Fyrri mynd
Nsta mynd
...
Ok
Velkomin á vef Húnahornsins. Við notum vefkökur (e. cookies) til þess að bæta upplifun þína og greina umferð um síðuna.
Með því að nota vefsíðuna samþykkir þú notkun á vefkökum og skilmála okkar.
Hnahornið
Open Menu Close Menu
Hnahornið
Þriðjudagur, 7. maí 2024
   m/s
C
CW
huni.is - RSS-efnisveita
 
Maí 2024
SMÞMFL
2829301234
567891011
12131415161718
19202122232425
2627282930311
FyrriNúnaNæsti
Veðurstofa Íslands Vegagerðin
Holtavörðuh. 06:34 0 0°C
Laxárdalsh. 06:34 0 0°C
Vatnsskarð 06:34 0 0°C
Þverárfjall 06:34 0 0°C
Kjalarnes 06:34 0 0°C
Hafnarfjall 06:34 0 0°C
VegagerðinVestfirðirVestfirðirNorðurlandNorðausturlandVesturlandAllt landiðMiðausturlandSuðvesturlandSuðurlandSuðausturland
Nöldrið
13. apríl 2024
Klúðrið er víða
Klúðrið og bullið er víða í samfélaginu okkar og er af mörgu að taka. Ætla ég að nefna aðeins nokkur atriði. Landsbankaklúðrið í kringum kaupin á TM. Alveg er það merkilegt þegar embættis- menn telja sig geta tekið ákvarðanir um hvað sem þeim dettur í hug.
::Lesa
Leita í netfangaskrá
 
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
06. maí 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
02. maí 2024
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
29. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
29. apríl 2024
73. þáttur. Eftir Jón Torfason
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
20. apríl 2024
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
14. apríl 2024
Eftir / Written af / by Morgan C. Bresko
13. apríl 2024
N 65 39' 32.04" V 20 16' 55.2"
Brúsastaðir í Vatnsdal. Mynd: Ljósmyndasafn HAH
Brúsastaðir í Vatnsdal. Mynd: Ljósmyndasafn HAH
Pistlar | 09. apríl 2023 - kl. 21:36
Sögukorn: Rósöm gleði
Eftir Inga Heiðmar Jónsson
  1. Fjórði fundur í Mjódd með ljóðum og vísum verður á sumardaginn fyrsta 20. apr., kl. 14 í safnaðarheimili Breiðholtskirkju.
    Þar ætlum við, Húnvetningafél. í Rv./Ljóðanefndin að setja Kristján á Brúsastöðum í öndvegi, hann kenndi í Vatnsdal í 40 ár, gaf út æviminningar sínar og ljóð í bókinni Þegar veðri slotar.
    Til að tengja Kristján betur þessari nýju öld okkar vil ég minna á niðja hans, sonarbörnin Grétu kennara á Húnsstöðum og Jón Benedikt bróður hennar og bræðurna og dóttursyni hans, þá Kristján fjárbónda og fv. lögreglumann á Hvolsvelli og Örlyg Atla söngstjóra.
    Kona Kristjáns var Margrét Sigríður Björnsdóttir Benediktssonar Blöndal í Hvammi en var dóttir Gróu Guðrúnar Sigvaldadóttur af Snæbirningaætt frá Grímstungu.

     
  2. Kristján kennari fæddist í Pálsgerði í Grýtubakkahreppi 27. ágúst 1883, bæ sem stendur í Dalsmynni – milli Fnjóskadals og Höfðahverfis. Þar er sem ekkert undirlendi, niður frá túnkraga lágu rýrar engjar um höll og hvamma. Takmörkuðust þau af Fnjóská er brýst þar fram í þröngum gljúfrum. Skammt í útvestri nemur augað staðar við tiginn Laufásinn og risháan. bls. 11
     
  3. Í Pálsgerði var gamall torfbær og dimmur. Þaðan á Kristján fáar minningar, enda fór hann þaðan 7 ára. Þegar hann var á sjötta ára fór hann með móður sinni til kirkju að Laufási þar sem var orgel og söngflokkur að syngja messu á jóladag. Kristján hafði aldrei áður séð orgel, undraðist hann mjög stærð kirkjunnar og mannfjöldann. Þegar lokið var messu og fólkið tók að streyma til dyra lagði hann einn af stað móti straumnum og inn að orgelinu. Frúin sat enn við orgelið og honum varð minnisstætt hvað hún tók honum vel og spurði hvaðan hann væri. Hefur kannski minnt hana á átján barna föðurinn úr álfheimum, er horfði sínum furðuaugum á litla pottinn með löngu þvörunni. Svo skemmtilega setur Kristján fram minningar sínar í bók sinni Þegar veðri slotar. bls. 11
     
  4. Enn ég um Fellaflóann geng
    finn eins og titring í gömlum streng
    hugann grunar hjá grassins rót
    gamalt spor eftir lítinn fót.  Jón Helgason/Á Rauðsgili  Mottó bókarinnar – sett á upphafssíðu

     
  5. Þungur er löngum þeirra róður, er byrja búskap með tvær hendur tómar segir Kristján í æviminningum sínum: En slíkt var hlutskipti  foreldra minna og bætti vitanlega ekki úr skák, að þau urðu að hlíta kjörum leiguliðans. Foreldrar mínir áttu bjartsýni og sjálfsbjargarhvöt og trú á framtíðina, en afkoman var þó á stundum í mestu tvísýnu. bls. 12
     
  6. Búskapur foreldra minna hófst á Þóroddsstað í Kinn, hjá sr. Stefáni Jónssyni 1877. Þaðan fluttust þau að Landamóti í sömu sveit, að Pálsgerði og loks að Heiðarhúsum 1891og þar enduðu þau búskap sinn. Á öllum þessum jörðum nytjuðu þau hálflenduna eða minna. Flestar voru jarðir þessar rýrar og borin von að auðgast þar og færa út kvíarnar. bls. 12
     
  7. Allt söng skortinum sigurhrós, segir Kristján í ljóði sínu, Gamlar myndir, þegar hann er að lýsa húsakynnum á bernskuheimilinu, Heiðarhúsum á Flateyjardalsheiði:

    En moldarbálkur lýsisljós
    sem lítt í augu skar
    og gólf sem undir geymdi fjós
    og glufur nokkrar bar.
    Það söng allt skorti sigurhrós
    hann sýndist kóngur þar. bls. 14

     
  8. Þarna var hann kominn í faðm Heiðarinnar og dvaldi þar í sex ár. Hún bjó yfir miklum andstæðum, hvergi voru æðibyljir vetrarins grimmari en þar, hvergi fannkynngið albúnara að grafa allt lifandi, hvergi þögnin jafn alger eftir hin miklu reiðiköst. En svo þegar dimmblár kveldhiminninn með þrenns konar ljós hvelfdist yfir Heiðinni, mánasilfrið flæddi um hana og geislarnir endurskinu frá þúsundum ísnála, þá var engin kirkja guðs svo skrýdd sem hún. bls. 14
     
  9. Og Kristján kaus vorið að vini:

    Ég var smæð af bergs þíns broti
    blað af þínum rósaknapp.
    Hélt því vonarfleytu á floti
    fannst það lífsins mesta happ
    þá ég drengur daufu úr koti
    dreyminn út í vorið slapp. Svo yrkir Kristján í ljóðinu Gamlar myndir. bls. 15

     
  10. Oft var etinn harðfiskur og hákarl var keyptur árlega, enda mikil hákarlaveiði þá stunduð fyrir Norðurlandi. Margt vetrarkvöldið var og glímt við harðan þorskhaus. Hvalur fékkst á vorin og einnig selur. Mér þótti selspikið vont en kjötið af honum þó miklu verra. Brauð var steikt í sellýsi og einnig í hvalfeiti. Hvort tveggja var einnig haft í bræðing saman við tólg. Sumt af hvalfeitinni var þykkara og nefndist hvalsmjör. Mig minnir að það væri stundum látið saman við í strokkinn til þess að drýgja smjörið. bls. 21
     
  11. Í Heiðarhúsum borðaði ég fyrst kartöflur úr íslenskri mold. bls. 22
     
  12. Það var hvítasunnudagur 1896. Þar norður á Heiðinni höfðu gengið kuldar það sem af var vori. Það er sem ég kenni enn norðannepjunnar, er fór um okkur Pál bróður dögum saman, er við stóðum úti á túni í Heiðarhúsum og unnum á því.
    En nú var brottfarardagurinn ráðinn og hann heilsaði með sól og blæ. Hnípin vallarblóm sulgu veigar yls og ljóss og ukust að lífsmagni. Enn voru snjóskaflar um fjallabrúnir svo að þverár Heiðarinnar færðust mjög í aukana.
    Ég kvaddi vini og heimahaga. Mamma fylgdi okkur pabba fram á Snösina, suður og niður af bænum. Þar kvöddumst við. Vegurinn lá um einstigi suður af Snösinni og fram yfir Dalsá. Tóku þá við sléttar eyrar og breiðar en þó nær algrónar. Eru þær sem mikið geilargólf er takmarkast af bröttum hömrum og allháum að austan og vestan.
    Við faðir minn fórum skjögtferð fram eyrarnar. Mér varð stundum litið um öxl, hvort ég sæi móður mina. Hún stóð þá jafnan í sömu sporum og ég kvaddi hana, en sunnanblærinn hvataði för sinni norður um Heiðina.
    Ég kveið því að fara yfir þverárnar á Heiðinni. Einkum þó Jökulsá syðri, er svo nefndist. Hún var stórgrýtt og afar ströng. Og nú ruddist hún fram sem öskrandi óargadýr, hávaði hennar steig mér til höfuðs, svo að mér fannst ég svífa í loftinu. En blessaðir gráu klárarnir voru traustir og faðir minn hafði mig við hlið sér svo að allt gekk slysalaust. bls. 34

     
  13. Og nú var hver síðastur að horfa um öxl í von um að sjá mömmu og enn stóð hún á Snösinni. 
     
  14. Ég var tólf ára og fimmta barnið hennar, er hún bjó að heiman út í óvissuna. bls. 35
     
  15. Með orðum þessa snjalla sögumanns, kennarans og bóndans á Brúsastöðum, lýsingum hans á norðankuldanum á Flateyjardalsheiðinni minnir hann okkur á heimanferðir okkar sveitaunglinga til skóla, þá flest orðin 14 eða 15 ára, en við áttum þó vísa rútuferð heim þegar kom að jólaleyfinu eða blessuðu vorinu. Barnið Kristján fór 12 ára að Stóruvöllum, er komið var vorið 1896, óviss um sína framtíð og foreldra sinna, en kynntist góðu fólki og heimilum í Bárðardal og víðar. Kristján fær orðið áfram:
     
  16. Það var mikið um söng og hljóðfæraslátt á Stóruvöllum þegar ég var þar. Mátti með sanni segja, að drottning allra lista væri tignuð þar öllum stundum, sem við varð komið og var Sigurgeir Jónsson lífið og sálin í því starfi. bls. 57
     
  17. Söngdísin tók hann/Sigurgeir með töfrum sínum svo að hann  svo hann lifði og hrærðist í hennar heimi, öllum þeim stundum sem við varð komið. bls. 41
     
  18. Þeir  Karl og Sveinn frændi minn á Stóruvöllum settust á milligerð þar í fjárhúsunum og þá er hið þekkta hljóð og gamalkunna blandaðist þögninni þar í húsinu, lét það í eyrum hinna vökulu fjármanna líkt sem heillandi kvöldljóð og vakti þeim rósama gleði, er sá finnur best, sem er vinur dýranna. bls. 48
     
  19. Mér leið ávallt illa um fráfærurnar. Einhver rödd í sál minni gerði uppreis gegn þeim og dæmdi þær harðýgi. Sár jarmur ánna, söknuði blandinn, fannst mér sem „væri hljóð til hálfs úr hjarta mínu sungið“ og minnti mig á, er ég kvaddi móður mína á Snösinni. bls. 51
     
  20. Á Stóruvöllum var harmonika, fiðla, orgel og pianó. … Oft var sungið fjórraddað og það einungis af heimafólki … Þá var margt sungið hinna vinsælli alþýðulaga og sum all vandasöm og býsna erfið, t. d. Ég hauður veit, Nú vorsól hlær, Þér risajöklar og Ólafur Tryggvason. bls. 57 og 58
     
  21. Ung stúlka stóð hjá mér á meðan og hélt uppi samræðum við mig. Ég ályktaði með sjálfum mér, að ég hefði aldrei séð svo fagra stúlku. Hún var seytján ára og fagurvaxin, klædd rauðum flauelskjól, er fór henni einkar vel. Mér virtist mærin mjög háttprúð og siðfáguð í tali, glaðvær og laus við yfirlæti. Hún sagðist vera dóttir Péturs bónda á Gautlöndum og heita Kristjana. Hún varð seinna forstöðukona Kvennaskólans á Blönduósi og Húsmæðraskólans á Laugum í S-Þingeyjarsýslu. bls. 98
     
  22. Þegar kom fram yfir aldamótin 1900, kom bréf frá föður mínum þess efnis, hvort ég mundi fást fyrir smala næsta vor að Garði í Fnjóskadal til Geirfinns bónda þar gegn því, að þau foreldrar mínir fengju húsmennsku á Ytrahóli, sem er næsti bær við Garð en Geirfinnur átti ráð á. Móðir mín hafði þá kennt þess sjúkdóms, er leiddi hana síðar til dauða. bls. 78
     
  23. Máninn varp ljósi sínu á Hólabyrðu, en sums staðar voru þó skuggar. Við þá litbreytni varð hún ennþá svipstærri. Mér virtist hún sem voldug bergdís, er vekti yfir örlögum þessa fornhelga staðar. bls. 102
     
  24. Ingimundur Guðmundsson frá Marðarnúpi f. 1875 kenndi einnig við Hólaskóla fyrri veturinn minn þar 1904-5. Hafði útskrifast þaðan vorið áður. Síra Zóphónías prófastur í Viðvík kenndi okkur lítið eitt í íslensku, lét okkur pilta iðka stílagerð. Hann kom einu sinni í viku. Stundum flutti hann erindi. bls. 105
     
  25. Hólapiltar höfðu með sér matarfélag og kusu matarnefnd á vorin áður en skóla lauk og skyldi hún starfa næsta skólaár. Fyrri veturinn minn á Hólum var Sigurður Pálmason frá Æsustöðum formaður. Nú er hann kaupmaður á Hvammstanga.
    Það var meiri vandi en vegsemd að sinna því formannsstarfi, því að margs þurfti búið við. Ef eitthvað vantaði eða var að hjá félaginu, var jafnan farið til formanns. Hann varð að hafa vakandi auga á öllu, er sneri að því að vera forsjón þess. Sigurður var mjög samviskusamur, enda virtist mér hann á stundum hafa eigi litlar áhyggjur. Þessu starfi fylgdu allmiklar tafir frá námi fyrir þá, sem voru í matarnefnd. bls. 107

     
  26. Við piltar höfðum málfundi á laugardagskvöldum og þótti mér gaman að þeim. Margir voru hikandi að taka til máls og sumir létu aldrei til sín heyra. Ég hafði ekki hugsað mér að stunda feimni eða hlédrægni þar í Hólaskóla. bls. 107
     
  27. Hinn fjórða ágúst um sumarið veiktist ég af lömunarveiki. Hún var þá lítt þekkt hér á landi. Sigurður Pálsson héraðslæknir á Sauðárkróki áleit hana taugaveiki og setti heimilið í sóttkví. Ég var með óráði í viku. … þegar ég loks fékk ráðið gat ég aðeins hreyft höfuð og hægri handlegg. … Ég lá svo þar á Vatnsleysu fram á haust, en fór þá að skríða í föt og ganga með sem barn. Ég gat áður farið að lesa bækur og skrifa. Námið var aðeins hálfnað á Hólum, en mig langaði að ljúka því og gerði ráð fyrir, að ég myndi þola setur við skrift og lestur og að sækja tíma. En ég var félaus með öllu til þess að geta greitt námskostnað. Þá var það, að Margrét Símonardóttir 1869-1963 húsfreyja í Brimnesi í Viðvíkursveit, gekkst fyrir samskotum handa mér. Ekki man ég nú, hve mikil fjárhæð það var, en málið var leyst. Ég gat haldið áfram námi á Hólum. bls. 109
     
  28. Þorrablót voru haldin á Hólum báða veturna, er ég var þar. Menn sóttu það víða að úr sýslunni, neyttu hangikjöts úr trogum, átu standandi. Þar var og margt annarra rétta. Ræður voru haldnar, flutt kvæði, mikið sungið, glímt og dansað. Þá var glatt á hjalla og gaman að lifa. bls. 110
     
  29. Stundum komu gestir að Hólum lengra að og sátu um kyrrt í nokkra daga. Man ég t. d. eftir Brynjólfi Bjarnasyni bónda í Þverárdal, er var orðlagður höfðingi heim að sækja. Komu þeir saman, hann og Guðmundur Erlendsson bóndi í Mjóadal, faðir Sigurðar heitins skólameistara á Akureyri og þeirra systkina. Brynjólfur og Guðmundur dvöldu 2 eða 3 daga. Þeir komu inn í bekkinn til að kveðja okkur pilta, ávörpuðu okkur að  síðustu í dyrunum, Guðmundur með tveim völdum setningum, en Brynjólfur var flugmælskur, hélt þar eina af sínum þrumandi ræðum með hurðina í hálfa gátt. bls. 111
     
  30. Við Árni bróðir minn vorum búnir að safna fullum 180 plöntutegundum þegar ég veiktist um sumarið, en áttum þá eftir að fara upp um fjöll og athuga háfjallajurtir. En svo varð ekki af eftir að ég lagðist. Við bræður áttum hauk í horni þar sem var Jósef kennari. Hann liðsinnti okkur við greiningu plantna, ef okkur þraut kunnáttu til þess. Grasasöfnunin veitti okkur marga ánægjustund. bls. 112
     
  31. Bókarhöfundur fór að læra skósmíði, réðst til Árna Pálssonar á Sauðárkróki haustið 1906, vann þar með fötluðum manni, Halldóri Halldórssyni og segir lesendum nokkrar sögur af þessum vinnustað. Kristján ritar:
    Margir komu til okkar á verkstæðið sem að líkum lætur og þar var margt skrafað og skeggrætt. Ég man eftir litlum dreng og fallegum með hvítan kollinn, á að giska fimm ára gömlum. Hann hafði fallega söngrödd og við fengum hann stundum til að syngja fyrir okkur á verkstæðinu. Heldur var hann þó tregur til þess. Drengurinn hét Eyþór Stefánsson, nú söngstjóri á Sauðárkróki og þjóðkunnur sem tónskáld. bls. 118

     
  32. Ég tók drjúgan þátt í ýmsum félagsskap meðan ég dvaldi á Sauðárkróki. Við stofnuðum karlakór. Söngstjórinn var Árni Eiríksson, er áður bjó að Reykjum í Tungusveit en var nú við bókhald á Sauðárkróki. Ágætur organleikari og hafði mikla söngrödd og fallega. bls. 118
     
  33. Góðtemplarastúka starfaði á Sauðárkróki. Síra Árni Björnsson var æðstitemplar. Hann bar mál á það við mig, að ég gengi í stúkuna. Ég hafði ekki áhuga á því. En vorið 1907 komu men á vegum Stórstúku Íslands og héldu útbreiðslufund. Þessir menn voru Indriði Einarsson leikritaskáld og Pétur Zóphóníasson ættfræðingur og einhver sá þriðji. Þá varð það úr, að ég gerðist templari og var í reglunni, uns ég fluttist burt úr Skagafirði. Ég var alltaf ritari í stúkunni. bls. 118
     
  34. Ungmennafélag var stofnað á Sauðárkróki meðan ég dvaldi þar. Fyrstu drög þess voru þau, að við komum fjórir saman í húsi Hinriks nokkurs Árnasonar seint í mars 1907. Auk hans og mín voru þeir Þorbjörn Björnsson á Veðramóti, síðar bóndi á Geitaskarði og Pétur Jakobsson þá á Sauðárkróki, síðar löggiltur fasteignasali í Reykjavík. .. bls. 120
     
  35. Þau árin, er ég dvaldi á Sauðárkróki, átti ég mest sálufélag með eldri systkinunum á Veðramóti. Þau sóttu kirkju, skemmtanir, ungmennafélagsfundi og verslunarviðskipti ofan eftir og ég kom nokkrum sinnum upp eftir. Systkinin voru tíu … bls. 121
     
  36. Út úr móðu eygðu slóð
    undu góðum kjörum.
    Kveddu ljóð og láttu óð
    lifa á þjóðarvörum. Kristján Sigurðsson  bls. 128

     
  37. … Þaut eftir hugboðinu einu saman. Ég kem að Stokkhólma. Mér er sagt að Pétur sé þar út frá við slátt. Ég fer þangað, stíg af baki og heilsa honum. Við setjumst báðir, höllum okkur á hlið með hendur undir kinn og Pétur starir þegjandi til jarðar, en ég ber upp erindið, að ég ætli endilega í Kennaraskólann, hafi treyst á lán, en það brugðist.
    En alltaf þegir Pétur.
    Og nú hugsa ég mér að gera hið sama og steinþagna; ætla honum að tala fyrst. Ég horfi einnig til jarðar, en skotra til hans auga, hvort ég fái nokkru ráðið um svarið af svipdráttum hans.
    Þetta var örlagaríkt augnablik.
    Mér fannst sem huldar verur væru að heyja teningskast um það, hver skyldi verða niðurstaðan. Og loks kom það:
    „Jú, ég skal lána þér tvö hundruð krónur.“
    Það var sem létt væri af mér fargi. Líkt og villuráfandi maður kæmi allt í einu í öruggan stað. Ég hefði getað faðmað að mér þennan aldraða velgerðarmann minn. Málið var leyst, ég gat farið í Kennaraskólann. bls. 133

     
  38. Margeir Jónsson frá Ögmundarstöðum ætlaði einnig að þreyta próf inn í 3. bekk. Hann stóð þá á tvítugu, fríður sýnum, sviphreinn, með dökkblá augu og fallegt enni. Hann var fíngerður piltur og siðfágaður, grandvar í orði, seigur í áformum og góður námsmaður. Varð hann síðar þjóðkunnur fræðimaður. Meðal annars reit hann torskilin bæjarnöfn. Við Margeir ákváðum að verða samferða suður … bls. 133
     
  39. Nágranni Kristjáns, Ágúst á Hofi, segir frá mörgum sveitungum sínum í bók sinni og segir um Brúsastaðahjón:
    Kristján Sigurðsson á Brúsastöðum var ágætur kennari, fróður vel, hagmæltur og skáldhneigður, víðlesinn og skemmtilegur. Þau hjónin, Margrét Björnsdóttir Blöndal og hann voru okkur góðir nágrannar. Það var gaman að líta inn til þeirra og spjalla við þau á góðri stund.
    Kristján var fatlaður eftir lömunarveiki á yngri árum en sýndi sannan hetjuskap, bæði við það að brjótast í skóla og síðan við kennsluna við erfið skilyrði í Vatnsdal. Þrátt fyrir fötlunina lagði hann það á sig að ganga flesta daga milli skólastaðar og heimilis alllangan veg.
    Eftir á finnst mér, að við Vatnsdælingar hefðum átt að hlynna betur að Kristjáni í því mikilvæga starfi, sem hann gegndi. Ágúst á Hofi lætur flest flakka. bls. 47

     
  40. Textinn í sögukorninu þessu er sniðinn upp úr bók hins orðhaga manns, Kristjáns Sigurðssonar, Þegar veðri slotar. Hann kom austan úr breiðum byggðum Þingeyinga og Skagfirðinga, hafði kynnst heiðarbýlinu á Flateyjardalsheiði og fátækt í æsku en var ódeigur til átaka og næmur skólaþegn þegar til þeirra hluta kom. 
     
  41. Minnisstætt er safnaranum þegar ævisögur og fleiri jólabækur birtust á heimili okkar norður í Blöndudal um hávetur, myrkur og fönn úti, en þarna varð besti bókatíminn, pabbi las á kvöldin úr nýju bókunum fyrir okkur heimilisfólkið, kannski frekar í eldhúsi en stofu, koksvélin hlýjaði svo vel í bænum, Jónas bróðir hans, Guðrún móðir þeirra og amma okkar systkina þáðu líka vel að hlusta á lestur úr jólabókunum, nýjum og ilmandi. Fleiri bókatitla man ég: Tak hnakk þinn og hest, Undir tindum, Sjálfsævisaga Björns Eysteinssonar, útg. ´57 og Skyggnst um af heimahlaði.  

Leggja á brattann svanni og sveinn
sólbjört fyrirheitin.
Hlotnast sigur einn og einn
æðsta mark er leitin. Kristján Sigurðsson

Ingi Heiðmar Jónsson 

Höf. rzg
 
Prenta Prenta  
 
Til baka
 

©2024 Húnahornið