Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Miðvikudagur, 8. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 19:57 0 0°C
Laxárdalsh. 19:57 0 0°C
Vatnsskarð 19:57 0 0°C
Þverárfjall 19:57 0 0°C
Kjalarnes 19:57 0 0°C
Hafnarfjall 19:57 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Hér sjást m.a. jarðirnar Hurðarbak, Meðalheimur og Orrastaðir. Mynd: Magnús Olafsson
Hér sjást m.a. jarðirnar Hurðarbak, Meðalheimur og Orrastaðir. Mynd: Magnús Olafsson
Pistlar | 30. desember 2023 - kl. 17:43
Þættir úr sögu sveitar: Batnandi hagur á Hurðarbaki
65. þáttur. Eftir Jón Torfason

Þegar Magnús Hálfdanarson og Gróa Jónsdóttir fluttu frá Hurðarbaki að Brekku vorið 1815 kom í stað þeirra systir Magnúsar, Svanborg Hálfdanardóttir (f. 1777), alin upp í Brekkukoti og er síðan vinnukona á ýmsum bæjum í Þinginu, m.a. Hnausum og Þingeyrum. Hún er talin fyrir búi hér árið 1815 skv. hreppsbók Torfalækjarhrepps tíundar 12 hundruð þetta ár. Því má ætla að hún hafi haft töluverðan bústofn en samt virðist hún aðeins hafa einn aldraðan vinnumann, Guðmund Þorkelsson að nafni (1743-1815) en Guðmundur dó strax um haustið, 22. september 1815, „75 ára, vinnumaður. Elliburðir og sjörbutisk veiki.“ Þar mun átt við skyrbjúg.[1]

Ekki dugði Svanborgu að vera ein svo til hennar réðst ungur ráðsmaður frá Fjalli í Skagafirði, Björn Árnason (1790-1838) Helgasonar af harðabóndaætt. En það virðist hafa orðið stutt í búskap Svanborgar á Hurðarbaki og í raun óvíst hvort hún var „sjálfstæður“ bóndi, hefur líklega  frekar verið eins konar ráðskona eða umsjónarmaður með búi á Hurðarbaki. Björn Árnason kvæntist Björgu Þorkelsdóttur, flutti fram í Rugludal og síðar að Kálfárdal og bjó þar til 1832 að hann flutti að Sólheimum í Glaumbæjarsókn í Skagafirði.[2] Ekki er alveg ljóst hvar Svanborg hélt sig þessi árin, en 1830 er hún komin í Kálfárdal til Björns og Bjargar, 62 ára að aldri og titluð próventukona, þ.e. hún hefur látið þeim Birni í té eigur sínar gegn framfærslu til dauðadags. Svanborg var í Sólheimum í Glaumbæjarsókn a.m.k. til 1835.

Eftir brottför Svanborgar og Björns Árnasonar komu hér hjónin Guðmundur Jónsson (1771-10. júní 1821) og María Grímsdóttir (1758-1817), bjuggu áður lengi á Marðarnúpi. Með þeim komu tvö fósturbörn. María dó 16. desember 1817 „af langvarandi heilsuveiki,“ segir í prestsþjónustubókinni.

Eftir það brá Guðmundur búi og flutti vestur í Miðfjörð og bar þar beinin. Fósturdóttirin, Gróa Jósefsdóttir (1803-1871) varð húsfreyja í Öxl og m.a. formóðir Þuríðar Sæmundsen á Blönduósi. En fóstursonurinn, Bjarni Ólafsson (1799-27. ágúst 1848), flutti síðast suður í Borgarfjörð, er t.d. til heimilis á Vestra-Miðfelli Saurbæjarsókn í Hvalfirði árið 1845, titlaður: „Ógiftur vetrungur, lifir af kaupavinnu og fiskafla.“

En nú (1817) kom alveg nýtt fólk að Hurðarbaki og bjó hér lengi. Það voru Kristján Brandsson (4. júlí 1787-16. september 1847), Kjafta-Brandsson, og Sólveig Jónsdóttir (1799-10. júlí 1853). Hennar er getið í þætti nr. 7 (Jón og Guðrún á Kagaðarhóli) og fylgdi henni fóstra hennar og nafna Sólveig Bjarnadóttir og átti hér heimili til dauðadags 15. apríl 1843.

Kristján var vinnumaður hjá Hannesi Hannessyni á Orrastöðum, næsta bæ við Hurðarbak um 10-12 ára skeið, sjá þátt nr. 36 (Hannes og Björg á Orrastöðum). Á vinnumannsárunum á Orrastöðum vann Kristján ötullega að grjóthleðslu og ýmsum öðrum jarðabótum með Hannesi bónda. Líklegt er að hann hafi haldið því áfram á Hurðarbaki.

Árið 1821 skrifar Kristján undir byggingarbréf fyrir jörðinni Hurðarbaki[3] þar sem eru ýmis ákvæði um að hirða vel um jörðina, en forvitnilegt er að sjá hver leigan er:

        Hér með byggi ég undirskrifaður bóndanum Kristjáni Brandssyni Þingeyraklaustursjörðina Hurðarbak upp á fylgjandi skilmála.

        1. Betalist árlega í landskuld í fardögum heim hingað eða fyrir vanalegan lestaferðartíma 9 fjórðungar ullar, tólgar, smjörs eða 9 kindur veturgamlar vel útlítandi, í 90 álnir; og 15 pör sokka í 30 álnir. Til samans 1#.

        2. Taki með jörðunni í leigubúið 2 á henni verandi kúgildi, hvar af svarist vanaleg leiga heim hingað fyrir veturnætur.

        [Síðan aðrir nánast staðlaðir skilmálar].

        Þingeyraklaustri 10. janúar 1821, Björn Olsen

        Framan og ofanskrifaða skilmála lofa ég að halda, Kristján Brandsson

Í gjaldabók Þingeyraklausturs er hægt að sjá með hvaða afurðum Kristján greiddi landskuldina árið 1824 og með líkum hætti var greiðslan næstu ár. Þann 21. maí 1824 afhenti Kristján heim á Þingeyrum:

          30 pund smjörs = 30 álnir.

          20 pund hvít ull = 20 álnir.

          10 pund mislit ull = 10 álnir.

          28 pund tólgar = 28 álnir.

          Í sokkum = 32 álnir.

Þetta gerir 120 álnir = 1 hundrað. Að auki voru leigur eftir 2 kúgildi, greiddar í smjöri, upp á 40 álnir. Hafa þá verið 40 pund smjörs.[4]

Skv. tíundaskýrslum hreppsins er bú Kristjáns og Sólveigar frekar smátt í fyrstu, þau tíunda 5-6 hundruð 1817-1819 en upp úr því hækkar tíundin upp í rúm 10 hundruð og er komin í 12-14 hundruð á fjórða áratug aldarinnar. Eftir það lækkar lausafjártíund þeirra Hurðarbakshjóna heldur og er í kringum 10 hundruðin til æviloka Kristjáns 1847. Á þessum árum er meðaltal lausafjártíundar í hreppnum 13-14 hundruð þannig að bú þeirra Kristjáns og Sólveigar er heldur fyrir neðan meðaltal annarra búanda í hreppnum en þó ekki svo miklu nemi, og við „eðlilegar“ aðstæður ætti þessi bústofn að duga til að framfæra þær 7-9 manneskjur sem voru á heimilinu.

Frá síðustu æviárum Kristjáns Brandssonar eru til nokkrar búnaðarskýrslur, sú fyrsta frá 1836. Þá eru á Hurðarbaki 3 kýr og má sú kúatala heita stöðug næsta áratuginn. Tamdir hestar eru að jafnaði 4 en ekkert stóð, sum árin eru talin fram 2-3 önnur hross (ótamin). Hins vegar er talsverður breytileiki þegar kemur að sauðfénu. Ærnar eru 50 árið 1836 en þeim fækkar í 36 árið eftir og 34 árið 1838. Síðan fjölgar ánum upp í 40 1839 og fara ekki undir þá tölu síðan. Það er spurning hvort eitthvert áfall hefur dunið yfir sveitina þessi ár, 1837-1838. Lambatalin er nokkuð stöðug, um 40 lömb eru sett á vetur hvert ár sem ætti að duga vel til að viðhalda ærstofninum, en vísast hefur verið gert ráð fyrir talsverðum afföllum vegna fjárpesta (og e.t.v. horfellis).

Í búnaðartöflunum er alla tíð svolítil óregla á því hvernig geldfé er talið fram, þ.e. sauðir, hrútar og veturgamalt fé. Sauðir tveggja vetra og eldri eru líklega milli 15 og 20 á Hurðarbaki flest þessi ár (þ.e. 1836-1839) og veturgamlar gimbrar álíka margar en tala þessa penings sveiflast jafnan nokkuð til milli ára. Yfirlit um búfjárframtal Kristjáns og Sólveigar 1836-1848 fylgir með í viðhengi (ekki þó samfellt því það vantar sum árin).

          Frá árinu 1842 er til úttekt bæjarhúsa á Hurðarbaki, gerð þá um haustið:[5]

1      Baðstofa, 10 álnir á lengd, 3 3/4 alin á breidd. Með 8 stoðum, 4 bitum, 4 sperrum, lausholtum í 2 stafgólfum mestallt langreft. Hurð á járnum við dyrastafi. Allur viður hússins er gamall og lélegur. Veggir eru gamlir, þak brúkanlegt. Álag 20 rd.

2      Göng frá baðstofudyrum til útidyra 11 álnir á lengd, manngeng. Þver- og langreft. Fyrir útidyrum er sín fjöl hvors vegar, fjalir fyrir ofan dyr, hornstafir og aurslá, biti og sperrur, hurð á járnum við dyrastafi með járnloku, klinku og höldu. Álag 4 rd.

3      Búrhús, 8 álnir á lengd, 3 1/4 alin á breidd. Með 2 bitum, 4 stoðum undir, dvergar á og aukinn mæniás, sperruraftar beggja megin og mest þverreft. Hurð á járnum við dyrastafi, krókur í hurð og kengur í staf. Veggir stæðilegir, þak gott. Álag 4 rd.

4      Eldhús, 6 álnir á lengd, 3 1/4 alin á breidd. Með 2 bitum og styttum undir, dvergum á bitum undir 2 ásum, þver- og langreft. Veggir brúkanlegir, þak brunnið. Álag 2 rd.

5      Fjós yfir 5 naut. 2 stoðir undir 1 ás. Þver- og langreft báðu megin. Hurðir tvær við tvenna dyrastafi, báðar á járnum. Ranghaldi til tóftar, þverreftur. Veggir og þak brúkanlegt. Álag 4 rd.

6      Smiðja, 4 álnir á lengd, 3 álnir á breidd. Einlægur mæniás, lang- og þverreft báðu megin. Hurðarflak á járnum við dyrastafi. Veggir stæðilegir, þak brúkanlegt. Álag 1 rd.

7      Innstæðuhús yfir 20 kindur. 8 stoðir, 2 ásar, þverreftur mænir, þver- og langreft beggja megin. Garðastokkar og hurð við dyrastafi, kengir í stöfum. Veggir gamlir, þak lélegt. Álag 4 rd.

        Í allt 39 rd.

        Jörðunni fylgja 12 ær í innstæðu.

Baðstofan er hátt í 7 metrar á lengd en fremur mjó, rúmir 2 metrar á breidd, í þremur stórum stafgólfum að því er virðist. Hún er því í sjálfur sér nógu stór, miðað við það sem venja var um þessar mundir, en virðist orðin afar léleg og þarfnast endurbóta því á hana er gert talsvert álag. Önnur bæjarhús eru í vanalegri stærð og annars staðar gerðist og munu í þokkalegu standi miðað við álagið sem á þau er gert.

Kristján Brandsson lést haustið 1847 og var dánarbúið gert upp 29. febrúar 1848. Til skipta[6] komu 511 rd. en að frádregnum skuldum upp á 81 rd. skiptu erfingjarnir með sér 429 rd., 35 sk. Þar af fékk ekkjan, Sólveig Jónsdóttir, helminginn; bræðurnir Jón, þá orðinn bóndi í Meðalheimi, og Jónas Kristjánssyni fengu andvirði 48 rd., 41 sk.; en dæturnar fjórar, Sólveig, Sigurbjörg, Lilja og Rósa fengu 24 rd., 21 sk. hver í sinn hlut. Arfur systkinanna var greiddur í kindum, sauðum og hestum; fatnaði og bókum en ljóst að Sólveig hélt kúnum fyrir sig og líklega meginhluta fjárstofnsins.

Hún stóð áfram fyrir búi á Hurðarbaki og fékk Tómas Jónsson frá Smyrlabergi sem ráðsmann eða „fyrirvinnu“ eins og það er orðað í manntalsbókum. Börn hennar og Kristjáns voru nú að fullorðnast og verður gerð grein fyrir þeim síðar.

Um annað fólk á Hurðarbaki er í raun ekki mikið að segja. Sólveig Bjarnadóttir, fóstra Sólveigar húsfreyju, er hér til dauðadags 1843 og Brandur Brandsson, faðir Kristjáns, er hér nokkur síðustu ár sín en hann lést 11. september 1826.

Á þessum tæpu 30 árum eru ekki annað aðkomið vinnuafl á Hurðarbaki en tvær vinnukonur, Rósa Brandsdóttir (1801-4. maí 1857), systir Kristjáns kemur 1820 og er til 1822 eða 1823. Flutti síðar út í Engihlíðarhrepp og giftist þar en virðist ekki hafa eignast afkomendur.

Hin vinnukonan, sem var hér frá 1827-1837, var bóndadóttir frá Meðalheimi, Jóhanna Guðmundsdóttir (1806-1870), dóttir Guðmundar Guðmundssonar og Halldóru Sigurðardóttur, sjá þátt nr. 61 um Meðalheim.

Hér er ekki langt á milli bæja og svo fór að Jóhanna eignaðist barn með Kristjáni nokkrum Ólafssyni (1778-24. september 1845) sem þá var giftur húsmaður í Meðalheimi. Hann var ættaður af Ströndum en var um langt skeið húsmaður á ýmsum bæjum í Torfalækjarhreppi, síðast á Skinnastöðum. Barnið var Margrét (18. desember 1831-24. desember 1908), virðist í fyrstu hafa verið á vegum föður síns en var síðar á vegum móður sinnar eftir að hún giftist. Margrét fór til Vesturheims 1888, varð síðar húsfreyja þar á Gimli. Nú bregður svo við að ekki er reynt til að stía foreldrunum sundur, Kristjáni og Jóhönnu, þau eru áfram í sömu sókn eins og ekkert sé. Þess er þó að gæta að vorið 1823 var gerð sú breyting á lögum og reglum að ekki væri nauðsynlegt að aðskilja brotlega eða reka annan aðilann, venjulega vinnukonuna (!), úr sókninni, m.a. vegna þess að sá aðili gæti farið á bæ í næstu sókn sem væri í einnar eða tveggja bæjarleiða fjarlægð.[7]

Jóhanna Guðmundsdóttir giftist síðar Friðriki Þorsteinssyni og bjuggu þau á Skeggjastöðum, Spákonufellskoti og Tjarnarseli á Skaga (Vindhælishreppi). Þau brugðu búi 1868 og Jóhanna fór í vinnumennsku að Balaskarði þar sem hún dó 11. apríl 1870. Þau eignuðust tvö börn sem upp komust.


[1] Tölvupóstur frá Erlu Dóris Halldórsdóttur 23. júlí 2023.
[2] Sbr. Skagfirskar æviskrár 1850-1890 IV, bls. 174-175.
[3] ÞÍ. Skjalasafn umboðanna. Þingeyraklaustur VIII, 1. Byggingarbréf 1814-1854.
[4] ÞÍ. Skjalasafn umboðanna. Þingeyraklaustur IV, 1. Gjaldabók 1824-1836.
[5] ÞÍ. Skjalasafn umboðanna. Þingeyraklaustur VII, 6. Úttektir 1842 og 1843.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/5. Skiptabók 1847-1850, bls. 93-95.
[7] Sbr. Lovsamling for Island VIII, 3. og 21. maí 1823.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið