Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Miðvikudagur, 8. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 17:18 0 0°C
Laxárdalsh. 17:18 0 0°C
Vatnsskarð 17:18 0 0°C
Þverárfjall 17:18 0 0°C
Kjalarnes 17:18 0 0°C
Hafnarfjall 17:18 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Flóðið í Vatnsdal
Flóðið í Vatnsdal
Pistlar | 10. september 2023 - kl. 12:53
Þættir úr sögu sveitar: Örvasa kona deyr í Holti
57. þáttur. Eftir Jón Torfason

Þann 4. nóvember 1819 baðst gistingar í Holti Helga nokkur Eyjólfsdóttir (1774-2. maí 1821). Sennilega hefur hún verið langveik og þrotin að kröftum þótt það komi hvergi beinlínis fram og dánarmein hennar er ekki skráð. En í Holti dvelur hún um 1 ½ ár, og þyngir sífellt. Mest af því sem vitað er um þessa konu kemur fram í fáeinum bréfum sem eru skráð síðasta æviár hennar.

Helga Eyjólfsdóttir fæddist í Vatnsdalshólum 1774, dóttir Eyjólfs Björnssonar (1724-14. febrúar 1800) og Helgu Sveinsdóttur (1741-17. júlí 1821). Helga eldri bjó áfram í Vatnsdalshólum eftir lát Eyjólfs, síðan fá ár í Hnausum en loks á Másstöðum til dauðadags. Jón Eyjólfsson sonur hennar (1775-8. júní 1823) bjó jafnan með móður sinni.

Á þessum árum eru á ýmsum bæjum í sveitinni Þórarinn Jónsson (1750-1843) og Oddný Magnúsdóttir (1755-1825), voru sjaldan nema 2-3 ár á hverjum bæ, bláfátæk en með nokkur börn á framfæri. Þau voru m.a. í Miðhúsum 1792-1797 í næsta nágrenni við Helgu Eyjólfsdóttur sem enn var heima í Vatnsdalshólum. Svo fór að Þórarinn og Helga eignuðust dóttur saman, skáldkonuna Hjallalands-Helgu (13. apríl 1797-30. september 1874), og árið eftir dreng Þórarinn Þórarinsson (18. október 1798-24. október 1798) sem aðeins varð sex daga gamall. Upp úr þessu hverfur Þórarinn úr sveitinni um sinn en Helga ræðst í vinnumennsku að Gilsstöðum í Vatnsdal til Þorsteins Steindórssonar og Margrétar Jónsdóttur sem bjuggu þar nokkur ár áður en þau fluttu að Holti. En Hjallalands-Helga Þórarinsdóttir, elst upp á vegum Helgu Sveinsdóttur ömmu sinnar og er að mestu úr þessari sögu.

Ferill Helgu Eyjólfsdóttur verður ekki verið rakinn ár frá ári enda vantar í sóknarmannatöl Undirfellssóknar. En 28. október eignast hún dóttur, Þuríði (8. október 1807-8. maí 1896), og var faðirinn Eilífur[1] Jónsson (7. ágúst 1788-1. desember 1844), af harðabóndaætt, en átti heima á Ási í Vatnsdal. Þau giftust svo 27. október 1808, bæði í fyrsta sinni. Forlofari [svaramaður] Eilífs var faðir hans Jón Jónsson bóndi í Ási en Helgu móðir hennar, ekkjan Helga Sveinsdóttir.

Upp úr þessu virðast þau flytja vestur í Miðfjörð og eignast þar annað barn, sem upp komst, Eilíf Eilífsson (1816-30. janúar 1847). Eilífur yngri fluttist til Vestmannaeyja þegar hann komst á fullorðinsár en drukknaði þar rétt rúmlega þrítungur að aldri.

Þegar Þuríður Eilífsdóttir hafði slitið barnsskónum varð hún vinnukona í Hjálmholti í Grímsnesi á árunum 1828-1830 en þar var þá sýslumannssetur. Þar eignaðist hún son með Sigurði Gottsvinssyni Kambsránsmanni, en hann var kenndur öðrum manni. Sá drengur hét Jón Jónsson (30. október 1828-13. júlí 1901). Hann var óknyttasamur í æsku, ætlaði m.a. að leggjast út með öðrum manni en þeir náðust fljótlega og voru dæmdir til nokkurra ára fangavistar í Kaupmannahöfn. Jón þessi kom síðan heim, var nokkur ár í Húnavatnssýslu en fór um síðir til Vesturheims, var kallaður „vefari.“[2] Þuríður Eilífsdóttir giftist síðar Einari nokkrum Jónssyni og bjuggu þau á Selfossi og eftir þau Gunnar sonur þeirra (f. 1838) sem gerðist framfara- og framkvæmdamaður þegar hann óx upp.[3]

Nú skal horfið til baka til ársins 1816 en þá er þessi fjölskylda, Helga Eyjólfsdóttir, Eilífur Jónsson, Þuríður og Eilífur yngri, til heimilis á Syðri-Reykjum í Miðfirði, Helga þá talin 41 árs að aldri. Nú taka þau sig til og flytja suður í Borgarfjörð, að Eyri í Flókadal, og þar bjó Eilífur Jónsson til 1821 og síðan á Heggstöðum og Hesti í sömu sýslu.[4] Skv. húsvitjun árið 1817 er komin til þeirra vinnukonan Una Ögmundsdóttir (8. janúar 1791-2. júlí 1859) og nú gerast hlutirnir hratt því Una og Eilífur eignast soninn Kristján þegar eftir áramótin (f. 1818), skírður í febrúar, og árið eftir Jón (f. 1819) og fleiri börn fylgdu í kjölfarið. Þau Eilífur og Una bjuggu svo saman til dauðadags.

Helga Eyjólfsdóttir virðist hins vegar fljótlega hrekjast af heimilinu og skilur börn sín eftir. Manni dettur helst í hug að Una hafi rutt henni burt en líka geta hafa komið til einhverjar aðrar orsakir. Um það er bara ekki vitað. Hitt er vitað, að Helga kemur norður í frændhaga sína annað hvort 1818 eða 1819. Líklegast er að hún hafi leitað til móður sinnar og bróður á Másstöðum eða þá að Bjarnastöðum þar sem Margrét Eyjólfsdóttir (1780-5. júní 1850) systir hennar bjó. Helga finnst ekki skráð í kirkjubókum á þessum árum enda vantar í sóknarmannatal Undirfellssóknar.

Hvort sem Helga var eitt ár eða þá skemmri tíma hjá sínu fólki á Másstöðum og Bjarnastöðum þá var hún nú haustið 1819 komin að Holti til sinna gömlu húsbænda og bað ásjár. Þar dvelst hún hálft annað ár til dauðadags 2. maí 1821, 52 ára. Dánarmein er ekki tíundað í prestsþjónustubók Hjaltabakka, aðeins sagt: „Aðkomin haustið 1820[5] að Holti, síðan veik til dauða. Gift kona félaus, innteppt fyrir veiki.“

Holtshjónin virðast hafa tekið sinni gömlu vinnukonu vel, en þegar veikindin þyngdust og drógust á langinn tók Þorsteinn sig til, skrifaði bréf til sýslumanns og beiddist sveitarstyrks með Helgu sem Sveinsstaðahreppur átti að borga því Helga var fædd í Vatnsdalshólum. Bréfið byrjar á beiðni Þorsteins til Jóns Jónssonar sýslumanns um að hann úrskurði hvar Helga sé sveitföst, síðan kemur vitnisburður prests og hreppstjóra um veikindi Helgu, þar næst ályktun sýslumanns og loks svar Björns Olsen á Þingeyrum sem var hreppstjóri í Sveinsstaðahreppi á þessum árum. Bréfin sýna gang málsins:[6]

         Vanfær af heilsuleysi Helga Eyjólfsdóttir, byrjuð og barnfædd á Vatnsdalshólum, kom að Holti þá hálfur mánuður var af vetri, hvörri ég upp á guðs þakka vegna lofaði að vera nokkrar nætur. Tók hún þá sjúkdóm sem gjörði hana ekki flutningsfæra. Lasnaðist hún æ meir uns hún algjörlega lagðist og hefur lengstum í vetur og vor rúmföst legið, hvað presturinn og hreppstjóri geta sannað, sem þeir eftir ósk minni hér upp á teikna.         

         Svo á sig komna að flytja hana á burt finnst mér eins ómanneskjulegt sem það virðist ekki mögulegt, en að halda hana án þóknunar finn ég mig ekki mann til. Vildi því herra sýslmaðurinn láta sér þóknast að úrskurða hvaðan ég skyldi vænta mega meðgjafar með henni fyrir það sem hún hefur hjá mér verið, sem framvegis inn til þess hún verður flutningsfær eða deyr burt.

         Holti þann 22. júní 1820,
         
Þorsteinn Steindórsson

         Að ofanskrifuð Helga hafi lengi mikið þungt legið veik í vetur og vor vitnar, E. Guðbrandsson prestur.
        
Að ofanskrifuð Helga Eyjólfsdóttir hefur verið í Holti og legið veik vitnar Hannes Þorvaldsson.

         Þannig rétt útskrifað vitnar J. Jónsson (sýslumaður).

         Herra administrator Olsen, sem hreppstjóra í Sveinsstaðahrepp, mætti þóknast að gefa mér ávísun um hvar helst að framan nefnd Helga Eyjólfsdóttir muni eiga skilið löglegt framfæri,

         Reykjum 20. júlí 1820,
         
Jón Jónsson

Björn Olsen er ekki hrifinn af að borga meðlag með Helgu, nefnir fyrst að e.t.v. sé hún fædd annars staðar en í Sveinsstaðahreppi og líka að maður hennar ætti að framfæra hana, því þau Helga og Eilífur voru enn gift og skildu reyndar aldrei. Og er það atriði vissulega réttmætt hjá Birni:

         Framan og ofan skrifuð Helga Eyjólfsdóttir veit ég ekki með vissu að segja hvar fædd er. Foreldrar hennar bjuggu hér í hrepp um tíma eða sumpart af sínum búskaparárum en giftust annarstaðar og Helga þeirra elsta barn, allt svo ei ólíklegt að hún hafi fædd verið annarstaðar en í Sveinsstaðahrepp. En þar hún er í hjónabandi meina ég vafalaust að maður hennar eigi hana forsorga og hún fyrri eiga framfæri af honum en börn hans og þeirra.

         Þingeyrum d. 21. ágúst 1820,
         
B. Olsen

Í öskju í skjalasafni sýslumannsins í Húnavatnssýslu (B/2) er annað bréf þar sem Hannes hreppstjóri í Sauðanesi tekur saman kostnað heimilisins í Holti við að annast Helgu í banalegu hennar:

         Þar mr. Þorsteinn bóndi í Holti hefur beðið mig að meta hvað mikið hann kynni að eiga í sanngjarna meðgjöf með ómaganum Helgu heitinni Eyjólfsdóttur, þann tíma sem hún dvaldi í Holti þar til hún dó ─ ásamt útfararkostnað ─ eftir sem hann sagði mér og ég nokkuð vel vissi um hennar ástand og hnignandi heilsu[7] missir, og þar hjá kunngjöra það viðkomandi yfirvaldi skriflega.

         Helga heitin Eyjólfsdóttir kom að Holti þann 4. nóvember 1819, hvörja mr. Þorsteinn undirhélt mikið heilsulasna til 20. febrúar og virðist að hann eigi með henni þann tíma 4 fiska um vika hvörja; hér um bil 64 fiska.

         Eftir það lasnaði heilsa þessarar konu dag frá degi, svo frá 20. febrúar og til annars apríl 1820 viðist að hann fái með henni 5 fiska á viku, hér um bil 30 fiska.

         Síðan hefur nefnd Helga heitin legið þyngsti ómagi þar til hún dó þann 2. maí 1821, og sýnist ekki ósanngjarnt að hann hafi með henni þann tíma 7 fiska um viku hvörja, hér um bil 393.

         Útfararkostnað 100 [fiska].

         Sauðanesi þann 30. maí 1821,
         
Hannes þorvaldsson

         [Síðan bætir hreppstjórinn við á blaðið]:

         Að mr. Þorsteinn í Holti hefur meðtekið lítilfjörlega leppagarma Helgu heitinnar Eyjólfsdóttur, eftir virðingu 83 sk. Hér næst segist Þorsteinn hafa meðtekið frá Hnausum í meðgjöf með nefndri Helgu 60 fiska.

         Til samans 70 fiskar og 3 sk.

         Ekkert meira segist Þorsteinn hafa meðtekin ennþá í þessu skyni.

Í Hnausum bjuggu þá Jón Ólafsson og Ósk Jónsdóttir en hugsanlega eru þessir fiskar upphaflega komnir frá Helgu Sveinsdóttur móður Helgu eða systkinum hennar. En skv. sveitarbókum Sveinsstaðahrepps 1821 voru gefnir með Helgu Eyjólfsdóttir rúmlega 300 fiskar þetta ár. Þar segir: „Helga Eyjólfsdóttir ómagi sem legið hefur í Holti á Ásum og maðurinn er burt hlaupinn frá. Er ætlað til framfæris styrktar af hreppnum tekinni sem lán upp á mann hennar á Suðurlandi.“[8]

Sveinsstaðahreppur virðist ekki hafa greitt meira með Helgu en þessa 300 fiska sem slagar þó nokkuð upp í kostnað Þorsteins í Holti fyrir aðhlynningu með henni. Trúlega hefur hreppurinn reynt að innheimta eitthvað af Eilífi upp í þennan kostnað en óvíst hvernig það hefur gengið.

Rétt er að enda hér á vistaskiptavísu, er svo má kalla, eftir Helgu Þórarinsdóttur, skáldið Hjallalands-Helgu, dóttur Helgu Eyjólfsdóttur:

Kveð ég þjóð með kossi og hönd,
kveð ég táradalinn.
Flýgur síðan fleyg mín önd,
frjáls í himnasalinn.[9]


[1] Í sumum heimildum nefndur „Eyleifur.“
[2] Sbr. Jón Helgason: Útilegumenn í Árnessýslu. Íslenskt mannlíf IV (Reykjavík 1962).
[3] Sbr. Guðmundur Kristinsson: Saga Selfoss I (Selfoss 1991), bls. 80-83.
[4] Sjá Borgfirskar æviskrár II (Akranes 1971), bls. 307.
[5] Á að vera „1819.“
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/2, örk 2.
[7] Óljóst.
[8] Tölvupóstur frá Svölu Runólfsdóttur 2. maí 2023. (Sveinsstaðahreppur askja nr. 206, örk 1. Hreppsbók 1790-1832).
[9] Sbr. Húnavaka 2007, bls. 81 og 2008, bls. 71. Vísnaþáttur Ragnars Þórarinssonar.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið