Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Laugardagur, 13. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 09:46 0 0°C
Laxárdalsh. 09:46 0 0°C
Vatnsskarð 09:46 0 0°C
Þverárfjall 09:46 0 0°C
Kjalarnes 09:46 0 0°C
Hafnarfjall 09:46 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
27. mars 2024
71. þáttur. Eftir Jón Torfason
24. mars 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
22. mars 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Sauðanes Torfalækjarhreppi. Ljósm: HAH/atom.hunabyggd.is
Sauðanes Torfalækjarhreppi. Ljósm: HAH/atom.hunabyggd.is
Pistlar | 08. október 2023 - kl. 16:16
Þættir úr sögu sveitar: Gömul kona í Sauðanesi og gamall maður í Holti
59. þáttur. Eftir Jón Torfason

Við húsvitjun í nóvember 1807 er talin vinnukona í Sauðanesi Ingveldur Jónsdóttir (1757-16. ágúst 1825), fimmtug að aldri, sögð „lesandi“ og „nokkurn veginn kunnandi,“ þ.e. hvað varðar guðsorðið, og hafði alla sína ævi verið vinnukona á ýmsum bæjum. Líklega hefur hún komið að Sauðanesi 2-3 árum fyrr og hér er hún til dauðadags. Árið 1814 er hún titluð húskona í sóknarmannatalinu og heldur þeim status a.m.k. til 1821. Þá er hún byrjuð að feta upp sjöunda áratug lífs síns og heldur betur farin að fella af. Húsbóndi hennar, Hannes Þorvaldsson í Sauðanesi sem líka er hreppstjóri sveitarinnar, skrifar sýslumanni í því embætti sumarið 1821 í miðjum heyskaparönnunum:

         Ómaginn[1] Ingveldur Jónsdóttir segist vera fædd á Sveinsstöðum í Sveinsstaðahrepp en misst föður sinn, þá verandi í Haga, 5 vetra. Þá sett á náunga sinn Jón sálaða [Bjarnason] á Hrafnabjörgum, hjá hvörjum hún segist hafa verið 22 ár, þaðan farið í bruna harðindunum vegna báginda hans og verið á hrakningi 1 ár. Síðan verið sett niður á Másstöðum 1 ár, þaðan vistast að Steinnesi til sr. Sæmundar [Oddssonar] og verið þar 4 ár. Þaðan farið að Hrafnabjörgum til síns gamla fóstra og verið þar 5 ár. Þaðan að Rútsstöðum 1 ár. Þaðan að Kúlu 4 ár. Þaðan að Svínavatni 3 ár.  Þaðan giftist hún karli vestan undan Jökli og fóru að Hnjúkum í húsmennsku og var hún þar í 2 ár. Eftir það gátu þau ekki saman verið vegna fátæktar. Þá fór hún hingað til mín og kom með eina á af því litla sem þau maður hennar settu saman með, sem var þó hennar í upphafi.

         Hún er nú búin að vera hér í 16 ár, fyrst vinnukona í 5 ár. Eftir það þau 5 ár voru liðin lasnaði hún svo mjög til heilsu af uppáfallandi veikleika sem ætíð hefur í vöxt farið síðan sem er heimakona,[2] hvör að búin er svo að segja að leggja hana í rúmið, ásamt lasleika af elliburðum og lúa. Nú í samfelld 10 ár hefur nefnd Ingveldur haldið sér svoleiðis uppi hér hjá mér, að hún hefur átt 2 og stundum 3 ær, hvörra afraki að hefur verið saman haldið fyrir hana um sumartímann, þá hún hefur haldið sér uppi hjá skyldfólki sínu og kunningjum, bæði í Vatnsdal og Svínadal. En allan veturinn og vorið og það fram á slátt hefur hún alla þessa tíð verið á forsorgun hjá mér, utan hvað hún hefur bjargast af þeim umgetnu ám og svo lítilfjörlegu sem hennar skyldfólk hefur gefið henni.

         Nú bið ég herra sýslumanninn auðmjúklegast að álíta og álykta hvar nefndur ómagi eigi framfærishrepp.

Sauðanesi þann 21. júlí 1821,
Hannes Þorvaldsson

Bréf Hannesar hefur borið árangur því Ingveldur var talin tilheyra Svínavatnshreppi og í hreppsbók þess hrepps kemur fram að greiddur var styrkur til Hannesar í Sauðanesi, 340 fiskar árið 1822, síðan 182 fiskar 1823 og loks 180 fiskar árið 1824.[3]

Í prestsþjónustubók Auðkúlu er bókað að 15. ágúst 1802 giftist Ingveldur manni sem hét Guðmundur Björnsson, hans annað en hennar fyrsta hjónaband. Hans forlofari var Jón Benediktsson en hennar Erlendur Guðmundsson. Eins og kemur fram í frásögn Ingveldar auðnaðist þeim Guðmundi ekki að búa saman nema stuttan tíma vegna fátæktar. Ekki er vitað gjörla um ættingja Ingveldar[4] en vini hefur hún átt bæði í Vatnsdal og Svínadal.

Ingveldur mun hafa verið áfram í Sauðanesi, þótt ekki sé tekið fram á hvaða bæ hún lést í prestsþjónustubók Hjaltabakka. Dánardagur hennar var 16. ágúst 1825 eins og áður hefur komið fram, hún þá sögð „sveitlæg kerling frá Svínavatnshrepp,“ dánarmeinið var landfarsótt.

Nokkru fyrr, hafði gamall maður dáið í Holti, hinu megin við Laxána. Hann hét Guðmundur Þorláksson og dó 13. desember 1812, „á 101. ári, pensionisti. Veslaðist upp. Var tvígiftur, seinast búandi og vaktari í Reykjavík, örsnauður,“ segir í prestsþjónustubók Hjaltabakka. Sennilega er 10 árum bætt við aldur þessa manns hér.

Guðmundur fékk starf sem vaktari eða næturvörður í Reykjavíkurkaupstað 1793 og gegndi því til ársins 1803, mun þá hafa verið orðinn 84 ára að aldri.[5] Í manntali 1801[6] er Guðmundur talinn 82 ára, á þá heima í Landakoti og hjá honum eru kona hans, Guðný Sigvertsdóttir (1764-1812)  og sonur þeirra Guðmundur (1797-1877), varð sjómaður er hann óx upp og átti heima í Reykjavík.

Vökturunum var einkum ætlað að gæta þess að eldur brytist ekki út í bænum en í öðru lagi stóð bæjarbúum nokkur stuggur af fangelsinu við Lækjargötu (Stjórnarráðinu) því það var í raun „opið fangelsi“ þar sem fangarnir stunduð vinnu á daginn og sættu oft ekki mikilli gæslu. Vaktarar höfðu í hendi gaddakylfu, sem kallaðist morgunstjarna,  og áttu þeir  a.m.k. skv. reglunum á vissum stöðum og tímum að syngja sérstök næturvarðavers. Kaup næturvarðanna var í lok 18. aldar um 74 rd. á ári en eins og kemur fram hér á eftir fékk Guðmundur 10 rd. í eftirlaun sem hefur þó skammt dregið honum til framfærslu.

Hann virðist hafa komið hingað norður í átthagana stuttu eftir aldamótin en Guðný og Guðmundur sonur hans urðu eftir í höfuðstaðnum.  Guðmundur Þorláksson var þá þrotinn bæði að fé og kröftum, og sest að í Holti hjá Þorsteini Steindórssyni, bróðursyni sínum. Aðeins er til ein umsögn Halldórs Ámundasonar prests á Hjaltabakka um Guðmund, gerð við húsvitjun 1809 en þar segir um hann: „Varla lesandi. Skikkanlegur. Vel skýr.“  Um Guðmund og framfærslu hans eru til tvö bréf sem Þorsteinn Steindórsson í Holti, bróðursonur hans, ritar. Þau bregða nokkru ljósi á ættartengsl og „meinta“ ábyrgð fólks á öðrum í frændgarði sínum:

         Auðmjúkt[7] promemoria

         Útslitið örvasa gamalmenni, Guðmundur Þorláksson föðurbróðir minn, hefur nú síðan í sextándu viku sumars 1804 verið á mínu næri[8] án þess hann hafi haft neina muni fyrir sig að leggja, að undanteknu einu 5 rd. virði, sem honum næstliðið sumar hafði bæst fyrir meðlíðun og örlæti faktors Guðmundar Guðmundssonar við Búðir, og nokkurra náfrænda hans og mannelskara á Suðurlandinu.

         Nú finnst mér eins og ég geti ekki fengið mig til að hrekja þennan minn föðurbróður ─ ráðvendninnar réttkallað dæmi svo sem meðfylgjandi 5 vitnisburðir sanna ─ frá mínu heimili, þar sem ég merki að hann sjálfur kýs að líða súrt og sætt með börnum mínum, en treysti mér þó ekki ofan á mína ómegð að undirhalda hann tilstyrkslaust með hans 10 rd. árlegu pension, hvar upp á hér með fylgir afskrift, nr. 1, til velþóknanlegrar eftirsjónar.

         Allt svo um bið ég auðmjúklega, að herra sýslumanninum mætti þóknast gunstuglega, að ákvarða nefndum Guðmundi Þorlákssyni framfæris tillag af náungum hans hér innan sýslu, hverra sannferðug uppteiknun hér með innsendist, nr. 2, og þar að auki vera meðalgangari að utanhéraðs náungar fyrir viðkomandi sýslumanna tilhlutan leggi sinn skerf til meirnefnds gamalmennis uppheldis og forsorgunar styrks.

Holti á Ásum þann 18. apríl 1806,
Auðmjúklega,
Þorsteinn Steindórsson

Með þessu bréfi fylgdi eftirfarandi uppteiknun náinna skyldmenna Guðmundar þar sem skyldleikinn er rakinn. Er það eina fylgiskjalið með bréfinu sem nú er til þótt nefnd séu fleiri slík hér að framan:

         Listi yfir náunga gamalmennisins Guðmundar Þorlákssonar:[9]

Í Húnavatnssýslu:

Steindór bóndi Þorláksson á Gilsstöðum: bróðir.
Bjarni í Þórormstungu, Þorsteinn í Holti Steindórssynir, hreppstjórar: bróðursynir.
Halldóra, búandi á Galtanesi, Guðmundsdóttir; Ólöf, búandi á Marðarnúpi, Guðmundsdóttir: hálfsysturdætur.
Séra Björn prestur í Bólstaðarhlíð, Jón bóndi í Kálfárdal Jónssynir: Öðrum og þriðja.

Í Snæfellssýslu:

Guðmundur Guðmundsson faktor við Búðir: systursonur.
Jón Þórarinsson, í góðum efnum á Malarrifi: ditto.

Í Húnavatnssýslu:

Séra Rafn Jónsson prestur á Hjaltabakka: þremenningur.

Í Mýrasýslu:

Jón Ólafsson hreppstjóri á Síðumúla, Þorbjörn Ólafsson gullsmiður á Lundum, Vigdís Ólafsdóttir, kona Brands bónda í Sólheimatungu: þremenningar.

Í Snæfellssýslu:

Ólafur Björnsson umboðshaldari í Munaðarhóli: öðrum og þriðja.

Veit ei hvar er: Guðmundur Björnsson, bróðir Ólafs [Björnssonar]: öðrum og þriðja.

Holti á Ásum þann 18. apríl 1806,
Þorsteinn Steindórsson

Ekki virðist þessi umleitan Þorsteins um styrk frá ættingjum sínum og Guðmundar gamla hafa borið mikinn árangur, þó margir þeirra muni hafa verið ágætlega efnum búnir um sumir jafnvel ríkir.

Nokkrum árum síðar ritar Þorsteinn annað bréf til sýslumannsins og óskar nú eftir að fá sveitarstyrk með þessum föðurbróður sínum:

            Fyrir[10] 6 árum síðan hef ég undirskrifaður beðið skriflega mitt yfirvald, herra sýslumann Sigurð Snorrason, að útverka að ég fengi tillags styrk frá ættingjum föðurbróður míns, Guðmundar Þorlákssonar, til að forsorga hann með í sínum þunga aldurdómi (því ég af meðaumkun skaut skjóli yfir þá hann ráfaði hingað norður munaðarlaus, svo að hann þyrfti ekki að veslast upp manna á milli), þar ég sjálfur hefi öngva formegan nema minn eigin handafla, sem knappast nær til að forsorga með mig og mína. En þessi mín bæn hefur enn nú ekki haft neinn árangur. Svo örðugt sem mér hefur verið að bæta honum á mig sem þungum ómaga næst umliðin ár, þá verður mér það enn örðugra eftirleiðis fyrir aðskiljanlegar uppáfallnar og uppáfallandi kringumstæður, hvörs vegna ég nú í skyldugri undirgefni bið enn á ný minn herra sýslumann að útverka, að ég nú fái það um beðna tillag af þeim hrepp eður hreppum sem háyfirvöldunum líst að framfæra eigi minn hér nefndan föðurbróður.

Holti á Ásum, dag 9. febrúar 1811,
Þorsteinn Steindórsson

Ekki eru nú til heimildir um viðbrögð sýslumannsins og spurning hvort Þorsteinn hefur fengið einhvern styrk til að framfæra gamla manninn. En þess þurfti raunar ekki lengi því í desember árið eftir lést Guðmundur gamli.


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/3, örk 1.
[2] Stendur svo.
[3] Tölvupóstur frá Svölu Runólfsdóttur 17. apríl 2023. Bókin er skráð þannig: „Svínavatnshreppur nr. 204, örk 4. Hreppsbók 1821-1864.“
[4] Tölvupóstur frá Svövu Sigurðardóttir hjá islendingabok.is 17. apríl 2023.
[5] Guðbrandur Jónsson: Lögreglan í Reykjavík, bls. 38-39.
[6] Manntal 1801. Suðuramt, bls. 394.
[7] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 7.
[8] Stendur svo. Merkir að gamli maðurinn er á framfæri Þorsteins, sbr. sögnina að „næra“ = ala, fæða.
[9] Sett upp með nokkrum öðrum hætti en í skjalinu sjálfu.
[10] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu B/1, örk 10.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið