Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 30. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:15 0 0°C
Laxárdalsh. 01:15 0 0°C
Vatnsskarð 01:15 0 0°C
Þverárfjall 01:15 0 0°C
Kjalarnes 01:15 0 0°C
Hafnarfjall 01:15 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
17. maí 2024
74. þáttur. Eftir Jón Torfason
09. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Meðalheimur Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH/Björn Bergmann
Meðalheimur Torfalækjarhreppi. Mynd: HAH/Björn Bergmann
Pistlar | 04. nóvember 2023 - kl. 15:06
Þættir úr sögu sveitar: Halldóra Sigurðardóttir í Meðalheimi
61. þáttur. Eftir Jón Torfason

Langa-langa- langa-amma mín Halldóra Sigurðardóttir hefur á fullorðinsárum átt heima á tveimur bæjum. Í æsku virðist hafa verið talsverður þvælingur á föður hennar, Sigurði Jónssyni Jónssonar harða bónda, svo sennilega hefur hún nokkuð víða átt heima á yngri árum. En hún er komin að Sauðanesi 1788 og dvelur þar þangað til hún verður húsfreyja í Meðalheimi þar sem hún bjó til æviloka 1819. Ég veit sáralítið um hana og hef ekki fundið eitt einasta bréf frá henni eða neitt sem hún hefur skrifað. Veit raunar ekki hvort hún var skrifandi, en læs var hún skv. húsvitjunarbókinni og átti nokkrar guðsorðabækur.

Hún fær frekar vinsamlega ummæli í húsvitjunum prestsins, er „vinnusöm,“ „sæmilega kunnandi“ eða „sæmilega að sér“ og loks árið 1815 sögð „afhaldin kona“ sem líklega merkir að hún hafi notið nokkurrar virðingar í sveitinni.

Hún eignaðist soninn Helga með fyrri eiginmanni sínum, Guðmundi Jónssyni (d. 1802), og soninn Jón með nágranna sínum Sveini Halldórssyni á Hnjúkum árið 1804.[1] Báðir þessi drengir alast upp á hennar vegum til fermingaraldurs. Með síðari manni sínum Guðmundi Guðmundssyni eignaðist hún tvær dætur en önnur þeirra dó í barnæsku. Hún eignast sum sé fjögur börn með þremur mönnum.

Í legorðsreikningum Húnavatnssýslu fyrir árið 1804 segir, þegar kemur að því að hún og Sveinn Halldórsson þurfa að borga frillulífissekt fyrir getnað Jóns sonar þeirra: „Beggja fyrsta brot. Þau vinnuhjú á sama heimili á besta aldri. Hún er ekkja. ... Geta bæði borgað.“[2] Þetta er á síðustu árum Halldóru í Sauðanesi, en þá telur hún fram 3 hundruð í lausafjártíund. Saman tekið má túlka þetta svo að hún hafi haft nóg fyrir sig að leggja, en varla hægt að tala um mikil efni þótt hún hafi átt 10-20 kindur og einn hest.

Hún var sögð 55 ára þegar hún dó 20 febrúar árið 1819. Dánarmeinið var „tak og brjóstveiki“ sem er mun vitnisburður um lungnatæringu eða lungnabólgu.

Í uppskrift á eignum Halldóru og Guðmundar Jónssonar í Sauðanesi árið 1802[3] er talsvert af fatnaði, buxur og sokkar svartir og mórauðir og nærföt og virðist það flest í góðu lagi. Af kvenfatnaði er m.a. talin góð hempa með flossaum, metin 1 rd., 40 sk.; pils og nokkrar svuntur, ein þeirra blá með silfurhnappi. Hún á líka kraga og rauða sokka og nokkrar álnir af klæði sem er metið á 6 rd., talverð upphæð. Spurning hvort hún fékkst við saumaskap en þetta væri samt eina vísbendingin um slíkt.

En mesta athygli vekja klútarnir sem Halldóra hefur átt og eru í uppskriftinni frá 1802 a.m.k. 8 eða 9 að tölu og að auki tvær fiður, önnur blá en hin rauðþrykkt, en „fiða“ var veigalítill þunnur dúkur, skv. íslenskri orðabók. Allir þessir dúkar eru í litum, bláir, grænir, rauðir; einn með rósum, tveir með teinum, sá fjórði með skákborðum eða skáborðum og bekkjum og loks einn með dropum. Sumir hafa líklega verið heimaunnir og þá t.d. litaðir bláir en munstruðu dúkarnir hljóta að hafa verið innfluttir og sömuleiðis dýr silkiklútur sem hún átti, svo og „Damasks hálssilki.“ Sumir þessir klútar eru virkilega verðmætir, jafnvirði einnar ær sem slagaði um þessar mundir upp í árslaun vinnukonu.

Í uppskriftinni eftir seinni mann Halldóru Guðmund Guðmundsson í Meðalheimi árið 1824, að vísu 5 árum eftir að Halldóra dó, er getið nokkurra klúta og kunna einhverjir þeirra að vera frá henni komnir, þó hæpið sé að þeir hafi allir verið til 1802. En þar eru m.a. tveir silkiklútar, annar með bekkjum en hinn teinóttur, einnig fleiri viðlíka í lit og með munstri.

Það er mikið álitamál hvernig á að túlka þessa miklu klútaeign. Maður gerir ráð fyrir að í uppskriftum dánarbúanna sé allt talið, nema e.t.v. eitthvað af hversdagsfatnaði, því uppskriftirnar eru mjög nákvæmar. Ætla má að flestar konur hafi átt einn til tvo fína klúta til spari og svo tvo til þrjá til að skýla hári og andliti fyrir sól og vindi við útivinnu. Hversdags hefur varla þurft að hafa litaða klúta með munstri í því skyni. En manni virðist af þessari uppskrift frá 1802 að Halldóra hafi verið óvanalega birg af fínum klútum, svo jafnaðist á við auðugustu konur í héraðinu. Hún átti ekki mikið silfurskraut til að hengja á sig þannig að líklega hafa klútarnir litskrúðugu verið helsta skartið hennar. En hvað merkir þá að hún átti marga klúta? Var hún skartskona sem hafði gaman af að halda sér til?

Einmitt á fullorðinsárum Halldóru fóru öldur frá Frönsku byltingunni 1789 um Evrópu og bárust líka til Íslands. Þær öldur ruddu brott ýmsu gömlu og úreltu m.a. hugmyndum um misskiptingu stéttanna, eða brutu a.m.k. skörð í þær hugmyndir að slík misskipting væri „eðlilegt“ ástand. Fyrr á öldum var almúgafólki beinlínis bannað að klæða sig í litskrúðug föt heldur áttu undirsátarnir að vera í sauðalitunum. Litklæði voru bara fyrir yfirstéttina. Þetta þekkist svo sem alveg á okkar dögum í sókn auðmanna eftir hégóma sem aldrei verður fullnægt en það er þó ekki bundið í lög að verkafólk megi ekki eiga spariföt. Allt til loka 18. aldar eru íslensk yfirvöld, andleg og veraldleg, einlægt að semja tillögur um samræmdan og hófstilltan klæðaburð alþýðufólks. Rekur Lýður Björnsson sagnfræðingur nokkur dæmi þess í grein í Sögu 1983. Til dæmis velta amtmaður í Norðuramti og stiftamtmaður Íslands slíkum tillögum á milli sín árin 1791 og 1795 en það var reyndar hjáróma hjal.[4] Svo virðist sem almenningur hafi tekið hóflega mikið mark á slíkum tilskipunum eða vangaveltum, þar á meðal Halldóra Sigurðardóttir, sem hélt áfram að halda sér til hvað sem yfirvöldin rausuðu.

Í bókinni Föðurtún eru margar myndir af konum sem hafa klætt sig upp fyrir myndatöku, væntanlega oftast hjá Arnóri Egilssyni ljósmyndara á Bjarnastöðum. Þar eru áberandi klútar eða hálsslifsi, mörg býsna stór og falleg og hafa sómt sér vel, en þær myndir eru raunar frá síðari hluta 19. aldar.

Í Brandsstaðaannál gerir Björn Bjarnason góða grein fyrir klæðnaði fólks um aldamótin 1800 og breytingar á þeim og skal það ekki endurtekið hér.[5]

Þessari einkennilegu umræðu um klúta skal lokið hér með fáeinum orðum úr skemmtilegri ritgerð Kristrúnar Matthíasdóttur frá Fossi frá 1991. Frásögn hennar miðast við um síðari hluta 19. aldarinnar en hefur einnig gilt að einhverju leyti um fyrri ár:

         Lang-algengasta höfuðfat var hettuklútur, brotinn í horn og hnýttur undir kverk. Klútarnir voru stundum svo stórir að krossleggja mátti undir hökunni og hnýta aftur fyrir. Þeir voru með ýmsum litum, doppóttir og dropóttir, köflóttir og rósóttir og gjarnan mjallhvítir og þótti það fínast. Spariklútar úr silki voru þó aldrei kallaðir hettuklútar heldur höfuðklútar. Í fyrri daga þótti ekki fallegt að vera mórauður í framan, þess vegna leituðust stúlkur við að verða ekki útiteknar, létu klútinn því slúta sem lengst fram yfir andlitið, t.d. við heyvinnu og í því skyni stungu þær oft stífu bréfi innan í klútinn að framan sem einskonar skyggni.[6]

Fáein orð eru skráð beint eftir Halldóru Sigurðardóttur og má segja að með þeim tali hún beint til okkar, þótt röddina vanti. Þessi orð eru skráð í dómabók Húnavatnssýslu árið 1809 og má ætla að þau séu að mestu leyti rétt skráð eins og hún mælti þau fram. Ekki felst nein málsnilld eða speki í þeim, hún er einfaldlega að svara nokkrum spurningum í innheimtumáli sem reis út af skuld sem Schram kaupmaður á Skagaströnd taldi sig eiga í dánarbúi Halldóru Guðmundsdóttur í Klifakoti fyrir ofan Blönduós. Sú kona dó 1807 og skuldaði þá kaupmanninum 27 rd. en lítið eigulegt að finna í dánarbúinu. Varð Schram að leita til dómstólanna til að fá dalina sína innheimta. Vinnumaður eða sambýlismaður Halldóru hét Jón Jónsson og flutti strax eftir dauða Halldóru að Hrísakoti í Vesturhópi. Málflutningur kaupmannsins fólst í því að sanna að þau Jón og Halldóra hefðu lifað sem hjón og þess vegna gæti kaupmaðurinn gert kröfu í eigur Jóns upp í þessa skuld Halldóru. Niðurstaðan varð þó sú að Jón hefði verið vinnumaður Halldóru og enga kröfu væri hægt að gera í eigur hans til að greiða kaupstaðarskuldina og verður gerð nánari grein fyrir málinu síðar.

Við þetta réttarhald, sem fram fór í Bólstaðarhlíð, kom fram, eins og mjög oft í yfirheyrslum á þessum árum, að Húnvetningar voru upp til hópa afar léleg vitni, oftast höfðu þeir ekkert séð, ekkert heyrt og gátu ekkert sagt til upplýsingar í málunum, eins og þeir hafi verið haldnir einhvers konar allsherjar félagslegum athyglisbresti. Það sem haft er eftir Halldóru formóður minni er mjög í þessum anda.

Spurningarnar voru þessar, lauslega þýtt úr dönsku, en fyrir neðan koma svör Halldóru eins og þau eru skráð í dómabókina, og virðast frekar styrkja málstað kaupmannsins ef eitthvað er:[7]

            1. Veit vitnið til þess að Jón og Halldóra hafi búið saman í Klifakoti?

            2. Var Jón vinnumaður hjá Halldóru eða hún vinnukona hjá honum?

            3. Veit vitnið að ég lánaði þeim matvörur á árunum 1802-1804?

            4. Hvort þeirra var skrifað fyrir tíundinni í hreppsbókinni?

            5. Hve margar skepnur voru í Klifakoti veturinn 1806-1807?

            6. Hve margar voru þær vorið 1807 þegar Jón flutti burt?

            7. Er vitninu kunnugt um að Halldóra hafi ekki átt annað en það sem Jón vísaði fram við uppskrift dánarbús hennar?

            8. Veit vitnið til þess að Jón hafi rekið skepnur burt frá Klifakoti eða flutt verðmæti þaðan áður eða eftir að dánarbúið var skrifað upp?

            9. Veit vitnið til þess að Jón hafi geymt muni í Holti eða þar í grennd?

            10. Getur vitnið gefið einhverjar frekari upplýsingar í þessu máli?

         Halldóra Sigurðardóttir í Meðalheimi kölluð fyrir réttinn 15. júní 1809 og lagðar fyrir hana spurningar kaupmannsins:[8]

         Til 1: Það frekast ég vissi til.

         2: Það gat ég ekki vitað utan þau hjálpuðu hvört með öðru eins og þau væri hjón.

         3: Ekki get ég borið neitt í því, því ég var þá komin utan að, utan ég heyrði að hún væri ekki mikið skyldug, eftir því sem hún sagði sjálf.

         4: Það get ég ekki svarað neitt til þess.

         5: Ekki get ég neitt borið um það.

         6: Mér var það ókunnugt.

         7: Ekki get ég borið um það því ég hefi ekki séð hana eða heyrt lesna.

         8: Ég heyrði að hann hefði farið með eitthvað vestur eftir en hvað það var veit ég ekki. Ég sá eitthvað af spýtnarusli undir vallargarðinum í Holti sem honum var eignað.

         9: Er áður upplýst í næsta andsvari, en ekkert lét hann hjá mér geyma.

         10: Nei.

Ekki held ég þessi fáu orð dugi til að sálgreina Halldóru eða færi okkur mikið nær henni í anda. En hún virðist svara hreint og beint því sem um er spurt og án málalenginga. Hún hefur líka góða reiðu á því sem hún veit og veit ekki og er vissulega gott að geta greint þar á milli en því miður búa ekki allir yfir þeim eiginleika.


[1] Nokkur grein er gerð fyrir þessum bræðrum í þætti nr. 58. Sauðanes sú góða jörð.
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GB/1, örk 4.
[3] Uppskrift á dánarbúi Guðmundar Jóssonar fylgir þætti nr. 58. C.
[4] Sjá: Lýður Björnsson: „Hvað er það sem óhófinu ofbýður?“ Saga 1983, bls. bls. 88-101. Greinin er auðfundin á timarit.is. Raunar eru þeir amtmennirnir fyrst og fremst andvígir innflutningi á glysvarningi almennt og sérstaklega áfengi, en óþarfa skrúðklæði handa almenningi eru líka mjög áberandi í tillögum þeirra.
[5] Björn Bjarnason: Brandsstaðaannáll, bls. 32-36.
[6] Kristrún Matthíasdóttir frá Fossi: Sitt af hverju um hversdagsklæðnað kvenna fyrir 80-100 árum. Hugur og hönd, 1. tbl. 1992, bls. 20.
[7] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GB/2, örk 2. Letur á þessu blaði er víða máð og torvelt aflestrar.
[8] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/3, örk 2. Dóma- og þingbók 1807-1812.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið