Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 22. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 22:16 0 0°C
Laxárdalsh. 22:16 0 0°C
Vatnsskarð 22:16 0 0°C
Þverárfjall 22:16 0 0°C
Kjalarnes 22:16 0 0°C
Hafnarfjall 22:16 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Hér sjást m.a. jarðirnar Hurðarbak, Meðalheimur og Orrastaðir. Mynd: Magnús Olafsson
Hér sjást m.a. jarðirnar Hurðarbak, Meðalheimur og Orrastaðir. Mynd: Magnús Olafsson
Pistlar | 16. desember 2023 - kl. 16:34
Þættir úr sögu sveitar: Þríhyrningur á Hurðarbaki
64. þáttur. Eftir Jón Torfason

Nú skal horfið nokkuð til baka, til ársins 1810. Fram til þess virðast þau Magnús og Gróa hafa unnið ein fyrir búi sínu á Hurðarbaki, en vorið 1810 er skráð vinnukona á bænum, Ingibjörg Hannesdóttir. Þetta hlýtur að vera misritun fyrir Málfríði Hannesdóttur (1766-3. janúar 1840) því næsta haust, 17. september, fæddist drengur á heimilinu sem var gefið nafnið Bjarni, foreldrar voru skráðir Magnús Hálfdanarson og Málfríður Hannesdóttir vinnukona á bænum. Guðfeðgin voru Gróa Jónsdóttir á Hurðarbaki og Jón Finnsson bóndi á Húnsstöðum.

Mjög líklega hefur Bjarni litli verið skírður heima því nærtækt er að ætla að Jón Finnsson hafi verið fylgdarmaður séra Halldórs Ámundasonar á Hjaltabakka upp að Hurðarbaki. Það var brýnt að skíra börn sem allra fyrst eftir fæðingu, helst sama dag eða daginn eftir því börn voru samkvæmt lögmálinu undirorpin erfðasyndinni eins og allt mannkyn frá dögum Adams og Evu. Presturinn hefur þá ekki treyst sér til að fara einsamall, þótt leiðin sé ekki ýkja löng, og fengið nágranna sinn Jón á Húnsstöðum sér til fylgdar. E.t.v. hefur verið leiðinlegt veður.

Fæðing þess barns varð til þess að raska ró yfirvalda í Torfalækjarhreppi um stundarsakir og var í framhaldinu stofnað til réttarhalds á Stóru-Giljá, heimili sýslumannsins Sigurðar Snorrasonar. Er einfaldast að láta málsskjölin tala:

        Anno[1] 1812, þann 9. maí, setti sýslumaður S. Snorrason extrarétt að heimili sínu Stóru-Giljá með tveimur undirskrifuðum eiðsvörnum þingvitnum. Var svo í réttinn lögð stefna undir sýslumannsins hendi af 6. maí, hvar með stefnast til að mæta hér fyrir rétti í dag Magnús bóndi Hálfdanarson á Hurðarbaki, samt vinnukona hans, Málmfríður Hannesdóttir ─ með hverri hann (giftur maður) næstliðið sumar nær hausti barn átti ─ til að takast undir yfirheyrslu í þessu þeirra barneignarmáli m.m., eftir því sem stefnan, lesin og auðkennd litra A, með sér ber.

        Framar var í réttinn lagður útdrátt af viðkomandi prófastsins þar um gjörðri ávísan til sýslumannsins af 18. febrúar þ.á., eftir það sem hann, lesinn og auðkenndur litra B, útvísar. Báðar þær innstefndu persónur mæta eftir stefnunni og játa sig með hana ánægða.

        Var svo Málmfríður fyrir réttinum aðspurð:

        1. Áttir þú barn á næstl. hausti? Sv. Já.

        2. Hvörn lýstir þú þá föður að því? Sv.: Magnús Hálfdanarson húsbónda minn og segi það sama enn nú móti hvörju hann ekki mælt hefir.

        3. Ertu ekki ógiftur kvenmaður? Sv. Ójú, og þetta mitt fyrsta barneignarbrot. Meira var hún ekki spurð en þessa sína meðkenning játar hún rétt innfærða.

        Magnús fyrir réttinum nærstaddur tjáir sig að öllu leyti kannast við þessa barnsfaðernislýsingu Málmfríðar upp á sig og játar sig föður að þessu barni Málmfríðar, án þess hann hafi nokkra grunsemi um að þar við þurfi nokkrum öðrum að dreifa og segist enda forsvara hana fyrir öllum öðrum frekari skýrslum. Gerði hann ekki[2] hér um og var ekki heldur álitin nauðsynleg. En til sannindamerkis um að Málmfríður hafi með ljúfum vilja konu sinnar, Gróu Jónsdóttur, verið á heimili sínu næstliðið haust og enda eftir beiðni hennar, fram leggur hann seðil undir hennar nafni, skrifaðan í gærdag af öðrum stefnuvottanna, sem fyrir réttinum lesinn, auðkenndur litra C. Framar ber Magnús fyrir réttinum, sem hann óskar tilfærist í prótokollinn, að kona sín, Gróa, hafi heilsuleysis hennar vegna leyft sér að taka sér kvenmann „hvar sem ég vildi, sem ekki væri sér lakari þar hún ekki geti fullnægt þeim hjónabandsins skyldum sem séu þó einn þess tilgangur aðal, eður barnlagnaður.“[3] En vegna þess að Magnús ber konu sína fyrir þessu er þessa máls frekari meðferð á frest slegið til næstk. mánudags eður þess 11. maí og Magnús skyldur til að láta konu sína þá vera þar til staðar svo framarlega það með nokkru móti skeð getur vegna hennar heilsu lasleika.

        Actum ut supra.

        S. Snorrason, Ólafur Björnsson, Björn Björnsson

Vitnisburður Gróu er dagsettur daginn áður og er spurning hvor stefnuvottanna hefur stílað hann. Annað hvort Ólafur Björnsson, þ.e. Mála-Ólafur á Beinakeldu og Litlu-Giljá og oft er getið á þessum blöðum, eða þá, og væri líklega frekar við hæfi, Björn Björnsson sem þá bjó á Hæli og „rataði í“ sömu villu og Magnús Hálfdánarson þremur árum síðar, að eiga barn með vinnukonu sinni og frá er sagt í þætti nr. 48 (Næstu ábúendur á Hæli). Bréf Gróu er þannig:

        Þar[4] ég hefi orðsakast til, vegna tilfallandi báginda minna, sérdeilis heilsuleysis míns og margra annarra báginda vegna, Málmfríði barnsmóður Magnúsar míns, að halda, sem hefur einasta fyrir mínar tillögur orðsakast, að hún hefur hér dvalið, því ég veit fyrir víst að ég hefði ómögulega getað fengið í umskiptum mér eins hentuga og þægilega í öllum verkum og væri mér allra kærast að hún mætti lengur hjá mér vera.

        Hurðarbaki þann 8. maí 1812.

        Gróa Jónsdóttir

        Framlagt og lesið fyrir extrarétti að Giljá, þann 9. maí 1812, markast litra C, testerar S. Snorrason

En sýslumaður hélt fast á málum og krafðist þess að Gróa mætti til réttarhaldsins með bónda sínum tveimur dögum síðar, en Málfríður vinnukona hefur þá væntanlega verið heima og gætt bús og barna. Raunar virðist Gróa hafa verið sæmilega ferðafær:

        Anno[5] 1812, þann 11. maí, setti sýslmaður S. Snorrason einn extarétt að heimili sínu, Stóru-Giljá, með tveimur undirskrifuðum eiðsvörnum þingvitnum, í því sama máli sem hér var fyrir rétti höndlað um þann 9. þ.m. Fyrir réttinum mætti bóndinn Magnús Hálfdanarson á Hurðarbaki ásamt með konu sinni, Gróu Jónsdóttur. Var henni svo af prótokollinum upplesinn framburður Magnúsar fyrrnefndan dag, við hvað hún og að öllu leyti kannast og tjáir það ekki af honum ofhermt upp á sig. Tjáir hún [sig] sextuga að aldri og að 16 ár séu síðan hún hafi átt barn seinast:

        „Hefi ég lengi,“ segir hún, „verið lasburða til heilsu, um næstl. 3 ár langaumust svo ég þá[6] eitt sinn hélt, að ég gæti ekki komist ofan úr rúminu; í vetur líka oft svo að ég ei hefi getað komist fyrir rúmstokkinn. Og ég fyrir mitt leyti vildi fegin að Málmfríður mætti kyrr vera, hvað ég hefi látið prestinn sr. Halldór vita, því ég veit ekki fyrir víst hvört ég get fengið aðra í hennar [stað] sem mér væri jafntrú og hentug sem hún, og vildi líka undirkasta sig örðugleika og bágindum hjá okkur. Líka er hún sjálf skyldist til að hafa fyrir barni sínu, og Málmfríður hefði strax í fyrra haust burtu farið hefði það ekki verið á móti mínum vilja því Magnús m.[7] hefði ekki staðið þar á móti, en þá gat ég líka enga fengið í hennar stað til að hafa fyrir barninu, svo það hefði mátt verða byrði fyrir hreppinn að útvega því samastað. En skiptin[8] stóðu hvörgi opin á henni með barnið á hendi; með henni barnlausri fortek ég ekki að þau hefðu getað fengist en þar væri[9] ekkert með þént. Ég var líka svo bernsk að ég þenkti ekki að ég ætti að straffast með að missa hana úr vistinni fyrir þessa skuld fyrr en á krossmessunni, þá vissi ég reglulegan tíma fyrir hana að ganga úr vistinni. En óska ég enn sem fyrr, að Málmfríður barns síns vegna mætti hjá okkur kyrr vera á meðan það lifir og fyrirhöfn er að því. Hvörki Magnús né hana álít ég neitt hafa á móti mér brotið, svo sem ég hafði honum eitt sinn leyfi þar til gefið.“

        Þessi framburður var Gróu upp lesinn og játar hún hann rétt innfærðan.

        Þar af hlutaðeigenda [h]álfu ekki var frekara framfært var sökin til dóms upp tekin og hann því að tíma liðnum fyrir réttinum afsagður. Dómurinn er orðrétt innfærður í dómprótókollinum en hans atkvæði hljóðar svoddan:

        Dæmist því rétt vera:

        Magnús Hálfdanarson á Hurðarbaki, eigingiftur maður, skal fyrir meðkenndan hórdóm í fyrsta sinni betala þær við þessu broti liggjandi lagasektir með níu ríkisdölum til þessarar sýslu sakafallskassa og þar hjá tvo ríkisdali til sakafallskassans, samt barnsmóðir hans, Málmfríður Hannesdóttir, sína frillulífissekt með 18 álnum. Þetta hvortveggja eftir kóngsbréfum frá 25. júlí 1808, & 10, allt samanb. við Stóradóm af 1565. Þar hjá til skyldast Magnús að rýma sóknina frá barnsmóður sinni, Málmfríði, ella útvegi henni viðunanlegan samastað utan Hjaltabakkakirkju sóknar, eftir tilskipaninni frá 3. júní 1746, & 12, undir 1 marks útlát fyrir hvörn dag hann kann frá þeim 6. júní næstk. Ef hann rýmir, sitji hann samsóknar.[10]

        Fyrir stefnufarir og til þingvitna betali hann 64 sk. Það ídæmda lúkist innan 15 daga frá þessa dóms löglegri auglýsing undir aðför eftir lögum.

        Dómurinn var fyrir réttinum opinberl. upplesinn og játar Magnús sig með hann ánægðan vera, bæði fyrir sig og barnsmóður sína.

        Actum ut supra.

        S. Snorrason, Ólafur Björnsson, Illugi Halldórsson

Að greiddum þessum sektum hefur því réttlætinu verið fullnægt. Því skilyrði, að Málfríður færi úr Hjaltabakkasókn, var líka fullnægt því næstu tvö ár var hún heimilisföst á Beinakeldu og þar næst á Hæli, síðar nokkur ár á Torfalæk, en Bjarni litli óx upp á vegum föður síns. Ekki er löng bæjarleið frá Beinakeldu að Hurðarbaki og enn styttra frá Hæli, ef aðilar málsins hefðu haft áhuga á að hittast, en þetta dugði því Torfalækurinn skipti milli Hjaltabakka- og Þingeyrasókna.

Gróa fékk ekki nýja vinnukonu sér til aðstoðar eftir að Málfríður fór og fám árum síðar fluttu þau Magnús að Brekku eins og rakið var í síðasta þætti. Þá bregður svo við að Málfríður gerist á nýjan leik vinnukona hjá þeim hjónum, á árunum 1821-1823, síðustu árin sem Gróa og Magnús bjuggu þar, og virðist ekki hafa verið fundið að því, hvorki af geistlegum né veraldlegum yfirvöldum sóknar og sveitar, enda mun kapp yfirvalda á að stía sundum slíku „brotafólki“ eitthvað hafa verið farið að minnka.

Málfríður var dóttir Hannesar Jónssonar harðabónda Jónssonar, sem bjó í Holti og áður hefur verið getið. Hún var vinnukona á mörgum bæjum og síðast húskona í Sauðanesi (1829-1833), Brekku (1833-1837) og loks Brekkukoti (1837-1839) en hún lést 3. janúar 1840 og mun hvíla í Þingeyrakirkjugarði.

Bjarni Magnússon (1811-1879) var vinnumaður alla ævi, mest í Vatnsdal, m.a. Flögu og Kornsá. Hann eignaðist einn son, Stefán Bjarnason (1848-1929) sem flutti síðar til Grindavíkur en á ekki afkomendur.[11]


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/3, örk 2. Dóma- og þingbók 1807-1812. Skriftin er afar smá og víða fremur torlæsileg.
[2] Letrið er máð og torlæsilegt en verður helst lesið svona.
[3] Stendur svona í dómabókinni og mun merkja „barngetnað.“
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GB/2, örk 6.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/3, örk 2. Dóma- og þingbók 1807-1812, bls. 269.
[6] Orðið „þá“ yfirstrikað en „da“ ritað í þess stað en virðist ekki til bóta!
[7] Á væntanlega að vera „minn.“
[8] Þ.e. vistaskipti Málmfríðar.
[9] Óljóst, helst virðist standa „var væri.“
[10] Letur er hér mjög smátt og máð, verður helst lesið svo. En átt er við að Magnús þurfi að borga dagsektir eftir 6. júní ef Málmfríður er þá ekki farin af heimilinu.
[11] Tölvupóstur frá Svövu Sigurðardóttur 7. júlí 2023.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið