Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Miðvikudagur, 8. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 15:31 0 0°C
Laxárdalsh. 15:31 0 0°C
Vatnsskarð 15:31 0 0°C
Þverárfjall 15:31 0 0°C
Kjalarnes 15:31 0 0°C
Hafnarfjall 15:31 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Hér sjást m.a. jarðirnar Hurðarbak, Meðalheimur og Orrastaðir. Mynd: Magnús “lafsson
Hér sjást m.a. jarðirnar Hurðarbak, Meðalheimur og Orrastaðir. Mynd: Magnús “lafsson
Pistlar | 03. desember 2023 - kl. 10:41
Þættir úr sögu sveitar: Barnaólán Magnúsar og Gróu
63. þáttur. Eftir Jón Torfason

Fyrsta ár sitt á Hurðarbaki 1795 tíundar Magnús Hálfdanarson 10 hundruð og greiða þá aðeins þrír gjaldendur hærri tíund en hann, en fimm menn tíunda sömu tölu, þ.e. 10 hundruð, en aðrir eru lægri. Magnús er því í góðu meðallagi. Næstu ár er hins vegar lausafjártíund hans svipuð en ýmsir aðrir hækka, þannig að hlutfallslega er hann kominn í fátækari hópinn og í harðindunum upp úr aldamótunum sígur tíundin niður í 6 hundruð en hækkar svo smám saman á nýjan leik, kemst upp í 15 hundruð 1809 og 17 hundruð 1814 sem var síðasta ár hans á Hurðarbaki.

Til er búnaðarframtal úr Torfalækjarhreppi 1803, frá harðindaárunum í upphafi aldarinnar. Þá eru á Hurðarbaki 2 kýr, 24 ær mylkar og 1 hrútur; 6 tamdir hestar og 2 ótamdir (merar). Heimilismenn eru þá 7, sem hafa verið Magnús og Gróa Jónsdóttir, kona hans, og börn þeirra. Heildarfjöldi kúa í hreppnum það ár var 45 sem gerir rúmar 2 kýr á bæ. Framtaldar ær voru 557 sem gerir 27-28 ær á hvert býli. Hrútar í hreppnum töldust 10 og gemlingar 26. Skv. þessum tölum voru Magnús og Gróa í slöku meðallagi en þessi bústofn ætti þó að hafa dugað til að framfæra fjölskylduna en svo sem ekkert umfram það.

Tíu árum síðar, 1814, hefur hagur allrar sveitarinnar batnað umtalsvert. Kýrnar eru þá 58 samtals í hreppnum, ærnar 1044, lömb 954, sauðir (og hrútar) 92 og veturgamalt 471. Það þýðir 3 kýr á bæ að meðaltali; um 50 mjólkandi ær og álíka mikið af lömbum og um 25 gemlingar. Sauðfé hefur því fjölgað verulega en trúlega hefur að gamalli venju verið mest treyst á útigang kinda og hrossa og því spurning hve afurðagóður þessi búpeningur hefur verið. Tíðarfar var rysjótt á þessum árum, en upp úr 1820 fór veðurfar talsvert að batna.

Á Hurðarbaki mátti nú teljast allblómlegt bú, miðað við fyrri ár og aðra hreppsbúa. Þar eru 3 kýr, tarfur og kálfur, þ.e. 5 nautgripir alls. Ærnar eru 60 og lömbin 59, veturgamalt 32 og 3 sauðir. Tamdir hestar 9 en ótamdir 6. Loks er talinn fram sáðgarður. Það er spurning hvort þessi mikli lambafjöldi þýðir það að ætlunin hafi verið að koma upp sauðahjörð því ekki þurfti að setja á nema ca. 20 lömb til að viðhald ærstofninum. Á þessum búpeningi voru framfærðar á Hurðarbaki 8 manneskjur, þ.e. hjónin og börn þeirra og ein vinnukona sem verður getið síðar.

Vorið 1815 fluttu þau Magnús og Gróa að Brekku og er ekki gott að segja hvort það var gæfuspor eða ekki því þar missa þau fljótlega 3 af börnum sínum þó ekki sé það þeirri ágætu jörð að kenna. Skv. hreppsbók Sveinsstaðahrepps er lausafjártíund þeirra í Brekku milli 12 og 13 hundruð allt til ársins 1822 sem er þeirra síðasta búskaparár áður en þau fara að Hnausum.[1]

En nú kom að endadægri sumra barna þeirra. Fyrst dó elsta barn þeirra saman, Egill Magnússon (4. maí 1792-18. nóvember 1816), sem hefur vísast átt að vera ellistoðin þeirra. Um hann segir svo í kirkjubókinni: „22 ára, í foreldra húsum. Lá aðeins 2 daga, dó af hissugu slagi. Var frískur, gagnlegur og skikkanlegur.“ Kannski hefur hann ofreynt sig eða verið veill fyrir hjarta en dauðsfallið hefur verið skyndilegt og óvænt.

Tveimur árum síðar lést eldri dóttir þeirra, Anna Magnúsdóttir (4. ágúst 1793-10. desember 1818). „Enn nú í foreldrahúsum, nýgift.“ Dánarmein er ekki tilgreint en bætt við: „Lifði í hjónabandi 3 vikur og 6 daga.“

Anna hafði giftist í Þingeyrakirkju þann 14. nóvember þetta ár og var þessi greftrun fyrsta embættisverk prestsins, séra Magnúsar Árnasonar í Steinnesi eftir að hann hafði gift þessa ungu konu. Brúðguminn var Guðmundur Magnússon, þá vinnumaður í Brekku (9. júní 1787-20. júní 1854). Guðmundur giftist síðar Soffíu Ólafsdóttur (1797, d. eftir 1869) og hefur hennar áður verið getið í þætti nr. 28 (Hreppstjórinn á Reykjum). Þau bjuggu um hríð í Króksseli út á Skaga.

Þremur árum síðar dó yngri sonur þeirra Gróu og Magnúsar, Hálfdan að nafni (17. febrúar 1795-15. júlí 1821). Hann var blindur, líklega frá fæðingu og gat ekki lært að lesa á bók. Við fermingu hans árið 1910 segir: „Kann 80 helstu lærdómsgreinir. Með ráði prófasts fermdur. Þar hann er hálfblindur gat hann ei lært á bókina.“ Þegar gerð er grein fyrir andláti hans í prestsþjónustubók Þingeyra segir: „Að mestu sjón- og heilsulaus aumingi, hjá foreldrum sínum í Brekku.“ Og um dánarmein: „Langþjáður af uppdráttarveiki og gulu meinlætum.“ Gula eða gulusótt mun merkja sullaveiki.

Yngri dóttirin, Guðrún Magnúsdóttir (4. ágúst 1796-27. september 1852), var eins og Hálfdan nærri því blind. Hún var fermd ásamt honum upp á sömu býti, þ.e. að kunna meginhluta kversins utan að en bæði eru þau eðlilega talin ólæs.

Það urðu margháttaðar breytingar á Brekku árið 1823. Gróa og Magnús virðast loksins hafa gefist upp á búskapnum, enda komin til ára sinna. Þau réðust nú sem próventufólk að Hnausum, til Jóns Ólafssonar bónda þar og munu hafa dvalið í Hnausum til dauðadags. Magnús dó haustið 1832 en Gróa lifði fram í febrúar 1837. Í próventu fólst að maður gaf eða afhenti öðrum aðila eigur sínar gegn framfæri til dauðadags. En hér hékk meira á spýtunni, blinda dóttirin Guðrún sem nú var komin um þrítugt og sýnilegt að gæti ekki unnið fyrir sér. Þótt hún hafi fylgt foreldrum sínum að Hnausum 1826 var ekki gert ráð fyrir framfæri hennar í próventugjöfinni til Jóns í Hnausum. Kemur það fram í bréfi sem Björn Blöndal sýslumaður skrifar hreppstjóranum í Torfalækjarhreppi í júní 1827.

        Enn[2] þótt ég þann 13. þ.m. skrifaði yður um ásigkomulag hjónanna Magnúsar Hálfdanarsonar og Gróu Jónsdóttur í Hnausum, samt þeirra blindu dóttur, Guðrúnar, og réði yður heldur að taka mót Guðrúnu til forsorgunar af Torfalækjarhrepps fátækra kassa og eiga von til að fá með henni á sínum tíma það sem óeytt gæti álitist af fjármunum foreldra hennar, þegar að þau falla frá ─ en þau fengu loforð um ævilanga forsorgun hjá mr. Jóni í Hnausum, hvört þau lifðu langa stund eður skamma ─ heldur en að taka nú móti öllum þessum persónum til forsorgunar af hreppnum, með þeim fjármunum er þau áttu þegar að Hnausum fluttu vorið 1823, að fenginni sanngjarnri meðgjöf ómaganna síðan að þangað komu og skuldum þeim sem á téðum fjárunum hvíldu. Segir mr. Jón mér þó, hér staddur, að þér heldur kosið hafið, að taka þessar 3 persónur með þeirra fé en ei viljað neinu af því svara í meðgjafarskyni með Guðrúnu og foreldrum hennar um næstl. 4 ár, og þar hann hafi ei getað þar í sig fundið, hafið þér engan annan viljað taka, hvörs vegna hann beiðst hefir míns úrskurðar um hvað hann skuli nú af þessum ómögum, eða sér í lagi Guðrúnu, gjöra.

        Þar ég eins lítið nú sem fyrri get álitið það Torfalækjarhrepps innbúum betra, að taka að sér alla ómagana með fjármunum þeirra, heldur en Guðrúnu eina með áður nefndum skilmálum, hvörrar meiningar ég og svo veit nú að nokkrir af skynsömustu Torfalækjarhrepps innbúum og svo eru, og þér einnin tjáist vera svo einlyndir, að ei viljið nema sanngjarnan samning við Jón gjöra um tilsvörun fyrir nefndum fjármunum, svo get ég nú samstundis ei annað hér við gjört, en ráða mr. Jóni, að flytja Guðrúnu til yðar og tilsegist yður hér með að veita henni móttöku og ráðstafa henni til framfæris af Torfalækjarhrepps fátækra kassa. Skylduð þér enn með bestu sveitarmanna ráði álíta hinn kostinn betri, vildi ég hér með óska að þér vilduð móttöku veita foreldrum Guðrúnar og því sem yður verður fram boðið og úti verður látið af fjármunum þeirra hjóna, Magnúsar og Gróu, hvar á mót ég vil tilsjá, að mr. Jón setji[3] antakanlega caution[4] fyrir því sem eftir kynni að standa óútsvarað þar til því öllu er lokið, að framreiknuðum einum 6 hundruðum á landsvísu, sem mr. Jón lofar nú að láta sér lynda í meðgjöf með oftnefndum hjónum, dóttur þeirra og syni Magnúsar um þau 4 ár, er hann hefir þau haldið, og þeim skuldum Magnúsar sem bevísanlega eru fyrir hann borgaðar.

Hannes hreppstjóri í Sauðanesi tekur þann kostinn að taka á móti Guðrúnu á framfæri hreppsins en „losna“ í staðinn alveg við aldraða foreldra hennar, Gróu og Magnús. Guðrún er á Reykjum 1827-1829 skv. hreppsbókinni, síðan á Stóru-Giljá 1830-1833, Beinakeldu 1833-1836 og loks á Akri frá 1837 til dauðadags 27. september 1852, dánarmein ekki tilgreint en hún einungis sögð „niðurseta á Akri“ í prestsþjónustubókinni. Fyrstu tvö ár þessa tímabils virðast foreldrar Guðrúnar greiða með henni en eftir það eru að jafnaði lagðir með henni 240 fiskar árlega sem mátti heita venjulegt meðlag.

Ekki er að vænta að miklar heimildir séu til um þessa stúlku sem sennilega hefur verið sjónlítil frá fæðingu og mun hafa verið alblind á fullorðins árum, þannig lifað lífinu í því myrkri sem forsjónin skapaði henni, en foreldrar hennar og systkin dáin þegar á ævina leið. En eitt kom þó fyrir, hún eignaðist dreng sumarið 1826, þá komin að Hnausum. Barnið fæddist 5. ágúst og þegar í stað brugðu menn sér yfir Kvíslina að Steinnesi þar sem ausið var vatni á drenginn og hann skírður Bjarni (5. ágúst 1826-26. apríl 1906). Málið var svolítið snúið því faðirinn, Bjarni Sigurðsson (1796-1862), hafði verið vinnumaður í Brekku um veturinn en kvænst þetta vor, 21. maí 1826, Sigríði Jónsdóttur (14. september 1789-1859) sem var þá vinnukona í Vatnsdalshólum. Við skírnina segir um Bjarna í prestsþjónustubókinni: „Nýgiftur bóndi á Spákonufelli“ og síðan í dálki um burtvikna að hann sé fluttur að Spákonufelli, „giftist og reisti búhokur.“

Þau Bjarni og Sigríður voru aðeins eitt ár á Spákonufelli, virðast hafa fellt fénað sinn um vorið og hröktust eða fluttu síðan yfir í Skagafjörð þar sem þeim farnaðist betur, bjuggu þar lengi á Breiðstöðum í Gönguskörðum.[5] Sigríður Jónsdóttir var alin upp á Hæli hjá móðursystur sinni, Sólveigu Jannesdóttur (f. 1747) og Þórarni Guðbrandssyni (f. 1745) manni hennar og er nefnd í þætti nr. 48 (Næstu ábúendur á Hæli).

Hér átti fátækt fólk hlut að máli svo framfæri Bjarna litla Bjarna- og Guðrúnarsonar lenti á Sveinsstaðahreppi því þar var hann fæddur. Sýslumaðurinn veitti úrskurð um sveitfesti Bjarna í byrjun júlí 1827 og voru greiddir 220 fiskar með honum það ár og um 240 fiskar árlega upp frá því. Það kemur líka fram í hreppsbókinni að Guðrún móðir Bjarna greiðir 20 fiskar til framfæris barni sínu árið 1826, en meira megnaði hún ekki, og Bjarni Sigurðsson virðist aldrei hafa greitt neitt með honum.[6]

Bjarni Bjarnason er lengst af niðursetningur á Hnausum og fermist þaðan vorið 1840 með ágætum vitnisburði um kunnáttu og hegðun. Hann varð síðar bóndi á Bjarnastöðum og víðar, kvæntur Önnu Davíðsdóttur (1831-1919) og er nokkur fjöldi afkomenda frá þeim kominn.[7] Skv. húsvitjunarbókinni hefur Bjarni aldrei dvalist á sama bæ og Guðrún Magnúsdóttir, hin blinda móðir hans, nema e.t.v. fyrsta árið.

Fyrr er þess getið að Þórunn Egilsdóttir Einarssonar (1790-1850) og Gróu Jónsdóttur komst upp en hún flutti suður á Seltjarnarnes, giftist þar og eignaðist afkomendur (Þáttur nr. 53. Holt. Liggur við sólu).


[1] Héraðsskjalasafnið á Blönduósi. Sveinsstaðahreppur, nr. 206. Hreppsbók 1790-1832.
[2] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu C/3. Til hreppstjóra Torfalækjarhrepps 27. júní 1827, bréf nr. 1973.
[3] Óljóst.
[4] Þ.e. trygging.
[5] Um Bjarna Sigurðsson, sjá Skagfirskar æviskrár 1850-1890 V, bls. 35-37. Í bréfabók sýslumanns í Húnavatnssýslu 1825-1829 (C/3) eru tvö bréf (rituð vorið eða snemma sumars 1827, nr. 1969 og 1970) um uppflosnun Bjarna frá Spákonufelli, sem virðist hafa fellt allt sitt fé og vera kominn á vonarvöl.
[6] Héraðsskjalasafnið á Blönduósi. Sveinsstaðahreppur, nr. 206. Hreppsbók 1790-1832.
[7] Svava Sigurðardóttir, tölvupóstur 7. júlí 2023.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið