Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 30. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:46 0 0°C
Laxárdalsh. 00:46 0 0°C
Vatnsskarð 00:46 0 0°C
Þverárfjall 00:46 0 0°C
Kjalarnes 00:46 0 0°C
Hafnarfjall 00:46 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Meðalheimur Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH/Björn Bergmann
Meðalheimur Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH/Björn Bergmann
Pistlar | 22. október 2023 - kl. 16:35
Þættir úr sögu sveitar: Meðalheimur
60. þáttur. Eftir Jón Torfason

Jörðin Meðalheimur má teljast nærri miðri sveitarinnar eða hreppsins. Þetta er stór jörð og landið að heita má algróið. Sagnir eru um að þar hafi verið bænhús til forna. Á söguöld bjó þar kappinn Þorgísl sem fór með Barða Guðmundarsyni árið 1014 í herför suður til Borgarfjarðar og er frá sagt í Heiðarvíga sögu. Síðan hafa friðsamari menn jafnan búið hér. Vorið 1763 gaf Bjarni sýslumaður Halldórsson jörðina til fátækra ─ gjafabréfið dagsett 10. maí það ár ─ þannig að afgjald leiguliðans rann til fátækrasjóða hreppanna í sýslunni og kom að vísu ekki stór upphæð í hlut hvers hrepps.

Leiguliðaskipti voru nokkuð tíð á 18. öld þar til hingað komu Illugi Björnsson og Ragnhildur Vigfúsdóttir árið 1780 en fluttu héðan að Hæli þar sem Illugi lést 1790 (Sjá 47. þátt. Dánarbússkipti á Hæli). Eins og þar var rakið voru Illugi og Ragnhildur sárfátæk og munu nánast hafa búið við alsleysi eftir móðuharðindin. Á manntalsþingi á Torfalæk 29. júlí 1784 segir t.d. svo í lið 10:

         Eftir[1] spyr sýslumaðurinn hvort þingmenn til viti það kúgildi fallið sé á kristfjárjörðinni Meðalheimi?

         Svar: Já, að 1 kýr sé þar dauð.

         2. Hvört nokkuð sé hjá ábúandanum þar hvar með hann kunni að betala þá útdauðu kú?

         Svar: Nei, síst í útgengilegum aurum.

         3. Vill nokkur innan þessarar þingsóknar taka jörðina Meðalheim til ábýlis eftir þetta fardagaár eður hér áðurgreindar Þingeyraklausturs jarðir?

         Svar: Nei.

Á næstu árum mætir Oddur Stefánsson klausturhaldari á manntalsþingin og býður fram þær jarðir klaustursins, sem voru í eyði eða nær því í eyði, gegn í rauninni engu afgjaldi. Á manntalsþingi á Torfalæk 11. júní 1788 er klifað um það sama, undir lið 6, og ástandinu lýst:

         Eftir spurði sýslumaðurinn hvort jarðirnar Meðalheimur, Holt og Orrastaðir hafi undanfarið ár svoleiðis byggðar orðið að nokkur landskuld hafi af nokkurri þeirra svarast kunnað þá?

         Svara nálægir þingsóknarmenn að þó bygging hafi á þeim kallast svo vítt þar hafi menn félitlir inni lafað, einungis til að verja kofa, næstum því með annarra peninga, þá hafi þar þó engin landskuld kunnað af þeim svarast.

         [Sýslumaður spyr] hvort jarðir almennilega í þessari þingsókn kunni nú byggjast eins og í meðalári, auk heldur betra eða besta?

         Svar: Að fyrir utan að jarðir hafi yfir höfuð hér í hreppi af sér gengið af eldverkaninni eftir árin 1783 og ´84, sé fólk hér af peningsfellirnum þessi ár ekki ennnú svo í stand komið, að kunni með nokkru móti svara þeim fullu afgiftum af sínum ábýlisjörðum, ef annars skyldi við hús geta haldist. Hér hjá sé fólk hér sem annarstaðar í héraðinu svo fátt, síðan manndauðann 1784 og ´85, að jarðir almennilega geti ómögulega til byggingar komist, sem þá allareiðu séu bæði utanlands og innan nógsamlega afbevísað.

         Kúgildatala sú gamla, sem í jarðabókinni kynni finnast, segja þingsóknarmenn aldrei hafi hingað til upprétt orðið fyrir áðurgreindar orsakir.

Fyrr var rakið heilsuleysi Illuga Björnssonar (þáttur nr. 47) sem hefur trúlega haft sitt að segja varðandi bágt ástand í Meðalheimi þessi ár. En nú kom á jörðina maður sem hér bjó í röska þrjá áratugi, Guðmundur að nafni Guðmundsson (1763-1824), fæddur í Bólstaðarhlíð. Kona hans var Guðrún Oddsdóttir en hún dó fljótlega upp úr aldamótunum 1800.

Þau Guðmundur og Guðrún eignuðust nokkur börn en a.m.k. þrjú þeirra dóu í barnæsku. Elsta dóttirin sem lifði var Sigurlaug (28. september 1792-6. júní 1821). Hún var vinnukona á Hússtöðum þegar hún dó, úr „brjóstveiki og landfarsótt.“

Þá var Margrét (1796-14. júní 1869) síðari kona Þorsteins Steindórssonar í Holti sem fyrr hefur verið nefnd.

Loks var Jón (10. október 1799-13. desember 1876). Hann var vinnumaður á ýmsum bæjum en dóttir hans var Guðrún, móðir Péturs Tímóteus Tómassonar (1859-1946) bónda í Meðalheimi.[2] Þess má geta að Tómas, maður Guðrúnar Jónsdóttur, var sonur Jóns Illugasonar og Gróu Tómasdóttur sem fyrr hefur verið getið (sjá þáttur 5. Endurvinnsla og sjálfbærni).

Guðmundur fær heldur hraklega meðferð í Húnvetninga sögu Gísla Konráðssonar sem segir að hann hafi hyllst til að stela mjólk úr kúm séra Björns prests í Bólstaðarhlíð þar sem hann var fjósamaður á yngri árum sínum. Öðru sinni skyldi hann fylgja gamalli kerlingu, er Guðrún hét, yfir Vatnsskarð að Vatnshlíð. Skildi Guðmundur hana eftir á fjallinu og lét sem hún hefði dáið. Þegar menn hugðust síðar sækja lík hennar „reis kerling upp úr snænum, er hún varð vör mannanna, og mælti: „Guði sé lof að ég sé mennina.“ Lifði hún lengi síðan á vergangi. En Gvöndur bjó síðan að Meðalheimi á Ásum og var lítt þokkaður.[3]

Búskapur Guðmundar virðist hafa verið næsta lítilfjörlegur fyrstu árin í Meðalheimi. Hann telur aðeins fram 1 hundrað í lausafjártíund, en smám saman hækkar tíundin ─ að jafnaði um 1 hundrað á ári ─ og er komin í 9 hundruð aldamótaárið. Þá kemur bakslag vegna harðindanna í upphafi 19. aldar en þokast síðan aftur upp á við og tekur nokkurt stökk 1805, fer úr 4 hundruðum í 7 hundruð. Skýringin er sú að þá hafði Guðrún Oddsdóttir kona hans dáið fyrir stuttu ─ dánardagur hennar og ár er hvergi skráð ─ og hann kvænst á nýjan leik Halldóru Sigurðardóttur sem frá segir nokkuð í þætti nr. 58 um Sauðanes en þar hafði hún átt 10 ær og a.m.k. tvö hross og tíundað 3 hundruð, hefur lagt það inn í búið í Meðalheimi. Eftir það er tíund Guðmundar frá 12 upp í 15 hundruð, sveiflast þó lítillega til. Þetta er nálægt meðaltali framteljenda í hreppnum.

Þær fáu búnaðarskýrslur sem til eru frá ábúðartíð hans birta svipaða mynd. Árið 1790 er talin fram 1 kýr og kvíga og 14 ær. Árið 1803 á harðindatíð eru kýrnar 2, ærnar 14 og 7 lömb en árið 1814 rís hagur Guðmundar einna hæst og þá eru hér 2 kýr, 56 ær og 50 lömb, sauðir og gimbrar 35 og 7 tamdir hestar. Þessi tiltölulega mikla sauðfjáreign kemur vel heim við það sem segir í jarðamati 1849:

         Túnið skæklótt og ógreiðfært, ekki að kalla grasgefið, fóðrar 2 kýr. Slægjur bæði reytingslegar og litlar, samt snögglendar, heyslæmar að miklu leyti, eru nærtækar, fremur votar. Sumarhagar hægir og sæmilega kostagóðir, samt fremur þröngir, þó nægir séu í hlutfalli við jarðarinnar peningshald. Vetrarbeit bæði hæg og kjarngóð, samt þrautig.[4]

Ekki þarf að efast um að mestallt fullorðna féð var á útigangi en lömbunum hefur þurft að ætla hey og þau verið höfð á húsi yfir veturinn.

Halldóra Sigurðardóttir lést 20. febrúar 1819, 55 ára að aldri. Ekki var búið skrifað upp eftir lát hennar heldur hefur Guðmundur setið í óskiptu búi. En eitthvað hefur nú gengið á í Meðalheimi næstu misseri því árið eftir eignaðist Guðmundur barn með vinnukonu sinni frá því sumarið áður. Sú hét Bergþóra Jónsdóttir (1786-1866) ættuð úr Eyjafirði og bar þar beinin en var vinnukona á ýmsum bæjum í Húnaþingi í um tvo tugi ára. Barnið hét Jóhann (7. ágúst 1820-14. júní 1856) og ólst upp í Meðalheimi en Bergþóra hvarf þaðan á braut. Jóhann varð vinnumaður á ýmsum bæjum, síðar sjómaður í Reykjavík og síðast bóndi á Bollagörðum á Seltjarnarnesi.

Guðmundur kvæntist í þriðja sinn 5. október 1820 þáverandi ráðskonu sinni, Guðríði Guðmundsdóttur (1793-1863), sem var 27 ára að aldri en hann 57 ára. Þau eignuðust drenginn Guðmund, f. 12. nóvember 1821, d. 26. nóvember sama ár, varð 12 daga gamall, og dótturina Sigurlaugu sem fæddist 3. desember 1822 en hlýtur að hafa dáið fljótlega þótt það sé ekki skráð í kirkjubók.

Guðmundur dó 14. maí 1824 og fer Guðríður upp úr því frá Meðalheimi að Rútsstöðum sem vinnukona (33 ára) og fylgir þessi athugasemd: „Átti með manni sínum börn sem öll dóu ung.“ Síðar barst Guðríður til Reykjavíkur, giftist öðru sinni og átti þar heima til dauðadags. Sérkennileg athugasemd er við dánarfærslu Guðmundar í prestsþjónustubók Hjaltabakka. Þar segir: „Tvígiftur, átti ekkert barn nú á lífi (en annars 2) með þeirri eftirlifandi konu. Deyði af taki og blóðuppgangi, annars veikur fyrir brjósti.“

Guðmundur var raunar þrígiftur og þegar dánarbúið var skrifað upp 1. júní 1824 kemur fram, að Guðmundur átti fjögur börn á lífi en réttilegt nefnt að hann átti ekkert með síðustu konu sinni, mátti nær því segja að væri sín móðir að hverju barni. Elst voru Margrét og Jón, börn Guðrúnar Oddsdóttur, síðan kom Jóhanna dóttir Halldóru Sigurðardóttur og loks var Jóhann sonur Bergþóru.

Í niðurlagi uppskriftar af dánarbúinu í Meðalheimi segir: „Erfingjar Guðmundar sálaða eru: Jón Guðmundsson, Margrét fullorðin og Jóhanna 17 vetra, ei sammæðra, en launsonur Guðmundar heitins, Jóhann 6 vetra (1820-1856), ef hvorki getur eignast arf né uppeldi eftir föður sinn, virðist mér að erfingjarnir eigi að annast um uppfóstur hans eður standi því næstir, ei af ólíkri náttúru eins og að betala skuldir þess fráfallna.“[5]

Undir þetta rita Hannes Þorvaldsson hreppstjóri í Sauðanesi og Sveinn Halldórsson á Hnjúkum sem virðingarmaður. Uppskrift dánarbús Guðmundar hefur verið birt sem fylgiskjal með þætti nr. 45. B.

Ekki virðast hálfsystkini Jóhanns hafa lagt neitt til uppeldis hans svo nafn þessa drengs er títt skrifað í hreppsbókina næstu árin og þá gefið með honum fullt meðlag úr fátækrasjóði hreppsins, 240 fiskar árlega. Hann er lengst af í Meðalheimi en líka komið fyrir á Beinakeldu eitt ár og í Köldukinn. Fermdur er hann vorið 1834, og er þá kominn að Holti til Þorsteins Steindórssonar og Margrétar Jónsdóttur, „kann og skilur vel“ segir presturinn um hann.[6]


[1] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 3. Dóma- og þingbók 1781-1788.
[2] Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 1157.
[3] Gísli Konráðsson: Húnvetninga saga, bls. 344.
[4] Orðið er krabbað og strikað yfir nokkra stafi, gæti hafa staðið „þrautgóð.“
[5] Í Jónsbók voru erfðir raktar alveg niður í 13. erfð og ef erfingjar fundust í einhverri erfð tæmdu þeir arfinn. Í fyrstu erfð segir að skilgetin börn taki arf og þá fá óskilgetin börn sem sé ekkert. Það þurfti svo sem ekki merkilegan gerning til að festa sér konu og gera börnin eftir það skilgetin og líka þau sem viðkomandi maður hafði átt með konu fyrir gerninginn, þ.e. hann tekur í hönd hennar og festir sér hana í vitna viðurvist. Óskilgetin börn geta tekið arf ef erfingjum var ekki til að dreifa sem áttu að taka arf fyrr. Faðirinn virðist hafa getað gert þetta að vild, en ættleiðingu skv. Jónsbók, Járnsíðu etc., varð að gera með samþykki erfingjanna, þ.e. skilgetinna barna. (Tölvupóstur frá Þorsteini Hjaltasyni lögmanni 1. ágúst 2023).
[6] Sbr. Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 335 og Borgfirskar æviskrár V, bls. 157.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið