Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Miðvikudagur, 8. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 16:33 0 0°C
Laxárdalsh. 16:33 0 0°C
Vatnsskarð 16:33 0 0°C
Þverárfjall 16:33 0 0°C
Kjalarnes 16:33 0 0°C
Hafnarfjall 16:33 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Mynd af bréf sem Steinunn Jónsdóttir skrifaði 1840.
Mynd af bréf sem Steinunn Jónsdóttir skrifaði 1840.
Pistlar | 18. júní 2023 - kl. 07:59
Þættir úr sögu sveitar: Börnin mín og börnin þín
51. þáttur. Eftir Jón Torfason

Steinunn Þórðardóttir stóð fyrir búinu á Húnsstöðum eftir lát Jóns Gíslasonar (d. 3. desember 1807) og miðað við lausafjártíundina heldur hún vel í horfinu, tíundar 8 hundruð árin 1808 og 1809. Börnin voru enn ung svo hún tekur til sín ráðsmann eða fyrirvinnu, Jón Finnsson (1760-5. nóvember 1821) en hann var ekkill og átti þá þrjú börn á lífi. Jón hafði búið á Snæringsstöðum í Svínadal 1796-1805 en kona hans, Jóhanna Sigurðardóttir (f. 1761), dó 1804 og leystist þá heimilið upp og Jón var nokkur ár í húsmennsku eða vinnumennsku þar til hann réðst að Húnsstöðum. Einn sonur þeirra Jóhönnu, Sveinn að nafni (f. 1798), var lengst af á Strjúgsstöðum og orðinn vinnumaður þar þegar hann drukknaði 3. júní 1821, ungfullorðinn maður.[1]

Jón hefur átt töluvert af skepnum því hann tíundar 1 ½ hundrað 1808 og 3 hundruð 1809. Eftir að þau Steinunn giftast telja þau saman fram 12 hundruð í lausafjártíund sem mátti teljast nálægt meðaltali í hreppnum.  Nú þjappa þessar tvær fjölskyldur sér saman í baðstofunni á Húnsstöðum, Steinunn og börn hennar öll og Jón Finnsson og tvö börn hans, að nafni Guðrún og Nikulás. Eftir þriggja ára „sambúð“ gengu Jón og Steinunn í hjónaband 17. október 1810 og ráku búið eftir það á nafni Jóns Finnssonar þar til hann lést 1821.

Aðeins er til ein búnaðarskýrsla frá þessum árum, 1814, og þá eru taldar fram 2 kýr og ein kelfd kvíga, 50 ær, 48 lömb og 3 sauðir en veturgamlir sauðir og gimbrar eru 15. Tamdir hestar 5 og ótamdir 2. Athygli vekur hvað lömbin eru mörg og annað hvort hafa þau ætlað að fjölga fénu eða gert ráð fyrir töluverðum afföllum af mjólkuránum. Hér þarf raunar að hafa í huga að 12 ær af þessum 50 tilheyrðu Þingeyraklausturumboðinu, voru sum sé leigukúgildi og varð leiguliðinn að greiða allháa leigu eftir þau og standa skil á þeim við brottför eða andlát.

Líka vekur athygli að á bænum eru 2 sáðgarðar sennilega fyrir kartöflur og rófur en raunar er ekki fyllilega víst hvað var ræktað í þessum görðum. Sáðgarðar í hreppnum voru þetta ár 21 að tölu þannig að að meðaltali var garður á hverjum bæ. Garðrækt mun hafa aukist í landinu í siglingatregðunni í upphafi aldarinnar sem m.a. stafaði af þátttöku Dana í Napóleonsstyrjöldunum.

Frá dánarbúi Jóns Finnssonar var gengið 1822 og nam það að upphæð nærri 400 rd. en samanstóð að venju mest af búfénaði og nauðsynlegum búsgögnum en litlum verðmætum öðrum. Við andlát hans voru bæjarhúsin tekin út og gert á nokkurt álag. Þar kemur fram allmyndarleg baðstofa 4 ½ stafgólf og ef gert er ráð fyrir tveimur rúmum í hverju stafgólfi hafa þar verið 8 rúm eða rúmstæði og eitthvert pláss að auki. Tekið er fram að húsið sé nýlegt og vel stæðilegt. Búr og eldhús eru með gömlum veggjum sem þó eru vel stæðilegir. Uppreftið í búrinu er gamalt og fúið en nýlegt í eldhúsinu sem bendir til þess að skömmu áður hafi verið lagt nýtt þak á það.

Síðan eru talin upp göng, stæðilegur geymslukofi og fjós yfir fjórar kýr.  Innangengt hefur verið í fjósið því nefnd eru göng frá baðstofudyrum til fjósdyra sem virðast vera ný eða nýleg því þeirra er ekki getið í eldri úttekt. Einnig eru göng úr fjósinu, nefnd kumbaldi, til heytóftar. Það hefur því verið hægt að annast kýrnar að vetrarlagi án þess að fara út úr bænum sem hefur létt mjólkurverkin. Nefndur er hesthúskofi og tvö fjárhús, annað þeirra lambhús, í viðunanlegu ástandi. Þetta voru þau hús sem tilheyrðu jörðinni en gera má ráð fyrir að ábúendurnir, Steinunn og Jón, hafi átt fleiri fjárhúskofa sem þau höfðu byggt og tilheyrðu þannig þeim en ekki jörðinni og er því ekki talið í úttektum.

Þá hefur verið gerð grein fyrir því helsta sem kreist verður úr opinberum skýrslum um búskap Steinunnar og Jóns Finnssonar þessi 15 ár sem þau bjuggu saman á Húnsstöðum og skal þá vikið að börnum þeirra.

Jón Jónsson Gíslasonar og Steinunnar (22. september 1793-17. júní 1869) fór ungur í vinnumennsku, m.a. í Holti og á Melstað í Miðfirði. Kona hans var Margrét Jónsdóttir (1795-13. mars 1848). Þau giftust 12. ágúst 1824 og eignuðust eina dóttur Guðrúnu  (27. ágúst 1827-15. maí 1876) að nafni. Þau búa á Húnsstöðum 1823-1825 en síðan nokkuð víða, m.a. á Torfalæk og Skinnastöðum og svo aftur á Húnsstöðum árið 1835 en eftir lát Margrétar er Jón í vinnumennsku, mest í Sveinsstaðahreppi, og síðast örvasa en Guðrún dóttir hans greiddi eitthvað með honum. Jón var orðinn sveitarómagi í Holti þegar hann lést á þjóðhátíðardaginn sem síðar varð, 17. júní, 1869.

Yngstu dætur Steinunnar Þórðardóttur voru Rósída og Steinunn. Skv. húsvitjunarbókinni er Steinunn oft talin „nokkurn veginn“ þegar kemur að lestri og kunnáttu í kristnum fræðum. Upp úr tvítugsaldri hleypir hún heimdraganum en er jafnan vinnukona. Hún giftist, eignaðist tvö skammlíf börn og skildi við mann sinn eftir stutta sambúð. Árið 1845 var hún vinnukona á Refsstað á Laxárdal hjá Pétri Jónssyni og Ragnhildi Bjarndóttur. Þau Pétur áttu dóttur sem hét Anna (1842-1925) og virðist sem Steinunn hafi tekið ástfóstri við hana því Anna fylgir henni  í vinnumennskunni upp frá því. Þegar Anna verður húsfreyja á Móbergi tekur hún Steinunni til sín og þar deyr hún  15. ágúst 1878.

Eiginmaður Steinunnar hét Jón Þorleifsson (f. 1793) og var þá vinnumaður á Vesturá á Laxárdal. Þau vor vígð saman 19. október 1835 og eignuðust tvær dætur, Guðrúnu (1835-1836) og Ingibjörgu (1836-1836) sem urðu ekki langlífar eins og fyrr sagði. Sambúð þeirra varð eftir það lítil og máttu þau um árabil heita skilin að borði og sæng. Haustið 1840 ritar Steinunn sýslumanni, hún virðist skrifa eigin hendi og undirrita sjálf. Slíkt er þó ekki alltaf gott að vita með vissu og þess ber að gæta að húsbóndi hennar var Jóhann Jónsson, Holtastaða-Jóhann, sem var að vísu beggja handa járn en gæti hafa stutt vinnukonu sína í þessu máli. Bréfið er svona:

         Með[2] því ég undirskrifuð er yðar velbyrðugheita sýslu barn dirfist ég hér með undirgefnast að leita yðar ráða og aðstoðar í nauðsyn minni í eftirfylgjandi málefni:

         Ýmislegar kringumstæður í innbyrðis hjónabands samförum okkar ektamanns míns, Jón Þorleifssonar, orsakaðar sumpart af kuldalegri aðbúð hans og sumpart óráðlegri meðferð á fémunum okkar, með meiru þar að lútandi, hvers vegna ég er einhuga orðin í því að biðja viðkomandi yfirvald haga svo til að þetta verði okkar á milli rannsakað, því ég treysti mér framvegis engan veginn til að sameinast honum eður óráðdeild hans og ótilhlýðilegri breytni við mig í mörgum máta.

     Frekari upplýsingar hér um vil ég við rannsóknina gefa til kynna.

Þorbrandsstöðum þann 16. október 1840,
Undirgefnast,
Steinunn Jónsdóttir

Sýslumaður fór sé hægt í þessu máli og leið ár af ári án þess nokkuð gerðist, en um síðir eignaðist Jón barn utan þessa hjónabands og varð þar með hórsekur. Var þá gerður reki að málinu og voru þau Steinunn og Jón loks formlega lesin sundur  með dómi 1. febrúar 1849. Í sambandi við skilnaðarmálið var m.a. lagt fram vottorð Péturs á Refstað um góða hegðun Steinunnar.[3]

Næstyngsta systirin, Rósída  (7. júní 1797-12. desember 1872), var vinnukona eða lausakona á ýmsum bæjum sína löngu ævi og meira að segja eitt sinn titluð umrenningur, í manntalinu 1845, sem segir kannski meira um skrásetjara þess en hana. Rósída er fermd 17. maí 1812 og er þá 15 ára. Kann og les í bók nokkurn veginn, hefur verið undirbúin af presti í 3 ár og árið eftir er hún í húsvitjunarbók sögð stautfær og ekki illa kunnandi.

Rósída náði því aldrei að giftast eins og Steinunn en það þýðir ekki að hún hafi aldrei sofið hjá því hún eignaðist dótturina Ástu (19. júlí 1830-13. maí 1880) sem var skírð tveimur dögum eftir fæðinguna í Hjaltabakkakirkju. Lýstur faðir var Björn Björnsson, þá verandi á Miðhúsum í Skagafirði og bætt við: „Þessi maður meðgekk barnið ljúflega.“ Björn Björnsson (1807/8-4. apríl 1879) dvaldist á Norðurlandi um árabil en var síðar lengst búsettur í Hafnarfirði.

Við skírn Ástu er tekið fram að þetta sé „annað brot“ Rósídu, hún hafði sum sé átt barn áður. Það barn fæddist upp í Eiríksstaðakoti þar sem Rósída var vinnukona eða hafði verið því hún fór burtu fljótlega eftir fæðingu barnsins. Faðirinn var Jónas Jónatansson (1796-1872), síðar um tíma bóndi á Sólheimum en dó í Stóradal. Barnið var skírt Sigfús, f. 23. september 1827, og virðist að mestu hafa verið í skjóli afa síns og ömmu, Jónatans Jónssonar (1770-1844) og Margrétar Þorkelsdóttur (1772-1845). Hann lést hjá þeim á Ytri-Löngumýri, en þangað voru þau þá komin, á sjötta aldursári 20. febrúar 1833, úr landfarsótt.

Rósída hafði dóttur sína með sér í vinnumennskunni og vann fyrir henni. Að lögum bar barnsföður ─ ef hjón áttu ekki í hlut ─ að greiða tvo þriðju hluta framfærslukostnaðar barns en móður þriðjung. Þegar börnum var komið fyrir í vist eða fóstri mun hafa verið farið eftir þessu en þegar t.d. móðir annaðist barnið eða hafði það með sér í vinnumennsku eins og Rósída gerði, bar föðurnum að greiða sinn hluta til móðurinnar eða húsbónda hennar. Á því mun hafa verið allmikill misbrestur og líklega meiri en allmikill. Vinnukonur allra alda áttu mjög undir högg að sækja í lífsbaráttunni, hvað þá þær sem drösluðust með lausaleiksbörn á eftir sér, og fáar þeirra höfðu döngun í sér til að sækja rétt sinn. Oft hefur einfaldlega ekki verið hlustað á þær. En Rósída, sem við vitum í raun sáralítið um, hefur haft bein í nefi og áræði til að hafa samband við sýslumann,  krefjast réttar síns og biðja um skylduga aðstoð hans til að ná meðlaginu af Birni Björnssyni. Hún leitar til Björns Blöndal sýslumanns vorið 1833 og skrifar honum síðan um sumarið:

         Veleðla herra sýslumann, háttvirta yfirvald.[4]

         Þar eð Björn Björnsson barnsfaðir minn, sem nú er vinnumaður á Syðri-Langamýri, hefir enn þá í næstliðin þrjú ár ekkert fiskivirði til mín látið barninu til framfæris og ég svo mátt ein með því berjast, hvar til ég finn mig ei lengur einfæra, hefi því ei önnur úrræði en leita yðar atkvæða hér um, og meðfram biðja yður eftir sem ég nefndi við yður í vor, að skrifa ofannefnda manni til um hvört hann vilji eða geti ennþá ekkert látið til húsbónda míns í haust eð kemur í téða barns meðgjafarskyni. Því verði það sem fyrri ekki nema tóm og útlátalaus loforð, sem frá honum koma, hefi ég ei önnur ráð en reiða barnið til föðursins, því ekki skyldi ég tregðast að gefa með því að mínum þriðjungi, hvar upp á ég óska alúðlegast að fá skýrt um frá yður hvört mér mundi ei vera það óhætt, ef ei betur úr þessu greiðist, þar líklegt mun finnast  að honum ungum og allvel vinnandi gangi ekki miður að koma sér fyrir í vist með barni en mér heilsutæpri.

    Forlátið hast og ofdirfsku yðar veleðlaheita undirgefinni,

Rósidu Jónsdóttir
Vatnsenda þ. 16. ágúst 1833

Þegar litið er á ritunarstað bréfsins, Vatnsenda í Vesturhópi, hvarflar hugurinn að húsmóðurinni þar, Rósu Guðmundsdóttur, Skáld-Rósu. Það var  kjörkuð kona sem reis yfir meðalmennskuna, er að vísu skilin við mann sinn en dvelur samt veturinn 1833-1834  á Vatnsenda í húsmennsku, þar sem Rósída er vinnukona hjá fyrrverandi eiginmanni Rósu, Ólafi Ásmundssyni.

Það er nokkuð vandasamt að meta rithöndina á bréfinu. Við fyrstu sýn virðist að Rósída skrifi það sjálf en e.t.v. hefur hún aðeins krotað nafnið sitt undir. Höndin ber mikinn svip af rithönd Ólafs og má mikið vera ef þau þrjú hafa ekki í sameiningu vélað um þessa bréfagerð. Það er þó að minnsta kosti víst að ekki hefur Skáld-Rósa dregið úr þessari hálfnöfnu sinni að leita réttar síns.

Hugsanlega hefur tekist að reita eitthvað af Birni upp í meðlagið[5] en í framtíðinni hafði Ásta litla lítið að segja af föður sínum. Hún fylgdi móður sinni sem flutti sig upp í Bólstaðarhlíðarhrepp í vinnumennsku og þar ólst hún upp. Ásta varð síðar húsfreyja í Strjúgsseli og tók móður sína til sín á hennar efri árum og hjá henni dó Rósída Jónsdóttir frá Húnsstöðum 12. desember 1872.

Ekki er vitað hvar Finnur (f. 11. mars 1797) Jónsson Finnssonar ólst upp. Hann var ekki nema að hluta á vegum föður síns því hann er fermdur í Auðkúlukirkju vorið 1811 en  virðist koma að Húnsstöðum fljótlega eftir fermingu. Hans ævi varð ekki löng því hann drukknaði í Fremri-Laxá í vatnavöxtum 16. mars 1814. Ekki er vitað um atvik en hann hefur líklega borist undir ísa því hann var ekki jarðaður fyrr en 1. júní um sumarið. Er óhætt að segja að vötnin stríð hafi verið skeinuhætt þessum bræðrum.

Þá er eftir að nefna fjögur börn Steinunnar og Jóns Finnssonar sem upp komust en örlög þeirra fléttuðust saman. Það þarf svo sem ekki að koma á óvart að kynni þeirra hafi orðið náin þar sem þau ólust upp í sömu baðstofunni.

Guðrún Jónsdóttir Gíslasonar  (12. nóvember 1794-17. júní 1851) dvelur á Húnsstöðum til 1811 en fer þá í vinnumennsku. Hún kemur aftur 1824 sem vinnukona heima hjá sér og giftist Nikulási uppeldisbróður sínum 22. september 1826 í Hjaltabakkakirkju. Svaramaður Nikulásar var Ólafur Ingimundarson á Torfalæk en svaramaður Guðrúnar var Helgi Þórðarson gullsmiður á Brandsstöðum, móðurbróðir hennar. Með þeim var helmingafélag en Guðrún fékk í morgungjöf 20 spesíur, sem var upp frá því séreign hennar.

Nikulás Jónsson (1801-27. júní 1833) Finnssonar var alla ævi sína á Húnsstöðum eftir að þeir feðgar komu þangað og þar lauk hann ævi sinni 27. júní 1833 af „kvef- og landfarsótt, chólera.“ Dánarorsökin er því kólera, sem var fátíð sem betur fer. Reyndar dó eitt barn í hreppnum úr sömu sótt þetta ár en ekki fleiri.  Kólera lýsir sé m.a. í miklum niðurgangi og virðist skv. heilbrigðisskýrslum hafa verið að skjóta sér niður um þessar mundir, bæði fyrir austan og á Vesturlandi en ekki hafa orðið að faraldri.[6]

Þau Nikulás og Guðrún eignuðust einn son sem lifði, Helga (8. ágúst 1831-13. janúar 1895), og dótturina Margréti 30. september 1832, deyr 28. júlí 1834.

Eftir lát Jóns Finnssonar haustið 1821 virðist hafa verið eitthvað óljóst hver ætti að taka við búinu á Húnsstöðum. Jörðin var í eigu Þingeyraklausturs umboðs en það virðist hafa verið samkomulag um að hún yrði áfram í ábúð fjölskyldu Steinunnar Þórðardóttur. Hún er skrifuð fyrir búinu næstu tvö árin og Nikulás ráðsmaður, síðan kemur Jón Jónsson sonur Steinunnar og Margrét Jónsdóttir í tvö ár, eftir það er Steinunn skrifuð fyrir búinu eitt ár og loks taka Nikulás og Guðrún við búsforráðum 1825 og búa hér þar til Nikulás lést.

Eftir lát Nikulásar byrjar aftur svipað hringl og áður, Guðrún ekkja hans, býr áfram með Pétur bróður sinn sem ráðsmann en jafnframt eru Jón, elsti bróðirinn, og Margrét kona hans komin aftur og eru eitt ár 1834-1835. Það getur verið að þessar tilfæringar með ábúðina hafi stafað af misklíð milli systkina og tengdafólks en líka getur verið þetta hafi allt verið í góðu samkomulagi. En haustið 1835 giftist Guðrún ekkja Nikulásar bóndanum í Meðalheimi, Þorláki Auðunssyni bróður Björns Blöndal sýslumanns, og eftir það eru ekki aðrir ábúendur en þau á Húnsstöðum fram yfir miðja öldina. Guðrún dó 17. júní 1851 og Þorlákur hálfum mánuði síðar, 4. júlí 1851, og voru þá bæði á Húnsstöðum.[7]

Það er svolítið snúið að henda reiður á þessu fólki því þetta eru meira og minna Jóns „börn“ en þó harla lítið skyld. Einkum er torvelt að eiga við Guðrúnar Jónsdætur, og ekki síst þegar konurnar eru á líkum aldri. En það eru enn tvö Jónsbörn eftir. Fyrst skal telja Pétur Jónsson  (11. nóvember 1795-5. október 1854) sem er framan af ævi heima á Húnsstöðum og talinn vinnumaður þar fram um 1845 að hann fór í vinnumennsku að Stóru-Giljá og síðar í Steinnesi þar sem hann lést 5. október 1854.

Guðrún Jónsdóttir Finnssonar (f. 2. ágúst 1799) var um árabil á Húnsstöðum en fór síðan í vinnumennsku. Hún kom aftur 1826 og svo fór að hún og Pétur uppeldisbróðir hennar eignuðust dóttur saman, sem var skírð Guðrún. Guðrún eldri fór hins vegar árið eftir fram í Vatnsdal og var  í vinnumennsku á ýmsum bæjum til dauðadags, mun látin á Snæringsstöðum í Svínadal og er dánardagur máður en jarðarförin fór fram 26. júlí 1843.[8]

Guðrún Péturs- og Guðrúnardóttir (14. september 1829-25. febrúar 1884) ólst hins vegar upp á Húnsstöðum, fyrst í skjóli föður síns en síðar Guðrúnar föðursystur sinnar. Hún varð amma Antoníusar Péturssonar í Skrapatungu.[9]


[1] ÞÍ. Kirknasafn. Blöndudalshólar BA/4. Prestsþjónustubók Holtastaða 1816-1876.
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/17, örk 9.
[3] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/22, örk 4.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/11, örk 9.
[5] Bréfabók sýslumanns í Húnavatnssýslu frá 1831-1833 (merkt C/4) var flett yfir seinni hluta ársins1833 en ekkert svarbréf til Rósídu fannst þar.
[6] Tölvupóstur frá Erlu Dóris Halldórsdóttur 5. og 6. apríl 2023.
[7] Sbr. Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 343 og víðar.
[8] Svava Sigurðardóttir hjá islendingabok.is.
[9] Ættir Austur-Húnvetniga, bls. 620-622.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið