu ekkert
og allt gekk þeim í vil. KN

Ég var laus og liðugur og treysti því að fá eitthvað að gera. Kaus helst að komast strax út í prestskapinn. Nú vissi ég ekki til, að neitt brauð stæði autt. Þá hringdi Jón biskup Helgason til mín eitt kvöldið. Hann sagði að eitt brauð lægi á lausu. Það voru Bergsstaðir í Svartárdal. Því var þjónað frá Auðkúlu og hafði enginn sótt um það síðastliðin fimm ár. Síðar komst ég að raun um að um hundrað ára skeið hafði enginn verið þar lengur en í tíu ár og mundu elstu bændur ellefu presta áður en ég kom til sögunnar.

11. Ég hafði aðeins farið einu sinni ríðandi eftir Langadal. Var á suðurleið úr kaupavinnu á Reynisstað, sumarið sem ég varð stúdent. Framdalina vissi ég ekkert um, né þekkti ég nokkra manneskju á þessum slóðum. En ég vissi, að Ásmundur Gíslason, móðurbróðir minn hafði vígst að Bergsstöðum og unað þar vel, en kona hans síður. Ég sló til. – Til voru þeir sem töldu það fljótræði og sjálfsskaparvíti – vísa forpokun.

Nú varð að fara á stúfana að afla sér hempunnar. Til þess þurfti ég lán. Ekki um annað að ræða. Góðvinur minn hætti á, eftir nokkra umhugsun, að skrifa upp á 75 króna víxil. Og mikið létti mér þegar ég gat borgað hann á gjalddaga.

12. Ekki var um annað að ræða en fara norður með strandferðaskipi fyrst í nóvember. Sú ferð er mér minnisstæð, því ég er allra manna sjóveikastur og við hrepptum fádæma óveður. Urðum t.d. að liggja hálfan eða heila sólarhring inni á Reykjafirði á Ströndum sakir veðurofsa og ósjóa. En til Blönduóss komum við 9. nóv. skömmu eftir hádegi. Þá var komin vörubifreið á Blönduós og bílgengt fram Langadal að Auðólfsstöðum, næsta bæ fyrir utan Æsustaði. Kunnugt var um komu mína og hafði verið sér fyrir því, að ég yrði fluttur með farangri mínum upp að Holtastöðum. Búslóðin var ekki fyrirferðarmikil. Tvær ferðatöskur og tveir, þrír bókakassar eftir því sem ég best man. Raunar var ég mest og best búinn að skjólklæðnaði. Það kom til af því, að vinur minn, Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, hafði sagt mér, að hann hefði byrjað sinn starfsferil, sem eftirlitsmaður á Fjöllum og skilið að skjólbúningur væri hverjum íslenskum ferðamanni lífsnauðsynlegur að vetrarlagi. Sú skoðun var rétt.“ Stikill 4 bls. 31/ Hugurinn flýgur víða

13. Börn nýja prestsins bundu mikla tryggð við Æsustaði, yngst þeirra er Hólmfríður Kolbrún, ritsnjöll eins og faðir hennar og segir um fyrstu ár föður síns hjá Húnvetningum:

Pabbi kunni vel að meta veðursældina í dölunum og margt úrvalsfólk sem bjó á bæjunum. Þau mamma tengdust sumum þar órjúfandi vinaböndum. Ég held því óhikað fram að þar hafi bændamenningin hvorki verið hugarburður né rómantík.

Og pabbi skynjaði að veröldin gat rúmast í litlum dal með blárri bergvatnsá eins og ljóð hans um Svartárdalinn ber vitni um:

1.
Við Svartá búa bændur
og bjuggu frá landnámstíð
misjöfnum veðrum vanir
og vinnandi ár og síð.

2.
Á flestum bæjum er fátækt
þó finnst ekki í neinni borg
meira algleymi ástar
né óbærilegri sorg.

3.
Lífið er eins og áin
um aldir með líkum brag.
Á morgun hefst sama saga
og sögð var til enda í dag.  Sr. Gunnar Árnason frá Skútustöðum

14. Hann/sr. Gunnar þráði alltaf að komast suður – „meira að starfa guðs um geim.“  Hann var ekki hneigður fyrir líkamlega vinnu – kom ekki nálægt smíðum eða gegningum – tók aðeins þátt í heyskapnum á sumrin. Annars hafði hann vetrarmenn og kaupamenn þar til við systkinin vorum nógu stór til að taka þátt í því sem þurfti að gera.

Á veturna sat pabbi mest yfir bókum – hafði alltaf yndi af að lesa. Hann kenndi okkur systkinunum heima, þannig að við fórum aldrei í barnaskóla, en þreyttum þó próf á vorin. Hann tók líka að sér að búa unglinga undir framhaldsskóla eins og þá var siður meðal presta.

Hann dreymdi um að láta til sín taka á ritvellinum; orti, skrifaði leikrit og þýddi talsvert.

Hann tók líka virkan þátt í ýmiss konar starfi utan prestsþjónustunnar, gekkst m.a. fyrir því að stofnað var veiðifélag um Blöndu og laxaseiði sett í ána. Hann var virkur í Sögufélaginu Húnvetningi og þeir félagar: pabbi/sr. Gunnar, Magnús Björnsson á Syðra-Hóli og Bjarni Jónasson í Blöndudalshólum gáfu út margar bækur með sagnaþáttum um eftirminnilegt fólk og margt fleira mætti upp telja sem hann beitti sér fyrir eða tók þátt í.

15. Einu sinni kom mamma með rútunni frá Blönduósi heim til Æsustaða. Þá var til siðs að syngja í rútuferðum. Mamma heyrða þarna sungið erlent lag, sem hún lærði strax, en mundi ekkert úr ljóðinu nema þetta:„og aftur kemur stúlkan mín til baka.“
Pabbi setti þá saman þessar vísur: 

Nú ríkir sönglaus vetur og allt er autt og kalt
einn um dimmar nætur má ég vaka.
En þegar vorið kemur þá umsnýst þetta allt
þá aftur kemur stúlkan mín til baka.
Ég gleymi vetrarhörmum og gleðst við sól og dag
í greinum trjánna vorsins fuglar kvaka.
Í kapp við sunnanblæinn ég kveð mitt ástarlag
því komin er nú stúlkan mín til baka. Sr. Gunnar Árnason

16. Árið 1952 rættist loks ósk pabba. Þá var auglýst prestakall fyrir sunnan sem náði yfir Kópavog, Breiðholt, Bústaðahverfi og víðar. Systurnar lögðust allar á eitt um að reka áróður fyrir bróður sinn og eftir harða kosningabaráttu varð hann fyrir valinu. Þetta stóra prestakall er löngu orðið að mörgum prestaköllum.

Pabbi fagnaði úrslitunum en mamma var kvíðin – þekkti það best að búa fyrir norðan. Það voru tilfinningaþrungnar stundir í kirkjunum þegar við kvöddum. Ég fermdist í síðustu messunni í Bólstaðarhlíð og þegar við ókum burt eftir messu og kaffidrykkju á Bergsstöðum stillti kórinn sér upp úti á hlaði og söng Blessuð sértu sveitin mín. Þá var sumum þungt um hjartrætur.

17. Það varð gjörbreyting á högum okkar eftir að við komum suður. Eldri systkinin tvö voru bæði farin til náms í Svíþjóð en við þrjú, þau yngstu, fluttumst fyrst með foreldrum okkar í sumarbústað Tryggva Ófeigssonar útgerðarmanns við Hlíðarveg í Kópavogi, síðan í hálfkarað hús við Digranesveginn. Draumur pabba rættist að því leyti að hann fékk nóg að gera – fásinnið var liðin tíð.“

18. Aftur að upphafi prestseturs á Æsustöðum. Gunnar Árnason, nýi presturinn heldur áfram frásögninni:„Vorið 1926 komu þeir einn góðan veðurdag prófasturinn séra Jón Pálsson á Höskuldsstöðum, Björn Árnason hreppstjóri á Ytri-Ey og Sigvaldi Björnsson, hreppsnefndarmaður á Skeggsstöðum til að taka út Æsustaði í mínar hendur. Þar var þá gamall torfbær með nýlegu framhýsi úr timbri, sem var lekt og lítt vandað. Ein stofa, svefnherbergiskytra og eldhús, sem vart gátu rúmast nema tveir í. Fjósið var að hruni komið, fjóshlaðan aldargömul. Líku máli gegndi um hesthúsið. Nýtileg fjárhús voru syðst á túninu með ágætri og rúmgóðri rétt.

Tvístæð fjárhús efst í túni skáru sig úr. Þau hafði Pálmi Sigurðsson gert fyrir um áratug eða svo  og hlaðið þau og hlöðu við með slíkum snilldarbrag, að listaverk mátti kalla. Og þau voru líkleg til langs aldurs. Ekki var um nokkurt álag að ræða.“ Álag – þ.e. gjald vegna fyrningar á húsum og mannvirkjum.

19. „Eigi má gleyma, að í garði sunnan við bæinn voru nokkrar vænlegar birkiplöntur, um mjaðmarháar og tvær eða þrjár lerkiplöntur. Hafði Gísli Pálmason gróðursett þessar plöntur eftir að þau tré, sem Sigurður bróðir hans plantaði, féllu eftir frostaveturinn 1917-18. Var þetta vísir þess garðs, sem konan mín kom þarna upp síðar. Fáein tré flutti Gísli þó með sér að Bergsstöðum.

Ég man að ég hafði ekki nema koffort og kassa handa úttektarmönnum til að sitja á. Og veitingarnar voru sannarlega af skornum skammti. En strax þetta sumar heyjaði ég á Æsustöðum handa hesti og nokkrum kindum. Fékk ég fjögur kúgildi frá Bergsstöðum, sem óneitanlega voru ærið misjöfn eins og tíðkaðist fyrr og síðar.“ 

Kúgildi – andvirði einnar kýr. Kúgildi var annaðhvort ein kýr eða sex ær loðnar og lembdar. Leigukúgildi eða innistæðukúgildi voru oft fylgifé jarðar, sem jarðareigandi átti og ábúandi varð að greiða leigu eftir og afhenda við brottför af jörðinni. Leigukúgildi héldust langt fram eftir 19. öld en hurfu nær alveg úr sögunni eftir 1900. Heimild: Jón Torfason Húnvetningasaga III bls. 971

20. „Ég leigði hálfa jörðina þrjú fyrstu árin, en fluttist þangað alfarinn vorið 1928, er ég kvæntist Sigríði Stefánsdóttur, prests á Auðkúlu. En það varð mér mest til hamingju um dagana.

Æsustaðir voru hvorki hlunnindajörð né stórbýli. En þeir voru vel í sveit settir og lá þjóðvegurinn um hlaðið. Þar var frábær veðursæld. Heyskapur erfiður meðan fjallslægjur þurfti að nýta. Útræktarskilyrði lítil í þann tíð, en jarðsælt, einkum góð hrossaganga.

Þá fékkst ekki byggt upp á prestsetrum nema prestarnir legðu allmikið af mörkum. Þegar íbúðarhúsið var reist og síðar fjósið, varð ég t.d. að flytja að allt innlent efni svo sem möl og sand og einnig kosta alla aðflutninga á aðkeyptu efni frá Blönduósi.

En engu fékk ég ráðið um gerð íbúðarhússins. Var svo fyrir mælt, að það væri einlyft og á teikningunni ekki gert neitt ráð fyrir geymslu. Nú stóð svo á að mjög djúpt var að grafa fyrir grunninum og fannst mér og smiðnum  þá einsýnt, að sjálfsagt væri að hafa kjallara undir a.m.k. hálfu húsinu og yrði þar kyndiklefi og geymsla. Þegar greftrinum var lokið, gerði ég þó þáverandi kirkjumálaráðherra grein fyrir þessu. Kom þá umboðsmaður hans á staðinn og heimtaði að mokað yrði ofan í tóftina og húsið fært þannig að hún nýttist ekki. Bauð ég þá, þótt eignalaus væri, að gjalda sjálfur aukakostnaðinn við kjallarann. Þjörkuðum við um þetta lengi dags. Loks varð ég að beygja mig.

Síðar varð þó að sjálfsögðu að byggja áfasta geymslu fremur óhentuga. Og það sem kaldhæðnislegast var, að brjóta þurfti upp eldhúsgólfið og gera þar smákjallaraholu fyrir miðstöðina. Auðvitað gluggalausa. Þess skal getið, að sjálft húsið var reist 1930 þegar heimskreppan var sem mest.

Ég varð að kosta líku til þegar ég lét reisa fjós og fjóshlöðu. Girðingar um tún og engi urðu prestar einnig að gera að miklu leyti fyrir eigið fé. Þetta var lítils metið þegar upp var staðið. Trjágarðurinn ekki talinn eyrisvirði, enda þess ekki krafist.“ Stikill 4 bls. 36/ Hugurinn flýgur víða

21. „Ég á ekki annars en góðs að minnast á Æsustöðum, bæði af hálfu Guðs og manna.“ Prestur heldur hér áfram frásögn sinni: „Þrátt fyrir það fannst mér ég, að vissu leyti, hafa of þröngt verksvið og væri betur kominn annars staðar, þar sem fleira kallaði að og sumar aðstæður væru með öðrum hætti. Þess vegna hafði ég hug á því, einkum framan af, að skipta um og fannst með ólíkindum, að ég gæti ekki komist úr brauðinu eins og fyrirrennarar mínir mann fram af manni áður. Ég sótti því öðru hvoru um prestaköll, en fékk hvarvetna fá atkvæði. Þegar ég hafði verið fimmtán ár prestur, var svo komið, að ég hugsaði ekki lengur til að sækja um önnur sveitaprestaköll. Taldi ekki borga sig að fitja að nýju upp á búskap á mér ókunnri jörð í framandi umhverfi. Ég gat þá einnig sagt sjálfum mér þau sannindi, að hverfandi líkur voru á því að ég fengi nokkurt kaupstaðarbrauð. Og enn liðu árin eitt af öðru. Í aðra röndina fannst mér samt, að þrátt fyrir allt ætti ég ekki að enda daga mína á Æsustöðum. Samtímis sagði skynsemin mér, að svo hlyti að verða, hvort sem mér líkaði betur eða verr, þegar upp væri staðið.

22. Sumarið 1950, þegar ég var að nálgast 25 ára prestsafmælið, bar dálítið undarlegt við á miðjum slætti, sem mér gleymist aldrei. Einn daginn varð mér það, sem sjaldgæft var, að leggjast útaf um nónbil og steinsofna. Þá dreymdi mig, að ég var staddur í svarta myrkri og heyrði einhvern segja, ósköp blátt áfram með ókenndri karlmannsrödd: „Nú eru tvö ár eftir!“ Um leið hrökk ég upp af svefninum. Þegar ég hugleiddi þetta á eftir, fannst mér að vart léki vafi á, að eitt af tvennu myndi gerast: Ég ætti aðeins tvö ár eftir að lifa, og var það óneitanlegra líklegra, en hitt: Að ég færi í annað brauð að tveim árum liðnum. Það var þó það sem kom á daginn. Þá flutti ég til Kópavogs ...

23. Með árunum hefur það orðið reynd mín svo sem margra annarra, að við hugsum smátt, sjáum skammt og vitum lítið. En við höfum þó hugmynd um óræðan stórfengleika, vitum að við erum umlukt af óendanlegum víðáttum og höfum fyrirheit um að verða leidd í allan sannleika.

Þess vegna er lífið sjálft mest allra ævintýra.“

24. Fjölskylda prestsins flutti suður haustið 1952 og söfnuðurinn var hálfeinstæður eftir eins og oft vill verða við skilnað, en þá bar þar í dalina ungan prest af Akureyrarslóðum, rómfagran og viðmótshlýjan og varð prestur dalbúa í góð sex ár, ´53-´59. Hann seiddi ferska vinda inn í prestakallið.

25. Sr. Birgir Snæbjörnsson kom til starfa í prestakallinu í febrúar 1953, hélt til í Blöndudalshólum fyrstu vikurnar,  fékk Sigurjón Jóhannsson, eldri bóndann í Hólum, að fylgdarmanni og félaga þegar hann fór að vísitera á bæjunum. Sr. Birgir bjó síðan á Æsustöðum kom sér upp búi, byggði fjárhús og hlöðu og starfaði til 1959 þegar hann fékk Laufás í Eyjafirði og fluttist norður um sumarið. Þannig urðu þeir tveir prestarnir á Æsustöðum, tími þeirra var frá 1926 – 1959.

26. Næsti prestur, sr. Sigurvin Elíasson, kom um haustið 1959, bjó í Finnstungu og stóð stutt við en ég/IHJ gekk til hans – upp Melana frá Ártúnum – þann vetur og hann las með mér fyrsta bekk unglingaskólans.

27. Ári síðar komu til okkar sr. Jón Kr. Ísfeld og Auður kona hans, bjuggu í fyrstu á Brandsstöðum, í íbúð Sigmars Ólafssonar, en fluttu síðar í nýbyggt prestseturshús í Bólstað. Jón Ísfeld var mikill skólamaður og hélt úti unglingaskóla á Brandsstöðum og síðar í Bólstað. Þegar byggt var í Bólstað var teikningum breytt og kjallari sem hafði átt að fylla upp í varð að tveimur skólastofum. Það varð auðveldara viðfangs en þegar sr. Gunnar byggði íbúðarhúsið á Æsustöðum, sbr. grein 20.

Þau Auður og sr. Jón voru tæp tíu ár.

28. Sr. Hjálmar Jónsson hóf prestskap sinn í Æsustaðaprestakalli 1975 sem nú var farið að kalla Bólstaðarhlíðarprestakall, því Æsustaðir höfðu aftur orðið bændaeign 1963. Þau hjónin, Signý og sr. Hjálmar, fluttu til Sauðárkróks 1980 þar sem Hjálmar gerðist sóknarprestur.

29. Sr. Ólafur Hallgrímsson var prestur í dölunum í tvö ár, 1981-1983, en fór þá að Mælifelli og gerðist prestur Lýtinga. Hann hélt áfram góðu sambandi við sóknarbörnin vestur í dölunum, sem bjugga áfram við presta er stóðu stutt við. Þessu prestatali get ég ekki lokið án þess að nefna prófastinn okkar góða, sr. Pétur Ingjaldsson á Höskuldsstöðum, en síðar á Skagaströnd, sem kom og þjónaði okkur fremra, þegar við vorum milli presta.  

Sr. Pétur fermdi þrjú fermingarbörn í Bólstaðarhlíðarkirkju vorið 1961: Okkur Ragnheiði Björnsdóttur og Kristján Jósefsson. Á Holtastöðum fermdi sr. Pétur tvo sama vor: Valgarð Hilmarsson og Eystein Agnar Georgsson. 

30. Hugum nú nánar að húsfreyjunni á Æsustöðum, þessari sem birtist í upphafi sögukornsins.

Sigríður Gísladóttir á Æsustöðum var ein hinna fjölmörgu Eyvindarstaðasystkina en hún ólst upp hjá hjónunum Sólveigu og Jóhannesi á Gunnsteinsstöðum, á menningarheimili í fremstu röð.

En hjónin Sólveig og Jóhannes misstu öll sín börn, 8 að tölu. Síðast – um sumarmálin 1866 – dóu systurnar, Þóranna yngri 9 ára og Ingigerður 11 ára fimm dögum síðar. 

Um Jóhannes, félögin þeirra í dölununum, búskapinn, lækningar og eldmóð brautryðjandans hefur sr. Gunnar skrifað ítarlegan og góðan þátt í Sögufélagsritið Hlyni og hreggviði.

31. Gestakomur voru sagðar svo miklar á Gunnsteinsstöðum að aldrei hefði kólnað á katlinum í tíð þeirra Sólveigar og Jóhannesar:

„Öllum var tekið tveim höndum. Og hraktir og svangir voru þar sem í foreldrahúsum.“

Einn förumaðurinn, Stefán Ólafsson fíni, prestsonur frá Hólum, var sagt að kvæði við fráfall Sólveigar:

Skarð nú fyrir skjöldinn bar
því skjóls með huga glöðum
Sólveig margan svangan þar
saddi í Gunnsteinsstöðum.

32. Jóhannes á Gunnsteinsstöðum var fæddur af vinnukonu fram á Guðlaugsstöðum, en faðirinn Guðmundur Arnljótsson var yngispiltur og bóndasonur á bænum, liðlega tvítugur. Þeim var stíað sundur, en sonurinn fóstraður upp í föðurhúsum sínum og varð mjög kær föður sínum, sem kvæntist nokkrum árum síðar Elínu Arnljótsdóttur frá Gunnsteinsstöðum. Og þannig ræðst, að þegar foreldrar Elínar flytja til hennar og tengdasonar síns að Guðlaugsstöðum, þá fær Jóhannes Gunnsteinsstaði og bústofn með en Þóranna móðir hans og Jónas stjúpi flytja til þeirra ofan af Laxárdal með bú sitt og Jónas verður þannig ráðsmaður þar, en Jóhannes sjálfur var mikið að heiman að sinna félagsmálum eða málefnum sveitarinnar.

Guðm. faðir hans og sr. Þorlákur Stefánsson á Auðólfsstöðum stofnuðu Lestrarfélag Blönddælinga 1844 en Jóhannes var síðar aðalstoð félagsins, lánaði stórfé til útgáfu á Húnvetningi, prentuðum á Ak. 1857 ásamt Guðmundi föður sínum og bræðrunum Jóni Pálmasyni í Sólheimum og Erlendi í Tungunesi.

En búskapur Jóhannesar lánaðist ekki vel, það voru aðeins fyrstu árin sem efnahagur hans blómstraði, en hann komst fljótlega í meiri og minni fjárhagskröggur og varð að síðustu snauður maður. Hann bjó á Gunnsteinsstöðum til vorsins 1867, var tvö ár í Gautsdal, í Mjóadal ´69 -´70, í Hólabæ 1870 -73, á Holtastöðum ´73 -´74 og á Móbergi 1874 -´77.

33. „Sólveig kona hans dó 18. apríl 1876. Voru þau hjónin þá á Móbergi. Þessi síðasta holskefla sleit Jóhannes upp að fullu. Eftir það varð hann reikult þang. Hann var svo sem ekki gamall maður, um það bil hálfsextugur, en sjóvelktur og saddur lífdaga … Nú var hann litla hríð á lausum kili eins og áður er að vikið. Svo bar hann á ólíklegum stað að landi. … Þegar séra Hjörleifi (Einarsson fyrr Hóla- en síðar Undirfellspresti) varð kunnugt að Jóhannes Guðmundsson væri hættur að búa og ætti engan fastan samastað, mun presti hafa dottið í hug, að nú gæti hann hæglega slegið tvær flugur í einu höggi. Skotið skjólshúsi yfir þennan fornvin sinn og fengið friðandi og spekjandi anda á heimilið. Bauð hann því Jóhannesi til sín undir því yfirskini, að hann væri ráðsmaður klerks. Þá Jóhannes þetta vinarboð og mun hafa farið að Undirfelli vorið 1878. … En dvöl Jóhannesar hjá séra Hjörleifi varð ekki löng. Hann var kominn í áfanga. Andaðist tæpu ári síðar, 7. maí 1879.“

34. Þættinum af brautryðjandanum Jóhannesi á Gunnsteinsstöðum lýkur sr. Gunnar svo:

„Hlíðhreppingar hefðu átt að kosta útför Jóhannesar í heiðurs og þakklætisskyni.
Hann var sá vormaðurinn sem best sáði til þess félagslyndis sem þar hefir síðan þróast í fulla öld.
Til hans var oft vitnað um hugsjónir og göfuglyndi.
Hann var ráðagerðamaður mikill.
Sá alls staðar verkefnin og var oft skyggn á úrlausnirnar.
Honum lét að vísu betur að búa fyrir aðra en sjálfan sig.
Hefði vafalaust orðið merkur vísindamaður og háskólakennari, ef honum hefði auðnast að ganga inn á þá braut. Þekkingarþorstinn var óslökkvandi, hugsunin frjó, sannleiksástin óbilandi, góðviljinn frábær.
Var hann á rangri hillu?
Hví það?
Hann var salt jarðar í sinni sveit og hún þurfti hans við.
Hví skyldi þá um sakast, þó að hann væri fátækur bóndi, en hlæði ekki utan á sig auði og metorðum.
Glæsileiki gáfna hans varpar um hann ljóma.
En skuggar sorgarinnar og mæða fátæktarinnar eru hinn dökki bakgrunnur lífs hans.
Hann varð því meira einmana sem á leið.
Hann var jafnan á undan sínum tíma og átti þess vegan samleið með fáum.
Og barnamissirinn gerði hann að raunamanni.
Og barn sorgarinnar situr hjá við gleðileik lífsins jafnvel þótt það látist taka þátt í honum.
Ég hef gert mér þessa mynd af Jóhannesi Guðmundssyni á efri árum hans þegar hann er fluttur upp á Laxárdal:

35. Það er vetrarkvöld.
Stillt og frost.
Jóhannes kemur ríðandi utan Langadal.
Einn.
Hann er hálf fornfálega búinn, kaskeytið hallast út í vangann og hann drúpir á hestinum, niðursokkinn í þunga þanka.
Öðru hvoru lítur hann þó upp og fagnar umhverfinu og ljósunum á bæjunum.
Honum dettur í hug, hvað allt verður fagurt, þegar vorið kemur.
Svo nær hann að Auðólfsstaðaskarði.
Nú eru Gunnsteinsstaðir hvað þá kirkjugarðurinn á Holtastöðum langt að baki.
Tunglið er að koma upp
og varpar töfrandi ævintýraljóma á bratta hlíðina að norðanverðu.
Gatan að sunnan er enn öll í skugga.
Og Jóhannes hverfur þar eins og inn í fjöllin ...

36. Ég á líka aðra mynd af Jóhannesi.
Og hún er yfirgripsmeiri og sannari.
Ef ég væri listamaður hefði ég sett honum stein. Og fyrir neðan nafn hans hefði ég meitlað kerti sem er að brenna niður í stjakann.
Það væri ókunnugum tákn þess sem hann var sveitungum og samferðamönnum.
Minning hans var björt og hlý í hugum þeirra.
Nú er samt gatan hans að verða algróin.
En andi hans berst enn með sunnanblænum hér um hlíðarnar.“   

Heimildir og ítarefni:
Sr. Gunnar Árnason: Um Jóhannes á Gunnsteinsstöðum – Hlynir og hreggviðir Ak. 1950
Hólmfríður K. Gunnarsdóttir: ... hjá grassins rót Rv. 2018
Stikill 2/IHJ – Bréf Ólafs Björnssonar í Holti
Stikill 2/IHJ – sr. Gunnar Árnason Úr kesti minninganna
Safnritið Hugurinn flýgur víða – þættir sextán fyrrverandi sóknarpresta Rv. 1972
Ráðsmaður á Æsustöðum í 11 ár, Stefán Sveinsson: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=18568
Þeir urðu vinir á vondu ferðalagi: https://www.huni.is/index.php?cid=12589 
Systurdóttir sr. Gunnars, AHH: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=16387
Af fyrstu árum Sögufélagsins: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17655
Merkurfréttir 1917: https://www.huni.is/index.php?pid=58&cid=17850
Kveðja frá Unni Pétursd. árið 1944: https://stikill.123.is/blog/2008/02/02/200932/
Mynd: https://atom.blonduos.is/index.php/01894b-aesustadir-1930 

Yfirlit:
Greinar 13 -17 eru úr bók HKG - ... hjá grassins rót
Greinar 10 – 12:  sr. Gunnar Árnason Úr kesti minninganna
Greinar 18 – 23:  sr. GÁ Úr kesti minninganna
Greinar 30 – 36 eru úr þætti sr. GÁ Um Jóhannes á Gunnsteinsstöðum

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið