Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Fimmtudagur, 9. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 01:59 0 0°C
Laxárdalsh. 01:59 0 0°C
Vatnsskarð 01:59 0 0°C
Þverárfjall 01:59 0 0°C
Kjalarnes 01:59 0 0°C
Hafnarfjall 01:59 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
07. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Smyrlaberg. Myndin er úr bókinni Ættir Austur-Húnvetninga, III. bindi, bls. 1191.
Smyrlaberg. Myndin er úr bókinni Ættir Austur-Húnvetninga, III. bindi, bls. 1191.
Pistlar | 11. febrúar 2024 - kl. 19:34
Þættir úr sögu sveitar: Blinda og barnafjöld
68. þáttur. Eftir Jón Torfason

Jón yngri Jónsson (1747-22. apríl 1822) Þorvarðssonar virðist hafa tekið við búsforráðum í Köldukinn fljótlega eftir að Guðrún Jannesdóttir móðir hans dó (1785), sbr. síðasta þátt nr. 67.

Ætla má að hingað komi árið 1786 eða árinu fyrr kona ættuð framan úr Vatnsdal, Sigríður Jónsdóttir (1747-22. desember 1818), sem tekur brátt við forráðum innan stokks. Hún giftist Jóni Jónssyni yngra 9. maí 1787 og sonur þeirra Jón „junior“ fæðist 5. september sama ár. Svaramaður hennar við giftinguna er Tómas Jónsson bóndi á Marðarnúpi, bróðir hennar. Gamli Jón Þorvarðsson og Jón yngri eru báðir sagðir ólæsir en Sigríður er „vel lesandi, stjórnsöm, skikkanlega kunnandi“ við húsvitjun 1887. Kannski má hugsa sér að hún sem vel sjáandi og læs taki að einhverju leyti stjórnina á heimilinu frá hinum hálf- eða alblindu feðgum enda var víst einhvern tíma sagt, man ekki hvar: „Í ríki hinni blindu er hinn eineygði konungur.“ Þetta fólk flutti frá Köldukinn að Smyrlabergi árið 1792 eins og áður er rakið og afkomendur þeirra bjuggu þar lengi.

Þau Jón og Sigríður eignuðust a.m.k. þrjá syni (tvo Jóna og einn Odd) en einmitt á barneignarárum þeirra er „gatið“ í kirkjubókum Hjaltabakka. Ekki er vitað um heimilisfólk á Smyrlabergi á síðasta tug 18. aldar en í manntalinu 1801 eru hjónin Jón og Sigríður þar með tvo syni sína, Jón (11. nóvember 1789-30. júlí 1872)  og Odd (29. júní 1791-15. mars 1844). Trúlega hefur heimilisfólk ekki verið fleira þessi árin nema Jón gamli var á heimilinu þar til hann dó 1799, en hann mun hafa flutt með þeim að Smyrlabergi eftir jarðaskiptin 1792. Húsbóndinn Jón Jónsson eldri er sagður blindur í manntalinu 1801 og hafa því útiverk og eltingaleikur við kindur í þeim mun meiri mæli lent á Sigríði og bræðrunum ungu, Jóni og Oddi.

Tíund á Smyrlabergi á þessum árum er alla tíð í lægri kantinum, lengst af 5 hundruð en hækkar lítillega eftir aldamótin, fer hæst í 7 ½  hundrað 1818 og 8 hundruð 1819 en lækkar svo aftur í 7 hundruð eftir 1830 og fellur síðar niður í 6 hundruð.

Árið 1803 eru fjórir til heimilis hér og þá talin fram 1 kýr og 1 kvíga, mylkar ær eru 9 og 2 lömb, tamdir hestar 2 og 1 hross ótamið. Þetta er algjör lágmarks bústofn, eiginlega við sultarmörkin og hlýtur silungur úr Laxárvatni að hafa haldið lífinu í fólkinu. Áratung síðar, 1814, eru kýrnar tvær og einn kálfur, ærnar orðnar 18, lömbin 16 og veturgamalt, sauðir og gimbrar 10, tamdir hestar fjórir. Þarna hefur hagur Jóns og Sigríðar batnað verulega þótt búið sé svo sem ekki stórt.

Yngsti bróðirinn, Oddur, hleypti heimdraganum 1811 og gerðist vinnumaður á Kagaðarhóli, næsta bæ, er þar við húsvitjun 1812, tuttugu og eins árs að aldri. Árið 1816 er hann orðinn vinnumaður í Gautsdal og síðar á Auðólfsstöðum. Oddur hefur fengið hluta í Smyrlabergi í arf eftir foreldra sína og 1830 selur hann 5 #, 40 álnir til ekkjunnar Þrúðar Illugadóttur, fyrir 100 rd., kaupbréfið dagsett 9. maí 1830.[1] Honum hefur tekist að ávaxta þetta pund sitt því nokkrum árum síðar,  1837, kemst hann í bændastétt, varð bóndi í Villingadal í Haukadal, Dalasýslu og bjó þar til æviloka 1844. „Vænn maður, vel að sér“ segir í Dalamönnum. Kona hans hét Sigríður Sigfúsdóttir (1801-1883) ættuð úr Öxnadal en uppalin á Botnastöðum. Þau voru barnlaus.[2] Árið 1840 keyptu þau hálfa jörðina Villingadal, 12 hundruð, sem sýnir að þeim hefur búnast vel þar.

Ekki er ljóst hvar elsti sonurinn, Jón (1787-2. febrúar 1860), ólst upp en hann er skv. islendingabok.is talinn vinnumaður á Guðlaugsstöðum 1816. Hann kom smám saman undir sig fótunum, byrjaði búskap á hluta Höllustaða (hjá frændfólki sínu sem þangað hafði flutt frá Köldukinn), var á parti á Snæringsstöðum tvö ár og kvæntist þar bústýru sinni, þann 29. september 1825 í Auðkúlukirkju, Sólveigu Ketilsdóttur Rögnvaldssonar og Þrúðar Illugadóttur, þ.e. þeirrar Þrúðar sem smám saman keypti stóran hluta Smyrlabergs. Þaðan fluttu þau austur yfir Blöndu og bjuggu lengi í Rugludal. Þau Sólveig eignuðust nokkur börn en munu ekki eiga afkomendur á lífi nú.

Sama ár og Oddur fór frá Smyrlabergi, 1811, kemur hingað til dvalar Guðrún Þorvarðsdóttir (1776-1821) vinnukona, 36 ára að aldri, ættuð vestan úr sýslu, og mál æxlast þannig að hún á hér heima til æviloka. Hún hafði verið vinnukona á Dalgeirsstöðum í Miðfirði og þar eignast soninn Eirík (1797-1829) með Jóni Björnssyni vinnumanni og sex árum síðar dótturina Dagbjörtu Eyjólfsdóttur (f. 27. nóvember 1803) með bóndanum á bænum. Þessi börn ólust upp í Miðfirði með föðurfrændum sínum.

Skv. sóknarmannatalinu er Guðrún vel að sér og vel lesandi. Þau Jón  yngri Jónsson (eða yngsti, því þetta er þriðji Jóninn á Smyrlabergi) eru gefin saman í hjónaband 6. mars 1814, „meinbugalaust á báðar síður,“ segir séra Halldór Ámundason í prestsþjónustubókinni.

Þau Jón og Guðrún taka þegar við að fjölga mannfólkinu en áður en að því kemur skal nefnt að skörungurinn Sigríður Jónsdóttir dó 18. desember 1818 og Jón Jónsson eldri 22. apríl 1822 og eftir það er Jón Jónsson yngsti (þ.e. Jón hinn þriðji á Smyrlabergi) talinn fyrir búinu. Faðir hans, Jón „annar,“ dó úr „elliburðum og magnleysi, lengi blindur,“ segir í prestsþjónustubókinni en banamein Sigríðar var „brjóstveiki og ellilasleiki með uppstígandi þyngd.“

Jón Jónsson á Smyrlabergi (Jón nr. 3) og Guðrún Þorvarðsdóttir eignuðust sex börn. Tvö þeirra dóu í frumbernsku Ingibjörg og Jóhann að nafni; Helga (f. 1814-26. desember 1828) dó komin að fermingu úr landfarsótt en var „annars mikið vesæl til heilsu“ og Jón (17. ágúst 1816-17. október 1825) varð 9 ára gamall en drukknaði í Laxárvatni niður um ís. En þeir náðu fullorðinsaldri bræðurnir Þorvarður (16. janúar 1818-16. apríl 1854), lengi vinnumaður á ýmsum bæjum, og Jakob (26. september 1815-14. nóvember 1885) síðast bóndi í Engihlíð í Langadal.

Guðrún Þorvarðsdóttir dó 8. ágúst 1821, 45 ára að aldri, „úr líkri[3] brjóstveiki og landfarsótt, mikið heilsulaus.“ Ummæli um heilsuleysi vekja manni litla undrun þegar hugað er að því að konan hefur verið ólétt ¾ hluta þeirra 8 ára sem hún dvaldi á Smyrlabergi í hjónabandi. Hún hefur einfaldlega verið útslitin og haft litla mótstöðu gegn kvefpest eða flensu (landfarsótt) sem stakk sér niður í sveitinni vorið 1821.

Jón Jónsson réði eðlilega ekkert við að sjá um barnahópinn sinn einn og árið eftir kvæntist hann á nýja leik (12. ágúst 1822), Marsibil Jónsdóttur (10. júní 1797-19. maí 1877) frá Öxnatungu í Víðidal og voru þau gefin saman 12. ágúst 1822. Með þeim skyldi vera helmingafélag eftir Norsku lögum en morgungjöf Jóns til Marsibilar voru 3 hundruð í jörðinni Smyrlabergi en óvenjulegt var að morgungjöf væri í formi fasteignar. Þau bjuggu hér til elli, voru lengst af sárfátæk með mikinn fjölda barna á framfæri og verður það rakið síðar.

Þess skal einungis getið að árið 1827 hefur Jón neyðst til að selja Hannesi hreppstjóra í Sauðanesi hluta úr jörðinni, 4 1/3 hundrað, fyrir 106 rd.[4] og hefur sennileg þurft að láta megnið af þessum dölum upp í skuldir við kaupmanninn og aðra skuldheimtumenn.

Samkvæmt þjóðsögunni, sem rakin var í síðasta þætti um álagablinduna,[5] ætti Jón Jónsson (þriðji) að hafa verið sjóndapur, sem gæti skýrt fátæktarbasl hans, en börn hans hefðu átt að hafa haft fulla sjón. Hvort svo var er ekki ljóst enn.


[1] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/6, örk 1. Dóma- og þingbók 1830-1835, bls. 149. Þrúðar er getið í þætti nr. 54 (Enn ábúendaskipti í Holti), sbr. einnig: Bjarni Jónasson: Litast um í Svínavatnshreppi. Húnavaka 1976, bls. 53-55.
[2] Jón Guðnason: Dalamenn I, bls. 289.
[3] Orðað svo í prestþjónustubókinni því þetta sumar deyja a.m.k. þrjár aðrar manneskjur í sókninni úr „landfarsótt.“
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/5, örk 2. Dóma- og þingbók 1830-1835, bls. 505. Það er svo annað mál að þremur árum síðar selur Hannes Þrúði Illugadóttur þennan sama jarðarpart fyrir nokkru hærri upphæð (sbr. GA/6, örk 1, bls. 148).
[5] Þjóðsögur Jóns Árnasonar III, bls. 60).

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið