Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 17. júní 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Júní 2024
SMÞMFL
2627282930311
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30123456
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 21:35 0 0°C
Laxárdalsh. 21:35 0 0°C
Vatnsskarð 21:35 0 0°C
Þverárfjall 21:35 0 0°C
Kjalarnes 21:35 0 0°C
Hafnarfjall 21:35 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
76. þáttur. Eftir Jón Torfason
15. júní 2024
Eftir Guðmund Inga Guðbrandsson
15. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
13. júní 2024
Eftir Ásgerði Pálsdóttur
09. júní 2024
Eftir Dagnýju Rósu Úlfarsdóttur
05. júní 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
03. júní 2024
75. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. maí 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Mælifellshnjúkur. Mynd: is.wikipedia.org
Mælifellshnjúkur. Mynd: is.wikipedia.org
Gamli bærinn frá 1898. Mynd: Daniel Bruun, úr Byggðasögu Skagafjarðar
Gamli bærinn frá 1898. Mynd: Daniel Bruun, úr Byggðasögu Skagafjarðar
Steinsstaðatún og bær frá 1945. Mynd: Páll Jónsson úr Byggðasögu Skagafjarðar.
Steinsstaðatún og bær frá 1945. Mynd: Páll Jónsson úr Byggðasögu Skagafjarðar.
Ingólfur, afi Laugarhvammssystkinanna. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar.
Ingólfur, afi Laugarhvammssystkinanna. Mynd úr Byggðasögu Skagafjarðar.
Pistlar | 11. febrúar 2024 - kl. 18:20
Sögukorn: óð hægt Kópur
Eftir Inga Heiðmar Jónsson

1. Mál er mér skylt, lesarar góðir, því tannlæknar mínir báðir, Páll og Sigurjón – og sjálfur ég – eiga ættir að rekja til Steinsstaðabænda og Goðdalapresta en þangað flutti sr. Páll sunnan af Kjalarnesi, með árs viðdvöl í Snóksdal:

2. Páll Sveinsson, f. 1650, prestur í Brautarholti, Kjalarneshreppi, Kjós. 1703. Árin 1703 og 1704 rak hann einnig bú á jörðinni Sjávarhólum á Kjalarnesi. Prestur í Brautarholti 1681-1710 en sat á Skrauthólum 1705 að því er virðist og ef til vill lengur. Prestur í Miðdalaþingum og bjó þá í Snóksdal í Miðdölum, Dal. 1712-13. Prestur í Goðdölum i Vesturdal, Skag. frá 1713 til dauðadags. „Stundum samviskuþungur“, segir Espólín. „Vel gefinn, en talinn nokkuð þrasgjarn, enda þunglyndur og veill á geði“, segir í Dalamönnum. Var á Skrauthólum, Kjalarneshr., Kjós. 1681. Úr Íslendingabók

3. Sveinn Pálsson f.1688: Var í Brautarholti í Kjalarneshr., Kjós. 1703. Skólapiltur í Skálholti. Aðstoðarprestur í Goðdölum í Vesturdal, Skag. 1716-1736 og prestur þar frá 1736 til dauðadags.
Úr Íslendingabók

 4. En í hjarta Tungusveitar bjuggu Jón Eggertsson og Ingibjörg kona hans, fyrr á Steinsstöðum, síðar í Héraðsdal.
Jón var reiðmaður mikill og afar kær að góðum hestum. Hann átti einn þann hest er Eitill hét. Um hest sinn kvað hann:

5. Allvel finnur Eitill stað
undir svörtum Jóni
á hádegi fór eg heimanað
í Hofsós kom að nóni. JE

6. Guðrún hét dóttir þeirra Jóns í Héraðsdal og Ingibjargar Skaftadóttur og frænka Jósefs Skaptasonar læknis í Hnausum. Þeir sem voru kunnugastir Guðrúnu sögðu, að hún sæi gegnum veggi, holt og hæðir. Sjálf sagði hún þegar hún var að mjólka í Héraðsdal og setti frá sér fötuna, sæi hún huldubörn tvö koma að fötunni, hvort með sinn spóninn og löptu úr henni sína sex spæni hvort, en aldrei fleiri en þessa sex.

7. Sonur Sveins Pálssonar prests í Goðdölum var Páll silfursmiður, var einnig skrifari góður og hann bað Guðrúnar. Er mælt að hún væri treg á að taka honum og þætti hann ófríður, mátti þó kalla hann sómagóðan, en heldur munnófríðan  sem fleiri frændur hans höfðu verið. Þó tók hún honum.

8. Þau Guðrún og Páll fóru síðar að búa á Steinsstöðum sem faðir hennar fékk henni og fé til bús. Var Guðrún mjög fyrir búsráðum, en Páll stundaði smíðar sínar. Jafnan saknaði Guðrún Héraðsdals þar sem lágu æskuspor hennar:

9. Þó blási nú á bleika kinn
blærinn rauna svalur
horfir til þín hugur minn
Héraðs- fagri dalur. GJ

10. Guðrún á Steinsstöðum var yfirsetukona með yfirburðum og almæli voru það, að jafnan segði hún fyrir, hvort börn þau yrðu skammlíf eða ekki, er hún tók við og gengi það eftir.

11. Sótt var Guðrún til Jófríðar á Völlum, konu Konráðs hreppsstjóra. Ól hún þá sveinbarn, er Gísli hét. Er sagt, að það væri síðasta barn er Guðrún tók við. Var henni og þá mjög heilsa þrotin. Jófríður innti til við hana, hvort þetta barn sitt mundi eins skammært verða sem hið fyrra. Guðrún mælti: Vertu óhrædd um það, hann slítur barnsskónum , pilturinn svarna. Og þótti það verða.

12. Og hér var s.s. sagnameistarinn sjálfur, Gísli Konráðsson, að birtast heiminum, er höfundur þáttarins um Steinsstaðafólk sem hér er lagður til grundvallar í sögukornunum. GK var fæddur 1787.

13. Er Guðrún lést á Steinsstöðum var hún aðeins tæpra sextíu ára – segir Íslendingabók – og Páll maður hennar kvað eftir hana þrjú vers, hér birtist það fyrsta:

Hér hvílir hulið mold
í helgum guðs akri
góðlyndrar grafið hold
Guðrúnar Jónsdóttur
blómi kvendyggða klár
kvaddi heims armæðu
fjörs hafði endað ár
eitt rúmt og sextíu. PSv.

14. Þorsteinn Pálsson var ei heima nokkra vetur, fór hann suður í Hafnarfjörð og var með Nyborg kaupmanni. En Sveinn Pálsson nam í Hólaskóla og fór síðan til námsæfinga til Kaupmannahafnar. Allir voru þeir Steinsstaðabræður hagmæltir og kallaðir kátir mjög.

15. Nú kom út Sveinn stúdent Pálsson frá Kaupmannahöfn og skyldi semja eðlissögu. Fór hann þá um land og tók hann þá Jón bróður sinn fyrir fylgdarmann sinn um hríð. Var það þá eitt sinn, er þeir fóru um hraun nokkur, að Jón kvað vísu þessa:

16.
Hér eru gjár og í þeim ár
yfir þær gár vor reisa
en undir stár þar dökkur dár
djöfullinn grár og eisa. JP

17. Þorsteinn á Reykjavöllum fékk konu þeirrar er Ingibjörg hét, dóttir auðugs bónda á Skíðastöðum. Hann var hinn hreinskilnasti maður og ei allskamma hríð hreppstjóri þeirra Tungusveitunga.

18. Guðrún var þriðja elst barna þeirra Reykjavallahjóna, Ingibjargar og Þorsteins, giftist Bjarna skyttu Jónssyni á Sjávarborg, var nýorðin 19 ára þegar hún elur fyrsta barn sitt, en þau eignuðust 16 börn. Ekkja varð Guðrún á miðjum aldri, Bjarni lést 46 ára, en hún átta árum yngri, giftist síðan Sigvalda skálda, en gaf eftir skilnað svo hann gæti fengið yngri konu.

19. Félagi okkar úr MA ´66, Páll Ragnarsson lauk stúdentsprófi það ár, eins og við fleiri, fór þá til tannlæknanáms og stundaði síðan og rak tannlæknastofu á Krók til dauðadags og ég ók til hans, fyrst framan frá Steinsstöðum þar sem við bjuggum feðgar til 1985, síðan sunnan frá Flúðum og Selfossi.

20. Stofan Páls á Sauðárkróki – og þó sérstaklega litla biðstofan þeirra, Ingimundar kollega hans Guðjónssonar, varð iðulega rabbstofa fornvina, nágranna eða ókunnra sem tóku spjall og blönduðu geði. Eyddu ekki tímanum í álas.

21. Tilviljun – eða símastúlkan – réði því að nýi tannlæknirinn einn af fjórum, varð Sigurjón Sveinsson og tók við mér á stofunni við Austurveg. Og kátur var Sögukornasafnari þegar í ljós kom að nýi læknirinn var ekki aðeins ofan úr góðbyggðum Landssveitar – með traustan og öflugan skaftfellska ættboga – heldur áttu þeir Páll heitinn og Sigurjón saman áa í Guðrúnu og Páli norður í Tungusveit og einmitt á Steinsstöðum þar sem líf mitt/IHJ snerist í fimmtán ár um skóla, félags- og söngmál og fleira af líku tagi á austurbakka Svartárinnar, árin 1970-1985.

22. Í bók sinni Byggðasaga Skagafjarðar III segir Hjalti ritstjóri frá jörðum og íbúum í Lýtingsstaðahreppi og birtir myndir nýjar og gamlar frá þessari miklu hlunnindajörð:

23. Steinsstaðaskóli varð einhver fyrsti barnaskóli með heimavist í sveit á Íslandi, frá des. 1949.
Fram til 1965 var þar aðeins barnaskóli en um haustið hófst þar kennslu við unglingadeild og frá 1979 sóttu þangað unglingar úr Hólahreppi og Viðvíkurhreppi um nokkurra ára skeið og voru á heimvist. Unglingarnir utan úr Fljótum sóttu þar einnig skóla. Frá og með haustinu 1976 var heimvist felld niður og skólaakstur sem byrjaður var nokkrum árum áður, alfarið tekinn upp.
Hér í byggðasögunni segir Hjalti Pálsson frá Steinsstaðaskóla og einnig frá félagsheimilinu Árgarði, vígt 1974 og heitir eftir árinu, en sumir vildu nefna eftir Sveini Pálssyni lækni í Vík, sem fæddur var á Steinsstöðum.

24. Bóka- og fundaherbergi Árgarðs var nefnt Sveinsstofa.

25. Kópur, margreyndur vatnahestur, var léður Sveini lækni og Grímur Thomsen batt í ljóð söguna:

„Væri ei nauðsyn næsta brýn,
náttstað yrði ég feginn,
en kona í barnsnauð bíður mín
banvæn hinumegin.“

„Skal þá, læknir, ljá þér Kóp,
láttu hann alveg ráða;
honum, sem fljóði fóstrið skóp,
fel ég ykkur báða.“  GTh.
Sjá krækju neðar:

26. Börn þeirra Guðrúnar og Páls silfursmiðs á Steinsstöðum:

Sveinn Pálsson  1762 – 1840 Læknir í Vík, stúdent í Nesi 1784, búandi í Viðey 1792, læknir í Kotmúla Fljótshlíð 1798, bjó í Kotmúla 1801.
Þorsteinn Pálsson 1764 – 1834.  Bóndi og hreppstjóri á Reykjavöllum á Neðribyggð, Skag.
Jón Pálsson 1765 – 1804
Eiríkur Pálsson 1769 – 1825
Benedikt Pálsson 1772 – 1825
Guðrún Pálsdóttir 1773 – 1806
Guðrún Pálsdóttir 1773 – 1773

27. Páll Ragnarsson tannlæknir hélt áfram að starfa, þótt sjötugur yrði, lést á sínu sjötugasta og fimmta ári, þá enn starfandi á stofu sinni. Hér kemur angi af niðjatali Steinsstaðahjóna, þeirra Guðrúnar og Páls silfursmiðs:

Þorsteinn Pálsson Reykjavöllum 1764
Guðrún Þorsteinsdóttir Sjávarborg 1798
Sigurður Bjarnason Stóra-Vatnsskarði 1829
Hallfríður Sigurðardóttir Hóli 1862 
Guðmundur Sveinsson Sauðárkróki 1893
Anna Pála Guðmundsdóttir Skr. 1923
Páll Ragnarsson Sauðárkróki 1946 – 2021

Sveinn Pálsson Vík 1762
Sigríður Sveinsdóttir Hlíð 1814
Þórunn Eiríksdóttir Fossi á Síðu 1840
Sveinn Steingrímsson Langholti 1874
Sigríður Sveinsdóttir Galtalæk 1914
Sveinn Sigurjónsson Galtalæk 1947
Sigurjón Sveinsson Selfossi 1979

Þorsteinn Pálsson Reykjavöllum 1764
Guðrún Þorsteinsdóttir Sjávarborg 1798 
Rannveig Bjarnadóttir Elivogum o. v. 1824
Helga María Bjarnadóttir Ketu 1852
Ólafur Björnsson Mörk og Holti 1890
Sigríður Ólafsdóttir Ártúnum 1924
Ingi Heiðmar Jónsson Selfossi 1947

Heimild og ítarefni:
Sagnaþættir Gísla Konráðssonar Rv. 1946, útg. af Finni Sigmundssyni. Orðfæri og orðaval Gísla er látið halda sér í sögukornunum.
Hjalti Pálsson Byggðasaga Skagafjarðar III Sauðárkrókur 2004, bls. 34
Tvær vísur Guðrúnar á Steinsstöðum: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/hofundur.php?ID=15622
Erfiljóð eftir Guðrúnu á Steinsstöðum: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=6211  
Sveinn Pálsson og Kópur: https://bragi.arnastofnun.is/hunafloi/ljod.php?ID=6028
Steinsstaðir: https://is.wikipedia.org/wiki/Steinssta%C3%B0ir
Sveinn Pálsson: https://is.wikipedia.org/wiki/Sveinn_P%C3%A1lsson_(f._1762)

Ingi Heiðmar Jónsson

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið