Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Föstudagur, 1. mars 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Mars 2024
SMÞMFL
252627282912
3456789
10111213141516
17181920212223
24252627282930
31123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 04:57 0 0°C
Laxárdalsh. 04:57 0 0°C
Vatnsskarð 04:57 0 0°C
Þverárfjall 04:57 0 0°C
Kjalarnes 04:57 0 0°C
Hafnarfjall 04:57 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
18. ágúst 2023
Okur, íslenska og illgresi
Já komið þið sæl og blessuð. Nöldri er ekki dauður úr öllum æðum þó langt sé um liðið frá síðasta nöldurpistli. Af nógu er að taka í nöldrinu en ég ætla þó aðeins að nefna nokkur atriði að þessu sinni. Fyrst ætla ég að byrja á verðlaginu í Kjörbúðinni okkar hér á Blönduósi.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
69. þáttur. Eftir Jón Torfason
25. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
25. febrúar 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
19. febrúar 2024
Frá Leikfélagi Dalvíkurbyggðar
16. febrúar 2024
68. þáttur. Eftir Jón Torfason
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
11. febrúar 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
08. febrúar 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kaldakinn Torfalækjarhreppi um 1930. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Kaldakinn Torfalækjarhreppi um 1930. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Pistlar | 28. janúar 2024 - kl. 12:05
Þættir úr sögu sveitar: Vetrarbeit allgóð en heyskapur reytingssamur
67. þáttur. Eftir Jón Torfason

Vetrarbeit allgóð en heyskapur reytingssamur[1]

Fólkið sem bjó í Köldukinn og á Smyrlabergi í lok 18. aldar var nátengt og berst því sagan að Köldukinn um sinn en síðan verður vikið aftur að Smyrlabergi.

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar er ansi groddaleg saga, höfð eftir Arnljóti Ólafssyni sem var Húnvetningur eins og raunar Jón Árnason sjálfur. Þar segir af fjölskyldu sem upphaflega bjó á Torfalæk, í tvíbýli, en flutti síðar að Köldukinn. Út af deilum um tiltekinn engjateig óx mögnuð heift með mönnum. Þegar svo annar bóndinn lést með óútskýrðum hætti en börn hins bóndans veiktust og dóu sum voveiflega var það kennt heiftarhefndum, skv. munnmælasögninni.[2] Bóndinn sem lifði en missti börnin sín flutti frá Torfalæk að Köldukinn og síðar að Syðra-Hóli og ílentust afkomendur hans sumir þar í sveit. Þetta hefði átt að hafa gerst um miðja 18. öld og þótt skemmra sé liðið frá atvikum en hundrað ár, þar til sögnin var færð í letur, mun ýmislegt þarna málum blandað. Líklega er átt við Guðmund Jónsson og Þórunni Ísleifsdóttur, sem bjuggu í Köldukinn 1752-1759. Frá Þórunni og dótturinni Guðrúnu hefur verið nokkuð sagt í þætti nr. 8 (Meyjarskemman á Beinakeldu).

Nokkrum árum síðar bjuggu í Köldukinn Egill Gunnlaugsson og Sigríður Þorgrímsdóttir. Þau munu hafa átt jörðina og búið hér einhver ár (1762-1769), eiga a.m.k. 15# í jörðinni 1768.[3]

Nú gerist það að Jón Þorvarðsson (1703-6. desember 1799) bóndi á Vatnsenda en raunar ættaður úr Vatnsdal kaupir Köldukinn af áðurnefndum Agli Gunnlaugssyni árið 1771. Á manntalsþingi hreppsins 6. maí 1771 virðist fátt hafa orðið til tíðinda annað en að lesið var upp „kaupbréf Jóns Þorvarðssonar fyrir jörðinni Kaldakinn, 30 # að dýrleika, fyrir 1 hundrað, 15 rixdali specie, keypt af Agli Gunnlaugssyni, dat. 3. október 1769.“[4] Og næsta verkefni á manntalsþinginu var að lýsa lögfestu Jóns bónda fyrir jörðinni sem var dagsett 6. maí 1771 en þar hafa landamerki verið tíunduð og talin upp ítök ef einhver voru. Lögfestan er einungis lesin upp en ekki bókað hvað í henni stóð.

Kona Jóns Þorvarðssonar hét Guðrún Jannesdóttir (1715-7. nóvember 1785) og eignuðust þau fimm börn sem upp komust:  Filippía (1743-26. júní 1821), gift Jóni Halldórssyni á Smyrlabergi og í Köldukinn (þau nefnd í síðasta þætti), Jón[5] (1747-22. apríl 1822) bóndi á Smyrlabergi, Arngrímur (1745-24. febrúar 1803), Guðrún (1750-18. október 1825) gift Bjarna Einarssyni á Torfustöðum og Skeggsstöðum, og Gróa (1758-14. febrúar 1837) gift Agli Einarssyni og Magnúsi Hálfdanarsyni og hefur nokkuð verið sagt af henni í þætti nr. 53 (Enn ábúendaskipti í Holti) og þáttum 64 og 65 þar sem fjallað er um Hurðarbak.

Báðir bræðurnir voru sjóndaprir, Arngrímur meira að segja blindur og skv. sögnum í héraði stafaði það af álögum. Þegar fjölskyldan bjó á Vatnsenda léku drengirnir sér gjarna í klettum skammt frá bænum þar sem bjó álfkona með börnum sínum. Drengirnir voru sífellt með ólæti, grjótkast og hávaða, við klettana þrátt fyrir viðvaranir móður sinnar og hótanir álfkonunnar. Í refsingarskyni sló álfkonan þá blindu sem skyldi vara í þriðja lið afkomenda þeirra. Síðan segir:

        Um[6] morguninn var Arngrímur steinblindur en Jón hafði hálfa sjón. Báðir urðu þeir gamlir menn. Arngrímur var manna sterkastur og réri á hverjum vetri vestur undir Jökli þó blindur væri, en Jón giftist og átti margt barna. Mörg voru þau sjóndöpur en sjálfur varð hann steinblindur þegar hann var fertugur. Nú eru barnabörn hans miðaldra og yngri og mjög augndöpur, en fjórði liðurinn eða barnabarnabörnin eru ekki alin.

Heimildamaðurinn er séra Jón Þórðarson (1826-1885) prestur á Auðkúlu og er varla hægt að kalla þetta „þjóðsögu,“ frekar einhvers konar slúður eða alþýðuskýringu á sjóndepru þessara bræðra og afkomenda þeirra.

Guðrún Jannesdóttir dó í lok móðuharðindanna 1785 og dró þá Jón Þorvarðsson saman seglin en Jón yngri virðist hafa tekið við búsforráðum. Árið 1785 voru í Köldukinn 3 kýr og 1 kvíga, 15 ær og 12 lömb og mátti það teljast gott miðað við aðra bæi eftir skepnufelli móðuharðindanna. Kúatölunni er haldið næstu árin og fénu smáfjölgar, taldi þó ekki nema 20 hausa samanlagt árið 1790 en hins vegar er kominn matjurtagarður sem var nýlunda. Tíund Jóns Jónssonar er um 7 hundruð sem er í minna lagi. Eins og nefnt var í síðasta þætti höfðu systkinin makaskipti árið 1792, þannig að Jón Halldórsson og Filippía fluttu að Köldukinn en Jón og  faðir þeirra systkina að Smyrlabergi en Arngrímur líklega verið áfram í Köldukinn, a.m.k. um hríð. Ekki virðist búskapur feðganna hafa styrkst við þau skipti því Jón á Smyrlabergi tíundar aðeins 5 hundruð næstu ár og áratugi meðan hagur Filippíu systur hans stendur með nokkuð góðum blóma í Köldukinn.

Til er uppskrift af dánarbúi Guðrúnar Jannesdóttur í Köldukinn og var gengið frá því 18. júní 1786 en Guðrún lést haustið áður. Uppskriftin fylgir hér með í sérstöku skjali. Þessi uppskrift er nokkuð máð og sumt óljóst og í annan stað er miðað við enn eldri veðmæli en tíðkaðist síðar, þ.e. álnir og hundruð (en ekki ríkisdali og skildinga sem er viðráðanlegra). Í þessu kerfi var gallalaus kýr metin á 1 hundrað og sömuleiðis 6 ær og má miða verðgildi annarra hluta við það.

Á bænum var til Vídalínspostilla, sem metin var á 58 álnir sem var nærri hálft kýrverð, en fáar bækur aðrar. Aðeins eru taldar upp fjórar kvenflíkur sem þýðir væntanlega að hversdagsföt Guðrúnar hafa ekki verið tekin með. Hún átti hempu (yfirhöfn), pils og svuntu og niðurhlut, virðist allt gamalt. Einnig er tekið fram að rúmfatnaður allur sé „mest forn og lélegur.“

Í búrinu eru tveir tveggja tunnu sáir, nokkur trog og fötur og strokkur en verðmætasti gripurinn er fimm fjórðunga pottur sem hefur þá tekið upp undir 25 lítra. Síðan eru taldar upp kistur, amboð til heyöflunar og einhver reiðtygi. Í dánarbúinu eru tvær kýr og veturgamall tarfur, 12 ær mjólkandi og 11 veturgamlar en einungis tveir sauðir. Samanlagt var eign dánarbúsins talin 13 hundruð og 3 álnir.

Í lokin eru nokkuð flóknir útreikningar. Svo virðist sem Arngrímur sonur gamla Jóns hafi áður fengið fyrirfram greiddan arf, ef svo má kalla, upp á einhver hundruð og til mótvægis við það eru Jóni bróður hans afhentar kýrnar tvær og ýmsir munir að verðmati 7 hundruð og 30 álnir. Til viðbótar kom svo jörðin sjálf, metin á 30 hundruð, en talin í peningum (til spesie) reiknað ekki nema 28 hundruð og 8 álnir. Nú gera bræðurnir, Jón og Arngrímur, kröfu í búið fyrir vinnulaun, sem ættu að vera 60 álnir árlega eða hálft hundrað (1 hundrað taldist 120 álnir), „hvað gjörir til saman 15 #.“ Til viðbótar komu svo nokkrar kaupstaðaskuldir sem dragast frá. Manni sýnist að bræðurnir hafi fengið mestallan arfinn og Jón jörðina því hann eignast svo Smyrlaberg í makaskiptum  árið 1792 eins og gerð var grein fyrir í síðasta þætti. A.m.k. virðist sem systurnar þrjár fái lítið í sinn hlut en raunar kemur það ekki glöggt fram í skiptagjörningnum.

Arngrímur blindi dó á Eyjólfsstöðum í Vatnsdal 24. febrúar 1803 ─ hefur komist þangað þrátt fyrir blinduna ─ því svo segir í prestsþjónustubók Undirfells: „Megn takverkur. Lá ei lengi. Var hér framandi. Vel kynntur maður, 58 ára.“ Þegar sagt er „framandi“ er væntanlega átt við að hann hafi verið á ferðalagi þegar hann lagðist banaleguna.


[1] Fyrirsögnin er tekin úr Sýslu- og sóknarlýsingum Húnavatnssýslu, bls. 84.
[2] Þjóðsögur Jóns Árnasonar I, bls. 290-291.
[3] Í Alþingisbókum Íslands XV (1766-1780)  bls. 77 og áfram er tekið fyrir athyglisvert ómagamál sem snerti Sigríði og Egil en það er látið liggja milli hluta hér.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/2, örk 2. (Dóma- og þingbók 1770-1781), bls. 30.
[5] Sjá nánar Ættir Austur-Húnvetninga, bls. 450-451.
[6] Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, bls. 60.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið