Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Miðvikudagur, 8. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 08:13 0 0°C
Laxárdalsh. 08:13 0 0°C
Vatnsskarð 08:13 0 0°C
Þverárfjall 08:13 0 0°C
Kjalarnes 08:13 0 0°C
Hafnarfjall 08:13 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Holt á Ásum um 1970. Mynd: HAH/Guðmundur Arason
Holt á Ásum um 1970. Mynd: HAH/Guðmundur Arason
Pistlar | 30. júlí 2023 - kl. 11:27
Þættir úr sögu sveitar: Enn ábúendaskipti í Holti
54. þáttur. Eftir Jón Torfason

Árið 1795 fluttu Magnús Hálfdanarson og Gróa Jónsdóttir, sem sagt var nokkuð frá í síðasta þætti, frá Holti að Hurðarbaki. Flutningarnir hafa ekki tekið langan tíma því jarðirnar liggja saman en bæjarleiðin er að vísu nokkuð löng. Næstu ábúendur í Holti voru Ketill Rögnvaldsson (f. 1753) og Þrúður Illugadóttir (1762-31. desember 1860) sem voru hér 2 ár en færðu sig þá að Hjaltabakka þar sem þau bjuggu önnur tvö ár við nokkuð góðan efnahag en færðu sig þá yfir Blöndu að Björnólfsstöðum þar sem Ketill lést 26. apríl 1811. Þrúður var systir Arnljóts Illugasonar hreppstjóra á Guðlaugsstöðum. Hún hélt áfram búskap með börnum sínum nokkur ár. Bjarni Jónasson gerir grein fyrir börnum Þuríðar og Ketils og afkomendum í Húnavöku 1976.[1]

Næstu ábúendur í Holti voru Jóhannes Guðmundsson (1756-20. desember 1808) og Jarþrúður (eða Jarðþrúður) Eiríksdóttir (1761-1. maí 1818) og Kristínar dóttur séra Björns Þorlákssonar prests á Hjaltabakka. Þau höfðu árið áður búið á Hurðarbaki en bjuggu hér átta ár (1795-1803).

Miðað við tíundarframtalið hefur búhagur þeirra verið nálægt meðallagi framan af, þau tíunda um 10 hundruð aldamótaárið en tíundin lækkar talsvert í harðindunum í upphafi 19. aldarinnar. Oftast virðast þau vera ein í Holti en stundum eru líka aðrir ábúendur sem verður getið hér á eftir.  Árið 1803 fluttu þau búferlum að Stóra-Búrfelli og síðar austur yfir Blöndu, bjuggu síðast á Blöndubakka. Eftir lát Jóhannesar í árslok 1808 varð Jarþrúður fyrst vinnukona á Torfalæk 1809, síðan á Húnsstöðum 1810, Hæli 1811 og í Holti 1812 og raunar fleiri bæjum. Hún dó 1. maí 1818, þá sögð húskona á Skinnastöðum en stödd á Stóru-Giljá, 52 ára. „Dó af taki og landfarsótt, var ekkja, átti á lífi 3 börn.“

Börn Jarþrúðar og Jóhannesar voru  Eiríkur Jóhannesson (1789-1843) sem barst vestur í Dalasýslu og dó þar. Guðmundur (f. 1794) mun hafa dáið ungur. Sigurlaug (f. 1790) er barnfóstra á Tittlingastöðum og Gröf í Víðidal (hjá Helga Vigfússyni og Ósk Sigmundsdóttur) og deyr sveitarómagi 14. nóvember 1838 á Eiðsstöðum 49 ára að aldri.

Yngstur barna þeirra var Kristján (22. október 1799-13. ágúst 1826). Fyrst eftir að heimilið á Blöndubakka leystist upp var hann sennilega í fóstri hjá Birni Magnússyni frænda sínum, síðast í Styttudal, en árið 1811 er hann skráður á Torfalæk og er þar næstu árin, en móðir hans er á næstu bæjum í vinnumennsku eins og fyrr sagði. Kristján mun framan af hafa verið á snærum Þórdísar Illugadóttur og Jóns Einarssonar á Torfalæk en síðar Guðrúnar Skúladóttur og Ólafs Ingimundarsonar og er skráður svona í húsvitjunarbókina:

Árið 1811 er hann nefndur  „sveitarbarn“ og bætt við „Læs. Lærir bænir.“
Árið 1812 „meðgjafarbarn.“
Árið 1813 „niðurseta“  og bætt við: „Ekki illa kunnandi.“
Árið 1814 „niðurseta“ og bætt við: „Ekki illa læs.“
Árið 1815 „niðurseta“ og síðan segir: „Nokkurn veginn [læs], ei óþægur, sæmilega [vel að sér í kristindómi].“

Árið 1816 er hann á Hjaltabakka, sagður „tökudrengur“  og er þá orðinn 17 ára að aldri.

Hann var fermdur 1814, var þá 14 ára, og fær þessa umsögn: „Kann og les í bók sæmilega vel. [Undirbúinn] Af presti í 3 ár.“

Orðfærið um drenginn er einkennilegt. Hann er fæddur í Torfalækjarhreppi og á þar sveit en skv. hreppsbókinni er aldrei neitt greitt neitt meðlag með honum úr fátækrasjóði hreppsins.  Jarþrúður móðir hans hefur líklega framfært hann að sínum hluta [þ.e. þriðjungi] en annað verið tekið af arfi hans.

Skipti[2] eftir Jóhannes Guðmundsson fóru fram 5. apríl 1809 og komu í hlut ekkjunnar, Jarþrúðar, tæpir 50 rd., m.a. kú, nokkrar ær og gamall klár. Kristján fékk í arf eftir föður sinn andvirði 11 ríkisdala og 6 skildinga. Upp í það fékk hann 4 ær, hver metin á 2 rd., grallara og fleira smávegis og hefði það kannski dugað honum til framfæris í 2-3 ár eða fram undir fermingu. Eftir ferminguna hefði hann svo átt að geta unnið fyrir sér sjálfur. Það að hann sé skráður „niðurseta“ árið 1815 hljómar mjög einkennilega, nema átt sé við að honum hafi verið komið fyrir, „settur niður“ á Torfalæk af þess tilbærum yfirvöldum. Sama er að kalla hann „tökudreng“ 1816 en þá er hann orðinn 17 ára að aldri. En svona er þetta nú skráð. Kristján varð ekki langlífur. Hann barst vestur í Hvammssveit í Dalasýslu og lést þar 13. ágúst 1826.

Drengur hét Jens Jensson, stundum kallaður Valinnglaðsson, sem ólst upp í Klifakoti og síðar einkum á Hjaltabakka en var einnig á fleiri bæjum í sveitinni. Hann virðist hafa verið mikill fyrir sér og kom fyrir að hann læddist inn í búr á bæjum og krækti sér í matarbita. Kom svo að fyrirmenn sveitar og sýslu dæmdu hann af harðneskju nokkurri í tugthúsið í Reykjavík þar sem hann sat víst aldrei því hann leysti höfuð sitt ef svo má segja með hagmælsku sinni. Þá var ráðamaður syðra Kastenskjöld stiftamtmaður og kvaðst hann „mundu hjálpa honum ef hann kvæði vísu um sig. Jens var við og segja sumir að hann kvæði vísuna þegar:

Merkur, hraður, gefur upp gjöld,
góðsinnaður títt við öld,
sterkur, glaður, stór með völd,
stiftamtmaður Kastenskjöld.

Gaf Kastenskjöld hann þá lausan.“[3] Jens settist síðan að syðra og komst í nokkurt gengi segir Gísli Konráðsson en drukknaði í sjóróðri fáum árum síðar.

Kristján var aðeins 12 ára þegar þetta var eða á tólfta ári og flæktist í hnupplið með Jens og raunar einn maður enn. Hvorugur þeirra hlaut þó dóm og var Kristján aldrei framar átalinn fyrir óráðvendni, mátti líkast til kallast æskubrek.

En nú gerist dálítið einkennilegt. Áður nefndur frændi Kristjáns var Björn Magnússon (1767-28. maí 1812) Björnssonar Þorlákssonar prests á Hjaltabakka en Jarþrúður móðir Kristjáns var dóttir Kristínar séra Björnsdóttur, þannig að Björn Magnússon og Jarþrúður voru systkinabörn. Nú hófst deila með Ólafi Ingimundarsyni á Torfalæk og Birni Magnússyni og segir Gísli Konráðsson svo frá:[4]

Heimti Björn arf nokkurn að honum [Ólafi] fyrir hönd ungs frænda síns eins, er Kristján hét Jóhannesson, er inni stóð hjá Ólafi, en hann [Ólafur] tali fé það eytt vera. Varð þeim allmjög andurorða því báðir voru skapbráðir. Fylgdi Ólafur Birni á leið og er mælt þeir flygjust á. Var Ólafur ærið glíminn og mjúkur. Fór svo, að menn vita, að Björn komst nauðulega heim, lagðist síðan og gekk blóð upp úr honum ─ ætluðu menn hann svo kostaðan ─ lifði dægur og dó. Lýsti hann áður Ólaf banamann sinn ef hann dæi en sáramann ef hann lifði. Þó urðu hér engi eftirmál.

Nú líður og bíður. Það sést af ýmsu að „gamli“ sýslumaðurinn í Húnaþingi, Jón Jónsson á Reykjum, var ekki atkvæðamikill og þegar Björn Blöndal kemur í héraðið haustið 1820 með sýsluvöld virðist sem ýmsir hafi hugsað sér gott til glóðarinnar að rifja upp gömul ágreiningsmál og fá rétting sinna mála hjá nýja sýslumanninum, óþreytta. A.m.k. skrifar Ólafur Ingimundarson bréf strax sama haust til sýslumanns fyrir hönd Kristjáns Jóhannessonar og telur hann eiga fjárkröfu á hendur erfingjum Björns heitins.

         Undirgefnast PM[5]

         Torfalæk þann 11. nóvember 1820.

          Þar eð Kristján Jóhannesson hefur beðið mig að undir leggja við yður um skuld er inni stóð í Skiptnadals sterfbúi af þeim fémunum sem þangað fóru með honum og hann hefur ei síðan fengið. Ég hlýt því að byrja á upphafinu. Þegar faðir hans deyði var Björn sál. Magnússon náfrændi hans settur af sýslumanni, sál. Snorrasen, [Sigurði Snorrasyni sýslumanni] fyrir vergi [fjárhaldsmann] Kristjáns sem þá var níu vetra, hver eð tók við þeim fémunum sem drengnum bar í arf eftir föður sinn. Í lifandi peningi var 1 kýr snemmbær, virt á 13 rd., hestur roskinn, 6[6] ær í góðu standi; tveggja tunnu sár nýr og viður á býsna mörgum hestum er Kristján getur best fortalið yður, sem nú er myndugur að ganga eftir skuld sinni. Björn sál. lofaði að halda Kristján þar til hann væri orðinn vel myndugur, en á ellefta ári var hann fluttur hingað á Torfalækjarhrepp án sýslumanns skikkunar. Með honum komu  níu varðgu[7] ær, hvar af 4 voru lambtollandi mjög magrar, og hinar 5 því verr í standi. Kom ég Kristjáni fyrir hjá Jóni[8] á Blöndubakka, sem þá var sambýlismaður minn, í 2 ár með þessum níu ám og kú sem Björn sálugi lét í staðinn þeirrar sem hann tók við. Kýrin þessi var sótt haustið eftir til Björns sáluga. Hún átti að bera hér um 5 vikur af vetri og drapst að mánuði liðnum. Hélt ég svo Kristján í 4 ár með engri meðgjöf.

         Þegar Björn sál. sveikst um loforð sitt en setti hann hér á hreppinn, skikkaði sýslumaður sálugi, Snorrasen, mér sem þáverandi hreppstjóra, að fara með skjóru[9] til hr. Ólafs á Æsustöðum og taka út alla fémuni Kristjáns, bæði kvika og dauða. Þegar ég kom til hreppstjórans, Ólafs á Æsustöðum, sýndist okkur báðum ei fært að taka það út hjá Birni sáluga þar hann átti bágt um vorið, en uppástóð ég þó að hann skyldi svara þessum fémunum í standi nær þeirra yrði til hans vitjað. Á hverju ári hefi ég endurnýjað þessa skuld, bæði mín og Kristjáns vegna, og líka angefið hana fyrir sýslumanni Jóni, hverrar hann hefur og svo krafist en allt stendur við sama. Þó þessar níu ær væru af þeim úti látnar voru þær þó aldrei virði kýrinnar sem Björn sál. tók við. Það stendur þá inni allur viðurinn, hesturinn og tveggja tunnu sárinn óbetalaður og ágóði þessi 10 ár. Þetta sýnist mér vera pubilis sök[10] því þótt ég hefði haldið drenginn fyrir alls ekkert, sem ei gat haft stað að hann skyldi vera hér Torfalækjarhrepps limur, þó hann ætti hér að sönnu hreppinn, á meðan hann átti fé fyrir sig að leggja. Ég að sönnu hefi komið upp á við sýslumann Jón að þeir í Hlíðarhrepp tækju eins lengi ómaga af Torfalækjarhrepp, nefnilega í 3 eða 4 ár.

         En ef þér viljið styrkja drenginn til að fá sitt og hann betali mér þá eitthvað lítið, þar hann er fátækur öreigi, en ekki áttu hans fémunir  að leggjast til Hlíðarhrepps eður réttara að segja barna Björns sáluga. Þar hvorki hann á meðan hann lifði né vergi barna hans he[fðu][11] fengið neina löglega aðkomst til þeirra, hvorki af föður né móður eður neinu yfirvaldi. Ég fel yður þessa sök á hendur til réttvísinnar aðgjörða.

         Yðar veleðlaheita auðmjúkur þénari,

         Ólafur Ingimundarson

Hér er eitthvað málum blandið í bréfi Ólafs. Skv. skiptabókinni fékk Kristján aðeins 4 ær í arf eftir föður sinn. Hér hlýtur því að vera átt við kúna (og ærnar) sem komu í hlut Jarþrúðar, móður Kristjáns, sem skv. bréfinu hefðu komist í hendur Björns en þessu þá verið snúið á haus í frásögn Gísla Konráðssonar hér að ofan.

Svarbréf Blöndals sýslumanns er skráð í bréfabók hans og hann hefur ekki séð neina slíka skuldakröfu í dánarbúi Björns Magnússonar.[12] Virðist hann telja kröfu Ólafs vanreifaða eða fyrnda en vísar honum á að stefna erfingjum Björns. Þar með virðist þessu máli hafa lokið:

         Til[13] þóknanlegs ansvars upp á bréf yðar af 11. þ.m., hvar þér hafið óskað að ég vildi til sjá að drengurinn Kristján Jóhannesson geti fengið það sem yður þykir hann hafa til góða hjá erfingjum Björns sál.  Magnússonar, er var í Skytnadal, vildi ég ei undan fella að tilkynna yður fylgjandi.

         Ég hefi aðgætt skiptaprótokollinn og fundið að hvorki við skiptið eftir Björn Magnússon 1814 eður ekkju hans, Guðrúnu Kráksdóttir, 1817 hefir neitt  verið minnst á téða skuld og hefir þó skipti eftir Björn sál. ei verið slúttað fyrr en tveimur árum eftir að hann dó, svo tími hefði verið til að inngefa reikning fyrir þessa skuld til skiptaréttarins á téðu tímabili. Þar þessi skuld er nú orðin svo gömul og mér sýnist æði linlega hafi verið eftir gengið að krefja hennar ......[14] meðan tíð var til finn ég enga skyldu til að hlutast til um hennar betaling en má eftirláta yður Kristjáns vegna, að sækja erfingja ekkju Björns sál. eður þeirra formyndara fyrir  land[s]lög og rétt  fyrir oftnefnda skuld ef yður mætti svo þóknast.

Þrenn hjón bjuggu í tvíbýli með Jóhannesi og Jarþrúði á ábúðartíma þeirra í Holti og skulu þau talin hér í lokin.

Þorsteinn Jónsson (1758-15. október 1805)  og Guðrún Jónsdóttir (1755-2. febrúar 1825) komu ofan úr Svínavatnshreppi og voru hér eitt ár 1796-1797 með lítið bú. Þau fluttu svo að Hjaltabakkakoti og voru þar árin 1797-1805 og Guðrún þar áfram eftir dauða Þorsteins. Sýnilega hafa þau verið sárfátæk og munu ekki hafa átt börn sem lifðu. Verður Guðrúnar getið síðar.

Jón Jónsson (1771-1840) Hálfdanarsonar og Sigríður Hannesdóttir (1763-1824) ─ bónda í Holti Jónssonar harðabónda ─ bjuggu hér 1799-1800. Jón var annar eiginmaður Sigríðar en fyrir henni er gerð grein í 37. þætti um Hamrakot. Þau fóru héðan að Gunnfríðarstöðum.

Þá eru hér eitt ár (1802-1803)  Árni Jónsson (f. 1759) og Sigríður Sveinbjörnsdóttir (1762-4. júlí 1803) en fluttu héðan að Kálfshamri.


[1] Bjarni Jónasson: Litast um í Svínavatnshreppi. Húnavaka 1976, bls. 53-54.
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/1, örk 2, bls. 205.
[3] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 498. Um þjófnaðarmálið sjá: ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/3. Dóma- og þingbók 1807-1812 og GB/1, örk 5. Fylgiskjöl dómabóka 1801-1816.
[4] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 493.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/2, örk 4.
[6] Það stendur greinilega „6“ en skv. framhaldi bréfsins ætti líklega að standa „9.“
[7] Óljóst. Ætti að vera lýsingarorð um bágt ástand þessara kinda. Þó á hugsanlega að lesa „norðan“ en það væri samt mjög óljóst.
[8] Þ.e. hjá Jóni Einarssyni og Þórdísi Illugadóttur en þau bjuggu þá á Torfalæk.
[9] Óljóst. Gæti átt að vera „skjöde“ er merkir í öllu falli fjárkröfu.
[10] Þ.e. opinber sök sem sýslumaður ætti að reka en ekki einkaréttarmál sem aðilar verða sjálfur að bera kostnað af.
[11] Rifið að blaðinu en mun eiga að lesa svo.
[12] Dánarbú Björns Magnússonar er varðveitt í skjalasafni Húnavatnssýslu (ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/1, örk 3, bls. 169).
[13] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu C/2. Bréfabók 1820-1821. Bréf nr. 30, dagsett  30. nóvember 1820.
[14] Nokkrir stafir óljósir.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið