Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Mánudagur, 22. apríl 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Apríl 2024
SMÞMFL
31123456
78910111213
14151617181920
21222324252627
2829301234
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 23:53 0 0°C
Laxárdalsh. 23:53 0 0°C
Vatnsskarð 23:53 0 0°C
Þverárfjall 23:53 0 0°C
Kjalarnes 23:53 0 0°C
Hafnarfjall 23:53 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
10. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
07. apríl 2024
72. þáttur. Eftir Jón Torfason
07. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Kaldakinn Torfalækjarhreppi um 1930. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Kaldakinn Torfalækjarhreppi um 1930. Mynd: Héraðsskjalasafn Austur-Húnavatnssýslu
Filippía ritar nafn sitt
Filippía ritar nafn sitt
Pistlar | 25. febrúar 2024 - kl. 15:56
Þættir úr sögu sveitar: Flókin skipti á arfi
69. þáttur. Eftir Jón Torfason

Eins og fyrr var rakið fluttu Jón Halldórsson og Filippía Jónsdóttir frá Smyrlabergi að Köldukinn 1792 þar sem Jón dó 1802 eða 1803, en Filippía bjó áfram. Búskapur þeirra virðist hafa gengið bærilega, þau tíunda 10-13 hundruð næstu ár sem fer upp í 15 hundruð aldamótaárið 1800 en lækkar niður í ca. 10 hundruð í harðindunum á næstu árum. Til er búfjárframtal frá 1803 en þá er Jón raunar dáinn og Filippía talin fyrir búinu eins og hún gerði næstu misseri. Þetta ár eru heimilismenn í Köldukinn 7 talsins, kýrnar eru 2 og kelfd kvíga að auki; mylkar ær 42, lömbin 8 og gemlingar (hrútar, sauðir og gimbrar) 8. Tamdir hestar eru 5 en ótamdir 2. Þessi bústofn er í góðu meðallagi miðað við nágrannana.

Filippía og Jón Halldórsson áttu tvö börn, Halldór (1769-1819) og Guðrúnu (1777-1808) og hafa fyrr verið nefnd. Árið 1805 verða þær breytingar að þau systkinin taka við búinu, Halldór í sínu nafni en Guðrún í nafni eiginmanns síns, Sveins Halldórssonar (1773-1838) í samræmi við þá gömlu „og góðu“ (?) reglu að eiginmaðurinn réði yfir fjármunum og eignum konu sinnar. Þessi tvenn hjón virðast hafa búið hér í tvíbýli til 1809 en þá skildu leiðir.

Kona Halldórs Jónssonar hét Guðrún Jónsdóttir (1775-5. nóvember 1843) og eignuðust þau nokkur börn en upp komust; Jón (1810-1883) sem lengi bjó á Höllustöðum og Rósu (1805-1863) síðast húsfreyja á Draghálsi í Borgarfirði, gift Birni Þorvaldssyni.[1]

Að auki átti Halldór dóttur í lausaleik, Ólöfu (1799-3. september 1847) að nafni. Ólöf ólst upp með föður sínum og hann leiddi hana til arfs eftir sig með yfirlýsingu á manntalsþingi á Tindum 13. júní árið 1804:

Upplesið ættleiðslubréf Halldórs Jónssonar búandi á Köldukinn, dat. 13. júní 1804, hvar í hann lýsir til ættar og egta dóttur sinni, Ólöfu, sem hann árið 1799 átt hefur með Ragnhildi Magnúsdóttur, nú til heimilis að Sólheimum, svo að hún njóta megi allra þeirra réttugheita sem N.L. 5-2-71 art[iculi] ákveður.[2]

Ólöf var síðan vinnukona víða í sýslunni en andaðist á Guðlaugsstöðum 1847.

Guðrún Jónsdóttir (kona Sveins Halldórssonar) varð ekki langlíf, hún dó haustið 1808, 4. október, aðeins 31 árs gömul, „dó úr höfuðverk og þar af fylgjandi ringli,“ skv. sjúkdómsgreiningu séra Halldórs Ámundasonar á Hjaltabakka. Eftir lát Guðrúnar var skammt sambýlið með þeim mágum Halldóri og Sveini sem flutti að Hnjúkum árið eftir (1809) og bjó þar til dauðadags. Áður en dánarbú Guðrúnar Jónsdóttur er skoðað þarf að nefna að hún hafði eignast dreng í lausaleik „áður“ en hún giftist Sveini. Það var Rósenkar Guðmundsson (19. október 1798-30. ágúst 1854). Faðir hans var Guðmundur Sigurðsson (1762-1820), jafnan kenndur við Móberg ─ Móbergsætt er rakin til hans ─ sem bjó um þessar mundir á Hnjúkum og liggja jarðirnar saman þótt nokkuð sé drjúg leið milli bæjarhúsanna. Er nokkur grein gerð fyrir Guðmundi og hans fólki í þætti nr. 27 (Þröngt setið á Hnjúkum). Rósenkar eignaðist fyrir konu Elínu Hannesdóttur, fæddri í Holti og bjuggu þau seinast í Þorgeirsstaðahlíð[3] í Miðdölum í Dalasýslu, sbr. þátt nr. 6 (Af harðabónda ættinni).

Þegar kom að skiptum eftir Guðrúnu Jónsdóttur urðu nokkrar flækjur varðandi eignarhald á jörðinni Köldukinn. Jón Halldórsson og Filippía höfðu eignast jörðina alla, 30 hundruð. Við lát Jóns, sennilega haustið 1804 eða fyrri hluta vetrar 1805 virðist Halldór hafa skipt eignunum, að frátekinni jörðinni, milli sín, móður sinnar og Guðrúnar systur sinnar. Þetta hafa verið einkaskipti. Skrifa aðilar undir yfirlýsingu hans þar um sumarið 1805 og Sveinn þá fyrir hönd Guðrúnar konu sinnar:

        Ég[4] undirskrifaður hefi skipt fémunum, lifandi og dauðum, sem Jón sálugi Halldórsson faðir minn eftir sig lét, hvörjum fyrr téðum fjármunum ég skipti til jafns, að frátekinni jörðunni, milli mín og Guðrúnar systur minnar, þar með hefur móðir mín gefið sitt fullkomið samþykki að fyrrgreind skipti fram færi sem áður er sagt, hvörs upphæð er 110 r[íkis]dalir.

        Til frekari staðfestu okkar undirskrifuð nöfn og signet.

        Köldukinn d. 22. júní 1805.

        Filippía Jónsdóttir, Halldór Jónsson, Sveinn Halldórsson

Verður ekki betur séð en Halldór hafi hugsað sér að halda jörðunni Köldukinn utan skiptanna eftir föður sinn og þá líklega ætlað að helga sér hana alla. Þegar Guðrún dó voru skiptin eftir hana á vegum hins opinbera, þ.e. í umsjá sýslumanns og þá var eðlilega farið að róta upp í þeim málatilbúnaði. Svo virðist að Filippía hafi talist vera í heimili hjá Guðrúnu dóttur sinni og Sveini Halldórssyni eftir lát Jóns Halldórssonar ─ þó væntanlega hafi allt fólkið dvalist í sömu baðstofunni ─ því Sveinn virðist hafa einhverja umsjón með þeim skepnum sem hún á. Eftir að Sveinn flytur að Hnjúkum 1809 verður Filippía hins vegar eftir í Köldukinn hjá Halldóri syni sínum, enda er Guðrún dóttir hennar þá dáin. Í skiptagjörningnum, sem varð nokkuð tafsamt að ganga frá, eru álitamál um lausamuni og búfé ekki flókin: „Halldór[5] vegna sín og móður sinnar hefir ekkert á móti að þessi skipti standi við það sem þá, eftir framlögðu skírteini, gjörð eru og að sterfbúið eftir Guðrúnu heitina þurfi ekki að afhenda helming þess kvikfjár sem móðir hans hafi fyrir 3 árum síðan farið með til Sveins, sem næstliðið vor hafi svarað öðrum helminginum svoleiðis, að þeir séu þar um ásáttir.“[6]

En upp kom ágreiningur um jörðina. Á fundi á heimili sýslumannsins Sigurðar Sveinssonar á Stóru-Giljá 8. desember 1808 segir: „En í tilliti til jarðarinnar álítur Halldór, eftir áður áminnstu skírteini, sér ófært móður sinnar vegna, að samþykkja að sterfbú Guðrúnar heitinnar behaldi 1/3 jarðarinnar Köldukinnar, sem er 30# að dýrleika, þar jörðin sé í áminnstu skírteini undantekin eður fráskilin þeim, þá á þeim lifandi og dauðu fjármunum gjörðu skiptum.“

Ef jörðinni hefði verið skipt eftir lát Jóns Halldórssonar 1805 hefði Filippía átt að halda 15#, Jón að fá 10# og Guðrún 5# eftir þeim erfðareglum sem þá giltu. En líka var mögulegt að Filippía hefði fengið helming og bróðurlóð að auki, þ.e. 15# + 6# = 21#. Þ.e. öðrum helmingnum, 15#, hefði verið skipti í þrjá parta, með tveimur bróðurlóðum, 6 # hvort, en einu systurlóði, 3#, og Filippía þannig fengið annað bróðurlóðið, þ.e. 21#; Jón fengið 6# (hitt bróðurlóðið) en Guðrún 3 # (systurlóð).

Um þetta mál ritað Filippía bréf til skiptaréttarins 11. desember og telur sér ekki duga minna til uppheldis í framtíðinni en afgjald af þessum 21# jarðarinnar, því hún kynni að verða þungur ómagi í ellinni:

        Í öngvan máta gef ég eftir mína lífstíð þann hlut jarðarinnar, sem lögin tileinka mér, sem er helmingurinn, og svo bróðurlóð sem ég vona að verði í allt 21#, því varla kann ég hafa minna til lífsins uppihalds en afgjald þessa jarðarparts, þar allt lausaféð er komið til barna minna. Jafnvel þó ég vona að einhvörn styrk kunni að fá af þeim parti lausafjárins sem mér ber, og nú er kominn til Sveins Halldórssonar, egtamanns sál. Guðrúnar dóttur minnar, nefnilega ef ég kannske yrði þungur ómagi og það svo árum skipti. Ofanskrifað lausafé er! 1 kýr, 5 ær og 2 sauðir gamlir. Þessum sauðum var óskipt, allt svo tilstæ ég[7] Halldóri syni mínum annan þeirra.

        Þessu til merkis er mitt undirskrifað nafn.

        Köldukinn þann 11. desember 1808.

        Filippía Jónsdóttir

Þessu máli var næst vísað til sáttanefndar í Tinda umdæmi og kom í hlut Ólafs Björnssonar (Mála-Ólafs) og séra Jóns Jónssona á Auðkúlu að miðla málum:

        Þann[8] 20. desember 1808 mætti fyrir forlíkunarrétti að Reykjum á Reykjabraut ekkjan Filippía Jónsdóttir og sonur hennar, Halldór Jónsson, búandi að Köldukinn, bæði fyrirkölluð af forlíkunarnefndinni í Tindaþingsókn, undir fyrirkalli af 14. sama mánaðar. Var þá og svo til staðar sækjandi, Sveinn Halldórsson ekkjumaður eftir nýlega sálaða dóttur nefndrar ekkju, Guðrúnu Jónsdóttur, skilgetna systur Halldórs. Er nú misklíðarefni milli umgetinna persóna út af arfaskiptum ens fyrra fallna sterfbús Jóns sáluga, manns Filippíu, yfir hvört engin regluleg skipti hafa áður fallið, en einasta verið gjörður lítill samningur af sjálfum hlutaðeigendum, þó skriflegur og dateraður að Köldukinn þann 22. júní 1805 með undirskrifuðum áminnstra þriggja persóna nöfnum og tveggja hjáþrykktum signetum. Áhrærir þetta einasta lausafé en jörðin Kaldakinn er fráskilin, sem er 30# að dýrleika. Blífur nú við það áður gjörða um lausaféð, svo vítt áminnst skjal nær og það með sér ber þegar að Sveinn eftir nú á komnu betra samkomulagi fyrir forlíkunarnefndarinnar umtölur betalar til Halldórs einn gamlan sauð, sem áður var ei skiptur, og að ekkjan behaldi átölulaust einum hesti er hún til mælist.

        En jörðina Köldukinn, sem ekkjan allt þangað til vildi uppástanda til sín og Halldórs, utan einasta 5#, láta nú mæðginin tilleiðast að þannin megi nú til skipta framvísast, að áminnst 5# tilheyri Sveini og hans börnum sem tilhlýðir, en þau önnur 5#, sem Guðrúnar sálugu börnum skyldi tilfalla eftir Filippíu dag, leita þau að anvendast mættu ef með þyrfti til að innkaupa afdeilda eður eins hæga jörð Sveini til ábýlis, en þó áskilið að ekkjan Filippía hafi eignarrétt áminnstra 5# svo lengi hún lifir, sér til lífsframfæris, hvar sem þau standa, en Halldór fyrsta kauparétt ef seljast þarf, að skilja í jörðunni Köldukinn. Ekkjan tilskilur einnin að Sveinn af barnanna fé, eftir sem erfingja til kemur, leggi árlega til hennar framfæris ef eigin fjármunir ekki til hrökkva, að yfirvalds úrskurði.

        Hér upp á urðu hlutaðeigendur sáttir og sammála og undir skrifa til staðfestu sín nöfn, loco, die et dato ut supra.

        Jón Jónsson, Ólafur Björnsson forlíkunarmenn.

        Sem hlutaðeigendur, Sveinn Halldórsson, Filippía Jónsdóttir, Halldór Jónsson

Þessi sátt var svo lesin upp á næsta skiptafundi, sem var haldinn 22. desember, gengið endanlega frá skiptunum og virðast allir aðilar hafa skrifað undir í sátt og samlyndi.

Varðandi jörðina Köldukinn fólst í þessu að í hlut Guðrúnar Jónsdóttur, í raun til Sveins Halldórssonar og barna Guðrúnar ─ Sölva og Bjarna og Rósinkars ─ komu 5# í Köldukinn. En síðan áttu þessir erfingjar von á öðrum 5# hundruðum í jörðinni eftir dauða Filippíu.

Þótt svo virðist á pappírnum, sem þessi skipti hafi endað í góðu, þá er alveg möguleiki á að þau hafi verið orsök þess að Halldór og Guðrún Jónsdóttir annars vegar og Sveinn Halldórsson skildu sambýli sitt í Köldukinn. En víst er að Sveinn flutti að Hnjúkum vorið 1809 og átti þar heima til dauðadags. Halldór hafði hins vegar jarðaskipti við Jón Halldórsson á Höllustöðum en að því kemur síðar.

Filippía Jónsdóttir var kjarnakona. Í sóknarmannatölum er margendurtekið að hún sé „vel lesandi“ en ekkert er sagt um skriftarkunnáttu hennar. Fram eftir 19. öld voru fáir alþýðumenn vel skrifandi og sumir nánast óskrifandi, sérstaklega átti það við um konur. Í sambandi við skiptin, sem eru rakin hér að ofan, og á fáeinum stöðum öðrum hefur Filippía skrifað bréf eða látið skrifa fyrir sig, en að minnsta kosti á eitt skjal er ég nokkurn veginn viss um að hún hafi skrifað nafnið sitt. Það er á skjalið sem Halldór sonur hennar skrifar 22. júní og er birt í heild framar í þessum texta og á mynd sem fylgir þessum pistli.


[1] Sjá Bjarni Jónasson: Litast um í Svínavatnshreppi (Húnavaka 1977), bls. 88-90, sbr. Borgfirskar æviskrár I (Akranes 1969), bls. 464-465. 
[2] Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu GA/3, örk 1. Dómabók 1797-1806.  N.L. merkir Norsku lög sem tóku gildi þar í landi 1587 og voru notuð að hluta til á Íslandi og er þarna vísað í erfðabálk þeirra laga.
[3] Sbr. Jón Guðnason: Dalamenn I, bls. 100.
[4] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/1. Skiptaskjöl 1804-1812.
[5] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED1/1. Skiptabók 1807-1810.
[6] ÞÍ. Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu ED2/1. Skiptaskjöl 1804-1812. Síðar afhenti Sveinn þó Halldóri 1 sauð af því fé sem Filippía hafði áður fengið honum og var þar með sá þáttur endanlega leystur.
[7] Verður helst lesið svo.
[8]ÞÍ. Skjalasafn sáttanefnda XVI, E. Tinda umdæmi (Torfalækjar- og Svínavatnshrepps) 1804-1885.

Þættir úr sögu sveitar 

Undir titlinum Þættir úr sögu sveitar birtir Jón Torfason nokkra þætti úr sögu Torfalækjarhrepps frá lokum 18. aldar og fyrri hluta 19. aldar. Þá voru í hreppnum 20 jarðir þar sem auk húsbænda var margt vinnufólk og einnig húsfólk. Í þáttunum verður saga þessara jarða og þess fólks sem þar lifði rakin lítillega. Íbúar sveitarinnar tengdust á ýmsa vegu og verður reynt að draga sitthvað fram um samskipti fólks en margt er þó óvíst um tengsl einstakra manna og kvenna.

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið