Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 9. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:01 0 0°C
Laxárdalsh. 01:01 0 0°C
Vatnsskarð 01:01 0 0°C
Þverárfjall 01:01 0 0°C
Kjalarnes 01:01 0 0°C
Hafnarfjall 01:01 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Bréf Magnúsar til vinstri og bréf Sæmundar til hægri.
Bréf Magnúsar til vinstri og bréf Sæmundar til hægri.
Pistlar | 16. júlí 2023 - kl. 11:15
Þættir úr sögu sveitar: Liggur við sólu, í góðri rækt
53. þáttur. Eftir Jón Torfason

Holt mun með elstu býlum í Torfalækjarhreppi,  er t.d. nefnt í Vatnsdæla sögu og eldfornar sagnir eru um Mánafoss og Mánagerði, kennt við helgan mann sem var á dögum fyrir kristnitökuna árið 1000. Jörðin er víðlend og taldist með betri beitarjörðum. Bæjarhús og tún lágu vestan í Holtsbungunni. Landkostum er lýst í jarðamati sem var gert 1849 og mun sú lýsing hafa átt við jörðina um aldabil:

         Túnið þýft og allt í brekku, liggur við sólu, er í góðri rækt, þó óhægra sé vegna brattans, grasgefið, fremur töðulétt og mýrkennt, fóðrar 5 kýr. Slægjur fremur reytingslegar, sumar nærtækar, sumar ekki og þá líka erfiðar til heimflutnings, sumar líka votar og fremur heyslæmar en sumar aftur heybetri. Eru þær undir skemmdum af Laxá og hafa því gengið af sér á seinni tíð, eru þó töluverðar að kalla. Votaband er hér fjarska erfitt vegna vantandi sléttubletts á túninu til að þurrka á, en ei langsótt. Sumarhagar uppblásnir á parti en notagóðir að öðru leyti, nærtækir fyrir allan búsmala og nógir að vöxtum. Ófrelsi er hér fyrir búsmalann af skaðlegu mýbiti á sumrin. Vetrarbeit góð og nóg en fremur erfið. Mótak óþekkt. Skógarhrís fæst hér til dengslikola á sumrin.

Þótt jörðin sé góð virðist sem mönnum hafi búnast heldur illa hér á árunum eftir móðuharðindin. Fyrr hefur verið rakið hvernig Hannes Jónsson, sem hér bjó 1774-1794, fór í rauninni á hausinn (sjá þátt nr. 6. Af harðabónda ættinni) og sumir sambýlismenn hans voru líka hart leiknir. Sigurður Jónsson (1742-1799) bróðir Hannesar var hér eitt ár og annar sambýlismaður, Jón nokkur Jónsson, hefur að líkindum dáið í móðuharðindunum. Loks skal nefna Gunnar Gunnarsson (1756-7. júní 1839) og Ragnheiði Kristjánsdóttur (1758-11. september 1819) sem komu að Holti 1784 en hrökkluðust þaðan 1787  út í Vindhælishrepp þar sem þau bjuggu um árabil á kotbýlum við þröngan kost en sigu síðan niður í vinnufólksstöðu. Ragnheiður var dóttir Kristjáns Björnssonar (f. 1725) Þorlákssonar prests á Hjaltabakka. Gunnar og Ragnheiður höfðu ekki megnað að borga eftirstöðvar af landskuldinni til umboðsmanna Þingeyraklaustursjarða þegar þau fóru frá Holti og sumarið 1790 voru sendir innheimtumenn til að kanna fjárhag þeirra. Skýrsla þeirra var svona:

         Hér[1] með gefst háttvirðandi viðkomendum þénustuskyldugast til vitundar, að vér undirskrifaðir höfum gjört oss hlýðuga okkur af héraðsins yfirvaldi tillagaðri skikkun, að exeqvera [þ.e. innheimta] Þingeyraklausturs skulda restans [eftirstöðvar] hjá Gunnari Gunnarssyni fyrrum búandi nefndum á Njálsstöðum. En áunnum þó ekkert þar með, þar eftir nákvæma rannsókn á heimili Gunnars gátum ekki hið minnsta fémætt fundið, honum til heyrandi, nema þau bæði lítt klædd, nefnilega Gunnar og konu hans, hvörugt vinnufært sökum klæðleysis og 2 ung börn þeirra, allt eins fáklædd.  Lifa svo þessi fjögur mest af annarra miskunn alls örsnauð og ótölulegum skuldum hlaðin, sem glögglega sýnist að aldrei verði luktar, þar erfiði og atburður þeirra hjóna nær skammt til þeirra eigin og barnanna forsörgunar, því síður til minnstu skuldar afbetalings, hvörsu góðan vilja sem annars hafa kynnu. En þær lifandi skepnur sem þau á lifðu á Njálsstöðum voru húsbónda þeirra eigið fé.

         Ofanskrifað sannferðugt að vera vitna vor undirskrifuð nöfn, að Hafstöðum, d. 17. júlí 1790.

         Guðmundur Jónsson, Árni Pétursson

Skv. búnaðarskýrslum er Holt hálfpartinn í eyði 1785 þótt þar séu taldar fram 2 kýr, 4 kindur og 1 hestur og tveimur árum síðar eru kýrnar raunar 4 (tvö heimili) en kindurnar áfram 4 og árið eftir kýrnar aftur orðnar 2 en kindurnar 8.

Upp úr þessu fer þó búfénu að fjölga og nú kom að Holti í tvíbýli við Hannes áður nefndan nýtt par, Egill Einarsson (1750-27. febrúar 1790)  og Gróa Jónsdóttir (1758-14. febrúar 1837). Gróa var frá Köldukinn dóttir Jóns Þorvarðarsonar (1703-6. desember 1799) og Guðrúnar Jannesdóttur[2] (1715-7. nóvember 1785) sem þar bjuggu þá en áður á Vatnsenda í Vesturhópi. Egill varð ekki langær, lést veturinn 1790. Gróa heyjaði sumarið eftir handa skepnum sínum með tveimur vinnumönnum, öðrum 19 ára, ófermdum og lítt lesandi en hinum rúmlega fimmtugum, að vísu lesandi en lítt kunnandi, en einnig voru á heimilinu tvær dætur hennar, önnur fjögurra ára en hin, Þórunn, fæddist 7. apríl þetta sama vor og faðir hennar lést. Bústofninn var raunar ekki stór, 2 kýr og 30-35 sauðkindur og fjögur hross, en samt full mikið verkefni fyrir eina konu. Svo fór að náfrændi hennar, Magnús Hálfdánarson (1760-8. september 1832) Grímssonar, uppalinn í Brekkukoti, kom henni til aðstoðar.[3] Það hefur líklega verið vorið eða sumarið 1791, en hitt er víst að þau voru gefin saman 24. janúar 1792 og er bætt við í prestsþjónustubókinni: „Systrabörn og gift með biskupsleyfi.“ Hann giftur í fyrsta sinn en hún öðru sinni. Þau eignuðust svo saman sitt fyrsta barn, 4. maí sama ár, dreng sem hlaut í skírninni nafnið Egill (1792-18. nóvember 1816). Gróa og Magnús bjuggu hér til 1795 að þau fóru að Hurðarbaki og verður ferill þeirra rakinn síðar.

Umsókn Magnúsar um giftingarleyfið hefur varðveist í gögnum Hólabiskups í öskju sem inniheldur hjónabandsleyfi. Með umsókninni fylgja meðmæli séra Sæmundar Oddssonar í Steinnesi. Þegar bréfin eru borin saman er augljóst að séra Sæmundur hefur skrifað bréf Magnúsar fyrir hann, jafnvel nafnið hans líka.

         Brekkukoti d. 3. janúar 1791[4]

         Háeðla háæruverðugi og hálærði herra!

         Herra Sigurður Stefánsson, háttbjóðandi yfirvald!

         Orsökin hvar fyrir ég mæði yðar herradóm með línu þessari er sú, að á Holti í Hjaltabakkasókn býr ein fátæk ekkja, að nafni Gróa Jónsdóttir, með tveimur börnum, mér náskyld því mæður okkar beggja (hvor Guðrún nefnd) voru systur og báðar sama Jannes dætur. Þessari minni ættsystur vilda ég feginn aðstoð veita en get þó ei því foreldrar mínir vilja ei sleppa mér í burtu frá sér, þetta í hönd farandi fardagaár. Hér að auk er hugur minn fallinn til þessarar ekkju, hvað ég heyri konungleg hátign hafi eftir látið biskupunum að eftir gefa og tilláta þeim er í egtaskap svo náskyldir innganga vilja. Þess vegna innflý ég nú til yðar háæruverðugheita með þá mína innilega og auðmjúka bæn, að þér vilduð í herrans nafni gefa mér leyfi til að taka til egta áminnsta mína ættsystur, svo að mitt áform og vilji staðfestast og framkvæmast mætti. Í sama máta bið ég yðar háeðlaheitum þóknanlegt væri, að gefa mér til vitundar hvað soddan leyfi kostar fyrir hina fátækustu, hvar eftir svo sem ég get ei í þetta sinn tilsent mínum herra neitt til þóknunar í því tilliti, þá vildi yðar háæruverðugheit tilláta mér að afhenda það af yður ákvarðaða bróður yðar, herra Oddi Stefánssyni,[5] er verða skyldi hið snarasta mér er mögulegt.

         Ég í auðmjúkri eftirbið náðugrar bænheyrslu og andsvars með bréfberaranum, fel mitt anfærða áform guði og yðar herradóm til vorkunnarfullra aðgjöra, forblífandi í skyldugri elsku og undirgefni háeðla hr. biskupsins auðmjúkur þénari, Magnús Hálfdanarson

Séra Sæmundur í Steinnesi tekur vel undir með umsókn Magnúsar og segir að eini hængurinn sé að Magnús hafi lofað að styrkja eða framfæra aldraða foreldra sína:

         Æruprýddur ráðvandur yngismaður, Magnús Hálfdanarson á Brekkukoti í Þingeyrasókn, hefur þjónað í foreldrahúsum af allri trú og dyggð síðan til verka kom, inn til síns nú yfirstandandi 29. aldursárs. En nú vill hann frá þeim fara og ganga til að eiga ekkju Egils heitins Einarssonar er bjó á Holti í Hjaltabakkasókn og sálaðist í fyrravetur á Suðurlandi. Ekkjan heitir Gróa, dóttir Jóns gamla í Köldukinn. Hún býr þar með tveimur sínum börnum við lítil efni. Hennar móðir hét Guðrún, systir Guðrúnar móður þessa Magnúsar, hvers vegna hann anflýr nú til hans háæruverðuheita herra Sigurðar Stefánssonar með sína auðmjúka begjæring, útbiðjandi sér leyfis að mega til egta taka hér að ofan nefnda ekkju, hvað ekki er þvert á móti hans foreldra ráði, jafnvel þó þau, bæði komin á fallandi fót og nær því karlæg, aldurdóms og veikleika vegna, sýnist varla geta misst þjónustu hans næstkomandi ár, hverri faðir hans segir hann sér lofað hafa, og þar fyrir biður að gifting sonar síns mætti árlangt undan dragast til þess hann gæti á annan veg ráðstafað sér ef lífi heldur (eður og að Magnús útvegaði mann í sinn stað til föður síns).

         Þessi Magnús er vel uppfræddur í sínum kristindómi, lesandi, skrifandi, dagfarsgóður og fínn vinnumaður, líklegur til að geta veitt sínu húsi góða forstöðu á sínum tíma.

         Hann og hans áformaða fyrirtekt fel ég þeim allt veitandi guði til nákvæmustu aðhjúkrunar í lífi og dauða, samt mínum elskulega og háttbjóðandi herra biskupinum, til vorkunnarfullrar bænheyrslu og bestu aðgjörða við þenna örfátæka mann, sem lítið mun eiga afgangs fatnaði sínum.

         Þessu til staðfestu er mitt undirskrifað nafn, að Steinnesi d. 4. janúar 1791,

         Sæmundur Oddsson

Leyfið var sum sé gefið og er hægt að ímynda sér að bræðurnir, Sigurður biskup og Oddur klausturhaldari á Þingeyrum, hafi haft hönd í bagga, því eftir að Magnús fór að Holti til Gróu fluttu Hálfdán faðir hans og Guðrún að Hnausum í eins konar ráðsmennsku en Hnausabúið var á þeim árum rekið sem eins konar útibú frá Þingeyrum.

En nú skal vikið að afdrifum Egils og jarðneskum eignum hans. Egill lést á leið suður í verið veturinn 1790 og var grafinn í Garðakirkjugarði á Akranesi 3. mars, titlaður „sjómaður úr Húnavatnssýslu“ en dánarmein er ekki nefnt. Ætli verði ekki bara reikna með að hann hafi uppfyllt þann tíma hér á jörð sem honum var ætlaður. Fréttin um andlát hans hefur sennilega ekki borist norður fyrr en um vorið og einhverjar tafir líka orðið við að fá vitneskju um þá muni sem hann hafði haft með sér í ferðina. Hvað um það þá var dánarbú hans ekki skrifað upp fyrr en í janúar 1791 og endanlega gengið frá skiptunum 28. júlí sama ár.

Sem fyrr er forvitnilegt að skoða ýmislegt í dánarbúinu, sem fylgir hér með í viðhengi. Verðmæti búsins var í kringum 100 rd. sem manni sýnist að sé hvorki mikið eða lítið miðað við fólk sem hafi nýbyrjað búskap. Hafa má til viðmiðunar að kýr var metin á tæpa 5 rd. en ær í fullu gildi á 70-75 skildinga. Í þessu þessari uppskrift er frekar sjaldan tekið fram að hlutir séu lélegir eða slitnir, þannig að ætla verður að búhagur þeirra Egils og Gróu hafi verið í þokkalegu lagi.

Fyrst er talið gott eintak af Vídalínspostillu sem er „dopperuð og spennluð“ og virt á 1 rd., 24 sk. sem þýðir að bókin hefur verið góður gripur. Þarna eru fleiri hugvekjur og sálmabækur, m.a. Hallgríms sálmar (þ.e. passíusálmarnir) og Krossskólasálmar rotnir, einnig grallari rotinn. Það að bækur „rotni“ er væntanlega merki um raka í húsum sem ekki kemur á óvart þegar engin tök voru á að hita hýbýli fyrir utan eldhúsið. Einnig er nefnt spurningakverið og af veraldlegum verkum Jóns lögbók og Valdimars rímur sem hefur sennilega verið handrit en ekki prentuð bók. Samanlagt verðmæti bókanna er rúmir 3 ríkisdalir sem hefur samsvarað verðgildi fjögurra kinda.

Þegar komið er í búrið finnst manni eiginlega björgulegt um að litast, þar eru þrír sáir (sem geymdu skyr og súrmat), nokkrar kollur og fötur, fjögur trog og fimm askar, strokkur með stöng og loki og loks talin skyrgrind og sílgrind sem var notað við skyrgerð. Þá er talið verðmætt tinfat, sem kostaði 1 rd., 24 skildinga, og pottkanna, par borðhnífa og nokkrir spænir. Einnig eru nefnd reiðtygi og amboð, ýmis smíðaverkfæri og í baðstofu rúm eða rúmstæði, borð, tvær hurðir á járnum og eitthvað af lausum viði, loks tilheyrir dánarbúinu fjárhús sem mælist níu álnir á garða, hefur líklega hýst 20 kindur. Margt fleira er nefnt, rúmföt, rokkur, lampi og panna og nokkrar kistur.

Verðmætastur er samt bústofninn sem samanstóð af tveimur kúm, 12 ám, sex gemlingum veturgömlum og 12 lömbum, fimm sauðum og hrút. Hestar eru tveir og meri með folaldi. Það vekur athygli við lestur á þessum eignum, og vakti líka athygli við skipti síðar, að enginn eða nær enginn karlmannsfatnaður var tíundaður. Hins vegar virðist Gróa hafa átt föt til skiptanna og vel það. Hún á tvær hempur, önnur af vaðmáli en hin með flossaum, tvö blá pils sem hljóta að hafa verið mjög fín, því annað var metið á 2 rd., 24 sk. en hitt á 3 rd. 36 sk. sem samanlagt samsvarar kýrverði. Fleira á Gróa af góðum fatnaði og líka hálssilki, og nokkra klúta, þrjá bláa, tvo rauða og einn rauðan og svartan. Miðað við dánarbús uppskriftir í sveitinni á þessum árum hefur Gróa getað gert sig virkilega fína þegar hún fór til messu á Hjaltabakka.

Gróa hafði fengið morgungjöf, þ.e. séreign, þegar þau Egill giftust og nú bað hún um „sína morgungjöf í skiptunum, sem eru þessir fjármunir: Jónsbók, tinfatið og kapallinn með folaldinu“ því þannig hafði morgungjöfin verið tilgreind.

Alltaf er forvitnilegt að sjá hvað fólk skuldar og kemur í ljós að skuldirnar á búinu nema 5 rd., 60 skildingum. Þær eru taldar upp svona:

                                                                                                   Rd.     Sk.

Landskuld að Þingeyrum                                                                 3       36
Til prestsins sr. Rafns Jónssonar                                                               35
Ditto síðan 1788, eitt resterandi af skuldum sem
meðfylgjandi listi sýnir [listann vantar]                                                     56
Til hr. sýslumannsins þinggjald í vor                                                         90
Til Hannesar [Jónssonar í Holti] fyrir mjólk sem reiknast                            36

         Summa                                                                                5      60

Sérkennilegur er síðast liðurinn, mjólk frá Hannes, sambýlismanni þeirra Gróu og Egils. Þórunn Egilsdóttir fæddist 7. apríl og þá hefur kannski verið orðið lítið í kúnni hennar Gróu, sem var sögð jólbær, og ærnar ekki bornar þannig að vantað hafi mjólk handa ungbarninu. Hvort sem er þá féll Hannes frá því að innheimta þessa skuld svo hún var felld niður. Skuldirnar eru að öðru leyti mest til yfirvaldanna, landeigandans (Þingeyraklausturs umboðs), sýslumanns og prests.

Gengið var frá skiptunum 22. júlí um sumarið. Gert hafði verið ráð fyrir að Bjarni Einarsson á Strjúgsstöðum, bróðir Egils heitins, yrði svaramaður dætranna, Sólveigar og Þórunnar, en Blanda var í vexti þannig að hann komst ekki. Ekki virðist hafa verið mörgum öðrum til að dreifa svo séra Rafn Jónsson á Hjaltabakka var skipaður svaramaður litlu systranna í hans stað við skiptin. Hreppstjórinn, Erlendur Guðmundsson á Torfalæk, og Hannes Jónsson voru einnig viðstaddir. Ég veit mjög lítið um séra Rafn, hvort hann var ágjarn eða örlátur, hef þó heldur tilfinningu fyrir því fyrrtalda. A.m.k. er kostulegt að sjá hér hvað hann er eftirgangssamur við ekkjuna um að telja fram muni sem ekki höfðu verið tíundaðir við uppskrift búsins um veturinn.

         Fyrst var ekkjan, Gróa Jónsdóttir, sjálf nálæg aðspurð hvort ei hefðu úti gleymst engvir fémunir sem sterbúinu tilheyri og hér eigi til skipta að koma, hvörju hún neitar og segir allt hafi við uppskriftina tiltínt verið, sem hún hafi til munað og framar geti hún ei til sagt. Presturinn, sr. Rafn, uppástendur að í uppskriftinni finnist ekkert af fatnaði mannsins, einnin vanti þar nokkuð af hennar (ekkjunnar) eigin fatnaði, til dæmis hött, rautt klæðispils og pilsklæði, svintu af kersu og nokkra klúta með víðara, einnin 1 stj[ö]rnuskjóttan fola.

         Hér til svarar ekkjan að það mesta af fatnaði mannsins hafi farið suður með honum og gengið til hans útfarar kostnaðar, en hitt það eftir hafi verið heima hafi hún sumpart fengið vinnupilti sínum, sumpart selt upp í landskuldina og fyrir matbjörg handa heimilinu, eins hafi hattverðið gengið til skuldanna og svuntan, en með pilsið og pilsefnið kannast hún ei að fargað hafi, ei heldur klútunum. Skjótti folinn sé ánafnaður Bjarna Einarssyni á Strjúgsstöðum fyrir 6 rd. skuld hann eigi hjá sér og því hafi hann ei verið uppskrifaður.

Athyglisgáfa prestsins er með eindæmum. Varla hefur hann farið að skoða í fatakistu Gróu í húsvitjunarferðum þannig að hann hefur séð hana koma til kirkjunnar í rauðu pilsi og með hatt á höfði og silkiklút um hálsinn. Þessi fíni hattur virðist þó hafa gengið til skulda, eins og Gróa sagði, því ekki er minnst meira á hann.

Síðan er í uppskriftinni gerð grein fyrir því að frá því um veturinn hafi fargast 8 ær, 2 sauðir og 1 gemlingur sem eru nú nokkuð mikil afföll af ekki fleiri kindum. Tíðin var raunar hörð eins og lýst er í Djáknaannálum: „Gjörði strax jarðbönn í flestum sveitum af áfreðum, gengu þá og ákaflegir útsynningar um veturinn með norðanhríðum á milli og skörpum frostum.“[6] Og áfram er löng lýsing á harðærinu svo líklega hafa kindurnar drepist úr hor þrátt fyrir góða vetrarbeit.

Búféð er þarna skráð á nýjan leik, hálfu ári síðar, og nú er matið umtalsvert hærra en um veturinn. Nú er fullgild ær metin á 1 rd. og annað eftir því, einnig bættust við „torfkrókar, 12 sk., og reisla með steinlóði, 48 sk., sem hvörtveggja hefur gleymst í uppskriftinni.“ Loks var talsvert þref út af brúnskjóttum fola sem ætlaður hafði verið Bjarna á Strúgsstöðum, bróður Egils heitins en ekki var viðurkennt.

Loks skal gefið yfirlit um hvernig skuldirnar voru greiddar. Til Odds Stefánssonar var það landskuldin, til séra Rafns væntanlega líksöngseyrir og hluti af gjaldi til kirkju og prests, til sýslumanns þinggjaldið fyrir tvö ár og greiðsla til Erlendar hreppstjóra fyrir hans fyrirhöfn við skiptin. Loks þurfti að borga skiptaráðandanum sem hefur verið Ísleifur Einarsson sýslumaður:

            Til hr. notarius Odds Stephanssonar:

                                                                                                     Rd.      Sk.

Kvenhempa af vaðmáli borin                                                            1          16
Þriggja tunnu sár gamall og gjarðfár                                                 1
Valdimarsrímur                                                                                           10
Klára og broddstafur                                                                                   10
1 sauður tvævetur                                                                           1         ____

            Til samans:                                                                         3          36

            Til prestsins, sr. Rafns:

12 marka pottur                                                                                          48
2 nautshyrningsspænir                                                                                12
Þversög og hefill lítt brúkanlegt                                                                     3__

            Til samans                                                                                     63

            Til sýslumanns Ísleifs [Einarssonar]:

Fimm pör bandreipa í sæmilegu standi                                                        90

 

            Til mr. Erlends Guðmundssonar fyrir hans ómak við skiptin:

Ein spíra dönsk heldur en jufferta                                                                20

1 par öskjur                                                                                                4

            Til samans                                                                                     24

            Til prestsins sr. Rafns fyrir hans ómak við sama:

1 brekán gamalt og lélegt                                                                           32

            Til sýslumanns Björns [Jónssonar] fyrir skatt 1790:

1 fjögra fjórðunga pottur bættur og brunninn                                               72

Tveir lásar gamlir og lélegir                                                                         18

            Til samans                                                                                    90

Heildarupphæð skuldanna var 14 rd., 47 sk. og þegar sú upphæð ásamt skiptalaunum, sem voru 3 rd., 48 sk., hafði verið dregin frá voru eftir 104 ríkisdalur og 34 skildingar. Í skiptalaunin til sýslumannsins var þetta látið af hendi úr búinu:

Ein vættarkista skrálæst                                                                               48
Einn skápur skrálæstur                                                                                 68
2 orf og 2 hrífur                                                                                           24
2 rekur með vari lélegar                                                                               20
1 sauður tvævetur                                                                             1
1 dito veturgamall                                                                                        80

            Til samans                                                                            3         48

Eftirlátnar eigur búsins skiptust svo milli Gróu annars vegar og tveggja dætra hennar hins vegar og var mest í fatnaði, búsgögnum og búfénaði. Þannig fékk Gróa aðra kúna en systurnar hálfa kú hvor.

Eldri dóttirin, Sólveig Egilsdóttir, varð ekki langlíf, lést 23. júní 1795, en sú yngri, Þórunn (7. apríl 1790-29. október 1850), var alin upp hjá Bjarna Einarssyni, föðurbróður sínum. Hún var á Torfustöðum hjá Bjarna árið 1801 og orðin vinnukona á Skeggsstöðum 1816, varð síðar húsfreyja á Seltjarnarnesi syðra.

Dánarbú Egils Einarssonar í Holti 1791


[1] ÞÍ. Rentukammer B27/21, örk 3 (3.21). Vottorð um efnahag Gunnars Gunnarssonar á Njálsstöðum, fátækt hans og klæðleysi, 17. júlí 1790.
[2] Gróa er ekki nefnd við dánarbússkipti eftir Guðrúnu Jannesdóttur (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/2) en sumt er óljóst við þá uppskrift. Í bréfi Magnúsar Hálfdanarsonar hér fyrir neðan kemur fram að Guðrún Jannesdóttir var móðir Gróu.
[3] Foreldrar Magnúsar voru Hálfdán Grímsson (1728-1805) og Guðrún „yngir“ Jannesdóttir (1730-1800).
[4] Bps. B V, nr. 33. Hjónabandsleyfi úr Hólabiskupsdæmi 1769-1799.
[5] Oddur Stefánsson umboðsmaður Þingeyraklausturjarða og Sigurður Stefánsson biskup á Hólum voru bræður.
[6] Djáknaannálar. Annálar 1400-1800, sjötta bindi, bls. 315.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið