Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 9. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 00:26 0 0°C
Laxárdalsh. 00:26 0 0°C
Vatnsskarð 00:26 0 0°C
Þverárfjall 00:26 0 0°C
Kjalarnes 00:26 0 0°C
Hafnarfjall 00:26 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Jörðin Smyrlaberg á Ásum. Mynd: Skjáskot af Google Earth.
Jörðin Smyrlaberg á Ásum. Mynd: Skjáskot af Google Earth.
Pistlar | 14. janúar 2024 - kl. 11:20
Þættir úr sögu sveitar: Bjartsýni í öskumóðu
66. þáttur. Eftir Jón Torfason

Smyrlaberg var í eigu ýmissa „eignaætta“ eins langt aftur og séð verður en um miðja 18. öld var jörðin komin í eigu séra Ólafs Stefánssonar á Höskuldsstöðum, ættföður Stephensenættarinnar. Var eignarbréf hans fyrir jörðinni frá 8. október 1747 lesið upp á manntalsþingi á Tindum vorið 1748.[1] Að honum látnum (1748) komst jörðin í hendur yngsta barns hans, Sigurðar Stefánssonar (1744-1798) sem varð m.a. prestur á Helgafelli og prófastur á Snæfellsnesi, og loks biskup á Hólum í Hjaltadal, síðastur biskupa í hinu gamla Hólabiskupsdæmi.

Ýmsir leiguliðar sátu jörðina á 18. öldinni, sumir lengi en eftir Heklugosið 1766 og fjárfelli vegna fjárkláðans fyrri ─ geisaði um stóran hluta landsins milli 1760 og 1780 ─ virðist búskap hafa hrörnað og jörðin mun í eyði 1780-1781. Landskuldin, landleigan, var 100 álnir sem var viðlíka og á öðrum jörðum í hreppnum, en jörðinni fylgdu 5 ½ leigukúgildi og þýðir í raun að landeigandinn hafi átt sem svarar 33 ám. Fyrir það greiddi leiguliðinn með smjöri. Þessi mikli fjöldi kúgilda hefur verið þungur baggi á leiguliðunum og var með því allra hæsta á jörðum í hreppnum.

Stuttlega er jörðinni lýst í jarðamati árið 1849 og hefur sú lýsing vísast átt við um þessar mundir.

        Túnið greiðfært en harðlent og liggur við sólbruna á nokkrum parti, allt fremur snögglent en töðugott, fóðrar 1 ½ kú. Slægjur reytingssamar og litlar og mest votar en nærtækar, heyslæmar. Sumarhagar eru léttir, nærtækir og hægir, nægilegir fyrir búsmala. Vetrarbeit sæmilega kjarngóð og þrautseig og nægileg að landvídd.[2]

Til viðbótar eru talin hlunnindi að silungs- og laxeiði í Laxárvatni.

Vorið 1784 flytja á jörðina Filippía Jónsdóttir (1743-26. júní 1821) og Jón Halldórsson (1730- dáinn fyrir 1808). Filippía var frá Köldukinn, dóttir Jóns Þorvarðssonar bónda þar og Guðrúnar Jannesdóttur og verður síðar gerð grein fyrir þeim. Filippía og Jón Halldórsson hafa gifst röskum áratug fyrr miðað við fæðingarár barna þeirra sem upp komust, Halldór sonur þeirra var fæddur 1769 og Guðrún 1775. Ekki er vitað hvar þau bjuggu áður, hugsanlega þó í Köldukinn með foreldrum Filippíu og systkinum, og þá væntanlega í einhvers konar húsmennsku. Hvernig sem þessu var varið hafa þau Jón og Filippía með dugnaði og ráðdeild komist yfir talsverða peninga, því á manntalsþingi á Torfalæk 29. júlí 1784[3] var:

upplesið kaupbréf bóndans Jóns Halldórssonar á Smyrlabergi fyrir hinni sömu, 16 # að dýrleika, liggjandi í Hjaltabakkakirkju sókn innan Húnavatnssýslu, af fyrrum prófasti hér, séra Bjarna[4] Jónssyni, vegna prófastsins séra Sigurðar Stefánssonar, fyrir 64 rd. specie. Það er af dato 24. ágúst 1783. Með hlutaðeigandi nöfnum og signetum.

        M[agnús] Gíslason [sýslumaður]

        Jón Þorvarðsson, Þorsteinn Benediktsson, Þórður Helgason, Jón Jónsson, Ólafur Helgason, Ásgrímur Jónsson, Jón Jónsson, Guðmundur Árnason[5]

Tvennt vakti undrun mína þegar ég las þennan gjörning fyrst fyrir nokkrum árum. Annars vegar að Jón Halldórsson virðist kaupa alla jörðina í einni lotu ef svo má segja, og hins vegar dag- og ársetning kaupbréfsins.

Eitt hundrað í jörðu mun á þessum árum hafa lagt sig á 4 ríkisdali, eins og kemur fram í skjalinu, og virðist við lauslega athugun annarra kaupsamninga hafa verið nálægt gangverði á þessum árum.

Það er erfitt að bera saman verðlag nú og 1784, en í lok 18. aldar var góð og gild ær, þ.e. mjólkandi ær í fullu gildi, metin á 1 ríkisdal. Hefur þó sennilega verið heldur minna fyrr á öldinni. Samkvæmt því hefur kaupverðið á Smyrlabergi samsvarað verði 64 mjólkandi áa eða nálægt 7-9 mjólkurkúa. Vinnukonur voru lítið meira en matvinnungar á þessum árum og kjör vinnumanna lítið skárri, það tók mörg ár að eignast 10-12 kindur og svo þurfti að vinna fyrir þeim skepnum hjá einhverjum bóndanum eða jarðareiganda. Hugsanlega hefur Jón Halldórsson fengið einhverja peninga í arf, en um það er ekki kunnugt því óvíst erum framættir hans;  einnig getur Filippía hafa lagt eitthvað til því foreldrar hennar kunna að hafa greitt henni eitthvað úr sínu búi. Hallgerður langbrok á Hlíðarenda hefði vafalaust stungið upp á að þau hefðu nurlað saman peningunum og „svelt sig til fjár“[6] en um það verður ekki vitað nú.

Oft sér maður í kaupsamningum að menn kaupa tiltölulega litla parta í jörðum, 2-4 hundruð, og bæta svo kannski öðru eins við 5-6 árum síðar. Með því móti gat tekið hálfa ævina að eignast eina jörð, en þarna er ágætis jörð sum sé keypt í einu lagi.

Tímasetning jarðakaupsins er líka einkar athyglisverð. Það virðist sem Jón Halldórsson hafi gert sér ferð vestur að Breiðabólstað um miðjan bjargræðistímann, 24. ágúst 1783, og reitt með sér 64 rd. í hnakktöskunni til að kaupa jörðina af séra Bjarna Jónssyni (fyrir hönd Sigurðar Stefánssonar eins og áður er sagt).

Eldgosið í Lakagígum hófst 8. júní 1783 og pestarþokan sem barst um mestallt landið fljótlega var orðin viðvarandi. Magnús Gíslason sýslumaður á Geitaskarði lýsir ástandinu í sýslunni mánuði síðar í bréfi dagsettu 10. júlí 1783 en þar segir:

Grasið hér er nú orðið eins og sina uppvisið af því ryki er fallið hefur og meinast enn nú falla úr jafnaðarlega viðvarandi þokufullu lofti yfir jörðina, er fyrst varð vart við circa medium afl. junii mánaðar. Gjörir[7] peningur hér ekki helmings gagn og lítur þess vegna út til stærstu báginda í framtíðinni og jafnvel eyðileggingar, nema Guði þóknist upp á einhvörn mér ekki sjáanlegan máta úr þessu rétta.[8]

Flúor í öskunni frá Lakagígum og „súrt regn“ sem innihélt brennistein og ýmis óheilbrigð efni eitruðu og brenndu mestallan gróður í landinu þetta sumar. Fénaður hafði litla lyst á þeim gróðri sem þó spratt og veiktist svo af flúoreitrun og fleiri kvillum. Öskufallið varð mest í Skaftafellssýslum og á Suðurlandi en talið er að meginstraum eiturmóðunnar hafi í fyrstu lagt til norðvesturs, og þannig yfir Norðurland og Borgarfjörð en síðan barst móðan yfir allt land, með ódaun og fýlu, og varð raunar vart í mestallri Evrópu síðar á árinu.[9]

Í ljósi þessa og lýsingar Magnúsar sýslumanns hér að ofan finnst mér ferðalag Jóns Halldórssonar vestur að Breiðabólstað í ágústlok 1783 til að kaupa jörð handa sér og fjölskyldu sinni, eitthvert besta dæmi um bjartsýni sem ég hef nokkru sinni rekist á. (Og hef þá líka í huga að þetta er ekki „hrægammur“ að kaupa eignir á „brunaútsölu“ í efnahagshruni eins og algengt er á vorum dögum).

Samfara þessum ósköpum var hafís fyrir Norðurland sem  takmarkaði sókn til sjávarins og ekkert kaupskip hafði komið til Skagastrandar 1782 og ekkert kom heldur 1783, en eitt skip komst með herkjum til hafnar þar 1784. Í þessum bágindum hefur silungurinn í Laxárvatni líklega verið helsta næring fólksins á Smyrlabergi.

Árið 1785, í lok verstu harðindanna, virðast vera á Smyrlabergi 1 kýr og 1 kvíga, 15 ær og 12 lömb; 2 hestar, skv. búnaðarskýrslum. Tveimur árum síðar eru kýrnar 3 en kindurnar samtals 25 talsins. Árið 1788 eru kýrnar 2 og kvíga, eiginlega sama tala; mylkar ær 14 og tamdir hestar 3. Loks árið 1790 eru kýrnar 2; mylkar ær 16, gimbrar 6, sauðir og hrútar 4; tamdir hestar 3 og ótamdir 2. Á þessum fénaði framfleyta sér fjórar manneskjur, hjónin Jón og Filippía með börnum sínum Halldóri og Guðrúnu.

Þótt ekki sé bústofninn stór er þó sauðfénu smátt og smátt að fjölga og þegar litið er til tíundarskýrslna telur Jón fram 9 hundruð árið 1791 og eru aðeins fjórir framteljendur hærri en hann það ár, en allmargir litlu lægri.

Alltaf er forvitnilegt að lesa ummæli presta um sóknarbörn sín í húsvitjunarbókum, þótt hafa verði í huga að það eru aðeins ummæli eða dómur eins manns um nágranna sína. Guðrún litla Jónsdóttir virðist efnileg og hefur gengið betur að læra kristindómskverið en Halldóri bróður hennar. Á sama hátt er húsbóndinn, Jón Halldórsson ólesandi og lítt kunnandi sinn kristindóm en Filippía hins vegar bæði vel læs og kunnandi og er í öllum húsvitjunum sögð „stjórnsöm.“ Kannski réði hún mestu á heimilinu og síðar á æviferlinum kom fram að hún lét ógjarnan sinn hlut.

Vorið 1792 verður sú breyting hjá Jóni Halldórssyni og Filippíu og bræðrum hennar, að þau Jón flytja að Köldukinn en Jón Jónsson Þorvarðssonar, bróðir Filippíu (sem nú er talinn fyrir búinu í Köldukinn), flytur að Smyrlabergi og gera þeir mágar makaskiptasamning sem var þinglýst á manntalsþingi á Torfalæk 25. maí 1792. Jón Jónsson, bróðir Filippíu, fær Smyrlaberg, 16 #, fyrir 20 # í Köldukinn[10] sem Jón Halldórsson fær þá umráð yfir og greiðir 18 ríkisdali í milli fyrir þau fjögur jarðarhundruð sem munar á jörðunum, þ.e. 4 ½ ríkisdal fyrir hvert jarðarhundrað. Sama dag er einnig þinglýst próventugjöf Arngríms Jónssonar Þorvarðssonar til Jóns Halldórssonar, dagsett 25. maí 1792[11] og verður að ætla að hann hafi verið þar áfram.

En nú skal vikið að næsta bæ og rætt um frændfólkið í Köldukinn.


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/1, örk 5. Dóma- og Þingbók 1747-1755.
[2] Jarðamat 1849-1850. Aðgengilegt á vefslóðinni „heimildir.is.“
[3] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 3. Dóma- og þingbók 1781-1788. Manntalsþing 29. júlí 1784 (7. liður).
[4] Átt mun við Bjarna Jónsson (1726-1798) prest á Þingeyrum frá 1767 og á Breiðabólstað í Vesturhópi frá 1782 til 1798. Sbr. Ísl. æviskrár I, bls. 178.
[5] Þetta eru allt nöfn bænda í hreppnum. Átta menn rituðu venjulega nöfn sín sem vottar undir manntalsþingagjörninga í þingbókum sýslumannsins en allir sveitarbændur voru skyldugir að mæta á þingið.
[6] Sbr. Brennu-Njáls saga, 11. kafli.
[7] Orðið virðist yfirstrikað og eitthvað párað fyrir ofan, en er þó eðlilegt í samhengi textans.
[8] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu C/20. Bréfauppköst 1771-1798.
[9] Tölvupóstur frá Guðrúnu Larsen jarðfræðingi 23. júní 2021.
[10] Köldukinn var metin á 30 # þannig að hér kaupir Jón Halldórsson 2/3 hluta jarðarinnar.
[11] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 4. Dómabók 1788-1796, bls. 153. Manntalsþing 25. maí 1792, liður 6.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið